Greinasafn fyrir merki: áramót

Nýtt líf

Liðið ár var viðburðaríkt í lífi fjölskyldu minnar. Á skurðstofu fæðingardeildar Landspítalans var kona mín skorin upp. Læknir seildist inn í kvið hennar og dró út lítinn dreng og síðan annan mínútu síðar. Þeir hrinu báðir og gleðióp hljómuðu frá hjúkrunarfólkinu í stofunni. Svo var komið með annan guttann til að leggja í fang móðurinnar en þá kom að hinu óvænta. Vegna handadofa treysti mamman sér ekki til taka við stráknum og bað um að hann yrði settur í fangið á pabbanum óviðbúna. Það var mikil reynsla að fá nýburann í fangið svo óvænt. Tárin streymdu. Smádrengurinn kallaði fram elsku. Í bland við hraðrannsókn á hvort sköpulagið væri eðlilegt flugu lífsóskirnar: „Guð minn góður gefi þér líf, allt sem þú þarft til að lifa.“ Í fanginu var lítill kroppur með alla þrá heimsins og lífsvon í augum. Ekkert rífur betur í vanann og hvetur til dáða en barn sem á allt undir elskunni í foreldrum og frændgarði, á aðeins lífið og hamingju í vændum ef ég og við bregðumst vel við. Skyldi í svona reynslu vera eitthvað guðlegt?

Kross undir og ofan á

Í gamalli þjóðsögu segir frá álfkonum á ferð. Þær laumuðu sér í bæ og komu að vöggu þar sem hvítvoðungur var. Þær ætluðu að stela barninu og fara með það í eigin heima. Önnur álfkonan varaði við og sagði: „Ekki má, ekki má. Kross er undir og ofan á. Tvævetlingur situr hjá og segir frá.“ Þær hættu við barnsránið. Nýja árið er sem hvítvoðungur sem þarf að krossa til að enginn steli og trylli heldur nái þroska og verði það sem verða má. Í texta nýársdags segir frá því að Jesús fékk nafn og að hann var umskorinn eins og allir gyðingadrengir á áttunda degi frá fæðingu. Drengir hafa í þúsundir ára velt vöngum yfir hversu þjáningarfull umskurn væri. Tveir strákar voru eitt sinn að ræða saman. Annar spurði umskorinn gyðingastrák hvort honum hefði ekki fundist vont að láta skera af typpinu. Jú, hann hélt það nú. „Það var svo sárt að ég gat ekki gengið í heilt ár á eftir!“

Viðburður ársins

Hvað var það merkilegasta sem þú reyndir á liðnu ári? Þú hefur orðið fyrir reynslu af fólki, atburðum, náttúru og hlutum. Kannski hefur þú heimsótt stað eða fólk sem hafði áhrif á þig. Varðstu fyrir einhverju óvæntu sem vakti nýjar kenndir eða reif ofan af gömlum sárum? Ef þú varðst fyrir missi var rifið í sál þína. Er eitthvað á árinu sem hefur snortið þig í djúpum persónu þinnar, náð að strjúka strengina hið innra, magna lífssönginn og leyft þér þetta sem kallað er svo fallega að upplifa, lifa upp? Við áramótum megum við gjarnan gera upp reynslu liðins árs til að við verðum fær að opna og mæta viðburðum og tækifærum. Leyfum okkur að fæðast til opins tíma.

Nýtt ár

Við lærum að skrifa nýtt ártal. Við æfum okkur í staðreyndinni að árið er liðið í tímasafnið, í aldanna skaut og kemur aldrei til baka. Það er vottur af hryllingi í þeim boðskap áramótasálmsins. Aldrei til baka, algerlega farið og ekki hægt að bæta með beinum hætti það sem mistókst og fór aflaga. Beygur fer um huga og jafnvel líka sorg vegna þeirra sem voru slitin frá okkur og vegna hins sem við gátum ekki eða gerðum ekki. Stundum erum við óviðbúin nýjungum og viljum ekki opna huga okkar en nýtt ár er sem vonarbarn sem skellt er í fang okkar. Það er ómótað og á sín spyrjandi barnsaugu. Hvað viltu gera með mig? Hvað viltu verða á árinu? Við erum flest seigt íhald. Við höldum fast í hefðir og viljum ógjarnan verða öðruvísi og alls ekki missa heilsu, vinnu, forréttindi, hárið eða lífsmynstrið. Bara kíló og sorgir mega hverfa. Svo kemur hið nýja ár möguleikanna.

