Sjónlist lífsins

Vestan við Osló í Noregi er merkileg listamiðstöð sem fjölmiðlar heimsins hafa í mörg ár bent á og fékk m.a. heimsverðlaun listasafna árið 2019. New York Times, Bloomberg, The Telegraph og fjöldi miðla hafa hvatt alla sem hafa áhuga á menningarmálum að heimsækja Kistefos í Jævnaker í Noregi. Must see er ábending stórmiðlanna. Og ég vitjaði staðarins í sumar.

Fyrir 130 árum var byggð sögunarmylla við ána Randselva. Henni var svo lokað um miðja síðustu öld. Síðar var ákveðið að nýta svæðið í þágu lista. Helstu skúlptúristar heimsins hafa unnið verk fyrir Kistefos og af því metnaðurinn er gífurlegur eru gæði verkanna mikil. Árið 2019 var svo tekið í notkun nýtt galleríhús sem hefur vakið mikla athygli og verður í framtíðinni örugglega á topp-hundrað listum yfir fegurstu eða merkilegustu byggingar heims. Húsið þverar ána. En það er ekki lagleg bygging eða brú heldur mun fremur skúltúr því það er sextíu metra langur sívalningur, sem er undinn í miðjunni. Ekki hátt hús heldur snúin lengja, skúlptúr á hlið. Hvernig færi ef Hallgrímskirkjuturn væri lagður á hliðina yfir Ölfusá? Hann myndi líklega brotna í miðjunni. Það var verkfærðilegt afrek að hanna og byggja húsið. Af því að húsið er snúið heitir það Twist. Og miðlar heimsins segja að þessi snúður sé mustsee og skúlptúraskógurinn líka.

Kvisjá og auga

Heimslistamennirnir hafa skapað mikil listaverk fyrir Kistefos. Nú eru þar fimm tugir verka og fjölgar á hverju ári. Eitt er eftir Ólaf Elíasson, okkar mann, sem gerði flottan kaleidoskóp, kviksjá eða speglakíki, sem hægt er að snúa og sjá tilveruna með nýjum og óvæntum hætti.Hreyfing, þáttaka, sjón og uppstokkun eða endurlit eru mikilvægir þættir í mörgum verkum Ólafs. Á öðrum stað var kolkrabbi Bjarne Melgård sem var með fætur í jörðu en angarnir komu sum staðar upp. Það var sem skepnan kæmi upp úr vatni og mold og horfði á okkur. Jeppe Hein gerði völdunarhús úr 460 þrístrendum speglasúlum sem mynda eilífðarsýn, allt brotnar en margfaldast líka. Allir komumenn laðast að þessu verki sem heitir Þagnarvegur og ganga leiðina eða veg verksins og leita að þagnarmiðjunni. Á leið kyrrðarvegarins eru alls konar þrautir sem börn á öllum aldri glíma við. Margir blotna á leiðinni en allir sjá tilveruna frá nýjum sjónarhóli. Skúlptúrinn hefur margar trúarlegar vísanir.

Út í lóni við vatnsinntak stöðvarhússins er ristastórt listaverk eftir japönsku listakonuna Kusama. Eins og mörg listaverk Kusama, t.d. skúlptúrar og föt, er verkið doppótt og grunnlitur anganna var rauður. Fólk á öllum aldri staldraði við þessa litríku arma sem teygðust upp úr vatninu og til himins, eins og ákall til hæða. Kusama hefur talað um þetta verk eins og sálm mannkyns, bæn um frið og von. Hægt er að velja hvort fólk horfir beint á verkið eða í gegnum gler og ramma. Þessi doppótti sálmur var mörgum opinberun.

Einn af stærstu skúlptúrum Kistefos er verk Marc Quinn sem gerði risastórt auga – tíu metra breitt – og kom fyrir í miðju fljótinu. En augað er ekki aðeins eftirmynd auga lifandi manns heldur flæðir vatn út úr auganu. Skúlptúrinn ýtir við fólki. Auga í vatni og vatn úr auga. Er náttúran og maðurinn þar með eitt? Er augað guðlegt og grætur? Mér þótti Kistefos vera eins og staður nýrrar sýnar. Kraftaverkastaður, vitjunarstaður.

