Greinasafn fyrir merki: Kristján Egilsson

Kristján Egilsson – minningarorð

Skiptir máli hver flugstjórinn er? Afstaða, mat og traust fólks er mismunandi og margir eru smeykir við flug. Ég heyrði umsögn víðföruls Íslendings sem sagði að þegar hann sá Kristján Egilsson ganga fram flugvélina og vissi að hann yrði í stjórnklefanum þann daginn hefði farið um hann öryggistilfinning. Kristján var þeirrar gerðar að þegar hann var við stýri var eins og tæki og stjórnandinn yrðu eitt. Það var ekki aðeins í flugi heldur líka í bílaumferðinni. Kristján Egilsson lagði sál í það sem hann gerði, var gerhugul alnálægð í því sem hann gat lagt til og því stýrði hann öllum fleyjum til farsæls enda og áfangastaða.

Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans

Í 139. Davíðssálmi er efnt til flugferðar. Þar er lífi og lífsleiðum manna lýst með leit að öryggi. Hvernig getum við fundið það sem máli skiptir, átt tryggt samhengi fyrir líf okkar, hugsanir, tilfinningar, tengsl og traust? Hið forna skáld Davíðssálmanna orðar þetta merkingarflug mannsins með þessum hendingum:          

Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.

2 Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það,

þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.

3 Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það,

og alla vegu mína gjörþekkir þú.

5 Þú umlykur mig á bak og brjóst,

og hönd þína hefir þú lagt á mig.

 

Og svo bætir skáldið við og það er flugþol í hugsuninni:

 

8 Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar,

þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.

9 Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans

og settist við hið ysta haf,

10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig

og hægri hönd þín halda mér.

Já, það er flug í þessum texta. Víddirnar eru hinar stærstu og mestu, veröldin öll er vettvangur ferðalangsins. Allt himinhvolfið – allir heimar. Og svo er þetta morgunfagnandi flugtak: Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf – einnig þar myndi hönd þín leiða mig.

Hvernig líður þér við flugtak? Hvernig líður þér á álagsstunum lífsins? Er allt tryggt og öruggt? Kristján Egilsson valdi sér flug að ævistarfi og valdi að eiga sér persónulegt athvarf í besta flugstjórnarkerfi alheimsins, Guði. Sú flugumsjón er víðtæk og varðar tíma og eilífð. Lendingakerfið á hinum endanum virkar frábærlega og enginn hörgull á varabrautum. Blindflugið enginn vandi, tímasetningar á komum ekki heldur og allt virkar.

Æviágrip

Kristján Egilsson fæddist í foreldrahúsum í Reykjavík á gamlársdag árið 1942. Og afmælishald hans hefur verið litríkt af öllum skoteldum þjóðarinnar. Foreldrar hans voru hjónin Egill Kristjánsson og Anna Margrjet Þuríður Ólafsdóttir Briem. Egill, faðir Kristjáns, fæddist á Hliði á Vatnsleysuströnd. Hann var verslunarmaður og stórkaupmaður. Margrét fæddist í Viðey og starfaði auk heimilsstarfa við verslun með manni sínum. Að baki foreldrunum voru styrkir ættstofnar sem teygja rætur víða um land. Bróðir Kristjáns er Ólafur, sendiherra. Hann er liðlega sex árum eldri og fæddist í ágúst árið 1936. Þeir bræður fengu vandað uppeldi sem skilaði í þeim ábyrgri afstöðu og virðingu í samskiptum við fólk. Með þeim bræðrum var alla tíð gott bræðraþel.

Bernskuheimili Kristjáns var á horni Baldursgötu og Lokastígs. Í flestum húsum hverfisins var fjöldi barna og margir möguleikar til leikja og götulífið fjölskrúðugt. Kristján var glaðvær drengur. Skólavörðuholtið gnæfði yfir, ennþá með braggahverfi og kirkju í byggingu. Svo var þar fótboltavöllur líka. Reykjavíkurflugvöllur var nærri einnig og flugumferðin fór ekki fram hjá drengnum. Flugið var að aukast fyrir framtak dugandi manna og mikilvægi þess fyrir þjóðina að vaxa. Við Sóleyjargötu 17 þar sem amman bjó var hægt að skoða hvernig flugmennirnir höguðu aðfluginu. Útþráin var vakin.

Kristján sótti skóla í Miðbæjarskóla og honum þótti betra að Ólafur bróðir fór með honum fyrsta daginn. Svo varð hann sjálfstæður og átti góða daga og skemmtilega í skólanum og krakkarnir í hverfinu urðu félagar hans og kunningar.

Fermingarmynd. Kristján Egilsson.

Þegar Kristján hafði lokið grunnnámi setti hann strax stefnu á flugnám. Hann kynntist verslunarstörfum í uppvexti, faðir hans vann í þeim geira og ýmis ættmenni í móðurlegg höfðu stundað verslun. Kristján ákvað fara í Verzlunarskólanum áður en sigldi upp í skýin. Hann var ekki fyrr búinn að læra credit og debit og annað það sem Verzlunarskólinn kenndi þegar hann byrjaði flugnámið. Meðfram flugskólanum starfaði Kristján á Reykjavíkurflugvelli og tók ekki aðeins til hendi og gekk í mörg störf flughafnar heldur náði með vinnulaunum sínum að kosta að fullu almenna flugnámið. Það var bara tekinn víxill fyrir blindfluginu.

