Greinasafn fyrir merki: ábyrgð

Heillakarlinn Jósef

Owen Jones - Jósef dreymir
Þegar fólkið þitt spyr þig heima á eftir: “Hvernig var í messunni í kirkjunni?” þá getur þú svarað: “Það var alger draumur!” Jú, vegna þess að í dag íhugum við drauma í fornöld, draum Guðs og svo þinn eigin draum. Hver er hann? Hvað dreymir þig?

Jósef kemur í ljós
Við þekkjum aðalfólkið í jólasögunni, Maríu, hirðana, englana og svo auðvitað sjálft Jesúbarnið. Og kannski eru það María með barnið í fanginu sem við sjáum fyrir okkur þegar hugur leitar inn í gripahúsið á jólum, inn í helgisöguna. Af öllum kirkjuferðum, jólasamverum, söngvum, sálmum og helgileikjum hefur síðast inn hverjar eru aðalpersónurnar og hverjar ekki. Í dag hugum við að einum sem er oftast í bakgrunni jólasögunnar. Það er heillakarlinn Jósef. Þó hann sé næstum ósýnilegur er vert að beina sjónum að honum.

Hvers konar karl var hann? Og getum við eitthvað lært af honum? Er hann fyrirmynd og til að læra af? Það var Jósef sem studdi heitmey sína á förinni til Betlehem. Hann hentist inn á alla gististaðina og fékk afsvör. Það var hann sem tók á móti barninu þegar það kom í heiminn, skildi á milli og batt fyrir naflastreng. Hendur hans hafa skolfið þegar hann hélt á smálífinu í lúkunum og vafði klæði um barnið til að varna næturkælunni að komast að því. Hann hefur sett það í móðurfang þegar hún bar það fyrst að brjósti.

Jósef hafði atvinnu af smíðum en við vitum ekkert um hvað hann smíðaði eða hvernig verkmaður hann var. Væntanlega var Jósef ekki mállaus, en þó er ekki eitt einasta orð haft eftir honum í guðspjöllunum. Jesús var fullkominn snillingur í samræðum og örlátur í samskiptum og væntanlega hefur Jósef lagt til þeirrar hæfni.

Maðurinn á bak við konuna
Aukaleikarinn í jólasögunni er í raun aðalleikari. Hann er maðurinn á bak við konuna. Hann rataði siðklemmu og brást stórmannlega við vanda festarkonu sinnar. Vegna manndóms og karlmennsku kastaði hann af sér karlrembunni og ákvað að axla ábyrgð á aðstæðum þeirra Maríu. Hann veik sér aldrei undan að taka erfiðar ákvarðanir og fara langar ferðir ef það mætti verða til að vernda líf og hamingju fjölskyldu hans. Jósef er fyrirmynd um karlmennsku í jafnvægi. Í miðju glimmerskreyttrar draumafrásögu er saga um sterkan mann, sem þorði. Sá Jósep hafði karlmannslundina í lagi.

Draumar Jósefs
Brasilíski ritjöfurinn Paulo Coelho opnaði augu mín fyrir hve fáir draumamenn eru í Nýja testamentinu. Í Gamla testamentinu er fjöldi drauma og draumspakra en í því nýja fyrst og fremst Jósef. Í guðspjöllunum er aðeins sex sinnum sagt frá draumförum. Í fjórum af þessum sex tilvikum var það Jósef sem dreymdi. Hann var tengdur dýptum tilverunnar og tók mark á sínum innri manni. Draumar hans breyttu afstöðu hans, skoðun og stefnu. Því var lífi Jesú bjargað.

Í fyrsta lagi ákvað Jósef að skilja ekki við Maríu vegna óléttunnar. Samkvæmt sið og stöðlum samtíðarinnar hefði Jósef átt að rifta trúlofuninni. En hann hlustaði á draum sinn og þorði að gera annað en það, sem nágrannar hans ætluðust til og aðrir einfaldari hefðu gert.

