Greinasafn fyrir merki: Dagmar Sigríður Lúðvíksdóttir

+  Lúðvík Gizurarson +

Hvernig var Lúðvík og hvaða minningar áttu um hann? Ég man eftir, sem ungur maður, að ég dáðist að greinum hans, tók eftir andríkinu sem birtust í blaðagreinum sem hann skrifaði. Þar birtist ekki aðeins áhugi á lögfræði, heldur alls konar vísdómur til eflingar og framfara. Lúðvík sá möguleika þar sem aðrir sáu lokanir. Hugur hans var opinn en ekki læstur. Í honum bjó frumgaldur vísinda, að þora að hugsa, greina möguleika og vekja athygli á þeim til framkvæmda. Einföld leit á vefnum færir í fang okkar margvíslegar greinar, sem Lúðvík skrifaði um ólík efni. Stíll hans var knappur, orðum var ekki sóað í óþarfa. Með skýru orðfæri og hnitmiðuðum og meitluðum setningum tjáði Lúðvík meiningu sína og hugmyndir.

Lúðvíksmyndirnar og minningar

Og hverjar eru þínar minningar? Ég er næsta viss um, að ef öll væru spurð sem hér eru í kirkjunni, yrðu minningarnar um Lúðvík næsta ólíkar. Í honum bjó svo margt og svo víða kom hann við sögu, svo mörgum kom hann til aðstoðar og svo margt afrekaði hann. En af frásögnum barna hans staldraði ég við ungan dreng austur í Rangárvallasýslu á stríðsárunum. Hann fór bráðungur niður að á með stöng. Það  er ekki sjálfgefið að leyfa barni, einu á ferð, að stikla á ystu nöf holbakka og við seiðandi strengi. En hann lærði að varast hætturnar, veiddi í Fiská og opnaði vitundina – naut ilms frá blóðbergi og ramm-sætu lyktarinnar úr á og frá bökkum. Lúðvík lærði að kasta og hvernig átti að beita sökku í strengjum yfir stórgrýttum botni. Og hann naut straumsins sem fór um taugar þegar kraftmiklir sjóbirtingar tóku eða risaurriðar sluppu. Lúðvík var nóg, þegar í bernsku og allt til ævikvölds, að eiga kex í vasa og ílát til að drekka úr ánni. Á bernskuárum festi Lúðvík ást á völlum, vötnum, fjöllum, litum, ljósríki og himni Rangárvallasýslu og hann virti tengslin við fólkið sem þar bjó. Þar var hann með sjálfum sér – í essinu sínu. Þar naut hann friðarins eins og hann er túlkaður í spekihefði hebrea. Friður sem jafnvægi kraftanna. Og þar, sem allt er heilt og í skapandi jafnvægi verða til hugmyndir, vöxtur og framtíð. Lúðvík óx upp í þeim anda og þorði að vera, þorði að lifa, lærði að treysta getu sinni og hugboðum. Hann varð brautryðjandi.

Upphaf, bernska og menntun

Lúðvík Gizurarson fæddist í Reykjavík þann 6. mars árið 1932. Foreldrar hans voru Dagmar Lúðvíksdóttir, húsmóðir, og Gizur Bergsteinsson, hæstaréttardómari. Dagmar var frá Norðfirði og var alin upp í stórum systkinahópi. Hún var sú sjöunda af ellefu systkinum, tengdi vel stórfjölskylduna og var öflug í samskiptum og þar með tengslum. Gizur var frá Árgilsstöðum í Hvolhreppi í Rangárvallasýslu. Gizur steig fyrstu skrefin á bökkum Eystri Rangár og var umvafinn erkisögu Njálu. Lagaviska menningarinnar seitlaði inn í hann upp úr mold og sögu og skapaði góðan lögfræðing og að lokum hæstaréttardómara.

Lúðvík var elstur í systkinahópnum og var nefndur eftir móðurafanum fyrir austan. Nafnið er norður-germanskt og kom til landsins með forföður frá Slésvík-Holstein. Reyndar hafði verið ákveðið, að ungsveinninn skyldi bera tvö nöfn afans og heita bæði Lúðvík og Sigurður. En Sigurðarnafnið féll niður milli prestshandar og skírnarfonts. Sr. Jakob Jónsson, þá prestur í Norðfirði og síðar lengi prestur í Hallgrímskirkju, sleppti Sigurðarnafninu í skírninni og fjölskyldan treysti klerki og lét sér Lúðvíksnafnið nægja, enda gott. En nafnið var þó ekki gleymt og kom að góðum notum þegar þriðji drengur þeirra Dagmarar og Gizurar fæddist árið 1939. Hann er Sigurður og er lögfræðingur og gegndi embætti sýslumanns. Bergsveinn var á milli þeirra Lúðvíks og Sigurðar, næstelstur og hann fæddist árið 1936. Bergsveinn varð verkfræðingur og brunamálastjóri. Sigríður fæddist svo á stríðsárunum 1942. Hún var lífeindafræðingur. Sigurður lifir systkini sín og er einn eftir af þessum hæfileikaríka systkinahópi.

Fjölskylda Lúðvíks bjó við fyrstu árin hans við Öldugötu í Reykjavík. Móðirin sá um heimilið og Gizur ávann sér virðingu kollega og samferðamanna fyrir þekkingu og fræðafærni. Lúðvík naut stórfjölskyldunnar og frændfólks í uppeldi. Hann var sendur austur á Neskaupsstað, til afa og ömmu, til Lúðvíks Sigurðar Sigurðssonar og Ingibjargar Þorláksdóttur. Af þeim lærði drengurinn afar margt og þau urðu honum skýrar fyrirmyndir. Lúðvíkshús var gleðiríkt. Ekki aðeins var fjörlegt vegna barnafjöldans, heldur voru þau afi og amma í Neskaupstað kraftmikil og drífandi. Þau urðu Lúðvíki skapandi fyrirmyndir. Amman var forkur til vinnu og hún var laginn og viljasterkur stjórnandi. Afinn var framtakssamur útgerðarmaður, hygginn fjárhöldur og kátur harmonikuleikandi.

Lúðvík sótti skóla í Reykjavík. Það var ekki löng gönguleið af Öldugötunni og niður í Miðbæjarskóla. Og leið lá í gegnum miðju íslenskrar samtímamenningar. Svo varð stríðið til að auka á marbreytileikann. Lúðvík var frá upphafi glöggur nemandi og stefndi á nám í Menntaskólanum í Reykjavík. Menntaskólaárin voru skemmtileg og viðburðarík. Lúðvík varð svo stúdent frá MR árið 1952.

„Go west young man“ var sagt í Ameríku. Lúðvík voru allar leiðir færar eftir stúdentspróf. Hann var fjölhæfur, hugurinn leitaði víða og áhuginn var víðfeðmur. Hann var menntasækinn og fróðleiksfús og efni í góðan vísindamann. Lúðvík var alla tíð áhugasamur um verklegar framkvæmdir og hugur hans leitaði á brautir verkfræði. Svo var hann vestursækinn og sótti um nám í verkfræði við Ohio State University í Athens. Hann fékk skólavist og þótti gaman vestra. En svo sótti hann heim að nýju – vegna ástamála. Konuefnið hans dró hann til baka. Og niðurstaða Lúðvíks var, að halda á ný fræðsvið og hann ákvað að fara í lögfræðina í Háskóla Íslands. En áður en hann hæfi námið af krafti var hann reiknimeistari í flokki línumanna sem unnu við Sogslínu árið 1953. Þar kom reiknigeta hans að góðum notum til að reisa og strekkja rétt.

Lögfræðin varð Lúðvík góð grein og næsta hagnýt sem og lykill að mörgum skrám íslensks samfélags. Lúðvík var ekki aðeins fastur í skruddum og að læra utanbókar ákvæði almennra hegningarlaga eða vatnalöggjafar, heldur hann tók virkan þátt í stjórnmálum á námsárunum. Lúðvík var ritstjóri Úlfljóts á árunum 1954-55. Og hann lauk lögfræðiprófi og varð cand jurisfrá Háskóla Íslands vorið 1958. Hann fékk réttindi sem héraðsdómslögmaður síðar sama ár og varð svo hæstaréttarlögmaður þremur og hálfu ári síðar eða árið 1962. Lúðvík rak um tíma eigin lögfræðistofu í Reykjavík og starfaði svo sem lögfræðingur í Utanríkisráðuneytinu. Hann varð formaður Varnarmálanefndar og lögfræðingur í Viðskiptaráðuneytinu um árabil. Lúðvík rak ásamt konu sinni fasteignasöluna Hús og eignir, þar til hann lét af störfum vegna aldurs.

Valgerður og börnin

Já, konan hans Lúðvíks var stóra ástin hans. Hann sá Valgerði Guðrúnu Einarsdóttur þegar hún byrjaði nám í MR  – gat ekki annað því hún var augnayndi. Og hún komst ekki hjá því að sjá glæsisveininn. Svo var ball á hótel Borg og þau dönsuðu og ástin blómstraði. Þau voru stóra ástin í lífi beggja. Eftir heils vetrar söknuð vestur í Athens í Ohio kom Lúðvík heim. Þegar leið að hjónavígslu systur Valgerðar spurði Lúðvík kærustuna hvort þau ættu ekki bara að gifta sig líka. Og þau gengu í hjónaband og voru gefin saman í Háskólakapellunni 11. júní árið 1954. Það var bjart yfir öllu, hiti í öllu – meira segja methiti í Reykjavík þessa daga. Fimm dögum fyrir hjónavígsluna fór hitinn yfir tuttugu stig í bænum.

Börn þeirra Lúðvígs og Valgerðar eru þrjú.

Elst er Dagmar Sigríður, sem fæddist í maí árið 1957. Hún er lífeindafræðingur. Maður hennar er Trausti Pétursson, lyfjafræðingur. Dóttir þeirra er Valgerður Dóra.

Dóra fæddist í maí árið 1962. Hún er lungna- og ofnæmislæknir. Maður hennar er Einar Gunnarsson, skógfræðingur. Þau eiga dótturina Dagmar Helgu, sem nemur lögfræði.

Einar er yngstur og kom í heiminn í ágúst árið 1963. Hann er framkvæmdastjóri. Dætur hans og Ginu Christie eru Valgerður Saskia og Lilja Sigríður, báðar nemendur. Þetta var fólkið hans Lúðvíks, sem hann hafði brennandi áhuga á, fylgdist með og vildi gefa allt það besta, sem hann átti.

Lúðvík og Valgerður bjuggu fyrstu hjúskaparárin á Neshaga 6, sem foreldrar Lúðvíks höfðu byggt. Síðan bjuggu þau á Hávallagötu 5, en síðan á Grenimel 20. Valgerður kona Lúðvígs lést árið 2008. Og síðustu árin bjó Lúðvík í Sóltúni og naut umhyggju barna sinna, ástvina og góðs starfsfólks. Þökk sé þeim.

Minningarnar

Hvernig manstu Lúðvík? Manstu sögurnar hans eða áhugamálin? Manstu kraftinn og hve auðvelt honum var að laða fram stemmingu með sögu? Manstu náttúrunnandann og merkilegar hugmyndir hans? Blaðagreinarnar spanna afar vítt svið og flest sem varðaði möguleika manna, ábyrga náttúrunotkun, skynsamlegar framkvæmdir og góða nýtingu fjár voru hugðarefni Lúðvíks. Hann var hugsjónamaður og frumkvöðull. Hugmyndir hans um stöðvun sandburðar við Landeyjarhöfn eru afar frumlegar og ástæða til að koma í framkvæmd. Hann hafði skoðanir á hvernig ætti að stunda skilvirkar veiðar á vargi og vildi stofna minkaveiðiherdeild, hvorki meira né minna. Og auðvitað hafði Lúðvík líka skoðun á hvernig mætti hreinsa Tjörnina og setti fram hagnýtar tillögur. Lúðvík vildi dýrðlega Tjörn á ný – eins og hann orðaði það. Hann hafði skýrar hugmyndir um viðbrögð við hruni fjármálalífs Íslands, aflandskrónum og vaxtamálum bankakerfisins. Hann hafði skoðanir á göngum á Austurlandi, lífeyrissjóðum þjóðarinnar, kaupum útlendinga á íslenskum stórjörðum og nýtingu þeirra. Lúðvík hafði alla tíð mikinn áhuga á fuglum og það er merkilegt að eitt vorið tilkynnti hann fuglavakt þjóðarinnar, að hann hafi komið auga á silkitopp. Og hann hafði líka skoðanir á verndaraðgerðum í þágu lunda, kríu og sjóbirtings. Áhugi Lúðvíks var fangvíður og tillögur hans margar snjallar.

