Greinasafn fyrir merki: kjúklingur

Kjúklingaskál með kókos-hrísgrjónum

Mar­in­eraður kjúk­lingur með kó­kos­hrís­grjón­um og lit­ríku græn­meti. Þetta er augnayndi og bragðundur. Ekki aðeins er kjúklingurinn dásamlegur, heldur eru hrísgrjónin unaðsleg og heildarsamsetningin heillar. Fyrir 4.

700 g kjúk­linga­bring­ur

3 msk sojasósa

2 msk púður­syk­ur

2 msk ses­a­mol­ía

1 msk chilisósa

4 hvít­lauksrif, mar­in

1 tsk rif­inn engi­fer

 

Kó­kos-hrís­grjón:

1½ bolli jasmín-hrís­grjón

1½  bolli kó­kos­mjólk

½ bolli kó­kos­vatn

¼ tsk. salt

1½ msk. kó­kosol­ía

 

Fyr­ir skál­ina:

4 vor­lauk­ar, fínt skorn­ir

3 stór­ar gul­ræt­ur, skorn­ar í strimla

2 boll­ar skorið rauðkál

2 avoca­do, skorin í þunn­ar sneiðar

2 msk. ristuð ses­am­fræ

1/2 bolli stein­selja

1 lime

Aðferð:

Setja kjúk­ling­inn í poka. Píska sam­an í skál sojasósu, sykur, ses­a­mol­íu, hvít­laukssósu, hvít­lauk og engi­fer. Hella blönd­unni yfir kjúk­ling­inn og geyma í pokanum og marinera, í klukkutíma eða lengur. Marinering yfir nótt er auðvitað til bóta.

Kó­kos­hrís­grjón: 

Hita pott á meðal­hita og setja hrís­grjón út á pönn­una ásamt kó­kos­mjólk, kó­kos­vatni og salti. Hrærið í og láta suðu koma upp. Lækka þá hit­a og látið malla í 30 mín­út­ur þar til vökvinn hef­ur gufað upp. Hrærið aðeins í hrís­grjón­un­um og bæta kó­kosol­í­unni út í.

Kjúklingurinn:

Grillið annaðhvort kjúk­ling­inn eða setjið í ofn á 220°C í 30 mín­út­ur (at­hugið samt hvort hann sé til­bú­inn eft­ir þann tíma). Leyfið kjúk­lingn­um að hvíla í 10 mín­út­ur áður en hann er skorinn í sneiðar.

Setja kó­kos­hrís­grjón á botn­inn á skál, því næst kem­ur avoca­do, rauðkál, gul­ræt­ur, vor­lauk­ur og smá stein­selja. Toppið með kjúk­lingn­um ásamt nokkr­um avoca­do-sneiðum. Ef kjúklingurinn er steiktur í ofni er gott að nota vökvann sem eftir er í steikarfatinu og setja yfir kjúklinginn. Síðan er ristuðum ses­am­fræj­um stráð yfir og lime kreist yfir allt sam­an.

Borðbænin er: Þökkum Drottni því að hann er góður. Og miskunn hans varir að eilífu.

Verði þér að góðu.

Fjörtíu geira kjúklingur

Því meiri hvítlaukur því betri matur. Enginn skyldi hafa áhyggjur af lyktinni. Því meiri hvítlaukur þeim mun minni lykt! Það er svolítið maus að flysja laukinn en það kemst upp í vana. Ég skora á ykkur að prufa! Uppskriftin f 4.

½ bolli ólífuolía

4 stilkar sellerí (þverskorið fremur smátt)

2 msk. estragon

2 msk. fínt klippt steinselja

1 góður kjúklingur hlutaður í sundur

salt og nýmalaður pipar

2 niðurrifnar múskathnetur

40 afhýddir hvítlauksgeirar

½ dl. koníak eða sletta af sherrý

¾ bolli hveiti vatn

Hitið olíuna, setjið sellerí, steinselju og estragon út í heita olíuna og látið mýkjast í 2-3 mínútur (passa ekki brenna). Stráið vel af salti, pipar og nýrifnu múskati á kjúklingabitana og steikið upp úr olíunni. Setjið allt saman í eldfast mót (með loki), hvítlauksgeirarnir og koníakið sett út í, lokið sett á (helst lok sem fellur vel að). Hrærið saman hveiti og vatni svo úr verði þykkur jafningur og þéttið lokið með honum, sem sé loka pottinum rækilega (það skilar sér vel!). Bakið réttinn í ofni við 190° C í eina og hálfa klst. Athugið að krydda vel með salti, pipar og múskati, annars verður maturinn bragðlítill, sem alls ekki má henda! Mikil og góð sósa verður í pottinum og því er ljómandi að hafa hrísgrjón eða bygg með réttinum og ekki síðra að hafa líka nýbakað brauð til að veiða upp vökvann.

Viðtal um matseld í Fréttablaðinu 15. desember. 

„Vinir okkar hjóna voru alltaf að biðja um þessa eða hina uppskriftina svo við gáfum bara út matreiðslubók eitt árið,“ segir Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju.

Matreiðsluáhuga Sigurðar Árna Þórðarsonar, sóknarprests í Hallgrímskirkju, má rekja til æskuáranna þegar hann gerði sér grein fyrir því að elda mætti silung með mismunandi hætti og að krydd væri undraefni. „Foreldrar mínir ræktuðu fjölbreytilegt grænmeti. Svo var ég á unglingsárum stórveiðimaður norður í Svarfaðardal og týndi marga tugi lítra af berjum á haustin. Það er platveiðimaður sem ekki lærir að gera að fiski og elda.“

Inn á vef sínum www.sigurdurarni.is, birtir Sigurður m.a. greinar, pistla og hugvekjur en líka ýmsar ljúffengar uppskriftir. „Vinir okkar hjóna voru alltaf að biðja um þessa eða hina uppskriftina svo við gáfum bara út matreiðslubók eitt árið og gáfum vinum og fjölskyldumeðlimum í jólagjöf. Þar sem óskirnar héldu áfram og ég var með heimasíðu var auðvelt að smella inn uppskriftum sem eru þarna í bland við hugleiðingar um lífið, prédikanir, þjóðmál og annað sem prestur skrifar um.“

Mikilvægt að borða saman

Eiginkona Sigurðar, Elín Sigrún Jónsdóttir, er að hans sögn betri bakari en hann og líka næmari á uppskriftir. „Hún veit að ég er mikill matfaðir og vil helst elda og hafa marga í kringum mig og gefa mörgum að borða. Því sendir hún mér uppskrift um miðjan dag eða kaupir hráefni og tilkynnir mér að hún hafi fundið þessa góðu uppskrift. Ég verð kátur þegar maturinn er góður, allir borða og standa upp frá borðum með hrós á vörum.“

Starf sóknarprests getur verið mjög annasamt og vinnudagar langir. Góður matur í góðum félagsskap skiptir því Sigurð miklu máli. „Í kirkjunni stöndum við prestarnir við borð, altarið. Og í safnaðarheimilum kirkna eru borð og samfélag. Jesús Kristur var veislukarl. Hann er minn maður. Kirkja er í þágu lífsins. Að borða saman er mikilvægt, samtölin eru mikilvæg og við snertum hvert annað tilfinningalega þegar við eigum samfélag. Það vissi Jesús Kristur og ég tek mark á því, líka heima.“

Áhugi á Biblíumat

Miðjarðarhafsmaturinn, bæði hráefnin og kryddin, eru uppáhald Sigurðar. „Biblíumatur er sértækt áhugaefni og mig langar til að dýpka þekkingu mína á klassísku hráefni fornaldar því það er heilsufæði nútímans. Ég verð í Berkeley í Kaliforníu næstu mánuði og mun örugglega fara á heilsumarkaðina á San Fransisco-svæðinu.“

Uppskriftin sem Sigurður gefur lesendum er Maríukjúklingur sem hann segir  vera biblíumat. „Mig grunar að María, móðir Jesú, hafi verið hrifin af svona mat. Hún hefði getað eldað réttinn því hráefnin voru til í þessum heimshluta á uppvaxtarárum Jesú Krists. Og biblíumatur er alltaf hollur og rímar við heilsufæði nútímans.“ 

Maríukjúklingur

Maríukjúllinn er biblíumatur. Mig grunar að María, móðir Jesú, hafi verið hrifin af svona mat. Hún hefði getað eldað réttinn því hráefnin voru til í þessum heimshluta á uppvaxtarárum Jesú Krists. Og biblíumatur er alltaf hollur og rímar við heilsufæði nútímans. 