Guðspjallstexti nýársdags

Dagurinn í dag heitir á kirkjumálinu áttidagur jóla. Vika er liðin frá aðfangadegi og dagurinn fellur saman við áramót. Guðspjallstexti nýársdags er stuttur og framhald á jólasögunni. Nýburinn í Betlehem var umskorinn í samræmi við hefðina. Blóð rann við upphafssögu hans og rímar við blóðfórn við lífslok. Endir er í upphafinu og öfugt, sem táknskynugir nema. Svo var hann nefndur Jesús sem þýðir að Guð frelsar. Hann bar þegar í nafninu skilgreiningu hlutverks síns. Kristsnafnið er síðari viðbót og tekur til vonarspádóma um hinn smurða konung sem muni frelsa. Gyðingar tengdu saman umskurn og nafngjöf. Það var ungbarnaritúal. Umskurnin var ekki síst iðkuð til að marka ungsveinana sem börn þjóðarinnar. Gyðingur gekk inn í sögu sem hafði tilgang og fjölbreytilegar skyldur. Nafnið skilgreinir síðan hlutverkið frekar. Jesús var umskorinn á áttunda degi. Vafalaust hefur hann ekki gengið mikið næsta árið, þetta var jú sárt!

Nafngjöfin

Í forngermönskum samfélögum voru nöfn talin skilgreinandi og fylgdi t.d. rándýrsnöfnum trú á að nafnberar yrðu öflugir. Svipað gilti meðal Gyðinga. Nafn var bæði lýsandi og leiðbeinandi um eigindir einstaklinga og hlutverk. Í Nýja testamentinu ber Jesús hina grísku umritun á hebreska nafninu Jósúa eða Jeshúa. Margir höfðu hlotið þetta vonarnafn áður en Jesús fékk það. Hann einn uppfyllti erindið. Hlutverk hans var að ganga erinda frelsis, færa kúguðum rétt, hinum stríðandi frið og bandingjum lausn. Hver er hemill í þínu lífi? Hver er hamur þinn?

Val nafna í samtíð okkar er með ýmsu móti. Sumir foreldrar hafa gaman af nafnamúsík og vilja að nöfnin hljómi glæsilega. Aðrir skírskota til ættar og sögu og stundum eru nöfn gefin vegna þess að fólk vill heiðra einhvern. Nú á tímum vitjar látið fólk sjaldan nafs eins og algengt var á fyrri öldum. Fjölbreytni í nafngjöfum á Íslandi vex með fleiri innflytjendum. Þó að mannanafnavefir á netinu séu brunnar fróðleiks um merkingu heita og erlendir nafnavefir séu aðgengilegir virðast íslenskir foreldrar hugsa meira um „lúkk“ og hljóm en merkingu, semantík og samhengi. Flestum þykir vænt um nafnið sitt. Nafnið skilgreinir að einhverju leyti mat á sjálfi og mótar, hvort sem menn heita Sigurjón Bláfeld, Logi Eldon eða eitthvað annað. Nöfn geta líka verið svo þungbær að eigandinn rís ekki undir þeim. Um allar aldir hafa menn vitað að nöfn skilgreina og hafa áhrif á líf einstaklinganna.

Gæska og guðshlátur

Litlu karlarnir mínir voru strax nefndir eftir fæðingu en eru skírðir á nýársdegi. Nöfnin þeirra eru Jón Kristján og Ísak. Jónsnafnið er ekki aðeins eitt algengasta nafn Íslendinga síðustu aldir heldur er einnig notað víða á Vesturlöndum en í ýmsum útgáfum. Það birtist í Jean, John o. fl. og merkir að Guð er góður. Kristján er sömuleiðis til í ótal myndum og vísar til kristinnar mennsku. Ísak er úr eldra testamentinu. Frægastur Ísaka er sonur Söru og Abrahams. Nafnið vísar til húmoristans Guðs og merkir hlátur Guðs. Himinhúmorinn á sér afleggjara í kátínu okkar, aldraðra foreldranna, yfir undrinu. Nöfn drengjanna eru úr hinni kristnu hefð. Jesúnafnið gefur kross sem er undir og ofan á. Þessi íklæðing hins trúarlega kemur meðal annars fram í táknatferli prestsins sem í skírn krossar á enni og brjóst. Það gerðu foreldrar við börn sín er þau voru þvegin og það var einnig gert við mig ungan. Í signingunni er tengt við merkingu Jesúnafnsins. Eilífa lífið byrjar ekki í dauða heldur í skírn. Við erum börn heimsins og heimsborgarar en í skírninni verðum við fullveðja börn eilífðar. Við gefum ungviðinu allt það besta sem við getum og eigum. Trúmenn bera börnin að skírnarlaug til að líf þeirra verði helgað því besta. Nöfnin þeirra og veruleiki er þá í Jesú nafni.