Sjón og sýn

Hvað sjáum við, hvernig og hvað er mikilvægt að sjá? Eitt er hvað við ættum að sjá – must see – en svo er ekki öllum gefið að sjá. Maðurinn í guðspjalli dagsins var blindur. Jesús Kristur horfði á hann og fann sjónarþrá hans. Listamaður lífsins – gjörningasnillingurinn Jesús Kristur – opnaði. Hann hjálpaði maninum til að sjá að menn væru ekki tré heldur dásamlegir tvífætlingar sem væru öðru vísi en kyrrstæðar lífverur.

Í þessari sögu notaði Jesús lífsvökva sinn til að væta augu hins blinda. Vatn flæddi í og um augu. Þegar Jesús framdi gjörning gerði hann gjarnan eitthvað táknrænt og notaði sýnileg efni. Hann potaði einnig í eyrun á mönnum sem voru sjúkir eða vætti málhaltar tungur eða blind augu. Stundum sagði Jesús máttarorð, eins og Effaþa – opnist þú. Í frásögnum um Jesú segir frá mönnum sem leituðu bættrar heilsu. Saga dagsins um blinda manninn er hluti af mikilli leyndarhefð, sem liðast um guðspjöllin, og skýrir af hverju maðurinn átti ekki að fara inn í þorp eftir lækningu. Sögurnar tjá vel að Jesús hafði ekki áhuga á að vera landlæknir Palestínu eða sóttvarnalæknir heldur farvegur lífsins, nærvera Guðs. Ef við erum opin gagnvart sérstökum kraftaverkum getum við notið svona sögu og séð í henni lífgefandi himinlist. Ef við efumst almennt um kraftaverkasögur er þó hægt að greina í henni næman og öflugan græðara sem gat og gerði meira en aðrir. Og sagan er líka táknsaga um að lífið hefur tilhneigingu til að fara vel og guðslífið afar vel. Kraftaverkasögurnar eru twist – vöndull eða snúningur – eins og Kistefosskúlptúrinn og þær opna.

Saga dagsins miðlar okkur merkingu. Við lendum öll einhvern tíma í aðstæðum að við sjáum ekki rétt og vel eða erum fjötruð af einhverju sem lamar eða hindrar. Fjölskyldur lenda í vandkvæðum, samfélög líka, þjóðir geta verið haldnar af vondum mönnum, hamförum, meinum eða áföllum sem leiða til ills. Mæla þarf fram lausnarorð eða framkvæmda gjörninga til góðs. Þörf er málsvara lífsins, hvort sem það eru sálfræðingar, stjórnmálajöfrar, hugsuðir, gjörningamenn, prestar, listamenn eða hugsjónamenn sem tala og gera það sem þarf til að leysa og opna.

Mannvirðing

Jesús Kristur viðurkenndi og viðurkennir vanda. Hann afskrifar ekki fatlaðan mann heldur virðir og veitir nýja sýn. Sagan er mannvirðingarsaga. Jesús Kristur kemur til hjálpar. Kristnin, hreyfing Jesú, hefur fylgt fordæmi hans, metur menn mikils, elur á mannvirðingu óháð hæfni og getu, reynir að koma fólki til hjálpar og sjálfshjálpar og eflir til lífs. Því hafa mannréttindi sprottið fram í kristnu, vestrænu samhengi og um allan heim þar sem orð og verk Jesú hafa verið metin. Textinn er því rammpólitískur. Jesús stóð með lífinu og gegn fjötrum.

