Greinasafn fyrir merki: Kristín Einarsdóttir

+ Kristín Einarsdóttir + minningarorð

Í skírnargjöf gaf Kristín barnabörnum sínum skuldabréf og sálmabækur. En í fermingargjöf gaf hún þeim Biblíu og gjaldeyrisreikninga. Hvað segir það um afstöðu Kristínar til lífsins? Voru krónur og Biblía á pari? Jafngild? Var þetta einhvers konar gildahagfræði? Var þessi tvenna í skapandi sátt í lífi hennar?

Það var heillandi að funda með fólkinu hennar Kristínar og hlusta á þau segja frá persónueinkennum hennar og lífi. Þau sögðu litríkar sögur af djúpum kærleika og með elskublik í augum. Kátlegar sögur þeirra voru mettaðar virðingu, aðdáun og þakklæti. Já, Kristín var svo heilsteypt, skynsöm, vitur og hagsýn. Hún hafði orðið fyrir röð af áföllum, sem hefðu brotið flesta, en ekki hana. Kristín hafði vilja, gáfur og getu til að vinna úr, læra af og vaxa af. Hún var ekki aðeins góð í viðskiptum. Hún var þroskuð kona, sem vissi að í lífinu voru góðir dagar en líka vondir, að ekkert væri öruggt í þessum heimi. En hún átti alltaf haldreipi, festu og líftaug í trú. Guð var henni nærri alla daga æfinnar.

Krónur og Biblía, gjaldeyrisreikningar og guðsorðið. Og Kristín höndlaði vel, raðaði af visku, umvafði fólk – alla – með umhyggju og elskuorðum. Hún lifði í glaðværri fyrirhyggju, skapaði atvinnu fyrir fjölda fólks, var ráðholl samferðafólki, vinum og ástvinum um allt sem máli skipti, líka varðandi makaval! Og hún hafði áhuga á pólitík, getu eða getuleysi amerískra forseta, bókum, styttum bæjarins og bankamálum. Öll veröldin kom saman í Kristínu Einarsdóttur, sem hafði áhuga á tímanlegri og eilífri velferð ástvina og veraldarinnar. Allt varð stórt, íhugunarefni og merkilegt í lífi Kristínar, sem dó á afmælisdegi sínum og fermingardegi – 95 ára gömul. Hún ákvað sinn helgidag, lokaði hringnum og hvarf inn í ljósið.

Upphaf, fjölskylda og barnlán

Kristín Einarsdóttir fæddist í Reykjavík 1. maí árið 1924. Baráttudagur verkalýðsins var hátíðisdagur í lífi hennar og fjölskyldu. Það var engin kröfugerð heldur fagnaðargerð í fjölskyldunni, engir samningar heldur lífsgæði fólks, sem var bundið saman af gildum og gæðum. Foreldrar Kristínar voru hjónin Einar Guðmundsson, steinsmiður, og Sigfríður Gestsdóttir, húsmóðir. Þau bjuggu í húsi við Grettisgötu, sem Einar hafði reist. Yfir þrjátíu ára aldursmunur var á þeim hjónum. Einar var á sjötugsaldri þegar Kristín fæddist og hún var aðeins 6 ára þegar hann kvaddi þennan heim. Tilvera þeirra mæðgna breytist snarlega við fráfall heimilisföðurins. Aðstæður í kjölfar dauðsfalls Einars urðu til að þær misstu hús, heimili og öryggi. Það var fjármálakreppa í veröldinni og heilsa Sigfríðar var skert og dóttirin varð fyrir tilvistarkreppu. Kristín tók lífsreynsluna til hjarta en vann úr. Hún lærði þegar í frumbernsku, að líf yrði að tryggja sem best. Alla æfi síðan vann hún að lífsláni og lífsleikni, í hinu innra sem hinu ytra. Og það er tákn um styrk og fyrirhyggju, að Kristín var aðeins 19 ára þegar hún keypti lóð á Selfossi. Lóð var henni tákn um rétt og öryggi til framtíðar.

