Greinasafn fyrir merki: Auður Kristjánsdóttir

Auður Kristjánsdóttir – minningarorð

Auður hitar ekki lengur handa þér kaffi eða slær í pönsur og ber fyrir þig. Hún bendir þér ekki lengur til vegar með mannviti, skynsamlegum rökum. Hún hlær ekki lengur að skemmtilegheitum lífsins. Nú er hún farin, en hvert? Já, því svara páskarnir. 

Sunnudagsfólk og páskar

Við kveðjum Auði Kristjánsdóttur. Við höfum lifað kyrruviku og páska. Fyrst eru dapurlegir dagar dymbilviku og síðan eru dagar gleði. Dagar lægingar og dagar lífs. Já, föstudagurinn langi er víst dagur í lífi flestra. Allir upplifa eitthvað þungt, sorglegt og átakanlegt. Enginn sleppur. En öllu skiptir hvernig með mótdrægnismál er farið og úr þeim unnið. Eftir langan föstudag kemur laugardagur og sunnudagur – og á páskum kemur líf eftir dauða – til að minna okkur á hið raunverulega samhengi, til að kenna okkur að lifa vel.  

Ótrúlega margir verða föstudagsfólk í lífinu, eins og þjáning, sorgir og sjúkdómar séu það sem einkennir lífið. En við erum kölluð til að vera sunnudagsfólk, sjá undur lífsins, læra að hlægja, fólk sem kann að glíma við bæði gleði og sorg, fólk sem temur sér að sjá hið góða, gjöfula og jákvæða þrátt fyrir dimma daga. Við megum gjarnan minnast þessa þegar við íhugum líf og kveðjum Auði. 

Hin jákvæða Auður

Auður var þakklát, hún var sjálfstæð, nægjusöm, kvartaði ekki. Þegar rætt var um aldur, öldrun og aðbúnað minnti hún á, að gamalt fólk samtímans byggi við mun betri aðstæður en áður hefði verið. Auður hafði í sér – já hafði tamið sér og þjálfað jákvæða og raunsæja lífssýn. Hún var gjafmild og rausnarsöm. Hún hafði enga þörf fyrir að lækka aðra til að hefja sig með því, hafði enga þörf fyrir að sjást með því að hreykja sér á annarra kostnað. Hún hafði gildi sitt í sjálfri sér og þarfnaðist þess ekki að fá það frá öðru eða öðrum. Hún hafði náð þroska, sem aðeins verður með því að glíma við bæði umhverfi og innri mann. Hún var ekki lengur föstudagskona í lífinu heldur sunnudagskona, kona lífsins, páskakona.

Ætt og uppruni

Auður Kristjánsdóttir fæddist í Ytra-Skógarnesi 19. maí árið 1926. Reyndar fæddust tvær stúlkur þennan dag, því Auður var tvíburi, hin systirin var Unnur, sem lést fyrir tæpum þremur árum. 

Foreldrar Auðar voru hjónin Kristján Ágúst Kristjánsson, bóndi í Ytra-Skógarnesi og skjalavörður Alþingis, (f. 4. ágúst 1890, d. 4. júlí 1934) og kona hans Sigríður Karítas Gísladóttir, húsfreyja (f. 7. febrúar 1891, d. 15. nóvember 1988).

Systkini Auðar eru Hanna, Baldur, Jens, Unnur, Arndís, Einar Haukur, Jóhanna og Kristjana Ágústa. Af þessum stóra hóp eru sex látin, en þau er lifa eru Jens, Einar Haukur og Kristjana Ágústa.

Ströndin stóra og upphaf

Þær systur Auður og Unnur sem og hin systkinin fæddust við strönd hins mikla hafs. Björtu Löngufjörurnar þeirra minna helst á sæluríki á himnum. En mannlíf í Miklaholtshreppi á fyrstu áratugum 20. aldar var þó engin samfelld sæla og sigurganga. Ströndin og Ytra-Skógarnes eiga líka sögur af áföllum. Fjölskyldusagan spannar hamingju en líka raunir.

Við erum öll mótuð af upphafi okkar, erfðaefni en líka af aðstæðum og áföllum, sem verða. Auður kunni alveg að orna sér við minningar fortíðar og sagði síðar, að það hefði alltaf verið logn í Skógarnesi bernskunnar! Hún tók það jákvæða og góða með sér, hún hafði getu til að skilja hitt eftir.  

Fjölskyldan var kraftmikil og farnaðist vel. Húsmóðirin var oft eins og farmannskona því pabbinn hafði mörg járn í eldi. Honum voru falin ýmis ábyrgðarstörf heima í héraði og svo hafði hann störfum að gegna fyrir sunnan, því hann þjónaði Alþingi sem skjalavörður á vetrum. 

