Greinasafn fyrir merki: Hildur Þórðardóttir

Hildur Þórðardóttir – minningarorð

Hildur hafði allt aðra og betri sýn á fólki en svo, að sjá í þeim ógn. Hún sá gleðigjöf í öðrum, möguleika á lífi og enn meiri skemmtun og fjölbreytileika. Hún var þar með kona framtíðarinnar, boðberi góðs fjölmenningarsamfélags. Hér að neðan eru minningarorð um Hildi í minningarathöfn í september 2007.

Staldraðu við, leyfðu minningum að lifna hið innra. Hver er skemmtilegasta minningin, sem þú átt um hana? Leyfðu henni líka að koma fram í hugann.

Þegar við syrgjum og kveðjum þurfum við að leyfa öllu að koma fram og leyfa því að lifa, sem nærir elskuna, eflir hið góða. Við getum lært lífsfærni af þeim, sem við kveðjum og getur orðið til að efla okkur til lífshamingju.

Hildur var órög. Hún þorði, að prufa það sem var nýtt, bæði í hinu nána sem hinu fjarlæga. Engu skipti hvort það var litun á eigin hári eða skoðun fjarlægs heimshluta. Hildur þorði að segja sína skoðun, þorði að hafa orð á ef hún sá eitthvað fallegt. Hún var órög að eiga orðastað við þá, sem hún hitti á förnum vegi og hafði ekki síst gaman af ef það var fólk, sem var langt að komið, kom frá annarri menningu, bar með sér nýjan andblæ og ferskan vind. Hvað var það sem Hildur gaf þér, kenndi þér, skildi eftir hjá þér, sem getur gert þig að betri manneskju og getur eflt þig til hins góða lífs?

Líf og fjölskylda

Hildur Þórðardóttir fæddist í Reykjavík 12. apríl árið 1962. Foreldrar hennar voru hjónin Karen Lövdahl, sem lifir dóttur sína, og Þórður Júlíusson, verkfræðingur, sem lést fyrir liðlega tíu árum. Hildur bjó fyrstu árin á Laugarnesvegi 102 eða þar til fjölskyldan flutti á Bakkaflöt 5 í Garðabæ. Eldri systkinin eru Jóhanna Halla (f. 30.10. 1952). Hennar maður er Rúnar Björgvinsson. Snorri er næstelstur (f. 2.4. 1955) og er kvæntur Sigrúnu Óladóttur. Tveimur árum fyrir fæðingu Hildar, sem við kveðjum í dag, fæddist stúlka, sem lést í frumbernsku. Hún hét Hildur líka og fékk yngri systirin nafnið í arf að hinni látinni. Yngsta barn Þórðar og Karenar var svo Þórður, sem fæddist 1964 og hann lést aðeins nokkurra daga gamall. Þung áföll riðu því yfir fjölskylduna með stuttu millibili. Hildur var því eins kraftaverk lífsins.

Hildur gekk í skóla í Laugarnesinu og svo í Garðabæ. Eftir skyldunám hóf hún nám í hárgreiðslu við Iðnskólann í Reykjavík og vann um tíma á stofu í Hafnarfirði. Síðar fór hún svo með manni sínum í Englaborgina, Los Angeles, og lærði leikhúsförðun.

Hildur var til í víking erlendis. Ung hleypti hún heimdraganum, fór til Noregs og síðan til Svíþjóðar. Það var jafnan líf og fjör í kringum hana, kátir Íslendingar, og auðvitað dróst að þeim glaðsinna fólk. Einn af þeim sem heillaðist var Ingemar Bäck. Þau gengu í hjónaband í nóvember árið 1982, bjuggu um tíma á Íslandi en settust síðan að á heimaslóð Ingó í paradísinni Trosa í sænska skerjagarðinum. Þar setti Hildur upp sína stofu og var sjálfstæður atvinnurekandi alla tíð.