Fyrstu árin bjó Kristín í Reykjavík, hér í nágrenni Hallgrímskirkju, en síðan var hún langdvölum á Selfossi. Þar bjó móðurfólk hennar og Kristín hafði af því skjól, gleði og blessun. Og barnabörn Kristínar sögðu, að á Selfossi hefði amma þeirra fundið hamingjuna. Já, meira segja í Kaupfélagi Árnesinga! Þar vann Kristín og hitti norður-þingeyska sjarmörinn og glæsimennið Bjarna Ragnar Jónsson, sem ók um sveitir með mjólk og fólk. Þau Bjarni og Kristín felldu hugi saman og gengu í hjónaband í ágúst árið 1945. Kristín hvatti bónda sinn til dáða og hann lærði húsgagnasmíði og var dugmikill framkvæmdamaður. Þau Kristín byggðu þó ekki á lóðinni á Selfossi heldur fluttu suður.

Kristín og Bjarni nutu barnaláns. Börn þeirra eru þrjú.

Fríða er elst. Hún lærði hjúkrunarfræði og starfaði við sína grein. Maður hennar er Tómas Zoëga. Þau eiga fjögur börn og níu barnabörn.

Anton Bjarnason var næstur. Hann er íþróttakennari að mennt. Kona hans er Fanney Hauksdóttur. Þau eiga þrjá syni, sjö barnabörn og eitt langömmubarn.

Yngstur er Bjarni. Hann er húsgagnasmiður og kvæntur Kristínu Jónsdóttur. Þau eiga þrjár dætur og sjö barnabörn.

Kristín lagði vel til síns fólks og uppskar ríkulega í samskiptum við þau.

Lífið

Kristín smitaðst af berklum árið 1949. Þá voru engin lyf til við þeim sjúkdómi og Kristín var einangruð frá fólkinu sínu og var vistuð á Vífilsstöðum. Hvernig líður móður fjarri fjölskyldu sinni og börnum í slíkum aðstæðum? Mánuðirnir liðu og samtals var Kristín fjarsett sínu fólki á þriðja ár. Og Bjarni var tekinn beint úr fangi hennar og settur á vöggustofu. Kristín, þessi ábyrga, skipulagða og ástríka kona sá á bak nýfæddum drengnum, sem hún mátti ekki hafa í fanginu. Hann var slitinn af henni, en það var svo hann sem sat hjá móður sinni þegar hún fór inn í himininn. Í því er djúpt innrím lífsláns Kristínar.

Allt var gert til að reyna að lækna Kristínu og hún fékk ný berklalyf strax og þau komu til landsins. Hún tók meðferð vel og gekk heil út af Vífilsstöðum í mars árið 1952. Næstu tvö ár var Kristín að ná fullum styrk. Líf Bjarna og Kristínar var ástríkt og annasamt. Það var gaman hjá þeim, þau voru samstillt og dönsuðu lífmikinn dans hvunndags og á hátíðum. Þegar Kristín fann máttinn vaxa keypti hún verslun á horni Klapparstígs og Grettisgötu og rak um tíma. Kristín kunni að reikna, gerði sér grein fyrir góðum tækifærum og átti ekki í neinum vandræðum með að sjá samhengi viðskipta, tækifæra og ógnana. Kristín sá um fjármálin og Bjarni um framkvæmdir. Og áður en yfir lauk hafði Kristín keypt og selt margar fasteignir, skapað eign og lagt fyrir, ekki vegna sjálfrar sín heldur vegna barna sinna. Í henni sat bernskurreynslan og Kristín ætlaði að gera það, sem hún mátti til að börnin hennar yrðu aldrei snauð á götunni. Flest gekk þeim Bjarna í haginn, heilsa Kristínar var góð, umsvif þeirra voru mikil og börnin blómstruðu. Í lok sjötta áratugarins fengu þau lóð í Goðheimum 10 og hófu byggingu fjórbýlishúss. Þegar Bjarni var að ljúka framkvæmdum í apríl árið 1961 og var að bora fyrir svalafestingu á efstu hæð hússins varð slys. Hann féll til jarðar og lést. Þriðja stóráfallið í lífi Kristínar. Alger kúvending.