Svo dreymdi hann í Betlehem að hann ætti að drífa sig með sitt fólk til Egyptalands. Ættmennin hafa væntanlega álitið það vera maníukast að rjúka í slíka óvissuferð með ungabarn. Og maður með snefil af bisnissviti hefði neitað að hlaupa svo frá verkum sínum og skyldum. En Jósef var reiðubúinn að hlusta á kall til heilla þótt það kostaði hann mikið. Hann var tengdur djúpum og gildum og þorði að fara gegn almenningsálitinu.

Svo fáum við að heyra af þessum draumajóa þegar hann var búinn að koma sér fyrir í Egyptalandi, var væntanlega í góðri vinnu og átti til hnífs og skeiðar. Enn einu sinni hlustaði hann á boðskap og hlýddi þó það kæmi honum illa. Hann lagði í ´ann og enn einu sinni fékk hann bendingu í draumi um að fara heim í þorpið í Galíleu (og stoppa ekki á Jerúsalemsvæðinu, nefnt Júdea í Nt.).

Fjórir draumar sem höfðu áhrif og urðu til að vernda líf og velferð fjölskyldu hans og þar með vernda uppvöxt Jesú Krists.

Draumafyrirmynd
Aðalpersónur í jólasögunni og þar með í allri kristninni eru vissulega María og Jesús. En vert er að gæta að og taka eftir hinum trausta Jósef. Hann er flottur. Ég met mest hversu tengdur hann var sínum innri manni. Hann þorði að breyta um skoðun. Hann sinnti eins og milljarðar fólks fyrr og síðar öllum hinum hversdagslegu skylduverkum eins og við hin – en hann átti í sér vilja og getu til að axla ábyrgð í vondum aðstæðum, efla þar með líf annarra, ekki aðeins síns fólks heldur veraldarinnar. Að hlusta á drauma er okkur nauðsyn og veröldinni lífsnauðsyn.

Draumur Guðs
Draumar eru dýrmæti. Á jólum megum við gjarnan vitja stærsta draums veraldar, sem er stærri en okkar eigin draumur. Hver er hann? Það er draumur Guðs um hamingju, gleði og réttlæti handa öllum mönnum. Guð dreymir þig, bæði daga og nætur, dreymir að þér líði vel, að þú njótir elsku og hamingju, í einkalífi og vinnu.

Þegar Jósef tók með skjálfandi höndum hið litla líf í fangið var Guð að birta elskugerð veraldar, túlka drauminn um lífið og heiminn. Hið varnarlausa barn tjáir sögu um, að Guð lætur sig veröldina varða, vitjar fólks í raunverulegum aðstæðum en ekki bara í andlegri heilaleikfimi.

Vitjaðu draums þíns
Jósef tók mark á draumum sínum. Hver er þinn draumur. Hvert er hlutverk þitt, hvað gerir þú til að lifa vel? Hver er lífshamingja þín? Er eitthvað í lífi þínu, sem hindrar að þú sért hamingjusamur eða hamingjusöm?”

Vegna þess að Jósef tók mark á draumum sínum bjargaði hann Maríu, Jesúbarninu og hamingju sinni. Á hverjum jólum vitjar hann þín og spyr þig um leið þína og lífssamhengi. Nærvera Jósefs á öllum jólum er hljóðlát spurning um þinn draum, gleðiefni þín og köllun þína.

Þú mátt vita, að Guð dreymir þig og sá draumur situr í þér – draumur um lífshamingju. Jósef þorði – leyfðu draumi Guðs um þig að rætast. Það er draumur til lífs.

Amen

Íhugun á 2. degi jóla, 26. desember, 2015

Textaröð: A – Lexía: Jes 9.1-6

Sú þjóð, sem í myrkri gengur,

sér mikið ljós.

Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna

skín ljós.

Þú eykur stórum fögnuðinn,

gerir gleðina mikla.

Menn gleðjast fyrir augliti þínu

eins og þegar uppskeru er fagnað,

eins og menn fagna þegar herfangi er skipt.

Því að ok þeirra,

klafann á herðum þeirra,

barefli þess sem kúgar þá

hefur þú brotið í sundur eins og á degi Midíans.

Öll harkmikil hermannastígvél

og allar blóðstokknar skikkjur

skulu brenndar

og verða eldsmatur.

Því að barn er oss fætt,

sonur er oss gefinn.

Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla,

hann skal nefndur:

Undraráðgjafi, Guðhetja,

Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.

Mikill skal höfðingjadómurinn verða

og friðurinn engan enda taka

á hásæti Davíðs

og í ríki hans.

Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti,

héðan í frá og að eilífu.

Vandlæting Drottins allsherjar

mun þessu til vegar koma.

Pistill: Tít 2.11-14

Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Hún kennir okkur að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum, í eftirvæntingu okkar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni. Hann gaf sjálfan sig fyrir okkur til þess að hann leysti okkur frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.

Guðspjall: Matt 1.18-25

Fæðing Jesú Krists varð á þennan hátt: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman reyndist hún þunguð af heilögum anda. Jósef, festarmaður hennar, sem var valmenni, vildi ekki gera henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey. Hann hafði ráðið þetta með sér en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: „Jósef, sonur Davíðs, óttast þú ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda. Hún mun son ala og hann skaltu láta heita Jesú því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum hans.“

Allt varð þetta til þess að rætast skyldi það sem Drottinn lét spámanninn boða: „Sjá, yngismær mun þunguð verða og fæða son og lætur hann heita Immanúel,“ það þýðir: Guð með oss.

Þegar Jósef vaknaði gerði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín. Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS.

Þessir flóttamenn

ÁvextirGult lauf liggur á götunum. Rauð reyniberin mynda fagurt litaívaf í haustlitasinfóníuna. Tré og runnar hafa náð fullum þroska og fuglar himins uppskera. Menn hafa bjargað forða til hausts og vetrar.

Þótt fæst okkar séum með beinum hætti háð gróðri jarðar lifum við samt í hrynjandi náttúru og megum gleðjast yfir jurtum sem þroskast, í samræmi við köllun sína og skila ávexti sínum til lífkeðju veraldar og fræjum til framtíðar. Rauð ber, fullþroska grænmeti og líka hálfslompaðir, syngjandi þrestir eru fulltrúar lífsins í verðandi veraldar.

Í Biblíunni eru ávaxtaríkar sögur sem ríma við tímann. Það eru ekki úreltar sögur – eins og grunnhyggnir skríbentar halda fram – heldur sögur sem eru svo kraftmiklar og lífseflandi að þær móta og eru erkisögur. Sögur um að við menn megum bera ávöxt í samræmni við eðli okkar og viðmið. Ein þeirra er Rutarsaga í Gamla testamentinu. Texti úr þeirri bók er lexía næsta sunnudags sem er 20. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Í Rutarbók er heillandi frásögn um fólk, um lífið, gildi lífsins, ábyrgð, val, ást, flóttafólk og hvernig hægt er að bregðast við útlendingum. Eru þessi stef nokkuð úrelt, er eitthvað sem minnir þig á vanda og val okkar í nútíma?

Sagan hefst meira en þúsund árum fyrir Kristsburð. Fólk var á ferð, eiginlega á flótta frá Jerúsalem til landsvæðis austan Jórdandals. Þar settist að ísraelsk fjölskylda, kjarnafjölskylda, foreldrar og tveir drengir. Strákarnir uxu upp. Fjölskyldan kom sér vel og aðlagaðist umhverfinu það vel að ungu mennirnir gengu að eiga nágrannameyjar. Heimastúlkurnar gengu hjónaband með útlensku strákunum. En svo urðu hörmungar. Pabbinn og báðir synirnir dóu, konan varð ekkja sem og ungu tengdadæturnar. Í karlstýrðu samfélagi voru þeim flest sund lokuð. Ekkjan ákvað að fara heim og ungu konurnar – sem voru barnlausar – urðu að velja lífsstefnu. Önnur varð eftir og hin fór með gömlu konunni. Hún axlaði ábyrgð umfram alla skyldu.

