Greinasafn fyrir merki: Jón Samsonarson

Jón Samsonarson 1931-2010 – Minningarorð

Englar, Freyjur, Bokki í brunni, land míns föður, Jónar, nunnur, mágar og faðir minn! Það er sérstæð efnisflétta sem við höfum þegar notið í þessari athöfn: Ólíkt efni, söngur um bláan straum, auglit sem vakir og svo kveðskapur um flug til himintungla og för inn í himinn. Þessir textar minna á ríkulegan orðageim, sem Jón Samsonarson bjó í og naut á vinnustofu eða með fólkinu sínu. Maðurinn fæðist nakinn í heiminn og verður ekki að manni nema í gagnlegum spjörum menningar. Jón sat löngum við þá menningarlegu tóvinnu að greiða vel úr svo að börn framtíðar nytu sér til skjóls og manndóms. Nú eru skil. Við kveðjum æðrulausan, þolgóðan öðling, Jón Samsonarson, rifjum upp atvik, tengingar við eigið líf, vinnustað hans, áföll, fræði, fjölskyldu, samferðamenn og velgjörðarmenn. Blessum minningu hans og spyrjum gjarnan um eigin hamingjuleiðir.

Fyrir hverja eru minningarorð í kirkju? Ekki fyrir englana og ekki þarfnast Guð ræðu prests eða annars manns fyrir handritahvelfingu himinsins. Ekki verður líkræða til að staðfesta gildi hins látna – heldur er hún fyrir lífið, fyrir þig og nesti til þinnar lífsferðar – fararblessun.

Uppruni

Jón Marínó Samsonarson fæddist um miðjan vetur á Bugðustöðu í Hörðudal árið 1931. Foreldrar hans voru Margrét Kristjánsdóttir og Samson Jónsson. Hann var yngstur í systkinahópnum. Eldri voru Þórunn Laufey, Kristján, Fanney og Árni, sem öll eru látin og Árni dó í bernsku, sama ár og Jón fæddist. Kolbeinn, fóstbróðir þeirra systkina, fæddist 1944. Ómar, sonur Laufeyjar, hefur reynst frændfólki sínu vel og er honum þakkað.

Mótun

Jón ólst upp við sveitastörf, mótaðist af sveitamenningu, gildum hennar og viðmiðum en ekki höftum. Í honum bjó menntaþrá og Svartar fjaðrir Davíðs Stefánssonar urðu til að menntavonir hans náðu flugi, hann stæltist og ákvað sókn til náms. Jón fór suður og lauk grunnskólanámi í Reykjavík. Svo tók við Menntaskólinn í Reykjavík og hann lauk stúdentsprófi árið 1953.

MR-ingar þekkja Selið og Jón fór í skólaferð þangað og þar var líka Helga Jóhannsdóttir. Þau áttu skap saman, töluðu greitt, nutu samvistanna og elskan óx. Svo keyrði faðir Helgu þau niður í bæ 31. desember 1953 og þau voru gefin saman í hjónaband. Þá var Heiðbrá í gerðinni og Helga komin þrjá mánuði á leið. Hjúskapur þeirra lánaðist vel og Helga varð hans frú Fortuna, lánið í lífi Jóns.

Þau áttu sitt fyrsta heimili á Tjarnargötunni. Jóhann Sæmundsson, tengdafaðir hans, kenndi sér meins og trúði Jóni fryer, að hann væri sjúkur og til dauða. Þeir réðust í að byggja á Melhaga 11 til að stórfjölskyldan gæti búið saman í stóru fjölskylduhúsi. Þar bjuggu síðan í nánu sambýli fólk á öllum aldri og konurnar voru í miklum meirihluta. Heimilislífið var fjörlegt á þessu stórbýli og Jón Samsonarson var aðalkarlinn í húsinu og axlaði ágætlega þá ábyrgð að veita festu og skipan, sem tengdafaðir hans hafði falið honum áður en hann lést.

