Greinasafn fyrir merki: 1984

Orwell í Washington?

Donald Trump telur sér fært og vill bæði endurskrifa sögu Bandaríkjanna og endurskilgreina sannleikann. Trump vill líka sjálfur ákveða hvernig saga hans skuli sögð, skráð og hvernig óþægilegir þættir hennar skuli túlkaðir og látnir hverfa. Það kallast þöggun. Í þeirri veröld sem George Orwell skissaði í bókinni 1984 stýrði ríkisvaldið ekki aðeins framtíðinni heldur líka fortíðinni. Henni var breytt að vild og skv. þörfum stjórnvalda. Er Washington 2025 endurskilgreind að hætti 1984?

Smithsonian og ritskoðun fortíðar

Í mars 2025 undirritaði Trump forsetatilskipun þar sem hann fordæmdi að hugmyndastefna hefði brenglað staðreyndamiðaða sögu Bandaríkjanna. Orðfærið virtist hvetja til hlutlægrar frásagnar en tilskipunin þjónaði öðru og trumpískara markmiði. Í kjölfar hennar var fjarlægt upplýsingaskilti í Smithsonian-safninu um embættisákærur Trumps. Aðferðin minnir á 1984 stjórnarhætti. Í sögu Orwells endurrituðu starfsmenn Sannleiksráðuneytisins gömul skjöl til að þau samræmdust nýjustu útgáfu valdhafans af sannleikanum.

Vísindin sveigð

Þegar tölfræðistofnun sem rannsakar breytingar á bandaríska vinnumarkaðnum birti tölur um slæma þróun atvinnulífsins rak forsetinn forstjóra stofnunarinnar. Trump líkaði sem sé ekki faglega greiningin og sagðist ekki trúa tölunum. Minnir á „doublethink“ Orwells. Ef tölur stangast á við þarfir valdsins eru tölurnar rangar og raunveruleiki og sannleikur lygi. Með því að skjóta sendiboðann, þ.e. refsa þeim sem opinberar óþægilegar upplýsingar, krefst stjórnin ekki aðeins þöggunar heldur undirgefni. Skilaboðin eru að allir verði að skilja, sjá og túlka heiminn eins og Trump – eða hverfa ella.

Skilaboðin – sannleikur þjónar valdi

Svona stjórnarhættir veikja traust og vekja ótta, auka meðvirkni og knýja til hlýðni. Allir sem veita upplýsingar um þróun mála bandarísks þjóðfélags eiga að beita sig sjálfsritskskoðun, laga sig að stefnu stjórnvalda og hegða sér eins og rússneskir eða norður-kóreanskir embættismenn. Sannleikurinn verður að falla innan tiltekins ramma einræðisherrans – annars er hætt við að þeir fái reisupassann. Rök, góð fræði, gagnsæi lúta valdstjórn í ótta. Fólk hættir að segja sannleikann ef hann er óþægilegur fyrir stjórnvöld. Sögulegum staðreyndum er breytt til að þóknast. Þetta merkir einfaldlega að frelsið er á útleið og ofríki tekur völdin. Fjálst fólk gerist gínur valdsins. Frjálsir menn verða þrælar. 

Sannleikurinn lygi – en lygi sannleikur

Trump kallaði árásarmenn á þinghúsið fanga og gísla og taldi þá föðurlandsvini. Hann hafnar líka fjölbreytileika og réttlætisviðmiðum í stjórnkerfinu. Hann hefur glamrað um bandarísk gildi sem hafa þó aldrei verið skilgreind. Markmiðið virðist að endurskilgreina söguna. Inntak þeirar sögu er að Trump sé bæði fórnarlamb og bjargvættur. 

Orwell tekur yfir Washington

Í veröld Orwells var þögn öflugt tæki yfirvalda. Bókum var ekki eytt heldur tryggt að þær væru ósýnilegar og sköðuðu ekki valdakerfið. Staðreyndir voru ekki bannaðar en athygli beint frá þeim. Þegar opinberar stofnanir mega ekki sýna þróun samfélags og þjóðfélags, þegar gagnrýnir embættismenn eru fjarlægðir og sögutúlkun er hagrætt í undirgefni við valdið er Orwell mættur og 1984 líka. Í stað Stóra bróður krefst forsetinn að allir speglar sýni hann og ávallt glæsilegan. Tryggt sé að enginn efist – og alls ekki opinberlega.