Greinasafn fyrir merki: Guðmundur Karl Gíslason

Guðmundur Karl Gíslason – minningarorð

Guðmundur kom hlaupandi í sólgylltri júnínóttinni. Kuldinn læddist að. Svitinn sem hafði sprottið út hafði þornað upp í kælunni og myndað saltbrák á líkama hans í löngu maraþoninu. Guðmundur kom fyrstur úr hlaupinu umhverfis vatnið stóra. Hann var kominn sinn hring. Systursonur hljóp með honum síðasta spölinn, tók þátt í sigri frændans stóra, sem alltaf var bestur. Guðmundur hljóp í mark og fjölskyldan fagnaði sigurvegaranum í Mývatnshlaupinu 2002. Svo sigraði hann á Akranesi, hljóp eins og meistari í Boston. Myndirnar af hlauparanum eru hrífandi og spegla minningar um mann sem gat allt, var hæfileikamaður og afreksmaður. Nú er hann kominn í mark lífsins, í því skeiði, sem aldrei aftur verður rennt.

Æviágrip

Guðmundur Karl Gíslason var sumarbarn, fæddist 27. júní 1979 og lést aðfaranótt 7. júní síðastliðinn. Guðmundur var sonur hjónanna Kolbrúnar Karlsdóttur og Gísla Ragnarssonar. Systkini hans eru Friðbjörg Matthíasdóttir, María Matthíasdóttir, Björgvin Gíslason og Theodór Gíslason. Þau lifa öll Guðmund Karl, sem var næst yngstur í systkinahópnum. Guðmundur var Vesturbæingur. Hann bjó alla ævi á sama svæðinu, fyrsta árið á Hringbraut, síðan á Álagranda og svo Aflagranda allt til lokadags. Hann sótti Grandaskóla, Hagaskóla og síðan Fjölbrautarskóla í Ármúla. Ungur tók hann ákvörðun um að stunda langskólanám. Eftir stúdentspróf stundaði Guðmundur nám í Háskóla Íslands og var, þegar hann lést, við lok líffræðináms. Á unglingsárum tengdust þau Sandra Snorradóttir og Guðmundur og bjuggu í skjóli foreldra hans. Sandra var stóra ástin í lífinu, en þau slitu samvistum fyrir um fimm árum.

Kraftmikill

Hvernig var Guðmundur Karl? Hvernig mannstu hann? Hvað einnkendi? Alltaf kraftmikill. Orkan einkenndi allt hans starf. Það fór ekki milli mála ef Gummi kom í hús. Hann læddist ekki með veggjum, heldur fyllti hýbýli og hóp krafti sínum og gáska. Hann varð strax sú þungamiðja hóps þar sem umræðurnar voru, hlátrarnir spruttu, plönin voru gerð, hugmyndum sáð og ákvarðanir voru teknar. Hann hélt fram sterkum skoðunum, en var alltaf til í taka 180° beygju ef hann mætti góðum mótrökum. Það er aðeins fólk með karakerstyrk og trú á sjálft sig sem getur slíkt og þorir. Ef safna þurfti fyrir Rhodosferð skólans var Gummi í miðju söfnunarátaksins. Ef eitthvað flókið hindraði var hann mættur til að leysa gáturnar og ryðja vanda úr vegi. Ef vélin í Fíatnum eða Hondunni koksaði var rifið í sundur og allt rataði á sinn stað að lokum og skriflin gengu. Ef Suzuki hjólið var vangæft var unnið. Ef græjurnar í bílnum hans Theodórs virkuðu ekki eða hátalarnir sprungu, sem þeir áttu til, var Gummi kominn í viðgerðarverkið. Þegar timburskúrar bernskunnar voru reistir kom ekkert annað til greina en hátimbraður margra hæða kastali! Gummi var ekki að byggja smælki ef hann fór í framkvæmdir á annað borð. Í miklu vinnuálagi var hann hamhleypa, í próflestri sem stormsveipur. Uppi í Eldsmiðju var hann kallaður vélin, því með óbilandi mætti gekk hann til verka. Það var alltaf hægt að treysta á Gumma.

Sjálfstæði

Guðmundur Karl var örgeðja, keppnismaður, skapríkur en skapgóður. Hann var sjálfstæður og sjálfbjarga. Alla tíð fjármagnaði hann sinn eigin rekstur, vann af kappi með skóla og gerði sér fullkomlega grein fyrir hvaða vinnu það kostaði, sem hann vildi kaupa. Eldsmiðjan reyndist honum góður samastaður. Hann byrjaði sem pizusendill og þeyttist um bæinn. En hann hafði þegar í bernsku æft sig í kokkhúsinu heima hjá pabba og mömmu. Sú reynsla nýttist honum og pizzubakarinn var uppgötvaður upp í Eldsmiðju. Auðvitað vildi hann ekkert minna en verða besti bakarinn og þeir, sem þekkja til, muna hin snöru, öruggu handtök og hina öflugu orðræðu hans sem kryddaði álegg og ost og hríslaðist inn í brauðið góða í steinofninum á Bragagötunni. Gummi var reglumaður og sinnti heilsurækt í margháttuðum skilningi, drakk sitt lýsi af stút og undanrennuna jafnvel líka.