Dæturnar

Í samræmi við kynjahallann í húsinu eignuðust Jón og Helga fjórar dætur og eiginlega í fyrri og seinni hálfleik.

Elst er Heiðbrá, stærðfræði-hagfræðingur. Maður hennar er Einar Baldvin Baldursson. Börn þeirra eru Soffía og Baldvin. Fjölskyldan býr í Árósum.

Næstelst systranna er Svala, myndmenntakennari. Dóttir hennar er Helga Jónsdóttir.

Þiðja er Hildur Eir, löggiltur endurskoðandi í Madrid, gift José Enrique Gómez-Gil Mira. Börn þeirra eru Jón og Rósa.

Yngst systranna er Sigrún Drífa, gæðastjóri, og maður hennar er Árni Sören Ægisson. Börn þeirra eru Íris Eir, Sóley Margrét og Eiður Ingi.

Námsár

Jón stundaði nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands, var afburðanemandi og lauk námi árið 1960 og fékk ágætiseinkun, sem sætti tíðundum. Meistaraprófsritgerð fjallaði um sr. Bjarna Gissurarson í Þingmúla. Það rímaði vel við störf hans síðar í Stofnun Árna Magnússonar, að hann skilaði ritgerð sinni fagurlega handritaðri en ekki bara vélritaðri. Menningarsjóður gaf svo út árið 1960 bókina Sólarsýn, sem er byggð á ritgerð Jóns og dregur fram hið bjarta, skemmtilega og gleðilega í menningu sautjándu aldar.

Þau Jón og Helga fóru síðan utan til Kaupmannahafnar til náms. Jón var undir vængbarði Jóns Helgasonar og varð sendikennari. Helga gekkst við tónlistarhneigð sinni og hóf nám í tónlistarfræðum. Kaupmannahafnarárin urðu ríkulegur og góður tími. Allt gekk þeim í hag, lifið á Händelsvej var gott, steplurnar voru efniskonur. A þessum árum voru stelpurnar tvær, Heiðbrá og Svala og fjölskyldumynstrið allt annað en síðar varð. Þetta var góður og yndislegur tími samrýmdrar fjölskyldu. Dæturnar eignuðust dönskumælandi vini. Húsakynnin voru lítil, en lífið var þeim öllum gjöfult og lærdómsríkt.

Jón Helgason felldi þann úrskurð, að þegar nafni hans hélt einhverju fram, þyrfti hann ekki að efast um að rétt væri. Úr stórum hópi glæsifræðimanna var Jón nákvæmastur og því gat nafni hans Helgason treyst. Sú eigind einkenndi fræðimennsku hans og líf. Þegar Jón Samsonarson uppgötvaði eina stafsetningarvillu í bók, sem hann gaf út síðar varð honum að orði: “Þetta er ónýt bók.” Á Hafnarárunum gekk Jón frá riti um kvæði og dansleiki í tveimur bindum, og treysta má því sem þar er skrifað og engum sögum fer af stafsetningarvillum.

Samfélagið Árnastofnun

Handritastofnun varð til með lögum árið 1962 og fékk seinna nafnið Stofnun Árna Magnússonar. Fyrstu árin voru fastir starfsmenn aðeins þrír. Árið 1968 kom Jón Samsonarson frá Danmörk og gekk til liðs við stofnunina. Samfélag fræðinganna var ljómandi, glatt á hjalla, mikill metnaður í vísindunum og tímarnir spennandi, handritin á leið heim, ekki aðeins “Vær so god – Flatöbogen” heldur fjársjóðir til að rannsaka og sýna.

Jón Samsonarson var miðvörður í landsliði íslenskra fræða og naut sín. Sérsvið hans voru saga og bókmenntir tímans eftir siðbreytingu. Í samráði við Jónas Kristjánsson hóf hann rannsóknir og útgáfu kjarnaveka í bókmenntasögu þessa tíma. Jón vissi vel af fræðaeyðum og vildi að skipulega yrði gengið til verka og undirstaðan yrði réttleg fundin. Jöfur stóð að baki og verklagið var gæfulegt. Margir hafa síðan notið grunnvinnu Jóns. Hann átti í sér kyrru, einbeitni og æsingalausa dómgreind, sem var þörf til mótunar gjöfulla verkferla. Hann var ósínkur á tíma í þágu fræða og fólks. Jón var góður kennari, miðlaði ekki aðeins fræðum, handritasýn og samanburði, heldur kenndi nemum sínum einnig vinnubrögð agaðra útgáfufræða.