Fangið fullt af lífi

Stundum hættir okkur við að smætta trú og Guð og horfa með augum fordóma eða með gleraugum þröngsýnna trúmanna. Miðja kristninnar er Guð en ekki sögulegar birtingar trúarinnar. Nafn þess sem best túlkar guð kristninnar er Jesús og merking og nafn hans er frelsi, boð um að fjötrar falla og þú, menning, þjóðir og veruleikinn fæði frið, réttlæti og lausn. Þetta er boðskapur sem við þurfum að heyra við áramót. Hvað hamlar í hinu íslenska samfélagi? Hvað getur orðið til bóta í alþjóðasamfélaginu? Hvað hemur þig? Hvernig getur þú losnað úr viðjum og lifað vel og í hamingju? Allt lífið er spurn og ávallt berst svar sem er guðlegt. Allt lífið er barátta sem eilífðin faðmar. Allur vandi heimsins er umlukinn þessu himneska: að Guð frelsar. Þannig gefur Guð nafn. Þannig nefnir Guð heiminn með von og huggun.

Þegar barn var lagt í fang mitt öðlaðist ég ekki aðeins lífsreynslu heldur fylgdi líka með vitund um stöðu okkar manna. Við erum í elskufangi í öllum lífsaðstæðum. Allt mennskt endurómar hið guðlega. Í skírn færum við börn í fang Guðs. Ef við getum upplifað mikla hamingju þegar nýburi er í fangi hlýtur Guð að samgleðjast okkur. Við áramót megum við kasta fortíðarham og öllu sem letur okkur. Við getum gert þá lúxustilraun að prufa hvort treysta megi möguleikunum sem opnast: sem sé, að við séum hvítvoðungar í stórum elskufaðmi. Þar eru engir ránsálfar sem ógna lífinu. Þar er ekkert sárt og þar þurfum við ekki að bíða í heilt ár til að ganga eða hlaupa. Þar megum við sprikla og læra að tala og sjá tilveruna í róttæku ljósi hins góða og gjöfula. Þar búa nú Ísak og Jón Kristján. Þar mátt þú líka hjala og vera í Jesú nafni. Kross undir og ofan á.

Nýársdagur 2006. Slm 90.1–4; Gal 3.23–29; Lúk 2.21.

Stela framtíðinni

Ég var barn í vesturbæ Reykjavíkur þegar Kúbudeilan geisaði í byrjun sjöunda áratugarins. Fréttaflutningurinn um yfirvofandi heimsenda náði til okkar barnanna. Ég varð óttasleginn og gerði mér grein fyrir að heimsendaógnin væri til framtíðar þó heimsenda hafi reyndar ítrekað verið frestað. Meðan ég enn var barn varð niðurstaðan, að ég ætti aldrei að eignast börn. Mér fannst það væri óábyrgt, ósiðlegt, að fæða börn inn í svo hættulega veröld. En Guð er húmoristi og ég hef eignast fimm börn. Guð opnar alltaf klemmdan tíma. Ég á þrjú barnabörn sem ég horfi í augun á og hugsa um framtíð þeirra og hamingju. Hvernig verður hún? Hvað get ég gert í þeirra þágu?

