Þorskhnakkar með parmaskinku

Þorskhnakkar eru hentugir í þennan spænska fiskrétt – og vafðir í góða Parmaskinku. Rétturinn er fljóteldaður – 45 mínútur – og öllum þykir þetta góður matur.

Fyrir 4

2 pakkar kirsuberja- eða kokteiltómatar

2 rauðlaukar

5 hvítlauksgeirar

1 lúka grænar ólífur

700-800 gr þorskhnakkar skornir í 4 bita

1 tsk fiskikrydd eða ½ tsk chilikrydd

4 hráskinkusneiðar

steinselja – eða dill

ólífuolía

salt og pipar

Hitið ofninn í 200°C.

Skerið rauðlauk og hvítlauk þunnt, tómata og ólífur í tvennt. Setjið í eldfast mót, 4 msk. af ólífuolíu, salt og pipar og blandið öllu vel saman. Bakað í ofni í 15-20 mínútur.

Kryddið fiskinn með pipar og smá chili (ef þið viljið bit) og pakkið síðan parmaskinku utan um hverja fisksneið og setjið þorskinn ofan á tómatana og aftur í ofninn í aðrar 15 mínútur – eða þar til þorskurinn er eldaður í gegn og parmaskinkan orðin aðeins stökk.

Stráið saxaðri steinselju eða dilli yfir fiskinn.

Berið fram salat með og gott súrdeigsbrauð til að þurrka upp dásamlegan vökvan. Þau sem vilja geta soðið bygg eða hrísgrjón og haft sem meiðlæti. 

Parmaskinkan gefur yfirleitt nægilegt saltbragð við bökunina.

Ég fékk uppskriftina úr mbl – Mörtu Rún Ársælsdóttur –  en breytti henni að eigin smekk.