Greinasafn fyrir merki: Kjartan Magnússon

Kjartan Magnússon +++

Kjartan settist í bílstjórastólinn, leit í speglana, hægra megin, vinstra megin, skaut augum upp í spegilinn sem sýndi allan vagninn. Og svo enn einu sinni leit hann í hliðarspeglana. Kjartan var yfirvegaður og öruggur bílstjóri, hafði fullkomið yfirlit, næma tilfinningu fyrir hættunum og þar með hvað gæti orðið. Það var ekki pat heldur stefnufesta, ákveðni og yfirvegun. Vagninn leið af stað og var smáum og stórum öruggur strætó. Þessum bílstjóra, þessum vagni, mátti treysta í umferðinni.

Ætt og ástvinir

Kjartan Magnússon fæddist í Reykjavík 11. ágúst, árið 1938. Hann var sonur Margrétar Kjartansdóttur og Magnúsar Þorkelssonar, sem lést um aldur fram (1958). Bróðir Kjartans var Ingi, átta árum eldri. Hann er látinn. Bræðurnir héldu heimili með móður sinni, þegar faðir þeirra lést. Eftir að Ingi kvæntist voru þau tvö eftir Kjartan og Margrét og áttu saman tveggja manna heimili í mörg ár. Þegar Hallfríður Birna Skúladóttir kom inn í líf hans var þeirra heimilisfaðmur opnaður fyrir henni.

Börn Kjartans og Hallfríðar eru Auðunn og Margrét. Auðunn er kvæntur Ingu Dóru Kristjánsdóttur og eiga þau þrjú börn. Þau eru: Kjartan Sölvi, Kristján Einar og Stefán Heiðar. Eiginmaður Margrétar er Þröstur Sívertsen. Börn þeirra eru: Ívar Atli, Hallfríður Birna og Sigurður Snær. Hallfríður og Kjartan gengu í hjónaband á jólum 1968. Tveimur árum síðar keyptu þau íbúð á Hagamel 32. Þar bjuggu þau í 34 ár.

Uppvöxtur

Kjartan ólst upp í Höfðaborginni, sem er á því svæði þar sem Borgartún er nú, og því við Höfða. Gríðarlegur hópur barna var samankomin á svæðinu. Það gekk því mikið á í lífi þeirra Inga og allt þetta litróf mannlífs, sem þeir urðu vitni að og tóku þátt í varð þeim til lærdóms og innsæis. Kjartan lærði að umgangast ólíkt fólk og varð afar hæfur í samskiptum. Hann var alla tíð næmur á eigindir og gerð fólks, gerði sér grein fyrir hvað fólk vildi, hvers það óskaði sér, hvar brestir þess voru, hverjir voru að þykjast og hverjir væru traustsins verðir. Hverjum var í lagi að tengjast og vinna eða leika með. Alla tíð mundi hann hver bjó í hvaða húsi, hafði þetta trausta yfirlit um líf, hver var hver og hvernig þessi eða hinn væri eða við hverju mætti búast. Yfirsýn þroskaðist og innsæi einnig.

Skóli og vinnusókn

Eftir að skylduskóla lauk réð sjálsbjargarhvöt og dugnaður. Kjartan hóf launavinnu og kom víða að verki. Hann vann verkamannavinu við höfnina. Þegar hann hafði aldur til tók hann strax bílbróf og síðan meirapróf og hóf að aka stórbílum. Og það urðu vagnarnir og stórbílarnir, sem voru verkfæri Kjartans í marga áratugi. Hann vann hjá Steindóri, um tíma við akstur vörubíla hjá Hafskip, en síðan hjá Strætisvögnum Reykjavíkur í 35 ár. Samtals var Kjartan yfir fjörutíu ár við akstur, líklega nær 43.  

Skiplagður – snyrtimenni

Kjartan vildi gott skipulag og festu í lífinu. Hann lagði bílnum sínum í sama stæðið hinum megin götunnar. Þar var hægt að sjá til hans. Hann vildi hafa yfirlitið. Hvernig hann vaktaði sjálfur sinn bíl var vottur um aðra yfirsýn og skikkan, sem Kjartan vildi hafa. Hann var reglumaður, skipulagður, fastur fyrir og ákveðinn. Eins og í öllum verkum var hann traustur í heimilishaldinu og stöndugur í vinnunni. Hann var snyrtimenni, hafði allt í röð og reglu. Hann var einnig glæsimenni á velli einnig.

Heilsurækt

Kjartan bar í líkama sínum heilsuveilu. Faðir hans hafði fallið vegna hjartaáfalls í miðju dagsverki. Sonurinn erfði veilu föðurins. En til aðvinna gegn henni sinnti Kjartan líkamsrækt sinni með sömu festu og reglusemi sem í öðru. Þau Hallfríður fóru saman í sund á hverjum degi. Með því juku þau sín lífsgæði og líka lífsgleði. Allir, sem koma úr langri sundferð í laugunum, eru léttir á sál og líkama. Árbæjarlaugin reyndist þeim hjónum vel.