Hildur og Ingó eignuðust tvö börn: Erik Örn (f. 19.01. 1985) og Malin Eir (f. 25.06. 1987). Þau lifa móður sína, búa í Svíþjóð eins og Ingó. En þau Hildur skildu árið 2001, en hann eins og börnin voru afar natin við Hildi þegar hún átti í veikindum sínum síðasta ár og mánuði. Er þeim þakkað, sem og Jóhönnu sem var systur sinni stoð og styrkur í þessari lífsins áraun, sem hún varð fyrir og féll fyrir að lokum. Sama má segja um Guðrúnu frænku hennar í Trosa.

Hildur Þórðardóttir lést á sjúkrahúsi í Nyköping 23. ágúst síðastliðinn og var jarðsett í Västerljung á föstudaginn var, 14. september síðastliðinn. Hildur var lögð til hinstu hvílu á undurfögrum stað, sem hún hafði valið sjálf. Hún nam fegurð þar sem fegurð var að nema, þráði fegurð í lífinu og lagði sitt til að auka fegurð veraldar. Nú hvílir hún þar sem fegurðin ríkir ein.

Minningar og stiklur

Hvernig manstu Hildi? Hver er myndin í huganum?

Í erfidrykkjunni á verður skyggnusýning sem systkinin hafa útbúið með svipmyndum úr ævi Hildar. Þið getið horft á myndirnar. En ykkur stendur líka til boða að taka til máls og segja frá ykkar minningum. Hildur var glöð og við megum gjarnan minnast hins skemmtilega, segja gleðisögur eða mikilvægar minningar um hana. Verið órög ef þið hafið löngun til að tala.Tækifærið gefst í safnaðarheimilinu.

Já, Hildur var glaðsinna. Hún gekk að flestu, bæði verkum og mönnum með opnum huga og hleypidómaleysi. Henni þótti gaman að leikhúsferðum og að fara í bíó. Hún hló með glaðsinna fólki, leitaði í fjölbreytni, fannst gaman að ferðast, naut þess að koma til Íslands og hitta ættingjana, vinina, ykkur sem eruð hér í dag. Hún elskaði góðan mat, þótti hnallþórur mikilvægur íslenskur kostur og aldeilis nauðsynlegt að halda í þá góðu samlagshefð að margir legðu saman í kaffihlaðborð. Því er í erfidrykkjunni slíkt hlaðborð og í samræmi við Hildarstefnuna.

Handverkið hennar var í hárinu á fólki og til að vinna það verk vel þarf vandvirkni en líka næma fingur, fimar hendur og listfengi. Hildur málaði svo í frístundum á síðari árum. Hún var líka ræktunarkona og vildi hafa mikið af blómum í kringum sig. Túlípanar voru uppáhaldsblóm hennar og þó ekki væri blómgunartími þeirra á þessum haustdögum – sagði fólkið á útfararstofunni í Svíþjóð, að fyrst túlípanar hefðu verið notaðir við útför Díönu prinsessu skyldi Hildur njóta þeirra líka! Í viðbót við fallegu lillabláu túlípanana á kistunni hennar ljómaði gröfin hennar af litskrúði mikillar blómabreiðu. Litríkið var þögull vitnisburður um elskuna, sem fólk vildi sýna henni genginni.

Af því að Hildur ræktaði með sér opinn huga var hún líkaóhrædd við að skoða allt það, sem gæti eflt fólk til hamingju og lífs. Hún stundaði chigong (qigong) sér til heilsubótar. Hún kynnti sér manneflingarhugmyndir ýmis konar og hafði gagn af heilsuhæli mannspekinga, anþrópósófista, í Svíþjóð.

Boðberi mannréttinda

Undanfarna daga hef ég verið að íhuga líf Hildar og dást að hinni glaðlegu og víðfeðmu nálgun hennar. Það, sem mér hefur þótt vænst um og snortið mig dýpst, er mannelska hennar. Hún gerði sér ekki mannamun. Hún gat auðvitað séð mismunandi hæfileika fólks og gerði sér grein fyrir, að við erum ekki eins. En þrátt fyrir ólíka húð, fjölbreytileika, ólíkt hár og ólík orð sá hún í hverjum manni mennsku, leyfði hverjum manni að fá tækifæri, hafnaði einföldum skilgreiningum á að þessi væri svona og hin hinsegin. Öllu fólki gaf hún tækifæri ekki síst “útlendingunum.” Hún vildi gjarnan versla hjá þeim og gaf gjarnan jólagjafir úr “innflytjendabúðum.”

