Greinasafn fyrir merki: Helgi Ásgeirsson

Helgi Ásgeirsson – Göngumaður Reykjavíkur

Nú er Helgi Ásgeirsson kominn í þessa kirkju í hinsta sinn. Oft kom hann í þetta ljóshús vegna sóknar í birtuna. Hann átti alla tíð heima í nágrenni kirkjunnar. Þau urðu eiginlega til samtímis Hallgrímskirkja og Helgi. Kirkjubyggingin var bara hugmynd til umræðu þegar móðir Helga var barni aukin og hann var í gerðinni. Svo þegar hann kom í heiminn var farið að grafa fyrir kór kirkjunnar. Síðan fylgdist Helgi með byggingu guðshússins. Helgi varð miðborgarmaður, Reykjavíkurmaður og heimamaður í Hallgrímskirkju. Hann sótti í kórkjallarann meðan hann var hverfiskapella. Svo tók Suðursalurinn í turnvængnum við kirkjuhlutverkinu og síðan gladdist hann þegar kirkjusalurinn var vígður árið 1986. Hann sótti í kirkju sína. Helgi var eftirminnilegur maður sem kom með friði, áreitnislaust og með hlýju í augum. Hann settist í kirkjubekk og naut kyrrðar, helgi, orða og tóna og fór svo þakkandi frá þessu hliði himins. Nú kveðjum við Helga hinsta sinni og þökkum honum samfylgdina, blessum minningarnar um hann og biðjum honum friðar í ljósríki eilífðar.

Helgi Ásgeirsson fæddist 10. maí árið 1944. Hann var vormaður hins unga lýðveldis, fæddist í Danaveldi og á stríðstíma en varð svo liðlega mánaðargamall einn af yngstu borgurum nýs lýðveldis og friðartíma. Foreldrar hans voru Kristín Helgadóttir og Jón Ásgeir Jónsson. Bæði voru af miklu dugnaðarfólki komin. Foreldrar beggja voru framkvæmdafólk og kunn fyrir húsin sem þau byggðu og voru stærri en annarra. Kristín var að vestan og fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð. Faðir hennar var kunnur sjósóknari og aflaskipstjóri á Suðureyri og síðar á Flateyri. Helgi fékk nafnið frá þeim afanum. Amma Helga lést þegar Kristín, móðir hans, var aðeins fjögurra ára. Kristín fór þá til vandalausra í vist og flutti um síðir að vestan og giftist föður hans Ásgeiri, vélvirkjameistara. Helgi var eina barn þeirra hjóna. Ásgeir var úr Borgarfirði. Foreldrar hans, Jón Jónsson og Sigríður Guðmundsdóttir, bjuggu í Galtarholti í Borgarhreppi. Jón, afi Helga, var landpóstur, kunnur garpur og happamaður. Ásgeir sótti skóla á þeim merka lýðskóla, Hvítárbakkaskóla, áður en hann flutti suður, lærði vélvirkjun og stundaði iðn sína. Ásgeir var sagður ljúfur maður og dagfarsprúður. Þegar Helgi var að komast á legg vann Ásgeir faðir hans hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og var virtur og mikils metinn.

Helgi var einbirni og naut því allrar athygli og verndar elskuríkra foreldra. Fyrstu árin bjó fjölskyldan á Spítalastíg, um tíma á Hverfisgötu síðan á Njálsgötu – á sitt hvorum endanum. Síðustu áratugina bjó Helgi á Njálsgötu 5, fyrstu árin þar með móður sinni og síðan einn þegar hún lést árið 2002. Foreldar Helgan voru samrímd og samstiga. Helgi skrifaði síðar í minningargrein um móður sína að foreldrar hans hefðu bæði verið náin honum, og „ … svo nátengd voru þau hvort öðru, að þar mynda miningarnar eina órofa heild.“ Foreldrar Helga höfðu skýrar reglur og stefnu í uppeldinu og pössuðu vel upp á drenginn sinn. Þau höfðu fyrir honum formlegan fatastíl sem Helgi lærði og tileinkaði sér. Við getum ímyndað okkur að eina barnsins hafi verið vel gætt. Kristín, mamma Helga, hafði misst móður sína ung og tvo bræður í frumbernsku og faðir hans var af hugumstóru en gætnu fólki komið. Með þennan bakgrunn og háskareynslu íslenskra kynslóða í erfðavísunum voru Ásgeir og Kristín samstiga í að gæta sonar síns vel.

Helgi var eftirtektarsamur og minnugur. Hann fékk ríkulega hvatningu að heiman til sjálfshjálpar. Á árinu 1957 kom t.d. frétt í dagblaði að Helgi Ásgeirsson á Spítalstíg 2 hefði orðið dugmesti sölumaður í happdrætti KSÍ. Á þessum tíma var mikið kapp í sölubörnum og hússala og dagblaðasala var helsta leiðin til að afla sér nokkurra króna. Að mynd af Helga og frétt birtist í blaði merkir að það hefur verið talið til tíðinda að hann skyldi selja svona vel í þágu knattspyrnusambandsins. Helgi hefur því verið gæfusmiður og lagt til velferðar íslenskum fótbolta. Helgi var ekki lokaður heima og inni heldur fékk hvatningu til dáða. Hann gekk um hverfin og seldi. Hann lærði að fara um og handfjatla fé. Síðan kunni hann til verka að innheimta, rukka og hafa gaman af röltinu í Reykjavík og fylgjast með mannlífi og stækkandi bæ verða að borg.

Helgi naut ágætrar skólagöngu. Eftir grunnskóla sótti hann Gaggó Vest og lauk síðan prófi og einnig stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands. Þar á eftir hóf hann nám í lögfræði við HÍ. Hið sérkennilega og eftirtektarverða er að Helgi lauk öllum prófum í lögfræði nema einu. Hann féll í Réttarsögu og náði þar með ekki lágmarkseinkunn til að útskrifast. Helgi sendi lagadeildinni erindi eftir prófin, fór yfir námsferil sinn, próf og stöðu og skýrði út líðan sína í prófi. Helgi bað um miskunn og að hann fengi annað tækifæri. Bréfið er merkilegt, skýrt og vel grundað (Reykjavík 8. sept. 1975). En Helgi naut engrar náðar eða undanþágu. Hann sagði skilið við háskóla eftir langt nám en þó próflaus. Þau úrslit og lyktir urðu honum áfall. En hann gafst ekki upp og leitaði á ný mið. Helgi hafði síðan atvinnu af innheimtustörfum fyrir ýmsa aðila, bókaútgefendur, útgfendur tímarita og dagblaða, m.a. Frjálsa Fjölmiðlun og þmt Svein Eyjólfsson. Helgi gekk gjarnan um bæinn í innheimtuerindum, með tösku sína, og fór víða. Hann varð einn af kunnustu göngumönnum Reykjavíkur og efasamt að margir fleir hafi stigið fleiri spor í borginni en hann. Á göngu fylgdist Helgi vel með, vissi hver verslaði hvar og hverjir ráku fyrirtæki og hvar. Hann þekkti ferðavenjur samborgaranna, skildi púlsa mannlífsins í bænum og hafði nánast ensyklópedíska þekkingu á lífi borgaranna, menningu borgarinnar, veðrum og dyntum veraldarinnar. Helgi var næmur og lærði vel að lesa stöðu fólksins sem hann átti samskipti við. Rukkarastarfið þroskaði með honum tilfinningu hvenær hann varð að sækja fram og hvenær hann ætti að gefa eftir til að styggja ekki fjárlitla eða aðkreppta skuldara. Helgi var ljúfur í samskiptum sem efldi farsæld hans í störfum og samskiptum. Hann var traustsins verður.

Helgi var eftirminnilegur maður. Hann var reglusamur í öllum efnum, neytti hvorki tóbaks né áfengis. Hann hafði góða reiðu á öllu því sem honum var falið. Færði í kompur sínar og stílabækur hverjir borguðu hvenær og hvað og stóð skil á öllu með skilvísum hætti. Helgi var alinn upp af fólki úr menningu fyrri hluta tuttugustu aldar og hann braust eiginlega aldrei út úr skipulagi fortíðar fyrr en eftir sextugt þegar foreldrar hans voru látnir. Síðustu árin voru eins og unglingsár í lífi hans. Hann var þá orðinn vel stæður og hafði efni á að kaupa það sem hann hafði hug á. Helgi var góður við vini sína og samferðafólk. Hann hitti gjarnan félaga sína í bænum og oft fór hann í Kolaportið til að næla sér í bók eða kaupa eitthvað smálegt sem hann fór með heim.

Helgi var elskulegur í samskiptum, mannvinur og dýravinur. Hann lagði gott til fólks, talaði það fremur upp en niður, minntist á hið jákvæða en sleppti hinu. Hann studdi þau sem hann taldi vert að styrkja og var í því fulltrúi samábyrgðarsamfélags og kristninnar. Helgi var eins og foreldrar hans sérlega natinn við dýr. Kötturinn Keli Högnason var reyndar nokkrir kisar. Þeir áttu skjól í Helga og á heimil hans og voru svo frægir og um þá var ritað í Morgunblaðinu. Helgi var líka umhyggjusamur gagnvart mannfólkinu. Þegar einhverjir áttu óvissan samastað var oftast hægt að fara til Helga sem skaut skjólshúsi yfir fólk. Helgi var vinur vina sinna og vildi alltaf standa vel skil á því sem til hans friðar heyrði. Í því var hann framúrskarandi. Helgi var fróleiksfús, las talsvert, safnaði þjóðlegum fróðleik, var vel heima í ættfræði og héraðasögu síns fólks. Hann mundi það sem hann hafði áhuga á og gat þulið daga og eftirminnilega atbgurði.

Nú kveðjum við Helga. Hann er kominn í kirkju í hinsta sinn. Í minningargrein um móður sína, Kristínu, tjáði Helgi fallega trú sína sem og trú foreldra sinna. Hann skrifaði: „Ég vil aðeins kveðja þau sem voru mér svo kær með bæn um að Drottin Guð verndi þau að eilífu.“ Svo bætir Helgi við vísun í orð Jesú og skrifar í minningargreinina versin tvö úr 11. kafla Jóhannesarguðspjalls: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.“ Þessa afstöðu og von gerði Helgi að sinni. Í þeim krafti lifði hann og til þeirrar birtu hverfur hann úr þessum heimi. Það er trú kristninnar.

Guð geymi Helga Ásgeirsson og Guð geymi okkur öll.

Ég vil þakka öllum þeim sem hafa verið Helga góðir vinir og félagar. Þökk sé vinum hans og vinkonum sem voru honum öflugir og góðir félagar. Þökk sé öllum sem vitjuðu hans og gerðu honum gott til. Guð laun. Í lok þessarar athafnar verður efnt til erfis í Suðursal Hallgrímskirkju.

Minningarorð SÁÞ í útför Helga í Hallgrímskirkju, föstudaginn 8. apríl, 2022. Kistulagning sama dag. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Útf. Sverrir Einarsson. BSS og Schola cantorum. Eggert Reginn Kjartansson. Erfi í Suðursal Hallgrímskirkju eftir útför. Þórólfur Árnason hélt snjalla ræðu í erfinu um Helga, líf hans, tengsl og þjónustu við fólk og fyrirtæki. Myndin úr Hallgrímskirkju var tekin um það leyti sem kista Helga var borin í kirkju.