Ásthildur Sveinsdóttir – minningarorð

„Mamma var með íslenskuna upp á tíu“ sögðu synir Ásthildar. Í henni bjó rík málvitund, sem hún fékk í arf frá fjölskyldufólki sínu og úr öguðum málheimi hins unga lýðveldis Íslands. Þegar hún fór að vinna fyrir sér varð málageta mikilvæg í starfi hennar. Svo urðu þýðingar að atvinnu hjá henni. Þýðingar: Hvað er það? Er það ekki bara að finna út orð í einu máli og hliðstæðu í öðru? Jú, vissulega í sumum tilvikum er hægt að þýða beint, en við sem höfum prufað google-translate og smellt á þýðingartilboð á vefnum vitum að hráþýðing er grunn, tilfinningaskert og skilar litlu nema vísbendingum. Raunveruleg þýðing krefst fegurðar, næmni, skilnings, innsæis, menningarlæsis og málvitundar upp á tíu – eða alla vega upp á níu. Merking er aldrei einnar víddar og yfirborðsleg. Tilfinningar mannanna verða ekki afgreiddar með einfeldni. Miðlun merkingar er list. Ásthildur lifði áhugaverða tíma þegar íslenskt samfélag breyttist hratt. Hún lifði áhugaverðu lífi og okkar er að ráða í merkingu lífs hennar, þýða viðburði, orð og lífsferli með alúð. Og kveðja hana með fegurð og virðingu.

Sólvallagata og upphafið

Ásthildur Sveinsdóttir fæddist á aðventunni árið 1942, laugardaginn 5. desember. Kjörforeldrar hennar voruhjónin Sveinn Þorkelsson og Jóna Egilsdóttir á Sólvallagötu 9. Þar ólst hún upp ásamt eldri bróður sínum Agli Sveinssyni. Egill var tólf árum eldri en hún, fæddist árið 1930. Í fjölskylduhúsinu á Sólvallagötu var litríkt mannlíf. Sveinn og Jóna höfðu byggt húsið og ráku verslun á jarðhæðinni. Líf fjölskyldunnar var með ýmsu móti bæði hvað varðaði rekstur og mannlíf. Þetta stóra hús, með margar vistarverur, var umgjörð um líf stórfjölskyldunnar. Þau systkin, Ásthildur og Egill, áttu þar lengi athvarf. Egill starfaði sem bankamaður en í honum bjó líka listamaður og hann lærði útskurð hjá Einari Jónssyni og einnig málaralist í Florence.

Bernska Ásthildar var hamingjurík. Foreldrar hennar báru hana á höndum sér. Hún var skemmtilega, fallega barnið í stóra húsinu og naut athygli og aðdáunar. Á hana var hlustað og við hana var talað. Æskuárin voru góð en stóra sorgarefnið var að faðir hennar lést þegar hún var enn ung. Eftir að námi lauk með hefðubundu grunnskólanámi stóðu Ásthildi ýmsar leiðir opnar. Hún fór m.a. til Englands til enskunáms. Málakonan lagði sig eftir málum. Seinna fór hún í kennaraskólann um tíma og enn síðar í sálfræði í HÍ. Áhugasvið hennar var víðfeðmt og Ásthildi var gefinn opinn hugur.

Ásthildur var dugmikil í vinnu og þjónaði vinnuveitendum sínum vel. Hún nýtti hæfni sína og skerpu. Um tíma vann hún hjá Póstinum, þá starfaði hún um tíma í banka og einnig við afgreiðslustörf í búð. Um nokkurra ára skeið vann Ásthildur í Domus Medica, sem þá var á Klapparstíg, og svo hjá Vita-og hafnamálastofnun og var síðan ritari borgarlæknis. Læknaritarinn varð slyngur höfundur og létti læknum og samverkamönnum mjög lífið við frágang á skýrslunum. Svo tóku við þýðingarnar, sem gáfu Ásthildi möguleika á að nýta alla færni sína og gáfur til að opna víddir merkingar og möguleika. Hún miðlaði milli heima mála og menningar.

Hjúskapur og drengirnir

Svo var það ástin. Þau Hilmar Guðjónsson, teiknari, felldu hugi saman. Þau voru ung og atorkusöm og gengu í hjónaband árið 1962. Drengirnir komu svo í heiminn. Fyrstur var Pétur Sævald. Hann er viðskiptafræðingur og kona hans er Margrét K. Sverrisdóttir. Börn þeirra eru Kristján Sævald og Edda. Næstir komu tvíburarnir Axel Viðar og Snorri Freyr. Axel er byggingaverkfræðingur. Dætur Axels og Þórnýjar Hlynsdóttur eru Sunna og Álfrún. Snorri Freyr er leikmyndateiknari og hönnuður. Kona hans er Anna Söderström. Dætur þeirra eru Hilda Sóley og Eyvör. Börn Snorra og fyrri eiginkonu hans, Láru Hálfdanardóttur, eru Skarphéðinn og Unnur.

Þau Ásthildur og Hilmar skildu, en voru áfram vinir þó þau væru ekki lengur hjón. Þau stóðu saman vörð um hag þriggja sona sinna. Það er mikil gæfa þegar skilnaður veldur ekki vinslitum. Hilmar fór en drengirnir voru fyrstu árin hjá móður sinni. Þeir lærðu snemma að bjarga sér, urðu skemmtilegir og nýttu vel möguleika og hæfni. Ásthildur hélt áfram vinnu utan heimilis til að sjá sér og sínum farborða. Svo potuðust drengirnir upp, hún óx í starfi og þeir öxluðu ábyrgð. Svo kom að því að Sævar Þór Sigurgeirsson kom inn í líf hennar. Þau Ásthildur gengu í hjónaband árið 1978. Sævar Þór starfaði við endurskoðun. Sonur þeirra Ásthildar er Ívar Sturla. Hann er húsasmiður og býr með Anastasiu Podara. Þegar Ásthildur og Sævar Þór giftust flutti hún með drengina sína upp í Engjasel í Breiðholti. Þar bjó hún í nokkur ár en flutti, þegar þau Sævar skildu, yfir í Flúðasel. Þar bjó Ásthildur á annan áratug og flutti svo í einbýli við Hamarsbraut í Hafnarfirði. Síðustu árin bjó Ásthildur á Álftanesi.

Minningarnar

Við skil er gjöfult en líka þarft að hugsa um ástvin, sem er horfinn sjónum. Hvað einkenndi Ásthildi? Hvernig manstu hana og hvað sagði hún, sem var þér mikilvægt? Manstu dýravininn Ásthildi? Heyrðir þú hana spila á píanóið ? Drengirnir muna eftir Bach og Chopin-leik er þeir voru að festa svefninn! Manstu smekkvísi hennar í fatavali og hve nákvæm hún var varðandi klæðnað? Manstu eftir einhverju sem hún saumaði? Strákarnir töluðu um röndóttar smekkbuxur og mér þykir skemmtilegt að hugsa um þá bræður dressaða í smekkbuxur og með hatta! Manstu Ásthildi með Burda-snið á milli handa? Manstu Ásthildi á þönum úr vinnu til að tryggja að drengirnir hennar fengju næringu í hádeginu? Manstu fjör og stemmingu þegar hún var með vinkonum sínum heima? Svo var Ásthildur ráðdeildarsöm og komst vel af. Manstu hvað hún var klár, viðræðugóð og að enginn kom að tómum kofum hjá henni?

Litið til baka

Miklar breytingar urðu á lífi íslensks samfélags á líftíma Ásthildar. Einhæfnisþróun úr sveit í borg varð fjölbreytilegri. Vesturbæjarþorpið splundraðist á árum seinni heimsstyrjaldar. Á Melum, Högum og Holtum voru hermenn í stríði. Þó peningarnir flæddu um æðar samfélagsins rötuðu þeir þó ekki alltaf til Ásthildar og drengjanna hennar. Hún lærði að lífið er barátta en líka undursamlegt, fjölbreytilegt og fullt af vonarefnum. Í lífi Ásthildar speglaðist umbreytingarsaga þjóðar hennar. Jafnvel upphaf hennar var flóknara en margra okkar. Ásthildur var lánssöm að eiga natna og elskuríka kjörforeldra. En blóðforeldrar hennar voru Kristín Jóhannesdóttir og Kristján Davíðsson, sem á síðari árum varð kunnur sem einn helsti myndlistarjöfur þjóðarinnar. Hvað merkir það, að vita að þú ert þessara en líka hinna? Ásthildur var þegar í bernsku margra vídda. Svo missti hún föður sinn átta ára gömul. Hvað merkir það í lífi barns og móður hennar þegar pabbinn og eiginmaðurinn deyr? Heimurinn hrundi en lífið hélt þó áfram. Þegar Ásthildur eltist kannaði hún svo tengsl við ættmenni sín sem hún hafði ekki verið í samskiptum við í bernsku og náði að kynnast sumum. Hún tengdist m.a. blóðföður sínum sem hún mat mikils. Við fráfall Kristjáns fyrir tæpum áratug skrifaði Ásthildur í minningargrein. „Við endurnýjum kynnin í samvistum á sæluströnd. Hvíl í friði faðir minn.“ Það er mikilvægt að geta tjáð tilfinningar svo vel og orðað frið með slíkum hætti.

Í lífinu hafði Ásthildur fangið fullt af verkefnum. 22 ára var hún orðin móðir þriggja drengja. Við, sem höfum verið með þrjú börn á heimili, vitum að verkefnin eru mörg og oft krefjandi. Ásthildur varð að læra allt sem þurfti til búrekstrar, líka að sjóða kartöflur, afla fjár til að reka heimili og standa straum af öllu því sem stækkandi strákahópur þurfti. Ásthildur var svo gæfusöm að hún átti athvarf í fjölskylduhúsinu á Sólvallagötunni. Þaðan lá leiðin austur fyrir læk og í Breiðholtið. Ásthildur tók þátt í útþenslu borgarinnar og var ekki bundin bara við velli og götur norðan Hringbrautar. Hún hélt áfram og líka í vinnu- og heimilis-málum. Mögnuð saga merkilegrar konu.

Ásthildur þýddi á milli heimanna. Tengdi og túlkaði og lifði í sjálfri sér umbreytingu alls. Í lífi hennar var aldrei bara fortíð heldur líka opnun. Hún vonaði, hafði löngun, þráði, vildi svo gjarnan – sem sé þorði að lyfta sér upp yfir nútímann og skygnast víðar um. Við getum skilið það með margvíslegum hætti. En þegar dýpst er skoðað má líka túlka það sem trúarlega dýpt. Að tilveran er ekki bara lokuð og læst heldur má vænta einhvers meira. Trúmennirnir tala um handanvídd sem er kennd við Guð og himinn. Þegar synir Ásthildar kveðja móður sína þá mega þeir tengja þrá og von hennar í lífinu við að nú hafi allir draumar hennar ræst og allt gengið upp. Ekkert tapast í yfirfærslunni. Það er þýðingarsnilld himinsins.

Nú þýðir Ásthildur ekki lengur. Dýrin njóta ekki lengur athygli hennar og natni. Hún kemur ekki framar í heimsókn á heimili sona sinna. Nú er hin fallega og glæsilega kona farin inn í málheim himinsins. Þar eru engar ambögur, málvillur eða þýðingarvillur, ekkert „lost in translation.“ Þar er málið og himneskan upp á tíu. Þar eru samvistir á sæluströnd eins og Ásthildur orðaði það sjálf. Og Sólvellir himinsins. Guð geymi Ásthildi og Guð styrki ykkur ástvini.

Kveðjur

Ég hef verið beðinn um að bera ykkur kveðju frá vinkonu Ásthildar, Sofiu Thors, og fjölskyldu hennar sem búsett er í Þýskalandi. Auk Sofiu eru Dieter Wendler-Johannsson, Haukur Thor, Óli og Carola.

Minningarorð í Neskirkju 10. mars. 2022. Kistulagning í kapellunni í Fossvogi 8. mars. Erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju. SÞ. GPG og Voces masculorum.

HINSTA KVEÐJA 
Manstu, er saman við sátum 
við sorgþungan úthafsins nið? 
Úr djúpanna dulræðu gátum 
við drógum hinn skammvinna frið,

því eftir var aðeins að skilja, 
og yfir þig skugganum brá 
og eitt er, að unna og dylja, 
og annað, að sakna og þrá. 

 

Jakob J. Smári