Heilræði fyrir gott líf

Farðu með friði í ys og átökum heimsins.

Lærðu að njóta kyrrðar sem er fólgin í þögninni.

Láttu þér semjast við fólk án nokkurrar uppgerðar.

Segðu sannleikann greinilega en með stillingu.

Hlustaðu á aðra.

Allir hafa sögu að segja sem þarfnast hlustandi huga.

Forðastu hégóma og mannjöfnuð.

Ávallt munu einhverjir verða þér óstyrkari eða ofjarlar.

Njóttu áforma þinna og árangurs í lífinu.

Sinntu starfi þínu vel, hvert sem það er.

Vertu varkár í viðskiptum því veröldin er full af gylliboðum.

Gættu að eigin samkvæmni.

Gerðu þér ekki upp ástúð og hlýju.

Láttu ekki kulda næða um ástina þína.

Ástin er eilífðarblómstur á akri tímans.

Öðlastu visku áranna með stillingu og án eftirsjár.

Gefðu frá þér með reisn það sem tilheyrir æskunni.

Hlúðu að andlegum styrk þínum svo þú eigir festu í andstreymi.

Temdu þér sjálfstjórn en einnig ljúfmennsku gagnvart eigin sjálfi.

Mundu að einmanaleiki og hræðsla eru gróðrarstía óttans.

Eins og gróður jarðar og stjörnur á himni ert þú barn alheimsins.

Þú breytist eins og hin mikla lífkeðja veraldar.

Lifðu í sátt við Guð hver sem verk þín hafa verið eða munu verða í sviftingum lífsins.

Mundu að þrátt fyrir sorgir og áföll er veröldin undurfögur.

Hafðu hamingjuna að stöðugu markmiði.

Heimildir greinir á um aldur og uppruna þessa heilræðabálks sem ég snaraði fyrir „löngu.“