Greinasafn fyrir merki: fólk

Trú, efi og vald

Netflix sýnir þessar vikurnar hina mögnuðu kvikmynd Doubt frá árinu 2008, í leikstjórn John Patrick Shanley. Myndin kom mér á óvart og frábært handrit opnaði hvert merkingarlagið á fætur öðru og kallaði fram margar spurningar. Á yfirborðinu virðist myndin fjalla um hvort prestur misnotar ungan dreng eða ekki. Í ljós kemur svo að spurningin er ekki hvort klerkur sé vondur eða ekki, þ.e. um sekt eða sakleysi, heldur hvernig trú, vald og samviska takast á þegar engar afgerandi sannanir liggja fyrir um meint brot. Sögusviðið er kaþólskur skóli í Bronx í New York á tíma samfélagslegra og kirkjulegra breytinga – árið var 1964.

Tvær nunnur mynda spennupar og það neistar á milli þeirra. Annars vegar er skólastjórinn Aloysius Beauvier sem heimtar aga, gengst upp reglu, krefst siðferðilegrar vissu og að stefnan sé skýr. Hins vegar er systir James, ung nunna, kærleiksrík og jákvæð á mannlífsflóruna og mismunandi fólk. Þegar grunur vaknar um að faðir Brendan Flynn, prestur skólans og kirkjunnar í hverfinu, hafi sýnt af sér óviðeigandi hegðun gagnvart fyrsta svarta drengnum í skólanum, magnast átök. Má sýna börnum líkamlega umhyggju? Hvar liggja mörkin? Hvenær ber að grípa inn í? Hvað telst sönnun? Hver ber ábyrgð þegar hið versta gæti verið satt, en ekki er mögulegt að sanna neitt, til eða frá?

Samfélagslegt samhengi myndarinnar er hin stórri rammi. Hún gerist á tíma réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum. Drengurinn í miðju sögunnar er á mörkum tveggja heima. Hann er svartur í hvítu stofnanakerfi, er í veikri stöðu og háður vernd fullorðinna. Móðir hans, sem Viola Davis leikur, dregur upp átakanlega mynd af aðstæðum jaðarsettra fjölskyldna, þar sem kostir eru fáir, snúnir og  sárir. Staða hinna svörtu er sem í grískum harmleik og málið er að reyna að lifa af ofbeldi og fjötra grimmdar.

Doubt tjáir vel spennu kaþólsku kirkjunnar á tíma mikilla breytinga. Faðir Flynn talar fyrir samúð, nánd og mannlegu sambandi. Hann er fulltrúi hinnar nýju kaþólsku kirkju sem gengur erinda fólks, talar merkingarbært tungumál samtímans og sýnir mildi og nánd. Hann er fulltrúi áherslna Vatikan2-þingsins sem vildi uppfæra og nútímavæða kaþólskuna. Systir Aloysius, skólastjóri, stendur hins vegar vörð um hefð, mörk, tortryggni og jafnvel hræðslu gagnvart breytingum. Barátta prestsins og nunnunnar er ekki aðeins persónuleg heldur speglar ólíka sýn á trú, valdi , hlutverkum og ábyrgð. Og svo er auðvitað spenna milli kvennavængs kaþólsku kirkjunnar og karlræði klerkanna.  

Myndin gefur engin einföld svör. Hún sýnir að harður agi og kærleiksríkur sveigjanleiki geta leitt til ills ef ekki er gætt að sjálfsgagnrýni, ábyrgð og gildi fólks. Siðklemmur eru sjaldnast einfaldar. Hvort eiga kirkjur og trúarhreyfingar að vernda stofnanir eða fólk, reglur eða manneskjur? Myndin tjáir líka kröftuglega að réttlátar félagslegar breytingar krefjast þess að fólk þori að horfast í augu við efa og óvissu. Efinn er systir trúarinnar og trú sem er laus við efa er skelfileg.

