Greinasafn fyrir merki: Arvo Pärt

Arvo Pärt og hljóðbænirnar

Arvo Pärt fór eigin leið í lífinu og tónsmíðunum. Hann er einn af dýrlingunum mínum. Mér þykir hann vera andríkasta tónskáld síðustu áratuga. Bjöllustíllinn er einstakur, kyrrðin umvefjandi og áleitin, einfaldleikinn agaður og sláttur englavængja heyranlegur. Tónlistin opnar milli himins og jarðar, tíma og eilífðar. Fíngerðar breytingar í stefjavinnslunni magna kyrrð vitundar og í andstæðu við síbylju samtímans. Pärt-tónlistin er andstæða hávaða. Hún er eins og hljóðbæn – fámál en þrungin merkingu. Það er dásamlegt að syngja verk Arvo Pärts, sem hljóma best í ómhúsi eins og Hallgrímskirkju, en líka að hlusta á þau með opnu hjarta. Pärt er níræður og þessa dagana spila ég tónlist hans.

Tallinn-undrið

Danski fáninn féll af himni og Danir unnu orrustuna. Leiðsögumaður okkar í Tallinn í Eistlandi fór á kostum, lýsti undri frá 13. öld og það fór mýtólógískur skjálfti um tilheyrendur. Sögurnar voru skemmtilegar og hlátrarnir hljómuðu. Ég sneri mér við og tilbúinn í fleiri ævintýri. Og þá sá ég Pál í Húsafelli, þann stórkostlega listamann, og við Elín mín eigum meira segja skúlptúr eftir hann. Svo sá ég Helga í Lúmex og kirkjusmið, sem ég dái mjög. Hann hefur ljóshannað tvö hús, sem ég hef átt. Svo var þarna Dagný, prestsfrú, í Reykholti, forkur og sérlega skemmtileg kona. Þar sem hún fer er ekki lengi að bíða Geirs Waage. Jú, hann kom í sínu fínasta pússi. Dannebrog féll á Tallinn og þessir vinir mínir birtust sprelllifandi og með nokkra Dannebrog-furðu í augum. Þessir riddarar himinsins féllu ekki af himni si svona og fluvélalaust niður á kastalahæðina í Tallinn, heldur voru þau til að fagna opnun húss til heiðurs Arvo Pärt sem ég met flestum tónskáldum meira. En dóttir Dagnýjar og Geirs er tengdadóttir meistarans Pärt. Heimurinn lítill? Nei, hann er stór og fullur af ævintýrum. Undrin verða á hverjum degi og okkar er að njóta. Takk fyrir líf dásemdanna.

Minning frá 13. október 2018.