Gott líf en svo missir

Frjósemin var mikil í Ytra Skógarnesi. Á tólf árum, frá 1922 – 1934, fæddust þeim Sigríði og Kristjáni níu börn. Og þá dundi voðinn yfir. Heimilisfaðirinn, Kristján Ágúst, hafði farið suður til aðgerðar og þvert á allar læknisfræðispár lést hann óvænt, maður í blóma lífsins. Hanna, elsta barnið, var þá aðeins 12 ára og hið yngsta nýfætt. Ekkert annað var í boði en að bíta á jaxlinn og lifa. Að brauðfæða stóran hóp barna var ekki vandalaust, en hópurinn veitti líka skjól og stuðning.  

Skuggar föðurmissis verða bæði djúpir og langir. Júlídaginn 1934, þegar Kristján féll frá, var upphafið að endinum í Skógarnesi. Sigríður hélt vissulega áfram búskap, með aðstoð aldraðs föður og í krafti samheldni barna. En svo fóru þau að fara að heiman eitt af öðru og líka Auður og Unnur. Smátt og smátt fjaraði undan Skógarnesheimilinu og svo var sjálfhætt í lok fimmta áratugarins.  

Skóli og vinna

Auður sótti fyrst skóla á heimaslóð, en fór svo í Reykjaskóla (1944-45). Þær systur Unnur fylgdust að og fóru síðar í húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði (1945-46). Auður var góðum gáfum gædd eins og hennar fólk, en aðstæður og efni leyfðu ekki frekari skólagöngu.

Eins og dugmikið æskufólk þessa tíma hikaði Auður ekki að fara í aðra landshluta, var m.a. ráðskona vegavinnumanna í fjarlægum landshlutum. Þau, sem eldri eru í þessum söfnuði, muna hvernig búið var að vegavinnufólki í tjaldbúðum á þessum árum. Þetta var ævintýralíf, mikil vinna og gat orðið afar kalsasamt í bleytutíð og illviðrum. Auður lifði þetta allt og lenti jafnvel í, að tjald ráðskvennanna fauk og þær með. Þær sluppu að mestu ólaskaðar úr flugferðinni en skrekk fengu þær!

Svo var stefnan tekin á höfustaðinn. Í Reykjavík vann Auður lengstum við fatagerð, einkum við saumaskap. Hún vann um tíma hjá hinum kunna skraddara Andrési, vann líka um skeið á prjónastofu en lengst var hún á saumastofu fataverksmiðjunnar Gefjunnar. Vorið 1989 stóð Auður upp frá saumavélinni og fór að starfa við umönnunarstörf á Hrafnistu í Reykjavík eða þar til hún hætti störfum árið 1993. 

Hugðarefni og B

Alla tíð var Auður áhugakona um hannyrðir eins og föt hennar og gjafir til barna ættingja hennar vitnuðu um. Hún hafði áhuga á matseld og hafði enda hlotið menntun til þeirrar iðju. Matarboðin hennar Auðar voru góð og enginn fór frá henni svangur eða vansæll. 

Auður fylgdist ekki aðeins vel með fjölskyldu sinni og venslafólki heldur einnig þróun samfélagsins. Hún studdi gjarnan Framsókn í landsmálum. Einu sinni, þegar Birgir var ungur, fékk hann að laumast með Auði í kjörklefann og þegar hann sá að hún krossaði við B gall við í þeim stutta: “Auður, kýstu B-listann?!” Engir eftirmálar urðu af þessari uppákomu aðrir en, að Birgir fékk aldrei að fara með henni í kjörklefann aftur! 

Sambúðin með Sigríði

Auður giftist aldrei. Þegar Sigríður Karitas, móðir hennar, brá búi og kom suður bjuggu þær saman, um tíma í gula fjölskylduhúsinu með svarta þakinu á Laugavegi 171. Þegar Einar, bróðir Auðar, hafði keypt íbúð á Hrísateigi fóru þær mægður þangað. Frá Hrísateig fluttu þær mæðgur suður í Fossvog í skjól Baldurs, bróður Auðar, og voru þar um tíma.  

Síðan var Sigríður á Selfossi hjá Unni og Jóni, dóttur og tengdasyni. Sigríður lést í hárri elli árið 1988. Auður bjó jafnvel á Dunhaganum um tíma og naut sambýlis með Unnarbörnum. Síðan leigði hún í Kópavogi, inn á Austurbrún og eignaðist svo íbúð í Hörðalandi í Fossvogi og árið 1991 keypti hún íbúð á Bræðaborgarstíg 55 og bjó þar allt þar til hún flutti á Elli- og hjúkrunar-heimilið Grund á síðasta ári. Þá hafði hún kennt sér meins, sem dró hana til dauða 13. mars síðastliðinn. Auði leið vel á Grund og var þakklát öllum þeim sem sneru góðu að henni. Fyrir umhyggju gagnvart henni skal þakkað, bæði fjölskyldu, vinum og þeim sem hlúðu að henni á Grund.  

Elskusemin

Þegar skyggnst er yfir líf Auðar sést vel hvernig hún hefur þjónað sínu fólki og alið önn fyrir ástvinum sínum. Auður átti ekki börn en varð hins vegar sem önnur móðir nokkurra systkinabarna sinna. Þau Sigríður Dinah og Birgir Sigmundsson nutu hennar í uppvexti og hún naut þeirra alla tíð. Þá var Auður sömuleiðis sem önnur móðir þeim Öldu og Gísla Unnar- og Jóns-barna. Þau og tengdabörnin nutu umhyggju og elsku Auðar, sem þau endurguldu svo hún naut ríkulegrar hamingju í nærfjölskyldu sinni. Og Auður breiddi sig yfir sitt fólk sem við elskunni vildu taka. Öll þessi, sem hafa verið, sem og Kristjana Ágústa studdu Auði dyggilega allt til enda.

Auður var félagslynd og félagshæf. Hún hafði unun af hinum mannmörgu vinnustöðum þar sem hún starfaði. Hún tengdist vinnufélögum og fólkinu á þeim stöðum og eignaðist stóran hóp vina og kunningja. Þegar hún hafði orðið næði og tóm á eftirlaunaárum var oft erfitt að ná í hana heima. Hún var á ferð og flugi, sinnti félagslífi af kappi, hitti kunningja sína og spilaði. Það var henni amasamt þegar veikindin herjuðu á hana og hún gat ekki farið allra þeirra ferða, sem hugurinn hvatti til.  

Páskar í lífinu

“Skelfist eigi…” segir í páskatextum Biblíunnar. Það voru sorgbitnar konur, sem voru á leið út að gröf, sem þær gátu alls ekki opnað. Þessar konur höfðu upplifað langan föstudag og eru sem fulltrúar allra sem skelfast í lífinu. Köllun okkar er að stranda ekki í vanda og áföllum og daga uppi í föstudagslífi. Nei, mál páskanna er að þegar harmþrungnar konur komu út í garðinn var steinninn frá, gröfin tóm og lík hins látna Jesú Krists var horfið. Konurnar urðu fyrir reynslu, sem síðan var höfð í minnum í frumsöfnuðinum. Já, tilveran breyttist vissulega þegar leiðtoginn féll frá. En svo breyttist allt snarlega og algerlega með boðskap páskadags.

Hvað gerum við með slíkan boðskap, að dauðanum var snúið í andhverfu sína og sagan endaði vel? Gröfin sleppti feng sínum, lífið lifnaði og tilveran er góð. Það eru þær fréttir, sem breyta öllu. Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni, sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk. En þegar við heyrum páskaboðskapinn og tökum hann til okkar verðum við að auki páskafólk. Og páskaboðskapurinn verður sem kraftaverk í lífi sunnudagsjákvæðninnar, sem umbreytir okkur með afgerandi móti. Því lífið er ekki bara af sjálfu sér heldur líf í sólarsamhengi Guðs.

Nú kveður þú Auði Kristjánsdóttur. Nú verður hún lögð til hinstu hvílu við hlið Sigríðar Karítasar, móður sinnar í Fossvogskirkjugarði.

Auður hitar ekki lengur handa þér kaffi eða slær í pönsur og ber fyrir þig. Hún getur ekki lengur bent þér til vegar með mannviti, jákvæðni og skynsamlegum rökum. Hún hlær ekki lengur að skemmtilegheitum lífsins og gáskafullum málum. Nú er hún farin, en hvert? Já, því svara páskarnir. Hvað ætlar þú að gera með ágenga spurningu um líf eftir dauða? Er líf að loknu þessu? Lifir Jesús Kristur? Ef þú trúir því máttu líka trúa að Auður lifi, Unnur systir hennar, systkinin sem látin eru, Kristján og Sigríður og Ytra Skógarnes lifni í gleði í umbreytingu himinsins. Það er sunnudagsafstaða, það er páskatrú. Og það er gott að lifa í því samhengi því það er samhengi Guðs. „Skelfist eigi” sagði ljósveran í gröfinni. “Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér.” Guð faðir, sonur og heilagur andi geymi Auði Kristjánsdóttur um alla eilífð og blessi minningu hennar. 

Útför 28. mars 2008.  

Guðspjall Mk 16.1-7

Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust. En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér.