Magga á Kölduhömrum var barni aukin og kýrin í fjósinu kálfi aukin. Kýrin bar á aðfangadagskvöldi og konan fæddi á jólanótt. Kálfurinn lifði en konan dó. Hvernig er hægt að lifa við og vinna úr slíkri sögufléttu?
Við kynnumst í Frumbyrjum, nóvellu Dags Hjartarsonar, bændahjónum á hjara veraldar. Alvitur sögumaður er sem vitur öldungur sem heldur athygli lesenda með vísunum til þroskaviðburða, sveitareynslu, hækulistar, vitrana, skyggnigáfu, fjölskylduátaka og dýra. Í fyrstu fannst mér ég lesa uppfærða sveitasögu Guðrúnar frá Lundi. Svo kom tilfinning fyrir Gísla í Uppsölum, síðan lífssókn Benedikts í Aðventu Gunnars og svo bættust við nokkrar persónur og túlkanir úr Laxneskum skrifum. En sagan var þó algerlega Dags Hjartarsonar, í senn rammíslensk en þó sammannleg og handan þjóðernis.
Snilld Dags er að halda okkur lesendum stöðugt á spennusvæðum og í spennupörum. Magga og Guðmundur eru óvenjuleg. Þau elska en ná ekki að tjá vel ást sína með orðum. Þau eru tillitssöm en fjarlægjast í umhyggju sinni. Þau þrá nánd en kunna æ verr að strjúka. Þau eru barnlaus í búskap sem er frjósemisatvinna. Þau sjá lengra nefi sínu en samt kunnáttuskert um lífsmálin. Þau eru skygn en sjá ekki vel lífsgátuna. Hvort er ríkulegra lífið í veruleikanum eða lífið í handanverunni? Hvað er raunveruleiki, þetta sem séð verður með augunum eða með innri augum? Er það sem maður snertir með fingurgómunum raunverulegra eða það sem verður til við heildarlestur veraldar. Er dulræn skynjun síðri til lífslestursins en jeppaferð suður til Reykjavíkur? Er hamingjan ríkulegri í sveitinni en við Hringbrautina? Getur manneskjan lifað vel í algeru fásinni? Er einhver raunverulegur munur á bónda og hrúti, kálfi og stúlkubarni, konu og kú? Nei, Frumbyrjur er ekki saga sem færir mannlífið niður á plan lágkúrunnar heldur vekur spurningar um hvað við mennirnir erum, hvernig og til hvers. Dagur er kunnáttusamur sögumaður og smekkvís og túlkar vel ríkidæmi fásinnis og fjölvíddir hins einfalda mannlífs. Stílgeta Dags er aðdáunarverð og veraldartúlkun hans kraftmikil.
Frumbyrjur er áhrifarík saga um fólk á mörkum, menn á mærum og lífið í stóra samhenginu.
Frumbyrjur (2025)
Dagur Hjartarson
Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa