Greinasafn fyrir merki: Jón Þorsteinsson

Nonni frændi dáinn

Raddfegurð, hlátur og broshlýja einkenndu Jón Þorsteinsson. Ég vissi lítið um Nonna frænda fyrr en  ég hitti hann í Noregi veturinn 1973 – 74. Þar var hann við nám í hjúkrun og djáknafræðum og hóf síðan söngnám sem hann stundaði í Noregi, Danmörk og á Ítalíu. Einu sinni kom Nonni frændi í Íslendingahóp eins og brosandi stormsveipur, talaði hátt, hló hjartanlega, felldi dóma um flest og talaði fjálglega um nám sitt og hugðarefni. Mér þótti hann bæði heillandi og yfirþyrmandi.

Nonni vildi alltaf vera Nonni frændi.  Ólafsfirðingurinn hafði mikinn áhuga á hálfum Svarfdælingnum og rakti okkur snarlega saman. Ef hann fann ekki raunveruleg ættartengsl sem hefðu dugað til skráningar í Íslendingabók var frændríki hans samt opið og hann bauð nýtt fólk velkomið. Allir urðu frændsystkin Nonna. Að gera fólk að frændum og frænkum var skilvirk aðferð Nonna við að komast inn fyrir skinnið og tengja. Að hafa tilfinningu fyrir að vera öðru vísi og berjast við að koma úr skápnum kallaði á og agaði aðferð hans við að frændgera samferðafólk sem honum hugnaðist. 

Í Oslo fylgdist ég með innri orustum Nonna við tónlistina, röddina, hneigðir, einstaklinga og líka Guð. Í Nonna bjuggu mörg heimsveldi tilfinninga, oft í friði en áttu stundum í miklum ófriði. Þá leið honum ekki vel og þurfti að blása. Vinir hans urðu vinir í raun. Eftir 1980 fléttuðust Guð og tónlistin æ meira í lífi Nonna. Árið 1981 vann hann fyrstu verðlaun í keppni kon­ung­lega kirkju­tón­list­ar­sam­bands­ins í Hollandi og eftir það sneri hann sér síðan æ meir að kirkjulegum söng og túlkun trúarlegrar tónlistar. 

Tónlist og trú og leiddu saman Nonna og Lilju, móðursystur mína. Þau áttu skap saman og voru bæði frændrækin. Hún skildi tilfinningaglóð hans og hafði gaman af listfengi hans og skopskyni. Hann virti talandi skáldið og fann í Lilju umhyggjusama móður sem þoldi að heyra allt. Þær Brautarhólssystur umvöfðu lífsháska Jóns Þorsteinssonar með kærleika og fyrirbænum. Nonni vissi að honum væri óhætt í návist þeirra. Hann var þakklátur fyrir viðurkenningu þeirra og tjáði mér hve mikils virði elska Lilju hefði verið honum.

Nonni frændi var dramatískur í samskiptum. Stundum flókinn og rosalegur en oftast heillandi. Ég er þakklátur fyrir röddina hans Nonna frænda og söng, sögurnar, hlýju og vinsemd. Guð geymi hann í ómhúsi eilífðar og líkni Ricardo og ástvinum hans.

Myndin er af Jóni og Lilju Sólveigu í afmæli hennar. 

Æviágrip

Jón Þor­steins­son fædd­ist í Ólafs­firði 11. októ­ber 1951. Foreldrar hans voru Þor­steinn Jóns­son­ og Hólm­fríður Jak­obs­dótt­ir. Hann stundaði hjúkr­un­ar­nám í Nor­egi og söngnám í Oslo, Árósum og Mod­ena. Um tveggja ára skeið söng Jón í óperu­kór Wagner-hátíðal­eik­anna í Bayr­euth. Árið 1980 varð Jón söngvari hjá Rík­is­óper­unn­i í Amster­dam þar sem hann starfaði í rúm­an ára­tug. Síðustu þrjá ára­tugi æv­inn­ar kenndi Jón söng við ýmsa tón­list­ar­skóla á Íslandi og Tón­list­ar­há­skól­ann í Utrecht þar sem þjálf­un ungra söngv­ara af ólíku þjóðerni átti hug hans. Jón Þorsteinsson lést 4. maí, 2024. 72 ára að aldri. Eft­ir­lif­andi eig­inmaður hans er Ricar­do Bat­i­sta da Silva. Myndin hér að neðan er frá tónleikum Jóns Þorsteinssonar í Neskirkju í Reykjavík 23. nóvember 2007. Við orgelið er Hörður Áskelsson. Myndir sáþ.