Hallgrímssöfnuður 85 ára

Hallgrímssöfnuður á afmæli og er 85 ára. Árið 1940 ákvað Alþingi að stofna þrjár nýjar sóknir í Reykjavík og þar á meðal var Hallgrímssókn. Fyrstu árin var helgihald í Austurbæjarskóla. Bygging Hallgrímskirkju hófst árið 1945 og þremur árum síðar var kjallari kórsins vígður sem kirkjusalur. Þar var messað þar til nýr kirkjusalur var tekinn í notkun í suðurálmu turnsins árið 1974. Kirkjan var síðan vígð 26. október 1986, daginn fyrir 312. ártíð Hallgríms Péturssonar, sama ár og Reykjavík hélt upp á 200 ára afmæli sitt. 

Hallgrímskirkja er hverfiskirkja og þjóðarhelgidómur. Hún er komin á ofurskrár heimshúsa – topp tíu, topp fimmtíu og topp hundrað. Hún er á ofurlistum um mikilvæga ferðamannastaði, hrífandi kirkjur og mikil steinsteypumannvirki. Hún er líka á lista the Guardian sem eitt af tíu mikilvægustu tilbeiðsluhúsum heims. Fólk nær sambandi hvort sem það leitar sjálfs sín, friðar, vonar eða Guðs. Söfnuðurinn er á virðulegum aldri en Guð er ekki bundinn af skorðum ára og tíma – Guð er lind lífs, tilgangs, friðar, samfélags, vonar og trúar. 

Mynd sáþ af kirkjunni sem myndfleti á vetrarhátíð.