Nú eru áramót og hugleiðinar um fortíð og framtíð laumast inn í vitundina. Er tíminn opinn og ekkert nema möguleikar framundan á nýju ári? Eða er tími mannanna að læsast og líf heimsins í kreppu? Ég minnist margra samtala við ungt fólk á árinu. Það sem situr helst í mér eru hinar djúpu áhyggjur sem þetta framtíðarfólk hefur af velferð heimsins, náttúrunnar sem er húsið, sem við búum í. Og ég tek alvarlega framtíðarkvíða æsku heimsins og líka að mín kynslóð hafi gert hrapaleg mistök á kostnað fólks og framtíðarlífs plánetunnar. Er framtíðin ógnvængleg? Hvað er til ráða?

Fyrr á árinu söfnuðust framhaldsskólanemar hér fyrir framan Hallgrímskirkju. Unga fólkið hélt á slagorðaspjöldum – um mikilvægi loftslagsverndar. Spjöldin voru með litríkum setningum um náttúruvernd, verkefni okkar og tímann. Boðskapur þeirra hafði djúp áhrif á mig og leitar reglulega upp í hugann. Ég tók myndir af spjöldunum og fór að skoða þær aftur í vikunni. Þar segir meðal annars: „Framtíð okkar er í húfi.“ „Tíminn er á þrotum.“ „Það er löngu kominn tími á aðgerðir.“ „Það er engin planet B.“ Þetta eru ábendingar nokkurra spjaldanna. Hin sænska Greta Thunberg hefur dýpkað áhyggjur æskufólks og beinlínis ákært forystufólk heimsins fyrir að stela tíma og framtíð barna heimsins. Á loftslagsráðstefnu í haust sagði hún við sextíu þjóðarleiðtoga: „Þið hafið stolið draumum mínum og æsku með innantómum orðum ykkar.“Þegar við berum saman einróma viðvaranir vísindasamfélagsins og aðgerðir stjórnmálamanna skiljum við þunga ákærunnar og Greta Thunberg hefur rökin sín megin. Hvað með stuld framtíðar?

Loftslagsvá, plastmengun hafanna, brennandi Ástralía og skelfilegir gróðureldar á öðrum hlutum jarðarkúlunnar. Mengun hefur breytt lífkerfum heimsins og veldur streitu í samskiptum sem leiða til styrjalda og þjóðflutninga. Ótti læðist um í samfélögum heimsins og nær tökum á æ fleirum og kemur fram í alls konar skrítnum óttamyndum. Mannótti, hræðsla við aðkomna og flóttamenn, neikvæð þjóðernishyggja og vonskuathugasemdir nettrölla á samfélagsmiðlum eru tákn um aukna streitu og að menningarmengunin er líka að aukast. Framtíðin verður æ ógnvænlegri. Það er eins og dans tímans sé að hægjast. Börn heyra fréttir, unnið er með þær í skólum og æ fleiri taka viðvaranir alvarlega um klemmda eða lokaða framtíð. Hvernig getum við brugðist við, hvað eigum við að gera? Framtíðarkvíði – skiptir trú á Guð einhverju máli?

Líf beri ávöxt

Guðspjallstexti gamlársdags talar inn í aðstæður og kall tímans. Jesús segir kennslusögu, sem er skiljanleg – líka á okkar dögum. Hvað á að gera við tré, sem ekki ber ávöxt? Bændur veraldar fella slík tré. Í Jesúsögunni er tréð nytjajurt en ekki skrauttré eða gróðusett vegna flugkvíða og kolefnisspora. Grænfingraðir vita að sjúkdómar hrjá líf og farsóttir geisa í ávaxtagörðum veraldar. Þrjú geld ár er tæplega hægt að umbera en ekki fjögur. Ræktunarmenn vita að þá er næsta vel reynt. Eigandinn vill því höggva, en garðyrkjumaðurinn vill þó veita enn einn séns. Lengi skal tré reyna – rétt eins og menn.

Jesúmeiningin er, að Guð er langlyndur umfram mannlega kvarða. En líka að öllu lífi er ætlað að bera ávöxt – skila sínu láni. Það sem ber ekki ávöxt verður höggvið. Í því er hin djúpa alvara fólgin. Hvað í samfélagi okkar er árangurslaust? Hvað á að skera niður? Hvaða kröfur eigum við að gera til sjálfra okkar og heimsbyggðarinnar? Og hvað með framtíðina? Eru ábyrgðarmenn heimsins geld tré sem bara stela næringu en bera ekki ávexti?

