Greinasafn fyrir merki: andi Guðs

Í kossi, hrósi, beinum, skírn og tölvu

IMG_8904Hvað er heilagur andi, hvar og til hvers? Er sá andi eitthvað sem er bara til í áhrifaríkum kirkjum í Barcelona, Róm eða París. Og eru íslenskar sveitakirkjur sérstakir uppáhaldsstaðir Guðs?

Öll bernskuár mín var ég í sveit í Svarfaðardal. Sauðfé var rekið á fjall og sótti upp í hlíðar. Á þeim tíma var til siðs að smala fé í júlíbyrjun og rýja. Ég fór í slíka smalamennsku í mörg ár. Fjallgeimurinn var ofast undursamlegur. Mér er minnisstætt eitt sumarið að ég hljóp í þúsund metra hæð milli snjóskafla. Milli morkinna fanna var jörðin svört, vatnssósa og sterklyktandi. Engin gróður var sjáanlegur – allt virtist dautt.

En skyndilega sá ég líf. Agnarlítið háfjallablóm breiddi út blöð sín og sperrti skærrauða krónu mót himni og sól. Þetta smáa blómundur virtist svo umkomulaust en jafnframt grípandi fagurt í þessum blauta, svarta og hvíta risaramma. Eina lífsmarkið í tröllageimi, titrandi í næðingnum, speglaði og braut sólargeislana þúsundfalt í daggardropum krónunnar. Ég man að ég gat ekki annað kropið og lotið þessu lífsmarki og skildi, að það var helgidómur, eilífðarblómstur. Síðan hef ég skilið hvað sr. Matthías átti við með eilífðarsmáblómi þjóðsöngsins.

Allt er gleymt frá þessum degi, öll hlaup á eftir erfiðum rollum, áreynsla, skriður, klettar og klunguhlaup. Aðeins rjóð jurtin lifir í minninu. Hvað þýðir svona upplifun? Er þetta reynsla af heilögum anda? Já.

Hefur þú gengið einhvern tíma á hátt fjall? Reynt á þig, runnið til baka í brattanum, hræðst, haft mikið fyrir, en að lokum komist á toppinn, fengið útsýn til annarra fjalla í öðrum sýslum og jafnvel séð jökla í öðrum landshlutum? Það getur verið áhrifaríkt að lifa slíkt. Vissulega hjálpar efnabúskapur líkamans, endorfínið. En er slík reynsla af heilögum anda? Já.

Við Íslendingar vitum vel – vegna nándar við náttúruna og ferða okkar í rosalegu landi – að náttúran er ekki líflaus heldur ríkulegur veruleiki, sem hefur margvísleg áhrif á okkur. Náttúrusýn margra landa okkar er trúarlega lituð. Trúmaðurinn getur túlkað djúpa náttúrureynslu sem andlega og trúarlega merkingarbæra lifun. Náttúran er okkur mörgum sem helgidómur.

Andinn í listinni

Hefur þú staðið frammi fyrir stóru og miklu listaverki, heima eða erlendis, hrifist af formum eða litum, myndbyggingu, hugviti eða styrk einfaldleikans? Hefur þú starað á skúlptúr eða málverk í erlendri kirkju, sem hefur varpað þér í hæstu hæðir og veitt þér skynjun sem tekur flestu öðru fram? Hefur þú staðið frammi fyrir altaristöflunni í Skálholti, numið friðinn og blíðuna, þegar Jesús kemur inn úr bláma íslenskrar náttúru, með fangið opið? Er hægt að rekja reynsluna til heilags anda? Já.

Hefur þú einhvern tíma haldið á barni og fundið til svo ólýsanlegrar gleði, að allt annað hefur horfið í hrifningu stundarinnar? Hefur þú horft í djúp barnsaugna og fundið traustið og numið mikilvægi þitt? Hefur þú einhvern tíma haldið utan um maka eða ástvin og upplifað í þeim fangbrögðum svo djúpa fullnægju, að önnur gæði veraldar hafa bliknað í samanburðinum. Er slík ástarlifun af ætt heilags anda? Já

Hefur þú einhver tíma lent í siðklemmu, ekki vitað hvaða kostur væri hinn rétti, en síðan hefur ljósið runnið upp, rök og siðvit læðst í hugann? Er slíkt verk heilags anda? Já.

Andlegt smælki eða alls staðar?

Eru engin takmörk fyrir þessum Heilaga anda? Nei. Andinn er sá Guðsmáttur, sem gefur öllu líf, heldur grjóti, eðlislögmálum og þar með sólkerfum í skorðum, hindrar að efni þeirra hrynji saman í svarthol dauðans. Andinn er að starfi þegar fullorðinn segir barni sögur um lífið, ævintýri og undirbýr viskuna í brjósti uppvaxandi kynslóðar. Andinn er í kossi elskenda, hrósi vinar, í verki lækna og hjúkrunarfólks, í beinum sem gróa eftir brot, í starfi forritarans og rafvirkjans, í skírn og altarisgöngu, í jafnvægi krafta náttúrunnar, í tónlistargerningi kórsins, í uppgufun vatns og skýjamyndun og regni. Allt eru þetta verk anda Guðs.

Andinn kallar manninn til trúar, viðheldur samfélagi manna og eflir kirkjuna. Andinn upplýsir okkur, blæs okkur samvisku í brjóst, er rödd skynseminnar, helgar og leiðir, fullkomnar og styrkir. Andi Guðs er alls staðar að verki og kannski hvað augljósast þar sem barist er fyrir framgangi hins góða lífs og lífsgæði varin.

Guð kristninnar verður ekki afstúkaður í veröldinni í einhverjum kirkjukima. Sá Guð, sem ég þekki er alls staðar, sínálægur og sískapandi. Mína guðsafstöðu má m.a. útskýra með því sem hefur a gömlu fræðimáli verið kallað pan-en-teismi. Heitið, orðið, er af grískum uppruna og merkir einfaldlega, að Guð er alls staðar, í öllu og gegnsýrir allt. Því má alls ekki rugla saman við panteisma, sem kemur m.a. fram í indverskum átrúnaði og kennir að allt sé guðlegt. Að Guð sé í öllu og alls staðar merkir ekki að allt sé guðlegt. Við erum ekki guðir, þó Guð búi í okkur. Veröldin er ekki Guð og þar með ekki andlag tilbeiðslu þótt andi Guðs hríslist um hana og geri hana að farvegi andans.

Hvítasunna – 50hátíð

Nafnið hvítasunna er fallegt og tjáir hinn bjarta sólardag kristninnar. Á mörgum vestrænum tungumálum ber dagurinn nafn, sem komið er af gríska orðinu pentecoste og það merkir fimmtugasti og þá er miðað við fimmtíu daga eftir páska. Hátíðin er tengd páskum vegna þess, að hún er framhald, bætir við eða dýpkar þann veruleika, sem páskar tjá. Hvítasunnan er tengd jólum líka. Ef ekki væri Heilagur andi væri Jesús Kristur merkingarlaus og lífið tilgangslaust.

Vissulega hafa margir heldur óljósa mynd af hinum guðlega anda og til eru kristnir trúarhópar, sem hafa reynt að slá eign á þennan anda Guðs, en smætta þar með veru hans og virkni niður í sértækt starf tungutals, lækningar líkamans eða spádómssýn inn í framtíð. En Andi Guðs er meira en sértæk eign eða tæki safnaðar. Allt er eign Guðs en ekki öfugt.

Hvað er andinn? Andinn skapar veruleikann, náttúruna, er að verki í öllu því sem er til lífs. Andi Guðs er líka skapari trúarinnar. Það er Guðsandinn, sem hvíslar að þér þegar þú leitar Guðs, kennir þér að sjá Guðssoninn, kennir þér að sjá lífið nýjum augum, heyra músík veraldar sem himneska tónlist, kennir þér tala við Guð og að lokum kennir þér að skynja í öllu Guðsnávist, jafnvel í sorg, hörmung og dauða. Með slíka reynslu og afstöðu verður þú aldrei aftur ein eða einn. Alltaf verður nálægur þér sá andi, sá veruleiki, sem gefur öllu líf og er líka sjálft lífið í þér.

Alls staðar

Erlendur prédikari, sem heimsótti Ísland, fullyrti að Heilagur andi hafi ekki komið til Íslands fyrr en á tuttugustu öld! Hann átti auðvitað við, að Heilagur Andi hafi ekki átt erindi til landsins fyrr en söfnuður hans var stofnaður. Ég held hins vegar að Heilagur andi hafi verið hér áður en fyrsta Íslandshraunið sauð í sjónum, verið í flekahreyfingum, verið nærri í goti þorska og fjölgun krossfiska, verið nærri í sprengingum neðansjávargosa. Síðan hefur Andinn verið að verki og er enn að.

Ekkert er til án Guðsanda. En það er hins vegar hægt að sniðganga eða skeyta ekki um Andann, ef menn vilja ekki þiggja nema bara hluta virkninnar! Við getum valið að taka bara við nokkrum gjöfum, sem okkur berast en hirða ekki um aðrar og alls ekki um sendandann. Við getum valið að vera and-snauð. En á hvítasunnu ertu kallaður eða kölluð til dýpri skilnings og trúarskynjunar.

Ef þú ert í bústaðnum þínum, á ferð um landið, ferð í gönguferð eða faðmar fólkið þitt máttu vita að í lífi þínu er Guð nærri og andinn hríslast í öllu sem verður þér til lífs. Blómið á háfjallinu er sköpun Guðs og verk Andans. Elskendur eru sköpun Guðs og elska þeirra er verk Andans. Maðurinn er sköpun Guðs og trúin verður til við, að Guð elskaði, kom og kemur, umfaðmar sköpun sína með krossi sínum, hrífur allt líf með sér með lífgun sinni og úthellir endurnýjunaranda sínum yfir allt sem er til. Guð er alls staðar og í öllu. Við megum lifa í þeim Guðsanda, trúa lífinu og sjá þar með eilífð í öllu.

Amen.

Hallgrímskirkja, hvítasunnudag 2016. Útvarpsmessa RUV