Klaustralif

Stofnun Árna Magnússonar hefur verið sérstæður heimur og minnir um sumt á klaustur. Dyr voru læstar, allir áttu sinn stað og ramma. Vissulega var engin tíðagerð en hrynjandi árs og daga var í skorðum, kaffið á ákveðnum tímum og starfsmenn áttu sér sitt communio. Í þessum heimi voru líka englar, handrit, tíma- og söguþykkni, hefðir, reglur, ritúöl og skýr hlutverk. Kannski var ekki bænagerð en unnið að kraftaverkum samt. Í þessu fyrimyndarklaustri var einlífið möguleiki en ekki skylda, bænir leyfðar en ekki boðnar. Árnastofnun var samfélag, sem iðkaði margt það besta í klaustrum en sneiddi hjá mörgu því versta.

Svo þegar áföll dundu yfir kom í ljós að félaganna, bræðranna, var vel og dyggilega gætt. Þess naut Jón Samsonarson eftir heilablóðfall árið 1984. Samfélag stofnunarinnar fangaði hann vel og studdi. Þið vinir og samstarfsmenn megið vita að verk ykkar og afstaða er bæði metin og virt. Þökk sé ykkur, þökk sé stjórn, ábótum og jöfrum Árnastofnunar. Þetta er gott og gjöfult klaustur og góð regla sem ástæða er til að styðja – Íslandi, fræðum, tungu og menningu til góðs.

Prívatlífið

Fyrir utan fræðamúrana átti Jón Samsonarson ríkulegt líf. Kvennahúsið á Melhaga 11 var gott. Tuttugu ár voru milli elstu og yngstu dætranna og því strekktist vel á barnatíma fjölskyldunnar. Og lífríki heimilisins varð bara fjölbreytilegra og Jón aðlagðist mismunandi kröfum og dætur hans og kona voru umburðarlyndar við hann. Það eru ekki margar nútímakonur, sem hafa notið glæsilegrar bókmenntakennslu á gönguferð í og úr leikskóla eða fengið hraðferð í Njálu ef gönguferðin varð löng.

Helga var þjóðlagafræðingur og var frumkvöðull í að taka upp söng og kveðskap. Þau Jón ferðuðust um Ísland og hittu fólk, sem dætrum þeirra þótti sumt skrítið, en foreldrar þeirra mátu að verðleikum, tóku upp kveðskaparefni þess og söng. Þetta upptökusafn, mikið djásnasafn, er síðan varðveitt og fræðimönnum aðgengilegt.

Þau hjón voru líka ferðagarpar, gengu á fjöll og yfir jökla. Dætur þeirra nutu þessa og fjölskyldan bjó í tjöldum jafnvel í margar vikur í senn – í Skaftafelli, í Þórsmörk og víðar. Bílleysi var engin fyrirstaða, stutt var á BSÍ og svo var haldið á vit ævintýra og allir gátu notið sín, þau eldri í göngum og þau yngri að leikjum við tjald. Jóni þótti það nánast manndómsmerki að stunda útivist og vildi að barnabörn hans lærðu að ganga á íslensk fjöll.

Öllum var hann elskulegur og umhyggja hans átti sér fá takmörk. Ef ráðalaus róni varð í vegi hans lagði hann Kristslega lykkju á leið sína til að aðstoða hann í hús og skjól.