Kristján lauk Verzlunarskóla Íslands árið 1961 og ári síðar hóf hann flugnám við Flugskólann Þyt. Hann lauk atvinnuflugmannsprófi 1964. Kristján var alla tíð ljúfur í samskiptum og góður fræðari og eftir að hann lauk prófi var hann fenginn til að vera flugmaður og flugkennari hjá Þyt hf. Og svo sótti hann um flugmannsstöðu og var ráðinn til Flugfélags Íslands frá ársbyrjun árið 1965. Svo varð hann flugmaður hjá Flugleiðum og flugstjóri frá 1981. Áður en yfir lauk var Kristján búinn að fljúga flestum helstu flugförum Íslendinga. Hann flaug þristinum (Douglas DC-3) Fokkernum, Douglas DC-6B og Boeing 727, 737 og 757 þotum. Og hann hafði einna mest gaman af að fljúga 727- vélinni. Já Kristján var góður flugmaður, sál hans og vit sameinaðist vélunum.

Félagsmál í flugi og kirkju

Og þá er komið að hinum margvíslegu félagsmálum sem Kristján lét sig varða. Hann vann annars vegar á Guðs vegum í safnaðarstarfi Neskirkju og svo hins vegar á vegum Félags Íslenskra Atvinnuflugmanna – sem er nú kannski líka á Guðs vegum. Kristján beitti sér fyrr og síðar fyrir að öll öryggismál væru höfð í hávegum og tryggt væri að allt væri vel unnið sem varðaði flug, flugmennina og skipulag flugsins. Kristján var formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) í fjölda ára frá 1979, endurkjörinn margsinnis, og hafði mikil og góð áhrif á kjör og starfsaðstæður stéttarinnar. Kristján þótti laginn málafylgjumaður í kjaraviðræðum og fékk sitt fram með hlýrri festu og traustum, sanngjörnum rökum.

Kristján sat í trúnaðarmannaráði og samninganefndum í fjölda ára, einnig starfsráði FÍA og Flugleiða, samstarfsnefndum sömu aðila og í Öryggisnefnd FÍA. Vegna farsælla starfa sinna var hann fulltrúi í Samtökum Evrópuflugmanna um nokkurra ára skeið. Hann sótti einnig nokkur ársþing Alþjóðasamtaka flugmannafélaga. Kristján var í Flugráði um skeið sem varamaður. Kristján var hann skipaður af ráðherra í nefnd til að ákvarða aðgerðir og varnir gegn flugránum. Þá vann hann einnig að tillögugerð um framkvæmdir í flugmálum. Og þegar Kristján hætti að fljúga lauk ekki félagsstörfum hans í þágu flugmanna. Hann var í stjórn Eftirlaunasjóðs atvinnuflugmanna til æviloka. Og svo var hann í stjórn söguritunar á vegum FÍA. Kristján var í stjórn Flugminjasafns Egils Ólafssonar að Hnjóti. Og ég kynntist svo Kristjáni þegar hann var í sóknarnefnd Neskirkju. Þar var hann eins og annars staðar ráðhollur, glöggur málafylgjumaður.

Margrét og dæturnar

Svo var það ástin. Þingvellir eru ekki bara sögustaður stjórnmála heldur örlagastaður í ástamálum þúsunda, líka Kristjáns og Margrétar Óskar Sigursteinsdóttur. Hún skrapp eftir vinnu með vinkonum sínum austur og þar var Kristján með sínum félögum. Þau sáu hvort annað, hlýnaði um hjartaræturnar og ástin kviknaði. Svo tóku við gönguferðir, bílferðir og dýpkandi samband. Þau Kristján og Margrét gengu í hjónaband hér í Neskirkju 4. september 1965. Þau hjónin eru því búin að ganga götuna saman frá þeim tíma, njóta samskiptanna, trausts og samstöðu. Margrét er menntaður barnakennari og starfaði við kennslu um árabil.

Kristján og Margrét eignuðust tvær dætur. Anna Sigríður fæddist í september árið 1967. Hún er viðskiptafræðingur og sambýlismaður hennar er Magnús Ragnarsson framkvæmdastjóri. Dætur Önnu eru Margrét Mist, Ragnheiður Sóllilja og Snæfríður Blær.

Ásta fæddist svo í maí árið 1971. Hún er lögfræðingur og sambýlismaður hennar Bragi Gunnarsson, lögfræðingur. Börn Ástu eru Kristján Eldur og Eva Sóldís.