Manstu skapgerð hans og eigindir? Hann var ljúfur og heiðarlegur. En hann var líka margra vídda, stundum erfiður, líka sjálfum sér. Alltaf stefnufastur og jafnvel þrjóskur. Stundum endaði hann út í á og bíllinn fastur. Og þá varð hann að leita hjálpar. Það gat hann.

Lúðvík var óhræddur að takast á við stóru málin. Hann hafði ekki aðeins skoðanir eða hugmyndir. Hann þorði líka. Frá bernsku vissi hann, að Hermann Jónasson var blóðfaðir hans. Hann taldi sér skylt, að leiða það mál til lykta. Lúðvík þurfti nokkrar atrennur til að ná markinu. En staðfest var, að hann var blóðsonur Hermanns Jónassonar. Í þessu tilfinningaþrungna máli kom í ljós þor Lúðvíks. Hann varð brautryðjandi allra, sem á eftir komu, því nú eru það orðin skilgreind mannréttindi, að fólk á rétt á að þekkja foreldra sína og þar með sögu sína og erfðavísa. Lof sé Lúðvík fyrir að hafa opnað nýjar leiðir föðurleitandi fólks.

Ævintýrið Eystri Rangá

Af því að Lúðvík var óhræddur frumkvöðull og veiðimaður hafði hann alla tíð áhuga á veiðum í íslenskum vötnum. Honum var alla tíð umhugað um að efla lífríki ánna, sem voru í hans umsjá, og vonir hans gengu eftir. Um árabil leigðu þau Valgerur Miðá í Dölum og gerðu hana að alvöruá með markvissum aðgerðum. En ekkert ævintýri í veiðimálum okkar Íslendinga jafnast á við þá uppbyggingu, sem Lúðvík stóð fyrir í Eystri Rangá. Að því verki komu margir undir forystu Lúðvíks og Einar hefur síðan haldið áfram með óbilandi elju. Uppbyggingin við og í Eystri Rangá er kraftaverki líkast og fundvísi og snilli þeirra feðga Lúðvígs og Einars hefur breytt fljótinu úr rýrri veiðiá í veiðiundur á heimsmælikvarða. Bernskuáhugi, frummótun, tækniáhugi, framsýni, skapandi hugsun, vinnusemi og þolgæði urðu til að kraftaverkið tókst. Þökk sé honum. Í þessu stórvirki varð Lúðvík skínandi fyrirmynd.

Að kveðja

Nú eru skil. Lúðvík stoppar ekki við ár framar til að skygnast eftir fiski. Hann fær ekki framar eitt hundrað hugmyndir á dag eins og barnabarn hans hafði tekið eftir. Afi Lúlli opnar ekki fang til hægt sé að kúra á afabumbu. Hann kennir ekki Lúðvísku veiðiaðferðina framar, semur um seiðasleppingar eða höndlar með húseignir. Hann skrifar enga 99 orða grein um stórmál eða hvernig bjarga megi Breiðamerkursandi og Jökulsárlóni eða efla atvinnulíf í góðri sátt við Rússa og Kínverja. Hans Lady luckkallaði af himnum. Fljót eilífðar er máttugt og kyssir tímann og umvefur vin sinn og okkur öll.

En hér fann ég ungur í hjarta mér

þann himin, sem ég gat lotið.

Og geiglausum huga ég held til móts

við haustið, sem allra bíður.

Og sefandi harmljóð hins helga fljóts

úr húminu til mín líður.

Eins veit ég og finn að það fylgir mér

um firð hinna bláu vega,

er hníg eitt síðkvöld að hjarta þér,

ó, haustfagra ættjörð míns trega.

(úr ljóðinu Fljótið helga eftir Tómas Guðmundsson).

Guð geymi Lúðvík og Guð styrki ykkur ástvini.

Amen.

Dómkirkjan í Reykjavík, 20. september 2019, klukkan 13. Erfidrykkja hótel Natura. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.