Greinasafn fyrir merki: Gouldberg-tilbrigðin

Bach, Gould og Víkingur Heiðar

Goldberg-tilbrigðin hafa verið vinir mínir í nær þrjátíu ár. Ég eignaðist humm-útgáfu Glenn Gould frá 1981 og það er sú útgáfa af Goldberg sem ég hlustaði á. Ég spilaði gjarnan píanó- flautu- og gítartónlist þegar ég var að lesa og skrifa og Bach, Gould, John Williams gítarleikarinn, Keith Jarret og Chopin sáu oft um hljóðtjöld kyrru og skrifa. Og eiginlega varð þetta dásamlega Bach-verk með árunum að Gould-tilbrigðum eða Gouldberg sem ég elskaði. Jarret-útgáfan hreif mig aldrei. Þegar Víkingur Heiðar og Deutsche Grammophon gáfu út tilbrigðin áður en hann lagði í heimsreisuna var ég viss um að hann hefði nálgast og túlkað persónulega. Þannig vinnur hann – sem sé vel. En ég var tortrygginn en fór að hlusta á spotify. En þetta var enginn Gouldberg, ekkert humm, engar stunur – önnur nálgun. Já, ný nálgun.

Svo voru febrúartónleikarnir auglýstir og ég keypti strax miða fyrir okkur Elínu mína. Afmælistónleikarnir voru uppseldir og ég var sáttur við að fá miða á föstudagstónleikana 16. febrúar. Enn betri dagur – afmælisdagur Bergs, afadrengsins míns. Ég fylgdist með heimsreisu Víkings Heiðars og gladdist alltaf þegar frægðarfréttir voru fluttar af tónleikum hans í einhverju tónmusteri heimsins.  Svo sagði Jón Kristján við kvöldverðarborðið í vikunni að hann vildi gjarnan koma með. Mamma hans gaf honum miðann sinn á 13. bekk og við feðgar fórum en mæðginin gerðu sér dagamun líka annars staðar.

Stemming var í Eldborg Hörpu og eftirvænting. Allir voru spenntir og tilbúnir og mér sýndist helmingur prestastéttarinnar vera mættur, skólafélagar úr MR og svo fjöldi fólks sem ég hef þjónað sem prestur. Sonur minn furðaði sig á öllu þessu fólki sem ég heilsaði. Fólk var beðið að slökkva á farsímum sínum. Svo gekk meistarinn í salinn og var fagnað. Himintónar upphafsstefsins hljómuðu en fjöldi hósta rauf kyrruna og svo hringdi sími framarlega til hægri. Víkingur leit upp, skimaði út í sal, hætti að spila – og beið eftir að síminn hætti og hóstum linnti. Pínlegt. Og svo byrjaði hann aftur. Ég dáðist að því hvernig hann nýtti sér pirringinn til að magna flutninginn. Tilfinningar hans og áheyrenda flæddu inn í músíkina. Fyrstu mínúturnar lék hann sumt hraðar, kröftugar og þrungnara en annars hefði orðið. Tónleikar eru jú aldrei eins.

Tilbrigði Bachs eru mikil músík, eins og safnbú eða sjóður allra tilfinninga manna og spunaheimur fyrir tjáningu á lífi og lífsviðburðum. Víkingur leyfir sér að túlka, spila mismunandi, vera persónulegur og skapandi af því hann gjörþekkir verkið og þar með möguleikana. Hann veit, skilur og hefur vald á grunninum í Bach og tilbrigðunum og getur því gefið því plús listrænnar túlkunar. Spuninn er í blæ, tjáningu og áherslum. Tónleikar kvöldsins urðu mikið ferðalag með lífsreisur okkar. Harmurinn í verkinu speglaðist í tárum fólks, gleðirispurnar voru glæsilegar og hrifu. Og eilífðin opnaðist mörgum sem skynja hina elskuríku dýpt í þessum tilbrigðum.

Jón Kristján sagði takk fyrir og báðir segjum við takk fyrir Víkingur Heiðar. Það var ekkert humm í þessum tónleikum en þeir voru frábærir samt. Bach stendur fyrir sínu sem fimmti guðspjallamaðurinn. Gould var mér og hefur verið eini alvöru túlkandinn á tilbrigðunum. Nú er Víkingur Heiðar búinn að opna mér nýjar víddir. Það er jú ekki spurning um annað hvort Gould eða Víking – heldur kannski fremur bæði og. Við lifum ekki í svart-hvítri veröld heldur litríkri og fjölbreytilegri. Og það er svo dásamlegt þegar elska himsins kyssir tíma og svo margt fólk. Ég mæli með að eftir þessa miklu tónleikareisu hljóðriti Víkingur Heiðar tilbrigðin að nýju – og kannski leyfi líka sínu hummi að fljóta með. Víkings-tilbrigðin. Víking-variations.