Greinasafn fyrir merki: kjúklingabaunir

New York kjúklingur með kjúklingabaunum

Halli, Ene, Steinar og Salka, danska fjölskyldan okkar á Friðriksbergi, komu frá Kaupmannahöfn og beint í kvöldmat. Við elduðum þennan fína New York kjúklingarétt. Það er gaman að gefa þeim að borða því þau eru bæði vinir og meistarakokkar. Þetta er einfaldur, bragðmikill ofnsteiktur réttur, upprunalega úr kokkhúsi Ottolenghi og þróaður að hætti NYT. Kryddblandan er glimrandi og skvetta af sherry-ediki í lokin styrkir bragð réttarins. Svo eru litirnir til að gleðja augun – sjón skiptir jú líka máli fyrir matargleðina.

(fyrir 4–8 manns)

Hráefni:

8 kjúklingalæri, um 1,5 kg

2 msk ras el hanout-kryddblanda (garam masala eða karríblanda í staðinn)

fínt sjávarsalt og svartur pipar

3 kartöflur, skornar í bita (u.þ.b. 2,5 cm þykka)

1 dós (400 g) kjúklingabaunir, skolaðar

3 meðalstórir plómutómatar, skornir í tvennt á lengdina

4 romano paprikur (þessar löngu og mjóu), skornar í tvennt á lengdina og stönglar fjarlægðir (eða 12 litlar paprikur)

1 hvítlaukur (heill haus), efsti hluti skorin af (um 1,5 cm) til að opna að rifjunum

180 ml extra-virgin ólífuolía

2 msk sherry-edik (má nota rautt vínedik eða balsam-edik í staðinn sem hefur auðvitað áhrif á bragð réttarins)

¼ bolli ferskt kóríander, gróft saxað (en má auðvitað nota steinselju eða álíka). 

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 190°C.
  2. Kryddið kjúklinginn með ras el hanout, 2 tsk salti og svörtum pipar. Setjið kjúklinginn á fat (um 33 x 46 cm) eða bökunarplötu og leyfið að marinerast í 10 mínútur. Ef ras el hanout er ekki til í kryddhyllunni má nota garam masala sem gefur sætara og mildara bragð. Karríblanda dugar líka, gefur ekki sömu dýpt og fer auðvitað í austurátt – bragðlega!
  3. Bætið kartöflum, kjúklingabaunum, tómötum, paprikum, hvítlauk, ólífuolíu og 1 msk ediki við. Blandið varlega þannig að allt verði olíubaðað. Dreifið öllu jafnt á plötuna og leggið síðan kjúklinginn ofan á – og með húðina upp.
  4. Bakið í 30 mínútur. Hristið plötuna varlega svo allt falli betur saman og myndi tiltölulega jafnt lag. Bakið áfram í um 35 mínútur – eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og vel brúnaður.
  5. Kreistið hvítlauksrifin úr hýðinu og hendið pappírskenndu hýðinu). Stappið tómata og hvítlauksmaukið með gaffli og hrærið saman við sósuna á plötunni. Stráið kóríander yfir og blandið saman. Skvettið síðustu msk af ediki yfir réttinn áður en hann er borinn fram.

Meðlæti sem velja má úr ( má líka nota allt ! )

Couscous eða perlubúlgur: Létt og  tekur vel við sósunni og kryddkeimnum. Má bæta við saxaðri steinselju, ristuðum möndlum eða rúsínum fyrir norður-afrískt ívaf.

Nanbrauð: Til að þerra upp sósuna af ofnplötunni! Að smyrja brauðið með hvítlauksolíu bætir!

Jógúrtsósa með myntu og sítrónu: Létt og hressandi mótvægi við djúpt kryddaðan rétt. Hrærið saman grískri jógúrt, smá sítrónusafa, rifnum hvítlauk, salti og fínsaxaðri myntu.

Grillað eða ofnbakað grænmeti: T.d. kúrbítur, eggaldin eða rauðlaukur. Ristað með ólífuolíu og tímían eða kúmmín.

Bæn: Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Ísraelskur flugfiskur að hætti El AL

Ísrael er orðinn kandídat í keppninni hvert sé besta matarland í heimi. Það er ekki einkennilegt því Ísraelar komu úr öllum heimshornum og tóku matarmenninguna með sér til nýja landsins. Þar hefur svo orðið sambræðsla og besta kokkhúsfólkið lærir hvert af öðru. Svo er Ísrael undraland ræktunar ávaxta og grænmetis og allt er ferskt. Kryddið á mörkuðunum – maður minn – betra verður það ekki. Þessi uppskrift var í flugblaði EL AL þegar ég fór heim. Yfirkokkurinn hjá ísralelska flugfélaginu vinnur stöðugt að nýjum uppskriftum fyrir matinn í háloftunum. Þegar ég vaknaði eftir næturheimkomu skaust ég í Krónuna og keypti í réttinn og eldaði svo fyrir mitt fólk í kvöldmatinn. Þetta er uppskrift frá Ísrael en fyrirmyndin kom upprunalega frá Marokkó. Ljómandi flugfiskur fyrir heimamat.

Fyrir fjóra

700-800 gr. þorskflök – eða annar uppáhaldsfiskur

Tómatdós – vökvinn síaður af

5 hvítlaukrif – skorin

1 chilli – fræhreinsað og niðursaxað

Kóríanderbúnt – niðursaxað

Kjúklingabaunir – dós af niðursoðnum baunum og vökvinn síaður frá

Ein lítil krukka af grilluðum paprikum – saxaðar

Sítrónusafi af einni sítrónu

1/2 tsk cummin

1 tsk reykt þ.e. sætt paprikuduft

1/2 tsk möluð kóríanderfræ

15 gr harissa

10 söxuð hvítlauksrif eða sletta úr krukku með hvítlauksmauki

Salt og pipar 

Mareiðsla

Steikingarolía sett í pönnu. Átti reyndar að vera harissaolía en ég átti hana ekki svo ég notaði góða olíu. Söxuðu hvítlauksrifin setti ég út í olíuna og chilli líka. Steikti lítillega og setti svo allt hitt gumsið á pönnuna og hrærði saman og sauð þar til megnið af vökvanum var gufaður upp. Skildi eftir ofurlítið af sítrónusafa og kóríander til að setja á í lokin áður en rétturinn var borinn fram. Smakkaði til og saltaði og piprði. Þorskinn skar ég í falleg stykki og setti síðan yfir blönduna á pönnunni, saltaði lítillega og pipraði og jós síðan pönnublöndunni yfir fiskstykkin. Sauð síðan fiskinn á pönnunni í 5-8 mín eða þar til fullsoðið var (ekki of lengi). Setti síðan sítrónusafann og skorna kóríander yfir og bar fram.

Ljómandi að bera fram með ristuðu nanbrauði eða súrdeigsbrauði og jógurtsósu. Nú svo vilja aðrir hafa með bygg, hrísgrjón eða bara karftöflur. Vatnsmelónurnar voru víða í Ísrael síðustu vikurnar svo ég saxaði niður helming með. Vatnsmelóna er ekki aðeins bragðgóð heldur poppar upp rétti. Best er að borða svona mat í Ísrael en næstbest að elda heima og borða með fólkinu sínu.

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.