Ung kona með mikla lífsreynslu og ung börn, en með stálvilja hið innra og lífsvisku. Þá var þarft að hafa hlýtt hjarta og kaldan heila. Kristín tók ákvörðun um að vinna sjálfstætt til að lágmarka vinnutíma en hámarka tekjur. Hún vann í uppmælingu og skúraði. Hún vann í mötuneyti og svo líka niður á hótel Borg. Og henni lánaðist að halda fjölskyldunni saman, tryggja velferð barna sinna og koma þeim til manns.

Helgi

Í mannlífsdeiglu Kaupfélags Árnesinga höfðu Kristín og Helgi Ólafsson kynnst. Nokkrum árum eftir dauða Bjarna lágu leiðir þeirra Kristínar saman að nýju. Bæði höfðu þá misst maka sína. Þau Kristín gengu í hjónaband í miðju Vestmannaeyjagosinu, í apríl árið 1973. Þau voru samstillt og samstiga, bæði félagslynd og kunnáttusöm í samskiptum. Þegar þau Kristín urðu hjón rak Helgi fasteignasölu. Helgi lést í árslok 1992.

Frumkvöðull

Kristín, sem var alla tíð athugul og íhugul, gerði sér grein fyrir að ferðamennska myndi aukast á Íslandi. Þau Helgi keyptu húsið á Flókagötu 1 og Kristín opnaði þar gistihús. Kristín var varkár en líka áræðinn frumkvöðull. Hún var eins konar frú airbnb þess tíma. Og til að hún þyrfti ekki að tala við gesti sína aðeins með augum og höndum lagði Kristín í enskunám. Þegar hún var erlendis í heimsókn hjá fólkinu sínu tók hún námskeið og bætti málgetu sína. Gistikennarar í Háskólanum leigðu hjá Kristínu. Erlendir nemendur fengu rúm og herbergi hjá henni líka. Fólk á vegum fyrirtækja leigði og svo var tekið á móti ferðamönnum með slíkri elskusemi og gæðaþjónustu, að orðspor gistihúss Kristínar fór víða. Helgi studdi konu sína í ferðaþjónustunni og þau hjón hikuðu ekki við að gera Íslandsupplifun útlendinganna einstaka og fóru m.a. með þá í skoðunarferðir. Kristín umvafði gesti sína elsku og hlýju og þjónustustigið var hátt. Gæðaþjónustan skilaði margfalt til baka. Kristínu gekk allt að sólu í ferðaþjónustunni. Hún færði út kvíar sínar í næstu hús, nágrannarnir leigðu henni herbergi og hófu svo eigin rekstur. Um tíma var rekin ferðaþjónusta í fjölda húsa í þyrpingunni í kringum Kristínu og Helga. Þetta var afraksturinn af blómstrandi starfi þeirra. Kristín var einn af frumkvöðlum nútíma ferðaþjónustu á Íslandi. Þökk sé henni.