Það var eins og Sameinuðu þjóðirnar hefðu gert Hildi að sérlegum mannréttindasendiherra sínum. Það var eins og mannréttindaskráin hefði skotið rótum í huga hennar og hjarta og borið elskuávexti gagnvart fólki. Þvílíkur þroski að opna huga sinn gagnvart útlendingum, viðurkenna mennsku þeirra, kunna að meta handverk þeirra og menningu. Hræðslan við þau, sem eru ólík – öðru vísi – er oft forsenda átaka og vaxtarreitur fyrir stríðsæsingar. En Hildur hafði allt aðra og betri sýn á fólki en svo, að sjá í þeim ógn. Hún sá gleðigjöf í öðrum, möguleika á lífi og enn meiri skemmtun og fjölbreytileika. Hún var þar með kona framtíðarinnar, boðberi góðs fjölmenningarsamfélags.

Hvaðan skyldi nú þessi afstaða koma? Hildur horfði á mennina og veröldina með himneskum augum. Sköpunarsaga fyrstu Mósebókar er ljóð, sem lýsir ekki hvernig veröldin varð til heldur af hverju og til hvers.

“…að það var gott”

Þar segir svo fallega eftir hvert sköpunarafrek Guðs,

að Guð horfði á veröldina “og Guð sá, að það var gott.” Þannig horfði Hildur á Indverja og Englendinga, Pakistana og Íslendinga. Að breyttu breytanda getum við sagt “Og Hildur sá, að það var gott.” Hún tók á móti kúnnum sínum, þjónaði þeim og greiddi og sá að það var gott. Þeir fundu líka gæðin og svöruðu henni með tryggð og með því að fylgja henni þótt hún færði sig milli staða. Og það var gott. Hún opnaði faðminn gagnvart vinum barna sinna og það var gott líka. Hildur hafði gaman af því að tala við fólk á öllum aldri og af öllum gerðum og það var líka gott. En dýpst er þetta guðlega sem hún iðkaði, að sjá í fólki hið góða, spennandi, jákvæða og stórkostlega. Hún hreifst og hrifning í lífinu er lífsmark og næring.

Hvaða vitnisburður er þetta fyrir þig? Hvað ætlar þú að gera með minningarnar um hana? Nú kemur þú í kirkju í dag til að minnast Hildar. Hverju viltu svara lífi hennar, sem varð alltof stutt. Jú, hún lifði vel og ef maður hefur lifað vel er jafnvel stutt líf gott líf. Hvað viltu í eigin lífi? Viltu fylla það neikvæðni, depurð, vansælu og því sem íþyngir þér eða viltu ganga á vit hins spennandi, jákvæða, lífgefandi og gildaríka?

Og Guð sá að það var gott. Það var gæðastefna Hildar. Það má vera lífsháttur þinn líka. Lífið er til að lifa vel og svaraðu minningum þínum um Hildi með góðu lífi.

Í hinum góða faðmi

Hildur er farin, hún hlær ekki lengur, hún hefur ekki hendur í hári nokkurs manns, hvorki þínu né annarra. Hún gælir ekki lengur við túlípana eða önnur blóm. Hún fer ekki Taílandsferðina sína, opnar ekki lengur hug gagnvart skemmtilegum kenningum, hlær ekki lengur í leikhúsi eða skemmtir sér við sögur og kaffihlaðborð. Nei, nú er hún horfin inn í heim eilífðar. Til að fara þá ferð þarf algerlega opinn huga, hreina lífsást, vilja til að opna enn meira, sjá grunngildi lífsins, þessa frumuppsprettu, sem ekki aðeins horfir á veröldina til góðs, heldur gerir hana góða, læknar hin sjúku og tekur burt allan sársauka. Þar má Hildur ríkja með Hildi systur, Þórði bróður, pabba og öllum hinum sem henni voru hjartfólgin. Góður Guð geymi hana alltaf og hjálpi þér til að lifa vel. Guð sér hana og þig og það er gott.

Minningarorð 20. september 2007