Framtíð – og Greta Thunberg

Samkvæmt Time Magazine er Greta Thunberg maður ársins 2019 og hún hefur reyndar fengið margar viðurkenningar síðasta árið. Og hafir þú ekki enn lesið bókina um Gretu Thunberg og fjölskyldu hennar hvet ég til að þú náir þér í JPV-bókina Húsið okkar brennur. Þar er sögð merkileg saga flókins fjölskyldulífs, sem skýrir af hverju Greta er hert í eldi lífsreynslunnar. Það er hjartagrípandi bók um lífsbaráttu, en ekki bara um loftslagsmál. Greta Thuberg hefur dregið saman og bent á margar viðvaranir vísindasamfélagsins, sem er nánast einróma í ályktunum. Greta hefur orðið fyrirmynd og rödd framtíðarfólksins. Málflutningur hennar er skýr. Skólaverkfall hennar, borgaraleg óhlýðni, hefur orðið fyrirmynd um aðgerðir. Unga fólkið á Vesturlöndum hefur vaknað til vitundar um skyldur sínar gagnvart framtíð heimsins. Þessi lágvaxni risi hefur minnt leiðtoga veraldar á, að gömlu aðferðir þeirra hafi ekki skilað neinu. Of mikið væri talað í stað þess að gera það sem væri lífsnauðsynlegt. Og hún hefur ítrekað bent á að fólk heimsins, stjórnmálaleiðtogarnir, leiðtogar þjóðanna, segist elska börnin en steli samt framtíð þeirra, möguleikum þeirra.

Blessunin er alls konar

Hvað þýðir svona boðskapur við áraskil? Er nýtt ár möguleiki? Er staða Boeing-samstæðunnar orðin táknmynd um svik, blekkingar, slys og hrun heimsbyggðarinnar? Er neysla okkar, óréttlát skipting gæðanna slík, að framtíðin er að lokast mönnum? Erum við forréttindafólkið sem tré í miðri Paradís en tökum bara til okkar en skilum engum ávöxtum. Erum við á fjórða ári dómsins? Og svo endir? Greta Thunberg og framtíðarfólkið minnir okkur á, að við höfum brugðist svo harkalega að við rænum börnin okkar, líka barnabörnin okkar framtíðinni.

Tvíhyggja eða eining?

Margir ímynda sér að trú sé fyrst og fremst einkamál og varði sálarró. En Guð sérhæfir sig ekki bara í sálarmálum. Guð skiptir sér af efnaferlum í eldfjöllum, sprengingum í sólkerfum, nýjustu rannsóknum í krabbameinslækningum og mengunarmálum heimsins. Okkur hættir til að hugsa um trú í anda tvíhyggju, að hið efnislega og andlega séu andstæður og trúmenn eigi bara að halda sér til hlés frá ati heimsins. Hið andlega sé aðalmálið en líkami, efni, peningar, mengun og samfélag sé eitthvað óæðra. En slík lífsafstaða er ekki komin frá Jesú Kristi eða úr Biblíunni. Trú varðar heilsu fólks, líkamlega næringu, efnislegar þarfir, náttúru, frið og líka flóttafólk. Samkvæmt Biblíunni er hið andlega, félagslega, náttúrulega og pólitíska allt þættir sem varða Guð og trú. Hið hebresk-kristna samhengi kennir heildarhyggju. En tvíhyggja spillti þeirri heildarsýn. Það er komið að því að við hættum að rugla. Loftslagsvá, mengun náttúrunnur og skrímslavæðing stjórnmálanna eru mál sem Guð skiptir sér af og trúmönnum er skylt að beita sér í. Þegar unga fólkið talar skýrt og vísindasamfélagið einnig heyrum við rödd Guðs.

Og þá hið nýja ár. Já, framtíðin kallar. En þeim tíma er lokið, að við mannkyn höfum leyfi til að dæla árlega átta milljónum tonna af plastefnum í hafið. Við höfum ekki lengur leyfi til að drepa eina milljón fugla og eitt hundrað þúsund sjávarspendýr árlega vegna plastsóðaskapar. Hið sama gildir um útblástur sem eyðileggur jafnvægi veðurkerfa og hið fínstillta jafnvægi lífvíddanna.