Í lok myndarinnar brotnar sú sem virtist öruggust um sannleika, lífshætti og kirkjuna. „Ég efast“ stundi systir Aloysius þegar hún uppgötvaði eigin flónsku og harðneskju. Skynhelgi getur verið grimm og hrottaleg. Hugsvitsamleg flétta sýnir að trú án efa verður blind og efi án ábyrgðar skaddar fólk. Milli trúar og efa mótast siðferðisþroski manna og gefur samfélagi möguleika til að þroskast til góðs.

Frábært handrit og stórkostlegur leikur. Af hverju var ég ekki búinn að heyra af, lesa um eða sjá þessa mynd fyrir löngu? Kannski vegna þess að tvíburarnir mínir voru tveggja ára þegar hún kom út og Ísland var Guði falið í hruni. Sem sé bleyjur, sálgæsla og lífsverkefni, klerkurinn að sinna merkingarbæru starfi og nánd í starfi og pabbinn ábyrgðarverkum heima!

Hlutverk

Þessi fjögur eru stórkostleg í hlutverkum sínum:

Meryl Streep leikur systur Aloysius Beauvier, nunnu og skólastjóra kaþólsks skóla. 

Philip Seymour Hoffman leikur prestinn Brendan Flynn.

Amy Adams leikur systur James, unga, öfluga og samviskusa nunnu í kennsluhlutverki.

Viola Davis leikur frú móður fyrsta svarata nemanda skólans.

Myndin er byggð á rómuðu leikriti John Patrick Shanleys.

 

Er fólk rusl?

Manneskjan er mesta undrið. Það er áhersla vestræns húmanisma að virða fólk. Kristnir menn fylgja dæmi  og visku Jesú Krists sem mat fólk mikils, virti manngildi og sá undur í öllum mannverum.

Í frétt mbl og í helstu fréttaveitum heims 2. desember var miðlað að Donald Trump hefði sagt að Sómalir væru „rusl“, gæfu ekkert til Bandaríkjanna og ættu að hunskast aftur til síns heima. En orðavalið er ekki raus pirraðs öldungs heldur í samræmi við mynstur og meðvitað val. Trump hefur árum saman kallað pólitíska andstæðinga „losers“, blaðamenn „svín“, konur „ljótar“ og innflytjendur „sýkta“, „hættulega“ eða „óhreina“. Trump lætur sér ekki nægja að gagnrýna skoðanir eða greina rök heldur ræðast beint á persónurnar, niðurlægir, gerir lítið úr og smyr svo hroðanum á hóp eða þjóð.

Þessi tegund árásar þjónar tilgangi. Hún skiptir fólki í „við“ og „þið“. „Við“ erum hin sönnu,  raunverulegu fórnarlömb illsku hinna. „Þið“ eða „þeir“ eru óvinirnir, sníkjudýr, ógn, byrði, rusl. Þetta er sandkassapólitík óvita. Veruleikinn er einfaldaður, skrumskældur og líka hættulegur.

Þegar Trump kallar einhvern rusl, ljótan eða hættulegan hefur það afleiðingar. Málnotkunin réttlætir fyrirlitningu, eykur spennu, býr til gjár í samfélagi fólks og jafnvel kallar á samfélagslega grimmd og ofbeldi. Þegar fólk er afmennskað er auðveldara að réttlæta hræðilegar aðgerðir gegn því, senda úr landi og skjóta það á bátum úti á hafi.

Í lýðræðissamfélagi er skýrmælt og harðorð gagnrýni eðlileg og nauðsynleg. Í heilbrigðu samfélagi er tekist á um stefnumál, færð rök með og móti og svo markar lýðræðilega kjörinn meirihluti stefnuna. Lýðræði gerir ráð fyrir að allir geti lagt til mál og hið mikilvæga sé mótað í virkni og átökum.

En þegar leiðtogi gerir mannfyrirlitningu að stjórnmálastefnu og kallar fólk er rusl, svín eða skepnur hefur orðið pólitískt hrun. Orð skipta máli og móta. Þegar fólk er ekki lengur virt, hvorki manngildi þess né mannleg reisn er pólitískt gjaldþrot opinberað. Mannhatur Donalds Trump er ljóst. Forréttindablindir henta illa til leiðtogastarfa. Fólk er aldrei rusl – ekki heldur þeir sem hata aðra.