Guðspakkinn – ég elska þig

Ég sat fyrir jólin og pakkaði inn jólapökkum. Pappírinn flóði og borðarúllurnar voru um allt borð. Frá-og til-miðarnir voru skrifaðir. Handverkið var talsvert en meiri vinna var þó lögð í að velja pakkana, hlaupa í búðir, skoða og íhuga þarfir og samhengi þeirra sem áttu að fá gjafirnar. Þó hugsun og tími hafi verið lögð í val og pökkun ræð ég þó engu um tilfinningar viðtakenda og hvort gjafirnar munu gleðja eða hryggja. Ekki heldur hvort þeim verður skilað eða þær fái heiðursess í lífi þeirra sem þiggja. Þegar ég reyndi að stilla jólapappír, límdi og áritaði hugsaði ég um hve ólíkar tilfinningar pakkaflóð veraldar vekur. Sumir jólapakkar gleðja á dýptina en aðrir særa eða opna jafnvel gömul sár. Gildi jólapakka er óháð raunverðmætum. Sumir pakkar sem kosta lítið geta þó snortið djúpt og verða mikils virði af því þeir tjá ást og alúð.

Hjartans málin

Síðustu árin hef notið þess á viskuhluta æfinnar að taka þátt í uppvexti tvíburadrengja sem hafa orðið mér uppspretta margra skemmtilegra hugsana. Þegar drengirnir voru að læra að skrifa fengum við foreldrarnir í hendur snepla, kort og bréf. Þar voru skrifaðar áhrifaríkar tilkynningar með stórum og barnslegum stöfum: „Pabbi er bestur” eða „Mamma best í heimi.” Svona bréf hafa mörg ykkar fengið og glaðst yfir. Tilgangur bréfanna var ekki að lýsa með hlutlægum hætti. Þau voru og eru fremur tjáning á afstöðu og tengslum. Svona tilskrif eru ekki lýsingar á staðreyndum sem allir eru sammála um heldur tjáning tilfinninga. En þau sem fá svona ástarbréf fagna þeim og hrífast því þau segja satt. Á snepli sem varð mér merkilegasta plagg heimsins stóð. „Ég elska þig, pabbi.” Þessi setning varðar lífshamingju mína. Þegar maður er búinn að sjá allt sem þessi veröld býður og sjá inn í lífskima þúsunda þá veit maður að það er þetta sem skiptir öllu máli. Það er undur að elska og vera elskaður. Það sker úr um líf og hamingju. Miðinn sem drengurinn minn skrifaði verður ekki metinn til margra króna en varð mér samt tákn um það dýrmætasta í lífinu. Við þörfnumst þess að fá að heyra að við séum elskuð. Ekki varajátningu heldur tjáningu á dýpstu afstöðu lífsins. Ég elska þig.

Um hvað er jólaboðskapurinn?

Þá erum við komin að erindi jólanna. Hverju leyfum við að komast að okkur og inn í okkur? Erum við til í að opna tilfinningapakkann líka? Jólasagan varðar það mál. Hvernig ættum við að bregðast við þeirri upphöfnu sögu? Það er engin ástæða til að taka skynsemi og sjálf úr sambandi þótt þú njótir jólanna og viljir fá að lifa í upphafinni helgi þeirra. Jólaboðskapurinn er ekki um meyjarfæðingu eða vitringa og englaskara eða að Jesús fæddist í Betlehem eða í einhverri annarri borg. Allt þetta kemur vissulega við sögu en þau mál eru rammi fremur en meginmál, umgjörð fremur en eiginleg mynd. Erindi jólanna varðar ekki heldur hvort Jesús Kristur fæddist árið 1 árið 0 eða 4 árum eða 6 fyrir tímatal okkar sem er þó vissulega kennt við Kristsburð. Helgisögur eigum við ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Trúin leitar að inntaki að baki bókstaf sögunnar. Hún þarf að kafa í merkingu en stoppa ekki í forskála sögunnar. Veruleiki helgisögu varðar gildi og dýpt. Hann er persónulegur og er í kristninni persóna.

