Greinasafn fyrir merki: kjúklingur

New York kjúklingur með kjúklingabaunum

Halli, Ene, Steinar og Salka, danska fjölskyldan okkar á Friðriksbergi, komu frá Kaupmannahöfn og beint í kvöldmat. Við elduðum þennan fína New York kjúklingarétt. Það er gaman að gefa þeim að borða því þau eru bæði vinir og meistarakokkar. Þetta er einfaldur, bragðmikill ofnsteiktur réttur, upprunalega úr kokkhúsi Ottolenghi og þróaður að hætti NYT. Kryddblandan er glimrandi og skvetta af sherry-ediki í lokin styrkir bragð réttarins. Svo eru litirnir til að gleðja augun – sjón skiptir jú líka máli fyrir matargleðina.

(fyrir 4–8 manns)

Hráefni:

8 kjúklingalæri, um 1,5 kg

2 msk ras el hanout-kryddblanda (garam masala eða karríblanda í staðinn)

fínt sjávarsalt og svartur pipar

3 kartöflur, skornar í bita (u.þ.b. 2,5 cm þykka)

1 dós (400 g) kjúklingabaunir, skolaðar

3 meðalstórir plómutómatar, skornir í tvennt á lengdina

4 romano paprikur (þessar löngu og mjóu), skornar í tvennt á lengdina og stönglar fjarlægðir (eða 12 litlar paprikur)

1 hvítlaukur (heill haus), efsti hluti skorin af (um 1,5 cm) til að opna að rifjunum

180 ml extra-virgin ólífuolía

2 msk sherry-edik (má nota rautt vínedik eða balsam-edik í staðinn sem hefur auðvitað áhrif á bragð réttarins)

¼ bolli ferskt kóríander, gróft saxað (en má auðvitað nota steinselju eða álíka). 

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 190°C.
  2. Kryddið kjúklinginn með ras el hanout, 2 tsk salti og svörtum pipar. Setjið kjúklinginn á fat (um 33 x 46 cm) eða bökunarplötu og leyfið að marinerast í 10 mínútur. Ef ras el hanout er ekki til í kryddhyllunni má nota garam masala sem gefur sætara og mildara bragð. Karríblanda dugar líka, gefur ekki sömu dýpt og fer auðvitað í austurátt – bragðlega!
  3. Bætið kartöflum, kjúklingabaunum, tómötum, paprikum, hvítlauk, ólífuolíu og 1 msk ediki við. Blandið varlega þannig að allt verði olíubaðað. Dreifið öllu jafnt á plötuna og leggið síðan kjúklinginn ofan á – og með húðina upp.
  4. Bakið í 30 mínútur. Hristið plötuna varlega svo allt falli betur saman og myndi tiltölulega jafnt lag. Bakið áfram í um 35 mínútur – eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og vel brúnaður.
  5. Kreistið hvítlauksrifin úr hýðinu og hendið pappírskenndu hýðinu). Stappið tómata og hvítlauksmaukið með gaffli og hrærið saman við sósuna á plötunni. Stráið kóríander yfir og blandið saman. Skvettið síðustu msk af ediki yfir réttinn áður en hann er borinn fram.

Meðlæti sem velja má úr ( má líka nota allt ! )

Couscous eða perlubúlgur: Létt og  tekur vel við sósunni og kryddkeimnum. Má bæta við saxaðri steinselju, ristuðum möndlum eða rúsínum fyrir norður-afrískt ívaf.

Nanbrauð: Til að þerra upp sósuna af ofnplötunni! Að smyrja brauðið með hvítlauksolíu bætir!

Jógúrtsósa með myntu og sítrónu: Létt og hressandi mótvægi við djúpt kryddaðan rétt. Hrærið saman grískri jógúrt, smá sítrónusafa, rifnum hvítlauk, salti og fínsaxaðri myntu.

Grillað eða ofnbakað grænmeti: T.d. kúrbítur, eggaldin eða rauðlaukur. Ristað með ólífuolíu og tímían eða kúmmín.

Bæn: Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Flórens-kjúklingur með rjómasósu og spínati

Einföld pönnuuppskrift. Safaríkar kjúklingabringu í smjörkenndri hvítvíns-rjómasósu með spínati og rjómaosti. Rjómaosturinn gefur sósunni mýkt og fyllingu. Í stað spínats má nota sólþurrkaða tómata, steikta sveppi eða niðursoðin þistilhjörtu – eða bæta þeim við. Borið fram með stöppuðum eða ofnbökuðum kartöflum – en brauð er nauðsyn til að þerra síðustu sósudropana! Það er uppskófla eða scarpeda í ítölskunni. 

Hráefni:

60 ml hveiti (ca. ¼ bolli)

60 ml rifinn parmesanostur (ca. ¼ bolli), auk þess sem stráð er yfir í lokin fyrir áferð – lúkkið. 

Salt og nýmalaður pipar

4 þynntar, beinlausar kjúklingabringur – án húðar (um 450 g)

1 msk ólífuolía

4 msk smjör

1 meðalstór skalottulaukur, smátt saxaður – nú eða graslaukur/vorlaukur

2 hvítlauksrif, smátt söxuð

120 ml þurrt hvítvín (½ bolli)

120 ml kjúklingasoð (½ bolli)

1 tsk þurrkuð basilíka (eða 1 msk ferskt, saxað)

1 tsk þurrkuð óreganó (eða 1 tsk ferskt, saxað)

120 ml rjómi (½ bolli)

60 g rjómaostur (við stofuhita)

2 bollar spínat (um 85 g)

Aðferð:

  1. Blandað saman hveiti, parmesan, 1 tsk salti og 1 tsk pipar á disk. Kjúklingabringunum velt upp úr blöndunni þar til þær eru vel þaktar báðum megin.
  2. Stór panna hituð á meðalhita. Setjið ólífuolíu og 2 msk af smjöri á pönnuna og bræðið saman. Steikið kjúklinginn í um það bil 4 mínútur á hvorri hlið, þar til hann er orðinn gullinbrúnn (en þó ekki eldaður í gegn). Takið kjúklinginn af pönnunni og leggið til hliðar.
  3. Bætið afganginum af smjörinu (2 msk) á pönnuna. Setjið skarlottulauk, hvítlauk og smávegis salt saman við. Hrærið í 2 mínútur eða þar til laukurinn er orðinn mjúkur og hvítlaukurinn ilmar.
  4. Hellið hvítvíni og soði út á pönnuna. Bætið við basilíku og óreganó. Hrærið og skafið upp karamelliseruðu bitana af botninum. Látið sjóða niður í um helming (3–4 mínútur). Bætið þá við rjómanum og rjómaostinum. Hrærið þar til osturinn hefur bráðnað og sósan þykknar (um 6 mínútur).
  5. Bætið spínatinu við og hrærið þar til það hefur linast og blandast vel við sósuna (um 1 mínúta).
  6. Leggið kjúklinginn aftur á pönnuna og látið malla þar til hann er fulleldaður (4–5 mínútur). Takið af hitanum og berið strax fram með ferskum parmesanosti yfir.

Ljómandi að skreyta með ætum blómum á sumartímanum. 

Meðlæti við  hæfi – sem velja má úr 🙂

Stappaðar kartöflur með hvítlauk, salti og smjöri. Mjúkar og rjómakenndar kartöflur eru fullkomnar og þær draga í sig rjómasósuna. Bætið rifnum parmesan eða örlitlu múskati við til að ná fram ítölskum blæ.

Ofnbakaðar litlar kartöflur eða sætar kartöflur, kryddaðar með ólífuolíu, rósmarín og sjávarsalti.

Grillaðar eða gufusoðnar grænmetisspírur.

Grænmeti eins og brokkolí, blómkál, grænar baunir eða aspargus.

Bagettebrauð – til að þerra upp sósuna! Getur verið súrdeigsbrauð, focaccia eða einfaldlega brauð með hvítlauksolíu og kryddi.

Ferskt salat, t.d. rúkkola og kirsuberjatómatar með sítrónu-ólífuolíudressingu og parmesanflögum.

Grunnuppskriftina fann. ég í NYT.

Borðbæn

Gef oss í dag vort daglegt brauð,

vor Drottinn Guð, af þínum auð.

