Gamli, freki kallinn?

Hvert er hlutverk okkar sem erum á þriðja æviskeiði? Er það að stjórna og láta alla hlýða okkur? Nei. Hlutverk okkar er að miðla því sem við höfum lært, þeim lífsráðum sem við vitum best og höfum jafnvel uppgötvað í baráttu við mestu sorg og áföll. Hlutverk okkar er að miðla visku og lífi en valda ekki ógn og dauða.

En veröldin situr uppi með gamla og freka kalla. Þeir sem ráða örlögum heimsins eru svo aldraðir að þeir eru í slag við þennan með ljáinn. Khameiní í Íran er 86 ára, Trump 79 ára, Netanyahu 75 ára, Modi 74, Pútín og Xi eru báðir 72 ára. Og þeir sprengja og vilja – já krefjast – fleiri vígvéla og heimta öflugri bombur. Trump vill að Nató leggi mun meiri fjármuni í hernaðartól sem merkir auðvitað að evrópsk ríki kaupi miklu meira af amerískum vopnaframleiðendum. Haag-fundur Nató í júní 2025 hlýddi og varð stefnufundur sprengjukallanna. Hið sérkennilega er að ekki var rætt, skoðað og síðan rökstutt hvað þyrfti mikla peninga til að tryggja varnir. Nei, bara miklu meiri peninga – ja, kannski svona 5% af vergri þjóðarframleiðslu. Engin rök, engar skýringar – bara frekjukast. Og auðvitað undirlægjuhlýðni hinna yngri leiðtoga Nató. Látum kallinn fá það – það sem hann vill. Ekki rökleg og heildstæð stefnumótun heldur undirgefni til að Nató liðist ekki í sundur. Mikill sigur? Nei.

Freku kallar öldrunarstjórnarinnar fæddust og nutu uppeldis í skjóli friðar eftirstríðsára tuttugustu aldar. Nú grafa þeir undan friði. Þau stórmál sem heimurinn glímir við eru hnattræn hlýnun, ógn við lífríki jarðarinnar, skelfileg mengun, vatnsskortur og mannréttindavá. Slagur freku kallanna við þann með ljáinn veldur þeim óbærilegri óþreyju og ofsaþrá að beita valdi, láta til sína taka með látum. Heimsendir verður hvort sem er ekki fyrr en eftir þeirra dag.

Í lok tuttugugustu aldar var Vigdís Finnbogadóttir meðstofnandi Heimsráðs kvenleiðtoga sem síðan fléttaðist inn í Madrídarhópinn. Þau voru öldungahópur leiðtoga sem þjónuðu lýðræði og mannréttindum. Nelson Mandela stofnaði síðan ráðgjafahópinn The Elders árið 2007. Öldungarnir voru leiðtogar og þjóðhöfðingjar sem höfðu látið af störfum, s.s. Kofi Annan, Jimmy Carter, Desmond Tutu, Mary Robinson og fl. Verkefni þeirra var að stuðla að friði, mannréttindum og sjálfbærri þróun samfélaga. Í starfi þeirra birtist viska og einurð sem aldur getur fært fólki – þegar unnið er með lífsreynslu í auðmýkt og af ábyrgð. Á hvorum hópi öldunga hefur heimsbyggðin meiri þörf nú – öldungunum sem blessa og stuðla að lífi eða gömlu bombuköllunum, þessum freku?

Vandinn er ekki aldurinn sjálfur, heldur hvernig ævinni hefur verið varið og til hvers. Heim okkar skortir ekki valdasækna öldunga, heldur þjónandi leiðtoga – konur og karla – sem skilja að lífsgildi felast ekki í völdum og vopnaglamri  – heldur í því hvernig fólk skilar af sér garði sínum, samfélagi og veröld. Nú er ráð að fara að skoða sögu Jesú Krists um ráðsmanninn í sextánda kafla Lúkasarguðspjalls. 

Morguníhugun 1. ágúst, 2025. 

Myndina veiddi ég úr heimi gervigreindar.