Greinasafn fyrir merki: Biskupskjör 2012

Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni Glerárkirkju Akureyri

Ég skrifa þennan pistil sem einstaklingur og djákni sem styður biskupsframboð dr. Sigurðar Árna Þórðarsonar, prests í Neskirkju. Mér þykir vænt um að mega og geta skrifað stuðningspistil sem þennan, því ég er þess fullviss að biskupskápan muni klæða Sigurð Árna sérstaklega vel, ef við sem styðjum hann, gerum það á opinskáan, heiðarlegan og umfram allt málefnalegan hátt.

Allt frá því að ég kynntist Sigurði Árna fyrst fyrir rúmum aldarfjórðungi hefur það heillað mig í hans fari að hann vill læra að gera betur, telur sig ekki fullkominn, né yfir það hafinn að taka gagnrýni. Þannig hef ég upplifað Sigurð Árna sem nokkuð lausan við hroka. Því þykja mér orð hans þegar hann talar um þetta trúverðug. Í prédikun fyrir átta árum sagði hann:

Hvað einkennir hinn sjálfhverfa og hrokafulla? Jú, hann eða hún sækir í að vera miðja gæðanna. Annað einkenni er að hinn hrokafulli hefur alltaf rétt fyrir sér. Þú þarft ekki lengi að svipast um til að sjá slíka snillinga! Þar, sem eitthvað fer aflaga kemur hinn sjálfhverfi sök á aðra og býr til sökudólga. Hinn sjálfhverfi gengst ógjarnan við nokkurri sök. Hinn sjálfhverfi býr til óvini og vandkvæði sem berjast skal gegn. (http://tru.is/postilla/2004/10/hroki-au%C3%B0mykt )

Ég minnist nokkurra góðra samtala sem við áttum þegar við störfuðum saman í Skálholti um það leyti sem Sigurður Árni hvarf þaðan til starfa sem fræðslustjóri á Þingvöllum. Við ræddum um eigin breyskleika og hve mikilvæg þörfin væri að við lærðum að líta í eigin barm og spyrja hvar við gætum bætt hegðun okkar og viðhorf. Þessi samtöl þóttu mér góð og einlæg. Þau rifjuðust upp fyrir mér aftur þegar ég las prédikun Sigurður fyrir fimm árum síðan, þar sem hann sagði m.a.:

Engin iðrun gengur upp nema einstaklingurinn vilji horfa á misgerðir sínar. Margir eru svo sjálfhverfir, að raunveruleg brot geta þeir ekki viðurkennt heldur reiða fram skýringar á aðstæðum sem ollu, reyna að forðast að axla ábyrgð og kenna alltaf öðru eða öðrum um. (http://tru.is/postilla/2006/12/salarthrif-og-idrun )

Þetta er Sigurður Árni eins og hann birtist mér, maður sem er reiðubúinn að axla ábyrgð, maður sem sér sig í stærra samhengi, maður sem sækist eftir hinu gagnrýna samtali, ekki til að breyta öðrum, heldur til að bæta sjálfan sig. Orð hans í prédikun frá síðasta hausti þykja mér styðja þessa sýn mína á hann:

Í trúarefnum eigum við beita tortryggni með fullum þunga og ekki hvika í gagnrýnni skoðun. En enginn skyldi fara offari og aðgátar er þörf, hvort sem verið er að túlka goðsögur, Biblíu, trúarbragðaefni eða heimspeki, veraldarsýn og mannhugmyndir aldanna. Tortryggjum en látum ekki þar við sitja, hugsum til enda – og elskum til loka og lykta. Hið mikilvæga er ekki aðeins að velta um og grafa grunn heldur endurbyggja og endurheimta dýptarviskuna. Góð guðfræði fagnar tortryggjandi afstöðu og lífssókn spekinnar. (http://tru.is/postilla/2011/09/folk-og-folk )

Það er þessi næmni sem heillar mig við Sigurð Árna. Hann fer hvergi offari, hann elskar til loka og lykta, kemur ástúðlega fram við hvern þann sem til hans leitar og er samferðamaður af heilum hug. Vegferð hans er lituð af þeirri fjölbreytni sem sköpun Drottins hefur upp á að bjóða. Sú fjölbreytni er honum gjarnan yrkisefni í pistlum og prédikunum sínum. Þegar ég les og hlusta á texta hans og horfi á hann tjá sig, skil ég að hér er á ferðinni einstaklingur sem hefur safnað visku í sarpinn. Um þetta skrifaði hann m.a. svo fallega í prédikun fyrir níu árum:

Í því er viska daga og árstíða fólgin, að við heyjum vel, söfnum kunnáttusamlega og ekki aðeins einhæft til að veturinn verði bærilegri. Í því er viska lífsins fólgin að við söfnum ekki aðeins hinum magaræna og efnislega, heldur auð sem dugar þegar áföllin verða, þrekið hverfur, sorgin nístir og allt er tekið. Hvað er það þá, og kannski er það fremur – hver er það þá sem stendur þér nærri? ( http://tru.is/postilla/2003/09/vetrarkostur )

Sjálfur svarar Sigurður Árni víða þeirri spurningu á hreinskiptin hátt og ætti engum að dyljast að hann hefur valið Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Af dýpt og einlægni hefur hann líka vitnað um átök sín við skaparann og nýja sýn á vegferð hins trúaða. Um þetta sagði hann í prédikun árið 2004:

Mín lífsglíma skóp algerlega nýja sýn gagnvart Guði. Ég lærði að forgangsraða. Ég lærði að Guð er ekki fjarlægur heimssmiður, ekki löggjafi á himnum sem skipar þér þetta eða hitt, reynir að siða þig eins og krakka eða sendir út í heiminn einhverjar klisjur um að við eigum ekki að stressa okkur. (http://tru.is/postilla/2004/09/slaka%C3%B0u-a-engar-ahyggjur )

Í mínum augum er Sigurður Árni mannasættir. Mér þykir mikilvægt að í biskupsstól sitji einstaklingur sem nær að taka á þeim málum sem upp kunna að koma í kirkjunni á hverjum tíma af einurð, dugnaði og með hugarfari sem flokkar ekki fólk í ,,við og hinir“. Sá sem kynnir sér texta Sigurðar Árna sér fljótlega að kærleiksrík sýn hans á manneskjuna er í anda frelsarans frá Nasaret sem lét ekki hin ósýnilegu landamæri milli þjóðfélagshópa aftra sér. Ég veit að Sigurður Árni talar frá hjartanu þegar hann segir:

Elskið útlendingana var og er boð Guðs. Menn eru börn Guðs, hafa gildi, óháð upphafi, fæðingarstað, kynþætti og þjóð. Elskið – elskið útlendinginn, munaðarleysingjann og ekkjuna. Sem sé elskið öll þau, sem eru á útkantinum, þau sem eru utan miðju samfélagsins. Elskið þau, sem eru valdalaus eða vanvirt, eru án samfélagsgæða, auðlegðar og frægðar. (http://tru.is/postilla/2006/01/elskid-thvi-utlendinginn )

Í þessum pistli hef ég leyft mér að lofa þann ágæta mann sem Sigurður Árni er. Væntanlega þykir einhverjum pistillinn væminn, jafnvel að ég skjóti yfir markið. Bið ég þá hinn sama um að láta Sigurð Árna ekki gjalda fyrir væmnina í mér, heldur einfaldlega að hafa samband við hann sjálfan og spyrja hann spjörunum úr. Það er auðvelt að muna netfangið hans: s@sigurdurarni.is

P.S. Við Sigurður Árni heilsumst gjarnan með orðinu ,,frændi“ en vert er og rétt að hér komi fram að við erum skyldir í sjötta og áttunda lið, þ.e. sameiginlegir áar okkar eru Sigfús Jónsson og Sigríður Halldórsdóttir sem gengu í hjónaband 25. september 1760 og bjuggu síðast sem leiguliðar Hólastóls á Melum í Svarfaðardal.

 

Vigfús Ingvar Ingvarsson, fyrrv. sóknarprestur á Egilsstöðum

Sr. Sigurði Árna kynntist ég fyrst er hann kom til náms í guðfræði í HÍ þar sem ég var fyrir. Minnist þess hve vinsamlega hann heilsaði mér sem kunningja og aðspurður hvaðan hann þekkti mig var svarið að hann hefði séð mig á gangi fyrir utan skólann.

Við áttum svo góðar stundir saman í Kristilegu stúdentafélagi t.d. við útgáfu Kristilegs stúdentablaðs og við ýmis tækifæri þar sem guðfræðinemar áttu samleið. Hef svo fylgst með honum í gegnum árin. Las t.d. doktorsritgerð hans af mikilli athygli þar sem hann af glöggskyggni rýnir í íslenskar trúarhefðir.

Síðar urðum við samstarfsmenn í vinnunni við safnaðaruppbyggingu á tíunda áratugnum þegar Sigurður Árni var framkvæmdastjóri verkefnisins, sem starfsmaður Biskupsstofu, en undirritaður í safnaðaruppbyggingarnefndinni og sem formaður hennar í nokkur ár.

Margt kemur til að ég sé Sigurð Árna Þórðarson fyrir mér sem góðan biskup á erfiðum tímum. Ég þekki hann sem mikinn heilindamann og ljúfmenni í öllum mannlegum samskiptum. Mann með hæfileika til að laða það besta fram í fólki og leyfa hugmyndum þess og kröftum að njóta sín. Jafnframt sem hugsjónamann og mikinn dugnaðarfork sem á gott með að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í ræðu og riti.

Enn eykur það traust mitt á Sigurði Árna sem biskupsefni hve fjölbreytta og dýrmæta starfsreynslu hann hefur og hve kunnugur hann er aðstæðum bæði á landsbyggðinni og í Reykjavík og þjónustu kirkjunnar á ólíkum vettvangi. Og ekki spillir staðgóð menntun.

Sigurður Árni hefur verið mjög virkur í umræðunni um málefni kirkjunnar á undanförnum árum og opinn fyrir nýjungum án þess að vanmeta góðan arf. Frá því er ég kynntist honum hefur hann verið vakandi fyrir þörfum þeirra sem höllum fæti standa og metið meira að standa vörð um þjóðfélagslegt réttlæti en að láta berast með straumnum.

Vigfús Ingvar Ingvarsson
fyrrv. sóknarprestur á Egilsstöðum

Sigurður Árni í Fréttablaðinu og Skessuhorni

Í gær, miðvikudaginn 29. febrúar, birtist viðtal við Sigurð Árna í Skessuhorni. Smelltu hér til þess að lesa greinina. 

Þá birtist viðtal við Sigurð Árna í aukablaði Fréttablaðsins um fermingar í dag, 1. mars. Þar segir Sigurður Árni frá fermingardegi sínum þann 23. október 1966. Þá fermdist hann, ásamt Kristínu systur sinni, sem er einu og hálfu ári eldri. Smelltu hér til þess að lesa viðtalið. 

Íslensku söfnuðirnir erlendis

Ég var spurður um stefnu mína varðandi þjónustu við Íslendinga sem búa erlendis. Við, sem höfum dvalið langdvölum í útlöndum, vitum hve dásamlegt það getur verið að hitta stóran hóp landa, geta talað, sungið íslenska sálma og beðið á móðurmálinu og hlustað á kjarnmikið og vel orðað lífsorð úr prédikunarstóli.

Samkomur og messur eru Íslendingum í útlöndum mikilvægar. Auðvitað hafa þjóðernisþættir áhrif, en kirkjulífið verður sem rammi um aðra þætti og þarfir fólks. Svona hefur það verið frá því Íslendingar fluttu til Vesturheims og þannig hefur það verið í Evrópu síðustu áratugi. Hið sama gildir um annarra þjóða fólk og því heldur þjóðkirkjan messur í Hallgrímskirkju fyrir enskumælandi fólk. Sr. Bjarni Þór Bjarnason þjónar því prestsstarfi með glæsibrag. Og við ættum auðvitað að messa oftar á þýsku, dönsku, norsku, sænsku og kannski líka á frönsku og spænsku!

Íslenska kirkjan hefur, vegna fjáreklu, lagt niður prestsstöður í London og Kaupmannahöfn. En söfnuðurnir hafa notið styrkja til safnaðarstarfs þó upphæðirnar hafi ekki verið í sex núllum.

Þjóðkirkjan á að stefna að því að endurstofna prestsstöðurnar. En okkur ber líka að leita áfram lausna á viðkomandi starfssvæðum og óska aðstoðar systurkirkna. Þetta á sérstaklega við í Danmörk og Svíþjóð. Vegna hinna góðu tengsla okkar við anglikanskar kirkju, í anda Porvoo-samkomulagsins, njóta Íslendingar velvilja varðandi kirknafnot og aðstöðu. Svo mun eflaust áfram verða.

Stutt yfirlit um stöðu safnaðanna erlendis er hér að neðan – eins og ég veit best. Góðar hugmyndir og ábendingar eru vel þegnar og óháð biskupskjöri. Ég sit á kirkjuþingi og er í samkirkjunefnd þjóðkirkjunnar og læt mig varða þjónustu hennar erlendis.

Noregur

Staða íslenska safnaðarins í Noregi er góð, raunar fjárhagslega best þeirra safnaða landa okkar sem eru erlendis. Söfnuðurinn hefur verið samþykkt sem n.k. fríkirkja en presturinn, sr. Arna Grétarsdóttir, er boðinn til funda og samstarfs í norsku þjóðkirkjunn. Söfnuðurinn fær nú starfsstyrk og getur borgað prestinum laun. En vegna fjölda Íslendinga þyrfti jafnvel að bæta við presti eða djákna. Ég mun styðja það mál ef sú stefna verður tekin af presti og sóknarnefnd. Verið er að undirbúa kaup að sal og starfsaðstöðu og er okkar fólki í Noregi óskað til hamingju.

Danmörk

Danska kirkjan er að miklu leyti ríkisstýrð og ráðuneytið hefur ekki viljað samþykkja prestsstöðu í þágu íslenska safnaðarins. Enn sem komið er hefur ekki verið farin leið stofnunar fríkirkjusafnaðar. En Íslendingar þurfa þjónustu og kirkjustarf og vert að skoða alla kosti. Ég vil því stuðla að því að fá utanríkisráðuneyti í málið til styrktar með kirkjunni og sækja fastar að danska ríkið komi til hjálpar – enda greiða Íslendingar sína skatta og sinna sínum skyldum í Danmörk. Og þó ekki hafi fengist nein varanleg úrlausn prestsþjónustumála í Kaupmannahöfn er engin ástæða til að hætta. Þjónusta íslensku kirkjunnar þarf að vera öflug í Kaupmannahöfn og Danmörk.

Svíþjóð

Enn starfar prestur í hlutastarfi í Gautaborg, sr. Ágúst Einarsson og vinnur gott starf. En fjárveitingar til þjónustunnar koma ekki frá kirkjunni heldur íslenska ríkinu. Ástæðan er presturinn aðstoðar fólk sem kemur til Svíþjóðar í lækniserindum.

Það sama gildir um Svíþjóð eins og hin Norðurlöndin, að ástæða er til að reyna áfram að afla liðveislu systurkirkjunnar til að stofna og reka prestsembætti.

England og meginland Evrópu

Prestssatarfið í Englandi var lagt niður og er leyst til bráðabirgða með ferðaprestum. Sú skipan er ekki ásættanleg til lengdar. Í Lúx hefur sr. Sjöfn Þór tekið við þjónustu við Íslendinga. Vel getur farið svo að hún muni þjóna Íslendingum í Brussel einnig. En þetta starf hennar er ekki fast og alls ekki embætti í neinum formlegum skilningi.

Ísraelar áttu erfitt með að tilbiðja Guð við Babýlonsfljót og Boney M. gerði frægt. Og tilbeiðsla á framandi tungu er mörgum erfið. Þjóðkirkjan á styðja starf íslenskra safnaða og veita prestsþjónstu þar sem fjöldi Íslendinga er mikill eins og á Norðurlöndum, Englandi og Vestur Evrópu. Sá stuðningur getur verið margvíslegur. Fjármunir eru góðir en mikilvæg eru líka öll gefandi samskipti og óbeinn stuðningur.