Vort líf og eign og bústað blessa

og blessa nú oss máltíð þessa.

En gef vér aldrei gleymum þér

er gjafa þinna njótum vér.

V.B.

Brennivínskjúklingur

Þetta er brennivínskjúklingurinn. Mér leist illa á að sulla grísku ouzo eða líbönsku arak yfir kjúkling. En ég var í góðu samfélagi fagurkera og matargerðarfólks sem var sannfært um að Ottolenghi væri treystandi. Við matreiddum því réttinn. Brennivínsbeygurinn þ.e. ouzo-óttinn hvarf snarlega þegar fulleldað var og bylgjur af ólíkum brögðum fóru um munninn. Brennivínið var horfið en anísvíddin var orðin ein af mörgum bragðvíddum í þessu rétti. Brennivínskjúllinn er bragðundur.

Fyrir fjóra

Hráefni

100 ml ouzo eða arak (lakkrísbrennivín)

4 msk ólífuolía

3 msk nýpressaður appelsínusafi

3 msk límónusafi

2 msk kornótt sinnep t.d. Dijon

3 msk ljós púðursykur

2 fennel (ca 500 gr)

1,3 kg kjúklingur– bútaður í 8 bita (ég nota stundum læri – og hluti þeirra úrbeinaður)

4 klementínur (ca 400 gr) skornar í sneiðar

1 msk tímían

2 ½ tsk fennelfræ – grófmöluð

Steinselja grófskorin til skreytingar

Matseldin

Setjið sex fyrstu hráefnin (ouzo og til og með púðursykur) í stóra skál og blandið og bætið við 2 ½ tsk salt og 1 ½ tsk svörtum pipar. Blandið vel og setjið til hliðar.

Snyrtið fennelboltana og skerið báða langsum í tvennt. Skerið hvern helming í fjóra bita langsum. Bætið fennel í vökvaskálina. Setjið kjúklinginn einnig í vökvann. Þá fara klementínusneiðarnar líka í vökvann, sem og tímían og fennelfræin. Blandið vel saman, setjið lok eða plast yfir. Marínerast í ísskáp einhverja klukkutíma eða yfir nótt. Í stressi tímaskorts má auðvitað sleppa þessum maríneringartíma – rétturinn verður vissulega góður en þó ekki eins bragðdjúpur og annars væri.

Hitið ofninn í 200 og notið viftuna. Setjið allt hráefnið í stórt eldfast mót (ca 30×40 cm), alla vega svo stórt að steikingarlagið verði ekki of þykkt. Húðin á kjúklingnum snúi upp. Steikt í 35-45 mín þar til kjötið er vel brúnað og gegnumsteikt. Takið úr ofninum.

Takið kjúklinginn, fennel og klementínurnar úr fatinu og komið fyrir í heitu fati (eða fallegum potti sem má bera fram) með loki. Tilangurinn er að halda heitu meðan vökvinn úr steikingu er soðinn niður. Sem sé: Takið allan vökvann úr ofnsteikingunni og setjið á pönnu og sjóðið niður, alla vega um þriðjung. Hellið síðan heitum vökvanum yfir kjúklinginn, skreytið með steinselju og berið fram.

Ljómandi að hafa sætar kartöflur með – góð uppskrift með pekanhnetum og hlynsírópi – sjá

Steiktar sætkartöflur með pekanhnetum og hlynsírópi !

Sumir vilja bankabygg með og ef fegurðarskyn og smekkur leyfir er hægt að bæta grænu salati við.

Þessi kjúklingauppskrift er úr Jerúsalem-bók Ottolenghi (179), sem ég fékk einu sinni fyrir skírn í húsi við Hagamel. Uppskriftin er líka á netinu: https://ottolenghi.co.uk/recipes/roasted-chicken-with-clementines-arak

 

 

 

 

 

 

Kjúklingur, sítróna og rósmarín

Þetta er ein af mínum uppáhaldsuppskriftum fyrir kjúklinagasteikingu. Ég breyti krydduninni í samræmi við hvað til er í ísskápnum eða laukagarðinum, en grunnurinn er góður og þolir ýmis frávik. Fyrir 4.