Af því að Gummi var kunnáttusamur í mannlegum samskiptum, góður í sínu fagi, skemmtinn og kátur var hann kjörinn í að stjórna og fræða unglingahópa í Heiðmörk. Kennsla er list og Gummi hafði hæfni, innsæi og áhuga á fólki til að vinna verkið. Nokkrum klukkutímum eftir að hann lést ætlaði hann að fara undirbúa Heiðmerkurævintýri sumarsins, sem aldrei verður.  

Tengdur

Gummi átti auðvelt með samskipti við alla aldurshópa. Hann hljóp með félögum pabbans og á milli var ekkert kynslóðabil. Hann hlustaði á tónlist með mömmu og ræddi við hana um hugðarefni, fór yfir frumu- og sameindalíffræði með pabba, tölvumálin eða nýjungar með systkinum, pólitík með vinum og gleðivíddir mótorhjólalífsins við þá sem slíkt skildu. Gummi var vel að sér, um flest viðræðufús og lagið að spegla einhver atriði, sem máli skiptu. Hann var tengdur sjálfum sér, sínu fólki, hafði útsýn og gat tengst öðrum.

Greind og yfirsýn

Félagar og vinir Gumma hafa undrast og dáð verksvit hans og skipulagshæfni. Hann gat séð vandamál áður en þau komu upp, sá hvernig verkferlarnir yrðu að vera til að málin gengju snurðulaust og hratt. Hann var fljótur að gera sér grein fyrir mögulegum leiðum og hvað ekki væri gerlegt. Hann hafði kerfisskynjun, sem nýttist honum í vinnu og námi. Og í raun er það þetta sem er fólgið í góðri greind, sem er ekki aðeins að greina hluti heldur tengja þá rétt saman að nýju. Gummi hafði því grunnhæfni til fræðimennsku og skapandi vísindaiðkunar.

Gjafmildur leiðtogi

Þessir hæfileikar eru líka forsenda leiðtogahæfileika. Gummi hafði mikil áhrif á vini og samferðafólk. Hann hafði enga þörf fyrir að véla með fólk heldur efla það. Hann dró ekki orku úr öðrum, heldur örvaði aðra og fyllti af krafti. Hann sáði hugmyndum og stakk upp á nýjungum og ævintýrum. Það var síðan framkvæmt af félögunum þó hann hefði kannski ekki tíma til. Hann var því frumkvöðull í svo mörgum efnum.

Í Gumma sló hlýtt og umhyggjusamt hjarta, bæði gagnvart mönnum og málleysingjum. Það hefur löngum verið hægt að dæma mannkosti eftir því hvernig menn eru við dýr. Í bernsku kom  hann heim með skepnur, sem þörfnuðust aðhlynningar. Kanínubúskap stundaði hann um tíma og stóð fyrir viðamiklu fiskeldi í stóru búri. Hjá Gumma áttu allir menn skjól og hann gerði sér engan mannamun. Vina- og kunningjahópur hans var því þversnið mannfélagsins. Ef einhver rataði í vandkvæði heyrði Gummi strax og var kominn. Ef einhver var vegalaus niðri í bæ um miðja nótt var hringt í Gumma. Hann kom fljótt, flutti fólk og sá til þess að menn væru komnir á sinn stað fyrir morgun. Ef í liggjandi félaga hans var sparkað henti hann sér niður og varð hinum liggjandi, lifandi skjöldur! Ef einhver raunverulega þarfnaðist hjálpar var nei ekki til í orðabók Gumma. En hann gat hins vegar líka sagt þvert nei, ef þess var þörf og beiðnin var óþörf að hans áliti. Hann var umtalsfrómur og dró úr meiðandi orðræðu.

Fyrr og síðar var hann bróðurnum Theodór ekki aðeins fyrirmynd heldur uppalandi með foreldrum, kenndi honum listir hins daglega lífs, jafnvel varðandi þrif og þvotta. Hann stóð vörð um velferð hans alla tíð, honum var að mæta ef á yngri bróður var ráðist. Hann var mættur strax þegar Teddi varð undir bíl og var nær dáinn. Og Gummi var einstök barnagæla, sem hafði alltaf tíma til að kjá framan í smáfólkið og passa ef þess var þörf.

Af hverju?