Fyrir fjóra:
4 kjúklingabringur
4-6 hvítlauksgeirar
1 tsk kúmmín
1,5 tsk túrmerik
1 tsk kanill malaður
Salvía, helst fersk annars þurrkuð
1 stór rauðlaukur
3 skalottulaukar (sbr. Askelon en líka oft kallaður vorlaukur á íslensku)
Sítrónubörkur rifin með rifjárni
Safi úr einni sítrónu (helst lífrænni) ca 70 ml. má líka vera appelsínubland
150 gr. spínat
300 ml. grænmetiskraftur
10 döðlur langskornar. Mega líka vera fíkjur/sveskjur í staðinn.
Maldonsalt
Heslihnetur – til skreytingar

Maldonsalt og olía á heita pönnu. Kjúklingurinn á pönnuna og meira maldon yfir sem og salvían. Laukurinn skorinn fínt og steiktur, settur við hlið kjúklingabitanna. Kryddað yfir allt, grænmetiskraftinum hellt yfir og sítrónubörkurinn einnig yfir. Ekki síðra að leyfa síðan standa í sólarhring í kæli. Sítrónuvökvi, spínat og hnetur yfir og síðan fært í ofn eða pott og látið malla í fjörutíu mínútur. Gæta að vökvinn fari ekki allur, bæta við vatni ef sósan er að verða of þykk. Borið fram með soðnu bulgur (eða byggi eða kúskús). Svo má afhýða appelsínu eða mandarínu, þverskera og koma hálfri fyrir á hverjum diski. Litirnir fara fallega með matnum og sætur ávöxtur passar vel með. 

Borðbæn: Þökkum Drottni þvi að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu. (Sálm 106.1 og 107.1).

Trans-vegan kjúlli

Við hjónin vorum á leiðinni úr vegan-skeiði og Elín mín hvíslaði á koddanum að hana langaði svo í kjúlla „annað kvöld, einhverja óvænta útgáfu“ bætti hún við. Og þá var ekki annað í boði en að finna það sem gæti hugnast henni. Ég fletti og fann uppskrift í ljómandi riti Úlfars Finnbjörnssonar, sem heitir Stóra Alifuglabókin. Klettakálspestóið var gert skv. tillögu hans en ég bætti reyndar basiliku við. Ég mæli þó frekar með venjulegu pestói – það er fínlegra en rúkkóla-pestó. Fimm stjörnur var stjörnugjöfin – svo ég held áfram að taka við pöntunum á koddanum. Það er gott að elda fyrir mitt fólk. Það tekur vel við og kann að þakka með fögrum umsögnum og mörgum stjörnum. Hið hnyttna heiti “trans-vegan” kemur frá  Sigrúnu Óskarsdóttur. Hér er svo uppskriftin í minni útgáfu.

Steiktar kjúklingalundir

Með pestó, spínati og pasta. Fyrir 4.

600 gr kjúklinglundir

2 msk olía

1 kúrbítur

30 snjóbaunir

salt og pipar

1 poki spínat

600 gr soðið pasta

furuhnetur sem má sleppa

Parmesanostur – rifinn sem má líka sleppa

Klettakálspestó

1 poki klettakál

2 msk furuhnetur

2 msk parmesanostur

3 hvítlauksgeirar

1-2 msk ljóst balsamikedik

1-2 msk sítrónusafi

1 msk agavesíróp

salt og pipar

1 ½ dl olía

Aðferð

Kjúklingalundirnar steiktar á pönnu þar til þær eru brúnar. Kúrbítstrimlum og snjóbaunum bætt við og stekt áfram ca 2 mínútur. Bragðbætt með salti og pipar. Ég þurfti að hella ofurlitlu vatni af sem kom frá kúrbítnum. Nokkrum skeiðum af pestó – skv smekk – yfir kjöt og grænmeti á pönnunni og hrært í til að dreifa vel pestóinu. Spínatblöð og volgt pasta á fat og síðan allt af pönnunni yfir pastað. Skreyta með furhnetum og parmesan.

Pestógerðin

Öll hráefnin i matvinnsluvél og maukað vel.

Varðandi pasta

Notaði Thai Rice Noodles sem er glútenlaust og “no cholesterol.” Eftir suðu smelltum við sesamolíu og tamarisósu út í pastað. Það gefur yndislegt bragð og fallegan lit.

Borðbæn

Allt sem í dag er borið borði

blessaðu nú með þínu orði,

eilífi Drottinn; þelið þitt

þvoi og lýsi’ upp hjarta mitt.

(þessa borðbæn samdi Sigurður Ægisson)