Skemmtun og kímni

Kjartan hafði gaman af fólki. Hann hafði áhuga á málefnum líðandi stundar, tengslum þeirra við fólk og hvar hugur og hugðarefni einstaklinganna fóru saman. Trúnaðinn hafði hann gaman að reyna og nokkrar athugasemdir reyndu á viðmælandann. Ef þeir þutu upp í vörn eða skapi þurfti ekki meira. Þá var áreitið búið frá Kjartans hálfu. Með svolítið bros út í annað gat hann snúið sér að næsta máli eða manni. Hann var stríðinn, en ekki til meins. Honum þótti vænt um viðmælendur og leitaði eftir hvar veilurnar voru. Það var mannelska og leikur fólginn í list hans. Og það er mikilvægt að reyna fólk til þroska án þess að meiða, eins og Jesús og reyndar Sókrates líka sýndu forðum. Þegar dóttir Kjartans þaut ekki lengur upp, vissi hann að hann var að eldast og andvarpaði.

Fjöskyldumaðurinn

Fólksgamanið náði sinni mestu dýpt og bestu vídd gagnvart fjölskyldufólki Kjartans. Hann sinnti uppeldi barna sinn með ákveðni og áhuga. Hann var traustur  eiginmaður. Hann sýndi í hjúskap sínum það, sem er hvað mikilvægast í hjónabandi vináttu og virðingu fyrir maka sínum, sem kom fram í stuðningi og festu. Kjartan var elskur að öllu vensla- og tengsla-fólk sínu, var góður við tengdamóður sína, tengdur mágkonum sínum og mökum þeirra. Hann sóttist eftir að vera þar sem fjölskyldufólk hans var. Honum þótti gott að vera með fólkið sitt í kringum sig. Uppí Munaðarnesi var hann alsæll í faðmi fjölskyldunnar. Hann var gestrisinn og örlátur höfðingi í tengslum. Hann skildi gildi fagnaðarins, vildi halda góðar veislur og hafa hönd í bagga með matarmálin. Hann bakaði sjálfur og fór meira segja á kokkanámskeið til að bæta matargerðina. Faðir hans var honum fyrirmynd. Kjartan notaði sem orðatiltæki þegar einhverjum tókst vel til, að maturinn væri eins góður eins og hjá pabba.

Kjartan var sérlega natinn afi. Hann talaði við barnabörnin, ók þeim þangað sem þau þurftu eða vildu fara. Hann fór með þau í búðarferðir, fræddi þau og var þeim fyrirmynd. Kjartan var dulur en barnabörnin drógu allt það fínasta og besta fram hjá honum. Hann umlauk þau með allri þeirri elsku, sem hann átti. Þau hafa misst mikið og öflugan umboðsmann. Á tímum þegar kynslóðir eru að slitna í sundur var Kjartan skýr vitnisburður um ríkidæmi þess, að hinir eldri séu hinum yngri stoð og stytta, fordæmi og elskunánd. Hann átti tíma fyrir börnin, fara með þeim eða bara vera og spila við þau rommy eða Olsen Olsen, skemmta þeim og hlægja með þeim. Slík afstaða og iðja skapar traust í barnssálum og er í samræmi við fyrirmyndina sem við eigum besta, Jesú.

Hið guðlega samhengi

Mannlífið er undursamlegt og með því að skoða fólk ástaraugum getum við séð ljósbrot af himnum. Með því að skoða líf Kjartans getum við skilið ofurlítið af eigindum Guðs. Í Davíðssálmum segir: “Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. …. Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins.” Þessi veröld sem við gistum er góð, mikill salur gæða. Allt hið smæsta sem hið mesta er undursamleg smíð. Allt er á hreyfingu,  í samfelldri verðandi. Hin fornu trúarskáld lifðu og tjáðu þessa grunntilfinningu og sáu í umhverfi, í mannfélagi, í samskiptum fólks og lífsbaráttu þess það sem heitir Guð á máli okkar.

Þegar fegurð fjallasals hrífur og lítil mannsaugu horfa upp í óendanleikann er hægt að orðfæra að Guð hvelfi hásal sinn. Þegar hvelfingin er samfellt sjónarspil ljósa, hræringa og lita er guðlegt drama. Og Guð gerir skýin að vagni sínum. Maðurinn fer um, maðurinn gerir sér farartæki til ferða. Guð er enn öflugri, ljóðmál trúarinnar tjáir að Guð fari um á vængjum vindsins. Allt er í öruggri umsjón, allt er gott, allt er í verðandi þess sem er traust, því Guð er, umspennir alla hvelfingu veraldar, er jafnvel í skýjum, fer um og hefur ástartilsjón með okkur mönnum og lífinu öllu. Veröldin er góður farkostur, í öruggum höndum þess sem er traustsins verður.

Kjartan Magnússon hefur lagt upp í sína hinstu ferð. Hann fer ekki framar leinangra með Hallfríði eða barnabörnin sín í hvíta bílnum. Benzhúfan hans liggur eftir munaðarlaus þar sem hann skildi við hana á lokadegi. Kjartan fer ekki lengur neinar sendiherraferðir hjá Strætó. Þessi ábyrgi og fyrirhyggjusami ferðamaður og bílstjóri ekur nú ekki lengur fjarkan eða sjöuna okkur hinum til gagns og með fullkomnu öryggi. Nú er hann á vagni himinsins, sem er númerslaus, skortir aldrei orku, bilar aldrei, þar sem yfirsýn, öryggi og hreinlæti er algert og engin slys verða. Þar er Kjartan öruggur því þar er Guð, sem er allt og gerir allt kvikt. Guð geymi hann og verndi að eilífu.

“Lofa þú Drottin, sála mín! Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd. Þú hylur þig ljósi eins og skikkju, þenur himininn út eins og tjalddúk. Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins. Sálmur 104. 1-3.

  1. júlí 2004