Ingvi Sveinsson

„Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefur þú lagt á mig. Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn. Hvert get ég farið…? Þó ég stigi upp í himininnn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá þú ert þar. Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér. “
Sálm. 139

Hvert get ég farið? Upp í himininn, í undirheima, í dýptir viskunnar, – alls staðar ert þú Guð. Hefur lagt hönd á bak og brjóst – heldur í mig. Þó ég svifi upp, væri lyft af aftureldinu og roða dagrenningar – þá ertu líka þar. Þannig er mörg þúsunda ára gömul lýsing manns á veruleika Guðs – eða kanski návist Guðs. Mannvera á ferð, en með fylgd, á leið en með föruneyti, stundum á hlaupum en þó með skugga, ekki þennan venjulega, heldur einhvern sem fylgir, áreynslulaust og hljótt. Er ekki mannlífið allt ein samfelld sókn í gæði, sókn í gildi, hamingjuleit? Og hvað er okkar í þeirri leit, af hverju óþreyjan og grunur um dýpt; hvað er Guð á þeirri för? Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans, segir sálmaskáldið svo vel og yndislega – og settist við hið ysta haf. Einnig þar mundi hönd þín leiða mig. 

Ingvi Ragnar Kristján Sveinsson fæddist á Akureyri janúardag 1935. Hann fæddist eiginlega inn í kvennahús. Ásta Júlíusdóttir, móðir hans, Norðlendingur að ætt, en fædd í Bolungavík, hafði verið tekin í Akureyskt fóstur. Ingibjörg Jónsdóttir bjó til heimili og varð athvarf Ástu og Ragna Pétursdóttir, gullsmiður var með þeim nyrðra. Ásta fékk berkla og var send suður á Vífilsstaði og Ingibjörg gerði ekki endssleppt við þessa fósturdóttur sína, heldur fór suður og vann á Vífilsstöðum meðan hún var að ná sér. Síðan fóru þær norðu aftur. Þá kynntist Ásta Sveini Pétri Hjartarsyni frá Vík í Heðinsfirði. Þau eignuðust saman Ingva árið 1935. Þau bjuggu ekki saman og Sveinn lést þremur árum síðar, eða 1938.

Á stríðsárunum fluttu konurnar allar suður með sitt fólk. Ingibjörg hóf þá byggingu hússins á Grenimel 28 ásamt með sínu fólki. Ekki varð Ingvi þó búsettur þar fyrr en síðar. Hann veiktist af berklum og fór á Vífilsstaði eins og móðir hans, átti lengi í veikindum og náði sér ekki fyrr en nærri tvítugsaldri. Og um það leyti flutti hann á Melana og var í sama húsinu á Grenimel í um 45 ár, í skjóli tengslafólks síns.  

Hann mat stjúpömmu sína mikils og naut hennar og fólksins á Grenimel í lífinu. Þegar amma féll frá var endir á búsetu hans þar og þá flutti Vesturbæingurinn sig um set, þó ekki langt og fór yfir á Hagamel 46. Þar lést hann síðan, nýlega sjötugur.

Ingvi var ljúfur maður, fór sinna eigin leiða, hlédrægur og einrænn. Góður verkmaður og lofaður af vinnuveitendum í áratugi suður í Straumsvík. Þegar Ingvi hafði náð sér af berklum fór hann í byggingavinnu, m.a. í Búrfell, þegar orkuverið var reist en lengstum vann hann hjá Alusviss og síðan Alcan í Straumsvík. Sonur Ingva er Rúnar. Kona hans er Inga Jóna og eiga þau einn son.

Hvert get ég farið…? Svo var spurt til forna. Svarið gaf ljóðskáld sálmanna sem kenndir eru við Davíð: Þó ég stigi upp í himininnn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá þú ert þar. Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.

 Lífið hans var ferð um allar lendur myrkurs og ljóss, undirheima og himinsælu. Hvert get ég farið? Mannvera á ferð, en með fylgd, með gott föruneyti, stundum með vanlíðan en ávallt með styðjandi hendi, sem ekki brást. Hvað ætlum við að gera úr okkar göngu? Lífssögur fólks verða okkur hvati og vegvísir að fara vel með okkar líf, styðja hvert annað til hamingju, sem svo auðvelt er að splundra ef við ekki vöndum okkur. Viljum við eiga þann að á lífsförinni sem ávallt er nærri og aldrei ræðst að? Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans, segir sálmaskáldið svo vel og yndislega – og settist við hið ysta haf. Einnig þar mundi hönd þín leiða mig. Ingvi hefur farið þá leið, inn í dagrenningu eilífðar. Þar er ekki myrkt heldur má líf hans vera samfelld birta, samfelldur dagur, í stórhúsinu þar sem samheldnin er alger, Hagamel himins. Þar er upphaf og endir, því Guð geymir hann um alla eilífð.

25. maí 2005.