Hvers vegna fellur svona efnismaður frá svona snemma? Er það svo að Guð vilji fá hann til sín? Grípur Guð inn í líf okkar hér í Vesturbænum af því að Guð elski ungt fólk hér meira en annars staðar? Það hefur löngum verið sagt að þeir deyji ungir sem guðirnir elska! En vita skaltu, að það er ekki svo. Guð er ekki grimmur og kaldrifjaður einræðisherra stórveldis, sem leikur sér að mannfólkinu og sendir í dauðann að eigin geðþótta. Það er ekki vilji Guðs að Gummi er fallinn. Það er ekki óskiljanleg himnesk gæðastjórnun að rífa hann úr faðmi þínum, ástvina og vina. Sóun lífs vekur sorg okkar og það er þeirri sorg er deilt á himnum einnig.

Við búum við elsku og umhyggju og ekki síst þetta algera frelsi, sem mönnum er gefið. Guð sviptir okkur aldrei því frelsi og í því er bæði vandi okkar sem manna og vegsemd fólgin. Í því er líka fólgin sú djúpa virðing, sem Guð hefur innfellt í kerfi sköpunarverkisins, sál þína og allra manna. Þú ert fjáls, við erum frjáls, til alls. Hvað við gerum, hvernig við lifum er á okkar valdi. Í því er lífslistin fólgin að finna mörkin, skilja inntakið, marka stefnu og verða mennsk og lifandi. Þú ert jafnvel frjáls til að afneita skapara sólna, sóleyja og sjálfs þín. Í því speglast róttækni lífsins.

Guðmundur Karl Gíslason var frjáls maður. Hann hafði fyrr og síðar þörf fyrir að kanna lífið og veröldina hratt og reyna mörk kerfa og hluta. Í bernsku byggði hann flókin leikföng, verkefnin urðu æ margslungrari og við bættust hinar mannlegu víddir. Gummi vildi gjarnan skilja kerfin sem líffræðin kannar. Hann vissi að lífið og vísindin eru áraun með þanþol og möguleika. Til að einhver framrás og uppbygging verði eru gerðar tilraunir, sumar takast og aðrar ekki. Á grundvelli mistakanna er hægt að sjá hvað er gerlegt. Hann var tilbúinn að taka hættulegar ákvarðanir í lífinu líka og hann stóð með þeim ákvörðunum. Hann lifði hratt, lifði vel og var sáttur við sjálfan sig, Guð og menn. Það er að lifa vel.

Lífssmiðja Gumma

Hvernig viljum við muna Guðmund Karl Gíslason? Foreldar hans ólu hann upp til sjálfstæðis og veittu honum í uppeldi margháttaðar gjafir sem skópu orkuþrunginn, elskuríkan mann sem var svo gjafmildur. Gummi hafði í samskiptum sínum við fólk sterka nærveru, skapaði alls staðar létt andrúmsloft og kátínu þar sem hann var.

En leiðtoginn var umhyggjusamur og því var hann höfðingi í samskiptum. Og kannski var það örlætið, sem var einn dýpsti kostur hans og mótaði annað í samskiptum og fari hans. Hvílík forréttindi að eiga slíkan vin að, vin sem úthellir sér fyrir aðra, á alltaf tíma fyrir þá sem þurfa, alltaf hvatningu til þeirra sem eru að bugast, skarpan huga til að greina með fólki einhverja lífs-, véla-, eða verkagátu. Guðmundur útdeildi í því stóra veitingahúsi sem lífið er, alltaf til í reiða fram kostulegar félagslegar veislukrásir, alltaf reiðbúinn að hjálpa til við nýtt líf með þeim sem þess þörfnuðust. Hann rak í sjálfum sér nokkurs konar lífssmiðju, sem veitti samferðafólki allt sem hann átti, allt sem hann gat gefið. Gummi var gjafmildur veislustjóri í Eldsmiðju hins umhyggjusama lífs.

Hvað getur þú gert nú þegar hann er allur? Taktu með þér fallegustu minningarnar, leyfðu þeim að lifa með þér. Hvað getur þú lært af lífi Guðmundar Karls, hver er prédikun lífs hans? Þú getur lifað fallega eins og hann, lifað með krafti og í núinu. Þú getur allt, sem þú villt, getur raðað brotum saman í fallegan lífsfák, getur sífellt hafið nýja hamingjusókn og lifað í sátt við alla menn. En til þess þarftu að elska, bæði þig sjálfa og sjálfan, virða samferðafólk þitt og læra að sjá í því undursamlegt fólk. Og þú mátt einnig vita að Guð er á himni og gleðst.

Gummi er kominn í markið úr sinni för, inn í hið átakalausa maraþon eilífðar, þar sem óhætt er að gefa í botn, veislan er samfeld, lífið er ein stanslaus gleði. Þar er orkumiðstöð veraldarinnar, þar er frumeldur allrar mennsku, þar er uppspretta allra orkubúnta veraldar. Því þar er Guð. Í faðmi hans er Guðmundur Karl um alla eilífð. Hann hefur sigrað í sínu skeiði, í sínu lífshlaupi.

Neskirkja, 15. júní 2004.