Greinasafn fyrir merki: Edda Sigrún Ólafsdóttir

+ Edda Sigrún Ólafsdóttir – minningarorð

„Edda var alltaf svo ofboðslega myndarleg og dugleg“ – sagði lögfræðingur við mig í vikunni. Og bætti við, að vinkonurnar í lagadeildinni hefðu rætt um hvort þær gætu komið að henni þegar hún væri hvorki búin að greiða sér eða snyrta sig. Svo töldu þær sig fá tækifærið þegar fyrsti tími féll niður. Þær ákáðu að skella sér heim til Eddu til að tékka á henni, koma henni á óvart og ófarðaðri. Og ekki þurfti lengi að bíða þegar þær hringdu dyrabjöllunni. Þarna stóð hún – hárið var óaðfinnanlegt. Hún var glæsilega klædd, brosti breitt og sagði geislandi kát: „En gaman, ég var að taka bollur út úr ofninum. Komið inn.“ Þær lærðu lexíuna og reyndu ekki aftur slíka hemsókn.

Edda Sigrún var alltaf tilbúin og flott. Hún var glæsileg og agaði sig til átaka við lífið – allt frá bernsku. Hún vakti aðdáun hvar sem hún fór, dreif verkin áfram og var alltaf á vaktinni. Hún gegndi fjölda hlutverka í lífinu, var fimm barna móðir, eiginkona og fyrirmynd, lögmaður, vinkona og aðveita jákvæðni og bjartsýni.

Og nú er eins og myndin sé fullkomin. Þau standa saman á opnu sálmaskrárinnar, Helgi og Edda, eins og þau stóðu saman í lífinu. Og svo er þarna turn kirkjunnar á milli og bendir upp. Nú stendur Helgi á tímamótum og er að láta allt frá sér úr búðinni á Skólavörðustígnum. Mikil saga er við lok. Og Edda er á uppleið, á leið í hvelfingu himinsins, inn í eilífðina.

Upphaf og fjölskyldan

Edda Sigrún Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík 17. apríl árið 1936. Foreldrar hennar voru Ólafur Hafsteinn Einarsson, kennari og þýðandi, og Gréta Sigurborg Guðjónsdóttir, verslunarmaður. Systkini Eddu Sigrúnar voru Elín, Katrín og Guðjón. Elín er látin.

Uppvöxtur Eddu Sigrúnar var gæfulegur en flókinn. Pabbinn fékkst við kennslu og móðirin hélt heimilinu saman með mikilli kúnst. Og Edda tók stefnuna til lífs. Hún tók ákvörðun um að vera góð í öllu. Hún fékk ríkulegar gáfur og hæfni í vöggugjöf og nýtti vel. Þegar horft er til baka er eftirtektarvert að forkur og lærdómskappi sem Edda var að hún skyldi ekki ljúka menntaskólanámi strax. En hún fór gjarnan eigin leiðir í lífinu. Hún byrjaði í kvennavídd þess tíma og fór í húsmæðraskóla. Og allir sem kynntust Eddu eða komu á heimili hennar vissu að hún var snillingur í rekstri heimilis. Og svo varð glæsimennið Helgi á vegi hennar. Reyndar var hún ekki alveg viss um hann í byrjun – því hann var verulega óhreinn þegar hún sá hann fyrst. En svo þegar hann hafði farið í bað og hún sá þennan mikla sundmeistara hreinan og strokinn þá komu stjörnurnar í augu hennar. Og þau urðu par síðan – alla æfi – hvað sem á dundi og á daga dreif.