Opnun eilífðar

Lífið hefur tilhneigingu til að fara vel vegna þess að Guð vakir yfir og leysir fjötra. Vandi manna – okkar – er ekki aðeins líkamlegir og andlegir kvillar sem geta dregið okkur til dauða, félagslegar festur eða náttúruvá. Við mörk lífs og dauða, tíma og eilífðar, kemur Jesús Kristur líka við sögu. Máttargjörningur Jesú veldur að lífi lýkur ekki við dauðastund og tveimur metrum undir grænni torfu. Kristindómur er átrúnaður opnunar. Við, menn, megum hitta Jesús Krist alla daga, líka í dauðanum. Hann opnar sjónleiðir eilífðar.

Hallgrímskirkja er í fjölmiðlum heims must see-staður. Og kirkjan er fegursta hús Norðurlanda skv. nýjum matslista ferðamanna heimsins. Fjöldi fólks kemur í kirkjuna í kyrrð og til að tengja við Guð, verða svo snortin og sjá betur lífsmál sín. Kistefossundrin eru líka dásamlegar augnhvílur. Í lífinu eru svo mörg must see. En til að við getum séð með skýrleika þurfum við kraftaverk, sjón frá Jesú, guðssýn í trú. Við megum læra að sjá okkur sjálf með guðsaugum, líka veröldina, náttúruna, annað fólk og fang eilífðar. Trúarsýn gefur þennan snúnings-twist eða kaleidoskóp til að sjá víðar og fleira. Mikilvægast er að Jesús Kristur virðir og kemur. Hann vill vökva augu og mæla máttarorð til að við getum horft vel og skilið betur, okkur sjálf, veröldina og Guð. Það er besta kraftaverk veraldar og listaverk lífsins.

Amen.

A few words for those of you not speaking Icelandic. Maybe you could understand the words must see and several of the world media I did mention. I did tell about a wonderful sculpture-park west of Oslo in Norway. In it I did learn to look differently. All of us need to work with our sight. How do we look at places and things and deside what is important? Is it only the must-see places? Are we ourselves, values, hopes and love also must see issues. Yes, they are. Jesus attended to the needs of the blind one and gave possibilities for new sight. Novelty is the way of the kingdom of God, opening in love. Must see – places are interesting – but your beauty is a must to attend to. The God-given sight concerns your beauty, the beauty of the world and the beauty of God.

Lexía: Slm 86.9-13, 15
Allar þjóðir, sem þú hefur skapað, 
munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn,
og tigna nafn þitt
því að þú ert mikill og gerir undraverk,
þú einn ert Guð.
Vísa mér veg þinn, Drottinn,
að ég gangi í sannleika þínum, 
gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.
Ég vil þakka þér, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta
og tigna nafn þitt að eilífu 
því að miskunn þín er mikil við mig,
þú hefur frelsað sál mína frá djúpi heljar.
En þú, Drottinn, ert miskunnsamur og líknsamur Guð,
þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.

Pistill: Post 9.1-5
Sál hélt enn áfram að æða um með líflátshótanir gegn lærisveinum Drottins. Nú fór hann á fund æðsta prestsins og beiddist bréfa af honum til samkundnanna í Damaskus að hann mætti flytja í böndum til Jerúsalem þá er hann kynni að finna og væru þessa vegar,[ hvort heldur karla eða konur. En þegar hann var á ferð sinni kominn í nánd við Damaskus leiftraði skyndilega um hann ljós af himni. Hann féll til jarðar og heyrði rödd segja við sig: „Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?“ En hann sagði: „Hver ert þú, Drottinn?“ Þá var svarað: „Ég er Jesús sem þú ofsækir.“

Guðspjall: Mrk 8.22-27
Þeir koma nú til Betsaídu. Þar færa menn til Jesú blindan mann og biðja að hann snerti hann. Hann tók í hönd hins blinda, leiddi hann út úr þorpinu, skyrpti í augu hans, lagði hendur yfir hann og spurði: „Sérðu nokkuð?“ Hann leit upp og mælti: „Ég sé menn, ég greini þá líkt og tré, þeir ganga.“ Þá lagði Jesús aftur hendur yfir augu hans og nú sá hann skýrt, varð albata og gat greint allt. Jesús sendi hann síðan heim til sín og sagði: „Inn í þorpið máttu ekki fara.“