Kristján vakti yfir velferð dætra sinna og vildi tryggja öryggi þeirra og allra afkomenda. Þegar Margrét lét af kennslu gætti hún barnabarnanna og kenndi þeim. Þau Kristján voru samhent í þjónustunni við stórfjölskylduna. Margrét reyndist manni sínum frábærlega vel og var honum dyggur lífsförunautur. Þegar Kristján veiktist af krabbameini vakti hún yfir velferð hans og á miklar þakkir skildar fyrir óhvikula alúð.

Eigindir

Hvernig maður var Kristján? Hvernig manstu hann? Leyfðu svipbrigðum, stemmingum og minningum að koma fram í hugann. Ég býst ekki við að Kristján hafi tekið ballettspor í flugstjórnarklefa eða á samningafundum um launakjör. En þessi stóri maður átti það til að hoppa upp og taka fjörleg ballettsport til að kæta ungviði og vekja hlátur.

Manstu hve nálægur Kristján var í kyrru sinni og áreitnisleysi? Hann var aldrei óðamála og reyndi aldrei að yfirgnæfa aðra, en átti heldur aldrei í vandræðum með að ljáta í ljós skoðun sína um það sem honum þótti máli skipta. Og Kristján var hreinskiptinn og velviljaður í ummælum sínum um mál, verk og fólk og vildi leyfa öllum að njóta sannmælis.

Kristján vildi alltaf láta gott af sér leiða bæði í störfum og félagsmálum. Fyrir honum var höfð rík ábyrgðartilfinning í foreldrahúsum og Kristján var síðan umhugað að skila því af sér sem honum hafði verið falið betra en hann hafði fengið í hendur. Hann vildi ekki eiga undir öðrum en sjálfum sér að fá framgang eða vegtyllur í starfi. Hann vildi aldrei að aðrir lyftu honum á annarra kostnað. Og hann vildi aldrei sýnast eða berast á. Kristján var mikill af sjálfum sér.

Manstu hve vandvirkur Kristján var? Í öllum efnum og málum. Hann hafði gaman af handverki. Kristján hafði litla gleði af búðaferðum almennt en þeim mun meira gaman af að fara í verkfæraverslanir til að kaupa sér vönduð verkfæri á verkstæðið heima. Hann var enginn merkjamaður í fatnaði en kunni hins vegar vel að meta góð verkfæri sem mætti grípa til viðgerða. Þau Margrét voru samhent við húsbætur heimila sinna og unnu saman. Og Kristján hikaði ekki þegar kom að smíðum, pípulögnum og reisa veggi. Dætur hans nutu föður síns fyrr og síðar þegar þær stóðu í hreiðurgerð og fegrun heimila sinna. Og þau Margrét lögðu gjörva hönd að byggingu sumarbústaðar þeirra við jaðar Hekluhrauns. Þar kom vel í ljós hve góður smiður Kristján var.

Svo var hann gjörhugull. Hann tók eftir fólki, var næmur á ýmis smáatriði, tók eftir því sem mætti honum í félagslífi og á götum mannlífsins. Því var hann ekki aðeins góður tæknimaður í fluginu heldur sá oft fyrir vanda sem varð áður en í óefni var komið.

Manstu músíkina í Kristjáni? Heyrðiru hann einhvern tíma spila eftir eyranu á hljómborð, jazz eða ljúfa ameríska músík?

Og svo var Kristján málsvari öryggis í öllum málum í fjölskyldu og félagsmálum. Öryggissýn Kristjáns skilaði mjög miklu í flugmálum Íslendinga og hann hefur því átt drjúgan þátt í tryggum verkferlum og starfsmannavernd sem hefur skilað farsælu flugi um áratugi. Hann naut mikils trausts í flugmannastéttinni og meðal flugfólksins í landinu.

Og nú er Kristján Egilsson farinn í sitt síðasta flug – inn í himininn – inn í morgunroða eilífðar. Hann dansar ekki lengur splittstökk fyrir ungviðið, leggur Lífeyrissjóði kolleganna lið eða tekur þátt í að skapa flugsöguna. Hann lýtur ekki að trjáplöntum framar eða heldur að unga fólkinu kjötbollum. Hann syngur aldrei aftur Shibaba, fer aldrei í köflótta, stutterma skyrtu aftur og dregur ekki klink upp úr vasa til að gauka að barnabörnum sínum.

Og við megum þakka ríkulega fyrir allt það sem hann var og gaf. Fyrir hönd Neskirkju og þjóðkirkjunnar ber ég fram þakkir. Hópur flugfólks sem hér er þakkar fyrir hönd okkar allra störf Kristjáns í flugmálum. Og ástvinir þakka. Kristján er farinn og lentur á stærsta og öruggasta vellinum. Þar eru engar veilur í stjórn lofhelgi eilífðar – Jesúavían er algerlega kvillalaus. Og þegar Kristján lyftist á vængjum morgunroðans heldur honum – eins og okkur öllum – hönd Guðs.

Nýtt ár er upp runnið – eilífðin umvefur hann.

Guð geymi Kristján Egilsson og Guð geymi þig.

Útför Kristjáns fór fram föstudaginn 13. janúar, frá Neskirkju við Hagatorg. Bálför.