Þau Jón og Helga voru samstiga í þjóðmálum, vildu her úr landi og oft gengu þau sunnan úr Keflavík til að hóa hernum burt úr engi íslenskrar menningar. Þau höfðu erindi sem erfiði, þó síðar yrði. Helga lagði málefnum jafnréttis og kvenfrelsis lið og Jón stóð við bak – eða gekk við hlið hennar – bæði í orði og lífi.

Jón ólst upp meðal vísugerðarmanna. Hann naut þeirrar mótunar ekki aðeins í störfum heldur hafði gaman af að vera með kvæðamönnum og fór í ferðir með þeim.

Vandaður, góður maður

Jón Samsonarson var heilsteyptur maður, vandaður, frómur, hógvær, ljúfur og agaður. Hann var maður traustsins, orðvar og umtalsfrómur. Hann tamdi sér reglu og skóp festu í lífi síns fólks. Glaðlyndur og eftirlátur, gjöfull og félagslyndur, veitull og virðingarverður. Jón var staðfastur og líka á raunastundum var hann æðrulaus um sín mál og sinna – gerði það sem í hans valdi stóð og virti mörk sín og annarra.

Nú er þessi bókfróði fræðaþulur farinn. Nú hefur hans lífsbók verið lokað. Ég mun ekki túlka hana frekar, í þeim fræðum eru aðrir mér fremri og nákvæmari, bæði þessa heims og annars. En eftir hann liggja verk, orð, blöð, ævistarf og svo lifandi fólk.

Jón Samsonarson helgaði sig lífi bóka, handrita, menningar og fræða. Kristnin vefst inn í þá veröld með ýmsum hætti og með ýmsu móti. Kristnin er bókarátrúnaður og því varð íslensk menning orðrík og bókrík. Orðið biblia þýðir einfaldlega bækur. Í því bókasafni er rætt um mikilvægi þess að rita niður það sem máli skiptir og um bækur. Þar er talað um lífsins bók og bók sannleika. Esekíel spámaður borðaði meira að segja bók! Jesús Kristur las upp úr bók til að tjá fólki hver hann væri og til hvers hann lifði. Jóhannes guðspjallamaður byrjaði með orð til að tjá veruleika lífsins, forsendur þess og tilgang. Orð voru við upphaf veraldar. Hebrear álitu Guð vera skáld lífsins, höfund allrar hugsunar og þar með veraldar.

Lífi Jóns er nú lokið og samkvæmt Biblíunni er þar með nýtt upphaf og sólarsýn. Við megum velja sjónarhól og túlkun og mér hugnast að sjá Jón Samsonarson fyrir mér í stórkoslegri handritahvelfingu og með aðgang að handritunum – sem alltaf vantaði í heimi tímans. Danshópur er nærri og sýnir honum hvernig vikivakar voru dansaðir á fyrri öldum, og svo eru öll mál kveðskapar leyst og allir eru glaðir í þessu himneska kvæðamannafélagi. Já, og Árnastofnun himinsins er bara til í hátíðaútgáfu. Þetta er sólarsýn, kristnin er átrúnaður hins bjarta og vonarríka. Guð kannast við heiminn vel krossaðan, veröld okkar er helguð og því góð.

Á miðvikudaginn stóðu hinar glæsilegu dætur Jóns við höfðagafl kistu föður þeirra. Tvær föðmuðust, svo komu hinar tvær og föðumuðu þær sem fyrir voru – í faðmlaginu mynduðu þær kross. Átta hendur vöfðust saman og þær mynduðu elskuskúlptúr, sem var fegurrri en nokkur skúlptúristi hefði getað meitlað. Þær voru að kveðja föður, en líka líf foreldra. Líf þeirra hefur ofist saman og þær eru næsti liður í keðju kynslóða. Þeirra er að ganga hamingjuleið, leið lífsins, til elskuauka fólks. Þær mynduðu kross – börn hafa um aldir verið krossuð á bak og brjóst. Kross er strikamerki himins og tjáir elsku og vernd. Þær njóta hennar.

Blessuð veri minning Jóns Samsonarsonar. Góður Guð geymi hann um alla eilífð – og vitji þín á þinni göngu, styrki og blessi.