Þegar þú skrúfar frá krana í eldhúsinu heima hjá þér nú á eftir streymir dásamlegt vatn frá uppsprettu lífsins. En fjórðungur mannkyns, 2 milljarðar, býr við alvarlegan og jafnvel algeran vatnsskort. Vatn er heilagt eins og fram kemur í sakramentum kirkjunnar, altarisgöngu og skírn. Jörðin er heilög, helgur garður Guðs, og það verður fellt sem spillir eða skilar ekki ávexti. Hið hræðilega er þegar fólk segist elska börnin sín og barnabörn en stelur samt af þeim. Hvað um Guð og opnun tímans?

Ant­onio Gutier­res, fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, hefur ítrekað minnt á, að lofts­lags­breyt­ing­ar væru nú þegar spurn­ing um líf eða dauða í mörg­um lönd­um heims. Það merkir á máli trúar, að gott fólk er kallað til að láta til sín taka en ekki bara tala eins og okkur forréttindafólki vestursins hættir til. Við erum kölluð til lífs og verndar lífi. Við sem einstaklingar getum ekki bjargað heiminum, en öll getum við gert eitthvað. Á heimilum okkar og vinnustöðum, í neyslu okkar og meðferð lífsgæða, hvernig við verjum atkvæði okkar og notum peninga. Ef stjórnmálamenn og leiðtogar okkar eru geldir eins og ávaxtalaust tré eru þeir búnir að fella axardóm sjáfra sín.

Tíminn er kominn. En hvað um framtíðarkvíðann? Eigum við að játast vonleysi dómsdags? Nei. Guð er aldrei í fortíð eða bara í nútíð. Guð er lífsglaður húmoristi. Og Guð kemur alltaf úr framtíð, opnar möguleika þar sem engir voru fyrir. Guð er í lífi, lífsbaráttu, góðum verkum og lífsgöngum unga fólksins. Guð kemur þar sem vonleysið er rammast, opnar og blæs krafti í fólk. Í ómstríðri raddhviðu heimsbyggðarinnar hljóma hughreystingarorð Guðs. Í sorg hljómar hvísl vonarinnar. Gegn mengun hljóma textar vona og hugstyrkingar. Guð gefur börnum líf gegn heimsenda. Í hvert einasta sinn er ég horfi í augu barna dáist ég að lífmætti Guðs, sem hefur ekki snúist gegn tímaþjófum heims.

Boðskapurinn er einfaldur: Dauðinn dó en lífið lifir. Leggðu af meðvirkni og hættu afneitun. Opna hug þinn og hjarta. Snúðu þér til framtíðar. Fjórða árið er hafið. Við erum kölluð til verka, að bæta það sem við höfum misgert og bera ávöxt. Kristindómur er átrúnaður lífs gegn dauða. Guð kallar fram líf og nærir. Boðskapur kristninnar er upprisuboðskapur Guðs og talar til framtíðarkvíðans. Við megum gjarnan taka stefnu en Guð hefur unnið það mikilvæga áramótaheit að standa með okkur við að opna framtíð lífs á jörðu og kynslóða framtíðar.

Amen – Í Jesú nafni.

Við, prestar Hallgrímskirkju, þökkum ykkur – söfnuði, starfsfólki, sjálfboðaliðum, tónlistarfólki, vinum og nærri milljón erlendum gestum samfylgdina á árinu 2019. Verið velkomin til helgihalds og samvera í kirkjunni. Nýtt ár mikilla ævintýra er að líða og annað ár kemur. Við erum bjartsýn vegna þess að Guð opnar tíma. Lífið lifir og Guð er nærri. Komi hið nýja ár. Hlið himins er fyrir lífið og í þágu lífs.

Gamlársdagur 2019 – Hallgrímskirkja

Lexía: Hlj 3.21-26, 40-41
En þetta vil ég hugfesta
og þess vegna vona ég:
Náð Drottins er ekki þrotin,
miskunn hans ekki á enda,
hún er ný á hverjum morgni,
mikil er trúfesti þín.
Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín,
þess vegna vona ég á hann.
Góður er Drottinn þeim er á hann vona
og þeim manni er til hans leitar.
Gott er að bíða hljóður
eftir hjálp Drottins.

Rannsökum breytni vora og prófum
og snúum aftur til Drottins.
Fórnum hjarta og höndum
til Guðs í himninum.

Pistill: Róm 8.31b-39
Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? … Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Guðspjall: Lúk 13.6-9
Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“