Þau Edda Sigrún og Helgi Hreiðar Sigurðsson bjuggu við barnalán og eignuðust fimm börn. Fjögur þeirra eru á lífi. Sigurður er elstur. Síðan kom Grétar í heiminn skömmu síðar en hann lést 24. desember síðastliðnum (2016). Nokkra ára hlé varð á barneignum en svo bættust í hópinn Helgi Hafsteinn, Edda Júlía og Sigrún Gréta. Sigurður er læknir á Hrafnistu, Grétar var úrsmiður að mennt og atvinnu. Helgi Hafsteinn starfar sem læknir í Hollandi, Edda Júlía er kennari og Sigrún Gréta er búfræðingur, íþróttakennari og er að ljúka námi sem lögildur fasteignasali. Edda Sigrún lætur eftir sig 14 barnabörn og fjögur barnabarnabörn. 

Helgi rak úraverkstæði sitt og verslun og Edda vaktaði allt sitt fólk. Hún breiddi út faðminn gagnvart stórfjölskyldunni. Þau sem þurftu aðstoð fengu hana hjá Eddu. Ef einhver var vegalaus var úrlausn að finna hjá henni. Og því var gjarnan mjög margmennt á heimilum þeirra Eddu og Helga.

Þau bjuggu víða. Það gegnir reyndar furðu hve mikill kraftur var í húsamálum og byggingamálum og Edda átti mikinn hlut í þeim framkvæmdum. Þau Edda byggðu fyrst í Rauðagerði, svo í Stóragerðinu og síðar í Hlyngerði. Helgi og Edda tóku líka til hendinni við húsbyggingar eða húsaviðgerðir á Stokkseyri, við Skerjafjörð, á Seltjarnarnesi og í Garðabæ. Að byggingaverkunum gekk hún með sama kraftinum og í húsmóðurstarfinu og lögmennskunni. Nætursvefninn varð stundum útundan hjá henni.

Eldri strákarnir uxu úr grasi. Edda kom öllu vel fyrir á heimaslóð og flest gekk fjölskyldunni í hag. Edda hafði metnað fyrir hönd barna sinna og hélt þeim til náms. Hún var samkvæm sjálfri sér. Þegar strákarnir hennar voru á leið í framhaldsskóla fór hún sjálf sama veg og fór í öldungadeild MH. Og Edda var hamhleypa í námi og glansaði á mettíma. Hún útskrifaðist með stúdentspróf og var meðal þeirra fyrstu sem luku öldungadeildinni. Og þá var stefnan sett á lögfræðina. Hún einhenti sér í það nám einnig. Meðan Edda Sigrún var í tíma hjá Sigurði Líndal eða Ármanni Snævarr voru yngri krakkarnir hennar stundum að leika sér á grasflötinni hjá styttunni af Sæmundi á selnum. Það var ekkert einfalt ferli fyrir konu með margvíslegar skyldur, kraftmikil börn og flókinn heimilisrekstur að vera á fullu í námi að auki. En Edda Sigrún var afrekskona og bakaði sínar bollur fyrir árrisular lagadömur, hélt stórboð fyrir tugi og jafnvel hundruð og átti ekki í neinum erfiðleikum með að skilja fons juris, muna lagagreinarnar og dómana. Og allt gerði hún með bjartsýni og bros á vör. Og svo þegar hún hafði skrifað lokaritgerðina útskrifaðist hún frá HÍ árið 1979. Þá tóku við störf á akri lögfræðinnar. Um tíma starfaði Edda Sigrún hjá ríkissaksóknara. Auk almennra lögmannsstarfa sérhæfði hún sig í sig slysabótum. Fjölskyldan varð vitni að því að hún var alltaf á vaktinni, gat aldrei sagt nei við þau sem áttu um sárt að binda og höfðu orðið fyrir áfalli. Í störfum dreif bjartsýnin Eddu áfram, óbilandi kraftur, þrautsegja og marksækni.

Minningar og eigindir

Hvernig manstu Eddu? Hún var sýnileg, ákveðin, áberandi og áhugaverð. Hún var gjarnan í miðju hringiðunnar. Manstu bleika varalitinn hennar? Hún fór ekki í hverfisátak eða fegrun götunnar án þess að vera almennilega máluð! Manstu neglurnar hennar? Fólk velti vöngum yfir hvort þær væru sterkari en annarra því hún gat puðað í mold í garðinum heilan dag án þess að þessar flottu, löngu neglur brotnuðu. Og hún dró aldrei af sér og notaði helst ekki hanska. Og garðurinn hennar varð fegursti garðurinn í Reykjavík.