Sú unga gekk í verk til að bjarga sér og tengdamóður sinni, hreif fólk í nágrenni Jerúsalem og svo varð merkileg ástarsaga, með pólitískum snúningum, siðferðilegum, trúarlegum og menningarlegum pælingum. En Rut var ábyrg í einu öllu, lifði með reisn í ómögulegum aðstæðum og var reynd í flestu. Hún var sem skírð í eldi lífsreynslunnar. Hún var trú yfir litlu sem stóru. Saga hennar er saga hetjunnar. Það var þessi kona sem síðan varð ættmóðir lausnar Ísraels og heimsins – formóðir Davíðs og Jesú Krists. Flóttakona varð formóðir lífsins. Það er djúpgaldur hins guðlega vefs.

Rutarbók er saga um ást, um líf og reisn þrátt fyrir vanda og mótlæti. Saga um að þegar fólk axlar ábyrgð og flýr ekki geta kraftaverk orðið. Ástarjátning Rutar er ekki aðeins dýr lífstjáning heldur hefur verið endursögð um aldir, túlkað tilfinnningar fólk, orðið hvati til þroska og síðan verið tjáð í hjónavígslum fólks af alls konar kynhneigð. Samskipti Bóasar og Rutar eru sem hefðarminni sem ratar til okkar í ýmsum útgáfum s.s. í samskiptum Jesú Krists og konunnar við brunninn. Jesús gaf sig á tal við útlenska konu. Biblíusögur eru lífseigar og til að menn beri ávexti og fræ til framtíðar. Rutarsaga er ástarsaga um landflótta konur en endar sem saga um barn sem fæðist. Og það barn var upphaf sögu um lífið, vonar og hins góða.

Og þá lexíutexti sunnudagsins. Rutarbók, annar kafli. Bóas við Rut:

„Taktu nú eftir, dóttir mín. Tíndu ekki kornöx á neinum öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig að stúlkunum mínum. Hafðu augun á akrinum þar sem piltarnir eru að skera korn og gakktu á eftir þeim. Ég hef bannað vinnufólkinu að amast við þér. Ef þig þyrstir farðu þá að vatnskerunum og drekktu af þeim sem piltarnir hafa fyllt.“ Þá féll hún fram á ásjónu sína, laut til jarðar og sagði við hann: „Hvers vegna sýnir þú mér þá góðvild að virða mig, útlendinginn, viðlits?“

Útlendingar á nýjum slóðum. Landflótta fólk í veröldinni. Rutarbók segir okkur að aðkomufólk er ekki réttlaust, vont fólk heldur jafn lifandi og við hin. Það þráir öryggi, ást, frið, skilning þrátt fyrir að það sé útlendingar og öðru vísi. Og yfir vakir Guð elskunnar, sem elskar innlenda og útlenda, elskar alla jafnt og vill að við iðkum Guðsástina í samskiptum og tengslum við aðra.

Biðjum:

Fyrir hvert skref sem ég tek í lífi mínu – ver mín leiðarstjarna – þú lífsins Guð

Fyrir allar byrðar lífsins – ver mér styrkur – lífsins Guð

Fyrir allar fjallaferðir ævinnar – gef mér kraft – lífsins Guð

Fyrir allar árnar sem ég þarf að vaða – ver mér styrk hönd, lífsins Guð

Fyrir alla áningarstaði mína ver mér friður – lífsins Guð
Fyrir aftureldingu og sólarlag allra daga ver mér gleðigjafi – þú lífsins Guð

(ensk pílagrímabæn)

Biðjum bæn Drottins: Faðir vor….

Drottinn blessi oss og varðveiti oss, Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir oss og sé oss náðugur. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir oss og gefi oss frið.

Um Rutarbók sjá ágæta og áhrifaríka prédikun sr. Sigurvins Lárusar Jónssonar.

Íhugun – kyrrðarstund í Hallgrímskirkju 15. október, 2015.