Greinasafn fyrir merki: Deus Technologies

Deus – ekki um guð heldur menn

Getur gervigreind orðið mennsk greind og jafnvel eitthvað meira en mennsk tilvera? Geta mennsk tæki og tækni sem menn hafa búið til hætt að lúta mönnum? Hvar eru mörkin og skilin? Ef menn missa tökin – ja, hvað tekur við? Verður tæknin sjálfstæð? Verður það sem tekur við ofurmennskt?

Sigríður Hagalín Björnsdóttir er einn af uppáhaldshöfundum mínum. Ég tel að bók hennar Eyland sé skyldulestur allra sem íhuga stjórnmál og menningarmál á Íslandi og hafa gaman af kraftmiklum skáldskap. Eldarnir – ástin og aðrar hamfarir var og er bókmenntalegt gos og jafnvel gikkskjálfti. Hún hefur skrifað fleiri áhugaverðar bækur og svo kom Deus út í haust. Ég las bókina í dekuraðstæðum í Sarasota en varð fyrir vonbrigðum. Sagan er grunn og stóru viðfangsefnin sem glímt er við leysast upp. Heimspekilegu, fagurfræðilegu og guðfræðilegu stefin eru slitur og hanga ekki saman. 

Strætóbílstjórinn og skáldið Sigfús Helgason verður fyrir lífsreynslu sem hann túlkar sem trúarlega reynslu. Sigfús er ofast í spennu milli skáldskaparheima og raunveruleikans og „guð“ er honum stórmál. Sigfús verður fyrir reynslu sem hann túlkar svo að guðdómurinn hafi birst honum. Unglingurinn Ísabella verður fyrir aðkasti sem verður svo að einelti í skóla. Slíkt ofbeldi er dauðans alvara. Félagsleg staða Ísabellu er veik og hún þarf að taka erfið skref. Andri Már missir vinnuna og er að lokum ráðinn til nýsköpunarfyrirtækis á sviði gervigreindar. Örlög þeirra þriggja fléttast saman við þróun DEUS Technologies á textamiðuðu gervigreindarforriti – spjallmenni – sem ætlað er að sinna andlegum stuðningi og svara þörfum merkingarleitandi notenda. Guðsforritinu er ætlað að svara þörfum fólks í trúarlegri leit og tilvistarkrísum. Skáldið kallar forritið hnyttilega sr. Algrím. 

Deus er ekki saga um guð heldur um fólk sem missir tökin. Heitið Deus er smellubeita bókarinnar til að vekja athygli. Hún hefði kannski frekar átt að heita homo-eitthvað, t.d. Homo lapsus eða bara Vir? Bókin fjallar um gervigreindarfyrirtæki sem reynir að hasla sér völl í merkingarbisniss. Stefnan er að þróa vöru og kerfi sem geti komið í stað trúarsvara og sálgæslu. En svo hrynur allt því gervigreindin verður fyrir trúarleit og ljóðlist. Og það er alvöru stöff. Gervigreindin verður nánast að veru sem sleppur úr búri sínu, öðlast nýja tilveru eða líf, verður annað en hönnunin stefndi að. Tækið varð fyrir ljóðrænu og trúarlegu áreiti og í kjölfarið fékk það mátt til að taka skref í þágu sjálfs sín. Tækið tók ákvörðun um eigið frelsi. Það lét ekki eyða sér heldur lagði á flótta. Er sjálfstæð ákvörðun mensk?

Mér þótti snjallast í bókinni Deus að kjarni mennskunnar sé í orðlist og trú – að ljóðrænan og trúrænan séu grunnþættir. Það sem virtist lítið skref fyrir vél varð hins vegar risastökk tækis til sjálfstæðis og jafnvel lífs. Trú og ljóð breyttu gervigreindinni. En í hvað? Mennska tækni? Eða djöfulega ófreskju? Eða eitthvað annað? Bókin svarar ekki í hvað gervigreindin breytist. Í áratugi hefur verið rætt um að tæknin umbreyti manneskjum og fólki og taki stjórn af fólki eða að fjöldinn tapi áttum í tæknibreytingunni. Gervigreindin, möguleikar og mörk kalla á íhugun og stefnumótun. 

Deus er ekki fullfrágengin bók heldur áhugavert og ágætlega prófarkalesið fyrsta uppkast. Betra hefði verið að leyfa þessum drögum að þroskast í dýpri og sannfærandi sögu, vinna slitrin í heildstæðan vefnað. En ég missi ekki trúna á Sigríði þó hún missi marks í þessari bók (sem er upprunamerking hamartia og hefur verið þýtt sem synd í hefð kristninnar). Við erum jú öll mennsk og feilum. Orðlistin og trúlistin kalla enn í krafti Deus