1 kjúklingur

3 litlar lúkur af ferskum kryddjurtum, t.d. basilíku, steinselju og salvíu, tætt í matvinnsluvél og sletta af maldonsalti út í

4 matskeiðar ólífuolía

1 sítróna, skorin til helminga

4 lárviðarlaufblöð

2-4 greinar af fersku rósmarín

Saltað og kryddað að smekk.

Forhitið ofninn og ofnskúffu í 200 gráður. Skolið kjúklinginn að innan og utan og þerrið vel með eldhúspappír. Nuddið kviðarholið með salti og takið síðan létt í húðina við endann á kjúklingabringunni og togið hana varlega upp. Notið hina höndina til að skilja húðina varlega frá bringunni. Troðið í bilið söxuðu kryddjurtunum. Látið síðan smávegis ólífuolíu drjúpa niður í kviðarholið, setjið síðan skornu sítrónuna, lárviðarlauf og rósmaríngreinar. Dragið húðina fram fyrir kjúklingabringuna svo ekki glitti í bert kjöt. Bindið síðan kjúklinginn þétt svo hann haldist vel saman. Nuddið húðina á kjúklingnum upp úr ólífuolíu og kryddið hana rækilega með salti og pipar.

Smyrjið ofnskúffuna með olíu. Leggið kjúklinginn með bringuna niður í skúffuna og setjið hana í ofninn. Bakið í 5 mínútur og snúið kjúklingnum yfir á hina hliðina, enn með bringuna niður. Bakið í aðrar 5 mínútur og setjið þá kjúklinginn á afturendann. Bakið í 70- 75 mínútur við 200 gráður.

Salat og uppáhaldsmeðlæti, þess vegna venjulegar eða sætar kartöflur – eða bygg eða hrísgrjón. Þessi er ættaður frá JO, kokki án klæða.

Þökkum Drottni því að hann er góður. Og miskunn hans varir að eilífu. Amen.  

 

Kjúklingur, spínat, tómatar og sæt kartafla

Ég eldaði þennan rétt eftir að Íslendingar sigruðu Frakka í handbolta með átta marka sigri, 29-21. Þetta var einn glæstasti handboltaleikur Íslendinga síðan gott silfur var gulli betra. Rétturinn er við hæfi á frábærum degi. Afar fallegur á diski. Svo voru allir svangir eftir mikil hróp og átök í sófanum 🙂

2 bakkar úrbeinaðir kjúklingaleggir

1 sæt kart­afla

1 poki spínat

1 dós niðursoðnir kokteiltómatar

1 lít­ill rauðlauk­ur fínskor­inn

Mangó- chutney 3 msk

2msk ólífur

Parmesan-ostur

Balsamik ca 1msk

Hitið ofn­inn í 190°. Flysjið sætu kart­öfluna og sneiðið með osta­skera, flysjara eða mandólíni. Látið sæt-kart­öfluflögurnar í stórt eld­fast mót eða fat. Sletta af góðri ólífu­olíu yfir, saltið og piprið og kryddið með eftirlætiskryddinu. Bakað í ofni í ca. 15 mín­út­ur.

Steikið kjúk­linginn á heitri pönnu. Kryddið með salti, pipar og rósmarín eða öðru eftirlætiskjúklingakryddi. Ég bæti oft chilikryddi við, en það er nú smekksatriði. Í lok steikingar setjið ofurlítið af mangó-chutney á kjúlinginn á pönnunni. 

Þegar kart­öfl­urn­ar hafa verið steiktar í 15 mínútur eru þær tekn­ar út. Þá er spínatið sett yfir sætu kart­öfl­urn­ar og síðan kjúk­ling­urinn yfir spínatið. Koktailtómatarnir og ólífurnar síðan sett yfir kjúkling og rauðlauk síðan þar yfir. Að lok­um parmesan-ostur og svolítilli ólífu-ol­ífuolíu skvett yfir allt.

Setja síðan í ofn og bakið í 30 mín­út­ur.

Þegar rétt­ur­inn kem­ur úr ofn­in­um er bal­sa­mik-ediki dreift yfir allan réttinn. Borið fram með fallegu salati. 

Þökkum Drottni því að hann er góður. Og miskunn hans varir að eilífu.