Greinasafn fyrir merki: allra Solna messa

Hrekkjavaka – allra sálna messa og allra heilagra messa

Á hrekkjavökunni hlaupa börnin um hverfið og safna nammi. Margir hópar fóru um mitt hverfi og skipulagið er einfalt. Ef ljós er við dyr er leyfilegt að banka eða hringja. Myndin er af fyrsta hópnum sem kom að mínum dyrum og ég dáðist að hve börnin og foreldrar þeirra höfðu lagt mikið í búningana. Það var ánægjulegt að tala við hrekkjalómana og sonur minn mokaði nammi og síðan appelsínum og að lokum eplum heimilisins líka í pokana. 

Tengd hrekkjavökunni eru merkilegir messudagar. Á allra heilgra messu minnumst við gjarnan látinna ástvina. Þessi messudagur er í íslensku þjóðkirkjunni fyrsti sunnudagur í nóvember. Svo er önnur messa, sem kennd er við sálir og kallast allra sálna messa. Á síðari tímum hefur þessum dögum og heitum þeirra verið ruglað saman. Dagarnir vour þó fyrrum sitt hvor dagurinn og með sitt hvorum tilgangnum. Kaþólikkar á miðöldum notuðu daginn eftir allra heilagra messu sem dag sálnanna. Þá var minnst þeirra sálna, sem væru í hreinsunareldinum. Fyrir þeim var beðið og messað. Mótmælendur og þar með lútherska kirkjan hafnaði skilningi kaþólikka á hreinsunareldi og þar með að sálir væru píndar í eldi og fyrir þeim þyrfti að biðja.

Í allt öðrum skilningi og undir áhrifum frá spíritisma var tekin upp sérstakur allra-sálna-messudagur í ýmsum söfnuðum á Íslandi. Skilningurinn, sem var lagður í þann messudag, var allt annar en hinn gamal-kaþólski. Dagurinn var helgaður minningu látinna. Ég mæli með að við notum heitið “allra heilagra messa” því heitið allra sálna messa er hluti af úreltri guðfræði.

Hrekkjavaka er tengd messudögum hinna heilögu og allra sálna. Á enskunni var talað um holy eve eða heilagt kvöld, sem síðan breyttist í halloween og vofukvöld og hrekkjavöku í ýmsum enskumælandi löndum. Upprunalega var þetta aðfangakvöld allra sálna messu. Vestur í Ameríku er vísað til, að þetta er dagur þar sem margt er á sveimi, krakkarnir bregða yfir sig skikkjum, ganga um eins og skríkjandi vofur og safna nammi undir slagorðinu trick or treat – happ eða hrylling. Gefðu nammi eða þú hefur verra af.  Atferlið hefur spennt börnin, skemmt þeim, kannski stundum hrætt, en svo hafa góðir foreldrar auðvitað frætt þau um sálir, að líf er eftir þetta líf og um samhengi alls er. Jesús sagði ekki í guðspjallstexta allrar heilagra messu að við ættum setja ljósið okkar inn í grasker heldur leyfa því að lýsa öðrum. Hlutverk okkar er að vera sem ljósasól á fjalli og í sambandi við orkubú veraldar. 

Allra heilagra messa, og dagarnir sem tengjast henni, beina sjónum upp en ekki niður, inn í ljósið en ekki myrkrið, til Guðs en ekki til dauða.