Hún átti falleg og flott föt, var fagurkeri og leitaði í hið fagra og stórkostlega. Hún hafði áhuga á litum í lífinu og því voru fötin hennar ekki í grátónum heldur úr bjarta hluta listaskalans. Ung sjónvarpsstjarna bjargaði sér algerlega með því að fá aðgang að fataherberginu hennar Eddu. Og Edda sá gæðavörur á löngu færi. Hún rak með venslafólki sínu verslunina Kistuna sem seldi Laura Ashley-vörur.

Edda heimsótti þau sem áttu um sárt að binda, aðstoðaði þau sem voru í klípu. Hún tók þátt í félagsstarfi til styrktar fólki. Ef Edda Sigrún taldi að eitthvað á eigin heimili gæti nýst betur hjá skjólstæðingum hennar var ekki hikað. Teiknimyndasögur drengjanna hennar fengu nýtt líf á stofnunum og í athvörfum og í höndum þeirra sem Edda Sigrún vildi magna til lífs. Kraftmikil stuðningsaðgerð var stundum gerð án þess að allir aðilar væru spurðir leyfis. Edda Sigrún var um árabil í virkur liðsmaður í Kvenfélaginu Hringnum og í félagi Soroptimista.

Gestgjafinn Edda Sigrún var óbrigðul. Hún hélt stórkostlegar veislur fyrir fjölbreytilega hópa, kvennahópa, kvenlögfræðinga, sundfélaga Helga og stórfjölskylduna. Ekkert var óyfirstíganlegt í undirbúningi. Og það var stundum gott að hafa tvo bakaraofna á fullu í hálfan sólarhring. Veislurnar í kjölfarið urðu veglegar. Gestirnir voru ekki bara úr ákveðnum hópum heldur var biblíuaðferðin stundum notuð til að bjóða. Þau sem áttu um sárt að binda var boðið – líka á jólunum. Og minnstu bræður Jesú voru þar og þar með meistarinn sjálfur.

Manstu handavinnugetu hennar Eddu Sigrúnar? Hún saumaði á heilu sófasettinn, prjónaði ókjör. Var forkur í þeim verkum einnig.

Edda kallaði ekki til sín hreingerningarflokka til að halda heimilinu hreinu eða þrífa fyrir veislu. Heimilisfólkið gerði sitt og svo var Edda sjálf nákvæm hamhleypa sem mikið gekk undan. Því urðu til dýrlegir fagnaðir á heimili Eddu sem margir muna. Hún var drottning í eigin heimi og veislum. Og var tilbúin að leyfa öllum að njóta fagnaðarins.

Edda Sigrún var nákvæm með notkun íslensks máls. Og sú kunni að stafsetja.

Manstu natnina við fólkið hennar? Hún ákvað heimilsbrag og stefnu og Helgi og börnin náðu að lifa við hraðan takt húsmóðurinnar. Þegar eitthvað bjátaði á linnti Edda ekki látum fyrr en góðri niðurstöðu var náð. Þegar Edda yngri fékk krabbamein og íslenskir læknar voru strand fór Edda mamman af stað og fann úrræði í Lundi sem urðu til að dóttirin læknaðist. Þegar Edda tók stefnu í einhverjum málum voru nei ekki raunveruleg viðbrögð eða kostir. Nei var Eddu Sigrúnu tækifæri til viðbragðs. Nei var ekki stopp heldur eins konar hindrun til að komast hjá eða yfir. Þessi marksækni og stefnufesta var henni í merg runnin. Allt sem hún byrjaði á tók hún alla leið.

Edda Sigrún hafði djúpan áhuga á fólki, ekki aðeins þeim sem voru henni fjölskyldu- eða vinnutengd. Vinir barna og barnabarna hennar voru líka vinir hennar. Hún hafði áhuga á því sem þau voru að gera og færði þeim gjafir við barnsfæðingar, innflutning og útskriftir. Hún var stundum eins og yfirmamma í öllu hverfinu því börnin löðuðust að henni og kannski hefur ilmurinn úr eldhúsinu hjálpað til.

Manstu hve jákvæð Edda var? Edda líkti sér við Polyönnu og ákvað að vera sólarmegin í lífinu. Hún tók þá meðvituðu ákvörðun að láta ekki neikvæðni, ill tíðindi, veikindi eða áföll brjóta sig eða altaka. Hún stóð birtumegin, sótti inn í það góða, fagra og fullkomna. Henni var gefin ævintýralegur kraftur, dugur og nýtti gáfurnar vel í þágu þess sem skipti hana máli. Hún hvikaði ekki að þjóna fólki ef hún taldi að það væri rétt og styrkti til lífs. Og þegar á bjátaði og hún varð fyrir áföllum vann hún úr með bjartsýni og lífsvilja. Svo átti hún í vinum og vinkonum stuðning. Sigrún í Sæviðarsundi og Hildur Stefánsdóttir voru Eddu styrkar vinkonur. Þökk sé þeim.

Drama lífsins

Síðustu dagana hef ég setið og hlustað á sögur fjölskyldunnar. Tilfinningin sem situr eftir í mínum huga er að Edda hafi verið eins og kvikmyndastjarna, Hollywoodrottning, og líf hennar minnir mig helst á Hollyood-stórmynd. Og Helgi er flottur mótleikari í miklu drama Eddu Sigrúnar. Sagan Eddu hefur öll helstu einkenni klassískrar hetjusögu. Bernskuárin voru mótunarár sem reyndu á Eddu en stæltu hana einnig. Síðan komu góð tímabil en líka tímabil átaka og áfalla sem hún varð að fara í gegnum. Hún bognaði en brotnaði ekki. Hetjan sigrar alltaf í hetjusögunum og þannig er lífssaga Eddu Sigrúnar – mikið drama og hún var stjörnuleikari í eigin sögu. Hún er Eddan sjálf og héðan í frá mun ég alltaf hugsa um Eddu Sigrúnu Ólafsdóttur þegar Eddan verður afhent. Og fyrst hún fékk ekki Óskarinn formlega afhentan í lífinu þá getum við kannski skilið viðurkenningar í eilífð Guðs sem einhvers konar Eddur og Óskar í margfeldi?

Inn í eilífðina

Fyrir nokkrum árum sótti tengdadóttir Eddu Sigrúnu út á flugvöll í Hollandi. Þarna var hún komin – ungleg kona áttræðisaldri – glæsileg í rauðum stígvélum, í rauðri leðurkápu og með rauðar ferðatöskur. Og þannig finnst mér eins og Edda hljóti að hafa farið inn í himininn. Edda var trúuð og stefnuföst að auki. Innkoma hennar hefur örugglega verið flott og henni hefur verið fagnað. Mér finnst gott að hugsa um hana litríka á leið í gegnum gullna hliðið.

Hin bjarta afstaða hennar rímar vel við kristnina. Dauðinn dó en lífið lifir, ástin er sterkari en hatrið, birtan betri en myrkrið, gæðin eru fyrir alla en ekki fáa. Edda Sigrún er laus við veikindi og öldrun, doða og deyfingu. Hún er kraftsins megin. Og eilífðin er vettvangur mikillar sköpunar. Í orkubúi eilífðar er Eddukrafturinn virkjaður til góðs.

Guð geymi Eddu Sigrúnu Ólafsdóttur og Guð geymi þig.

Amen.

Kistulagning var í Fossvogskapellu 17. mars. Erfidrykkja á hótel Natura –  Loftleiðum. Jarðsett í Garðakirkjugarði.