Hallgrímskirkja

Á Flókagötuárunum var Kristín einnig ötull meðlimur Kvenfélags Hallgrímskirkju. Kristín mat starf kirkjunnar mikils og vildi efla safnaðarlífið og bæta aðstöðuna. Kristín var m.a. gjaldkeri kvenfélagsins sem bakaði upp kirkjuturninn og kom kirkjunni undir þak. Og hún naut mikillar virðingar fyrir störf sín og var kjörinn heiðursfélagi Kvenfélags Hallgrímskirkju. Á sjötíu og fimm ára afmæli félagsins – fyrir tveimur árum – heimsóttum við fulltrúar Hallgrímskirkju Kristínu til að votta henni virðingu og þökk fyrir störf hennar. Það gladdi hana. Kristín var ekki aðeins í kvenfélagsstarfinu heldur voru þau Helgi í framvarðasveit orgelsöfnunar. Hann var sóknarnefndarmaður og hún kvenfélagskonan og þau keyptu pípur og buðu til sölu og lögðu nafn, tíma og elju til að kosta byggingu þessa stórkostlega hljóðfæris, sem nú kveður Kristínu hinsta sinni. Fyrir hönd Hallgrímskirkju þakka ég þjónustu Kristínar og Helga í þágu safnaðarins.

Minningarnar

Þegar ég sat og hlustaði á afkomendur Kristínar segja frá henni streymdi frá þessu hæfileikaríka og vel ræktaða fólki elskusemi, þakklæti, gáski, gjafmildi, umhyggja, húmor og mannúð. Kristín vissi alla tíð, að veldur hver á heldur, að það er okkar að nýta hæfni, möguleika, tækifæri og vinna úr sorgarefnunum. Hún vissi að lífið krefðist þess að við nytum bæði hörku demantsins og mýktar silkisins. „Þett er gangur lífsins – svona er lífið“ sagði hún stundum. Lífið snýst alla vega, dagarnir eru ekki allir góðir. Kristín var mikil af sjálfri sér. Hún ræktaði sinn innri mann, nærði sál sína, aflaði sér stöðugt fræðslu og menntunar, agaði sig og tamdi sér elskuríka afstöðu gagnvart fólki. Hún veitti afkomendum sínum atvinnu, var svo lánsöm að geta miðlað þroska, visku, siðferði, trú og von til síns fólks við rúmfataskipti, þrif, matseld, morgunverðarborð og kaffibolla. Hún kenndi sínu fólki að grennslast fyrir um fréttir, pólitík, persónumál, huga vel að makavali og horfa upp í himininn. Kristín var alltaf uppspretta ástar og umhyggju, örlát og gjafmild. Hún var úrræðagóð, lausnamiðuð, fróðleiksfús og vinnusöm. Alla tíð hafði Kristín augu á þeim sem áttu bágt eða voru jaðarsett í lífinu. Og Kristín studdi þau sem þörfnuðust aðstoðar.

Opinn himinn

Og nú eru skil orðin. Nú prjónar Kristín ekki lengur á barnabörn og langömmubörnin. Hún fer ekki lengur fínt í ræða makaval eða brýna fyrir konunum í fjölskyldunni að gefa körlunum gott að borða þegar þeir koma þreyttir úr vinnunni! Hún ekur ekki framar vinkonum sínum á fundi og viðburði út í bæ. Hún fræðir ekki framar um styttur bæjarins eða þylur bæja- og ábúenda-nöfn í sveitum landsins. Hún rekur ekki lengur framættir fólks og tengir saman. Fer ekki í skíðaskálann með fólkinu sínu. Er ekki framar þessi helga návist himinsins, tenging við Guð – og ásjóna Guðs. Hún er farin til karlanna sinna, ástvinanna og í fang móður. Að miðla visku himsins er ekki öllum gefið, en Kristín var engill í heimi – ásjóna gæsku Guðs. Já, skuldabréf og gjaldeyrisreikningar eru til nota í tíma, en skuldabréf eilífðar fékk hún í trúnni. Kristín lifði af ástríkri ákefð í þessum heimi, en nú er hún horfin til uppsprettu ástarinnar, farin inn í faðm móður allrar miskunnar, Guðs.

Guð geymi hana og varðveiti þig.

Amen. 

Minningarorð við útför í Hallgrímskirkju 13. maí, 2019. Jarðsett í Fossvogskirkjugarði. Erfidrykkja á Kjarvalsstöðum.