Greinasafn fyrir merki: konur og ofbeldi

Allt sem við hefðum getað orðið

Sif Sigmarsdóttir er heillandi höfundur. Ný bók hennar, Allt sem við hefðum getað orðið, kom út þegar við fjölskyldan vorum á leið til Madeira. Elín Sigrún stormaði beint í Eymundsson í Fríhöfninni og spurði hvort bókin væri komin. Verslunarstjórinn brosti breitt og sagði að nýkominn bókakassinn væri í geymslunni í kjallaranum. En hún myndi fúslega ná í eintak handa ferðalangnum. Svo las Elín á fluginu til Skotlands, í Edinborg og svo suðurleiðina líka til Madeira. Hún leit varla upp og umlaði reglulega kankvís: „Þú verður að lesa þessa.“ 

Aðalpersónan er Lilja Kristjánsdóttir, blaðamaður á Dagblaðinu í Reykjavík. Lilja fær veður af að hún sé líklegt fórnarlamb niðurskurðar. Hvað verður um hana ef hún missir vinnuna sem hún hafði fórnað svo miklu fyrir? Skilgreina hlutverk fólk? Hvenær tapa menn sjálfi sínu? Lilju er falið að skrifa um nýútkomna dagbók Annie Leifs, fyrstu eiginkonu tónskáldsins Jóns Leifs. Hún fyllist grunsemdum um bókina og að ekki sé allt sem sýnist. Í framhaldinu spretta fram persónur og viðburðir fortíðar sem tengjast saman í viðburðaríkri og magnaðari atburðarás. Fræg skáldkona og verk hennar koma við sögu, dóttir hennar, fjöldi fólks, stofnanir í Reykjavík og menningarsaga síðustu áratuga. Alls konar tabú og leyndarmál eru opnuð. Og Sif snýr og fléttar listilega. Hvað er logið og hvað er sannleikur?

Allt sem við hefðum getað orðið er marglaga. Sif nýtir harmþrungna ástarsögu til að ræða um líf fólks, aðallega kvenna. Saga Annie Leifs er einn af burðarásum sögunnar, í senn bæði ríkuleg frásögn en átakanleg. Hún fórnaði sér fyrir Jón Leifs og Sif teiknar skarpa prófíla þeirra beggja. Annie hefði svo sannarlega getað orðið annað en hún varð. Og Jón Leifs virðist rýrari í kærleikanum en sjálfsálitinu. Fleiri ástarsögur eru sagðar og hvernig aðstæður skapa persónur og ferla. Er Lilja það sem hún vill vera og verða? Hvenær er manneskjan fullnægð og lifir í samræmi við eigindir og ástríðu sína? Er rétt að fórna sér algerlega og skilyrðislaust fyrir aðra og málstað?

Ég dáðist að hugkvæmni Sifjar í fléttugerðinni, hvernig hún batt saman ólíka heima og tengdi við kjallaraíbúð í húsi við Nönnugötu. Persónurnar sem hún leiddi fram voru skýrar. Hildur á Þjóðskjalasafninu er kostuleg sem og skáldkonan, móðir hennar. Sú fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Sif segir magnaða sögu um líf rithöfundarins og hvað er satt og hvað logið. Hver á heimildir og sögur?

Í spennandi sögu Sifjar er farið langt að baki einfaldri og groddalegri feministasögu eða kúgunarsögu kvenna. Bókin þjónar ekki þeim tilgangi að sýna hvað karlar voru eða eru vondir heldur sýna lífsbaráttu kvenna í ólíkum aðstæðum og hvernig samhengi litar og kallar fram. Ofbeldi er ekki kynbundið og karlarnir einir sem kremja. Margar konur eru tuddar og hræðilegar mæður sem lemstra afkomendur. Sif skefur ekki af eða gullhúðar í þeim efnum. Rit Sifjar er djúpsaga um mennskuna, skrifuð af slíkri snilld og íþrótt að erfitt var að slíta sig frá lestrinum. Og hlý mannvirðing litar orð, flæði og fléttu. Við Elín Sigrún mælum með bókinni.

Funchal – 10. nóvember, 2025.