Jólaboðskapurinn er um að Guð elskar og elskar ákaft. Guð tjáir þá ást með róttæku móti en ekki aðeins bréflega heldur kemur í persónu. Efni og form helgisögu þjónar þeim ákveðna tilgangi að sýna hið guðlega samhengi og hina persónulegu nálgun. Helgisögur eru flétta stefja, ímynda og minna sem þjóna boðskap eða virkni helgisögunnar. Við megum og verðum jafnvel að skræla burt það sem ekki hefur í okkar samtíð skiljanlega skírskotun til hins guðlega. Form helgisögunnar er eins og jólapappírinn utan um jólafjöfina. Umbúðirnar verður að fjarlægja til að gjöfin birtist. Kraftaverk voru forðum skýr tákn um Guðsnánd en eru það ekki sjálfkrafa lengur. Vitringar voru tákn um stórviðburði og þjónuðu því ákveðnu hlutverki mikilvægis. En þannig er það ekki lengur nema bara í ævintýrum. Svo var þjóðmenning gyðinga og túlkunarhefð að baki í Biblíunni sem var eins og stýrikerfi sem stjórnaði hvaða atriði varð að nefna og urðu að koma fram til að hægt væri að ráða í og gera skiljanlega dulkóða merkjakerfisins. Til voru menningarskilyrðingar hvernig átti að segja hlutina til að samhengið yrði ljóst. Þetta var túlkunarhefðin og menningararfleifðin sem stýrði nálgun og skilningi. Allar þjóðir og hópar eiga sína viðurkenndu kvarða um hvernig eigi að segja frá mikilvægum málum. Við Íslendingar lifum og stjórnumst af íslensku samhengi og íslenskum veruleika og gyðingar höfðu sína arfleifð og sinn hátt á. 

Mál hjartans og lífsviskan

Við þurfum ekki að leggja augu og eyru að öllu hinu yfirborðslega í jólasögunni og taka allt bókstaflega. Við megum frekar leggja okkur eftir inntaki en umbúnaði, merkingu en ekki ásýnd og persónu fremur en sögu. Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Hvað skiptir fólk máli þegar lífið er gert upp og allt vegið og metið? Það er lifandi fólk en ekki dót og fasteignir. Oft er stærsta sorgin að hafa ekki haft meira næði til að vera með ástvinunum. Jólin geta líka kallað fram eftirsjá og harm vegna þeirra sem eru horfin inn í eilífðina. En Guð elskar þau líka og umvefur þau og man líka eftir þér sem syrgir og saknar. Jólajafir eru tákn og vísun til þess sem dýpra liggur. Þar er komið að því sem skiptir okkur máli. Við viljum lifa vel og njóta hamingju og friðar í einkalífi og samfélagi. Við þráum að lífið sé meira en lífsbarátta, hrörnun og dauði. Við þráum meira og þetta meira köllum við Guð. Við erum þannig gerð að við þráum djúpnæringu.

Jólagjöfin í ár

Jólasagan er tjáning lífs sem þú ert kölluð eða kallaður til og mátt njóta. Stærsta gjöf jólanna sem við getum öðlast og opnað er lífsundrið að tilveran er ekki leiksoppur myrkra afla og tilvera til endanlegs dauða. Þvert á móti að nóttin var rofin af gráti guðsbarnsins. Hann er hinn eiginlegi ljóssveinn og merkingarvaki allrar veraldar. Hver lifandi mannvera getur skilið með hjartanu. Sannindi lífsins verða ekki bara túlkuð með vitsmunum heldur meðtekin og skilin á dýptina. Engin stærri gjöf fæst í lífinu heldur en þegar sagt er við okkur og tjáð með margvíslegu móti: „Ég elska þig.“ Í því ljósi megum við hugsa og skynja Guð og tjá hvernig Guð er. Guð er elskhugi sem elskar ákaft og alltaf. Trúmaðurinn lærir að skynja að alltaf er Guð nærri. Tjáningin hin sama: „Ég elska þig. Mig langar til að vera þinn og þrái að þú sért mín og minn.” Það er jólagjöfin. Umbúðirnar eru saga um vitringa, jötu, kóng, hirða og engla. En miði pakkans er einfaldur og ljóst að pakkinn er til þín og frá þeim sem elskar þig. Hvernig sem þér líður og hvort sem þú hefur fengið eða ekki fengið aðra pakka á þessum jólum færðu þennan ástarpakka. Það skiptir mestu að þú ert elskuð og elskaður. Þú hefur óendanlegt gildi og ert þeirrar gerðar að þú ert til lífs í tíma og eilífð. Því máttu njóta þess að lifa og njóta þess sem þér er gefið. Jólagjöfin í ár er gjöf Guðs sem segir við þig: „Ég elska þig.“

Jólanótt. Jes. 9.1-7. Tít. 2.11-14. Lúk. 2.1-14.

Úr bókinni: Ástin, trú og tilgangur lífsins