Greinasafn fyrir merki: afklætt altari

Nakið altari

Af hverju er allt tekið af altarinu í Hallgrímskirkju á skírdagskvöldi? Af hverju er altarið nakið allt fram á páskamorgun? Ljós kirkjunnar eru slökkt og prestur afskrýðist hökli. Bæn Jesú í Getsemane er íhuguð og slökkt er á altarisljósum. Síðan eru ljósastjakar, bækur, vasar, þerrur og dúkur borin fram, undanfarin ár undir söng en í ár í þögn kirkjuhússins.

Þessi gjörningur í kirkjunni, svonefnd Getsemanestund, er tjáning lífsafstöðu og trúarjátning. Þegar við játum hið góða og trú til Guðs er hið næsta að horfast í augu við, að líf í þessum heimi hefur skuggahliðar, sekt, misgerðir, sjúkdóma, ofbeldi og dauða – þetta sem við viljum ekki en er samt. Þegar við afklæðum altarið tjáum við líka, að í okkur lifi ekki aðeins Guðsneistin, trúin og samstaða með öllu góðu, heldur búi líka í okkur möguleikar til ills. Að vera mennskur er ekki aðeins að gera gott heldur líka að gera eitthvað sem særir. Þegar við berum allt af altarinu táknum við fyrir sjálfum okkur, að við erum ekki aðeins vinir Jesú, heldur líka andstæðingar hins góða.

Þegar altarið hefur verið afklætt er í Hallgrímskirkju borið fram pelíkanaklæði Unnar Ólafsdóttur. Myndin tjáir forna sögu um pelikana, sem gaf ungum blóð sitt til lífs. Þá sögu túlkuðu trúmenn aldanna sem líkingasögu um fórn Jesú Krists til að bjarga mönnum og heimi. Pelíkanaklæðinu er komið fyrir við altarið og blasir við þeim sem koma í Hallgrímskirkju allt til páskamorguns. Snemma þann dag er pelikanaklæðið borið út, en dúkur og altarismunir eru bornir í kirkju. Helgidómurinn, munir, listaverk og lifandi fólk fagna að dauðinn dó en lífið lifir.

Altarið er tákn um lífið og það er heilagt. Altarið er miðjan í kirkjunni, borð sem okkur er boðið til. Altarið er staður veislunnar, en þegar táknin hafa verið borin burt, eru fimm rauðar rósir lagðar á nakið borðið. Blómin eru tákn um síðusár Jesú Krists. Rósir á altari eru mál elskunnar. Þær eru tákn meina heims og manna.

Nakið altari, grípandi pelikanamynd, myrk kirkja og rauðar rósir. Langur föstudagur og síðan laugardagur. Verða páskar?

Sigurður Árni Þórðarson