Nær en lífsneistinn

Skírdagur, dagur hreinsunar. Orðið að skíra merkir að hreinsa. Fólk hreinsaði híbýli sín á þesum degi. Í kirkjum voru ölturun þvegin og hreinsuð. Allt á þetta rætur í, að Jesús þvoði fætur lærisveinanna og bjó þá til máltíðar.

Á þessum sérkennilegu dögum í apríl 2020 er tími endurmats. Þegar þrengir að okkur leita stóru spurningarnar í hugann. Af hverju? Til hvers? Hvernig? Og þegar við spyrjum stórt læðast að spurningar um ofurmálin líka. Hvaða máli skiptir dauði og þjáning Jesú? Hvernig getur krossfesting manns orðið að gagni? Hvernig geta afbrot verið bætt með aftöku? Hvernig getur sátt við Guð grundvallast á hinu mesta ranglæti? Var Jesús maður eða var hann meira en maður? Hvað þýðir að hann hafi verið Guð? Á föstunni og í kyrruviku verðum við vitni að sögugjörningi Jesú. Með því að fylgja Jesú eftir með íhugun megum við endursjá heiminn. Saga Jesú er saga Guðs um okkur mannfólkið og líka allan heiminn. Og sú saga verður líklega best skilin sem ástarsaga.

Með Jesú

Að nálgast Guð er ekki að skilja heldur ummyndast. Að fylgja Kristi er ekki að greina þjáningu hans fræðilega, heldur fara með honum. Líf Jesú einnkenndist ekki af uppgjöf. Allur ferill hans markaðist af vilja hans til lífs og umsköpunar. Jesúfylgdin er virk og starfarík afstaða, sem kallar vini hans til  að horfast með hugrekki í augu við lífið eins og það er og vilja til að breyta þeim óréttlátum og illum aðstæðum. Kristnir menn kalla þetta fagnaðarerindi. Það eru gleðifréttirnar um frelsi allra, hinna fátæku, lausn hinna kúguðu og örvæntingarfullu, lækningu hinna sjúku, frelsun hinna pyntuðu og styrkingu hinna hrelldu. Þessi boðskapur getur svipt hulu af lygavefum, sem þrengja að okkur – á vinnustöðum, í heimi stjórnmála, í mengun, plágum, arðráni og kúgun. En einnig í heimilislífinu og inn í sjálfum okkur. Það er mörgum erfiðast að viðurkenna og opinbera eigin sjálfsblekkingu.

Frá dauða til lífs

Föstutími COVID-plágunnar er mannkyni andleg raun og jafnvel hreinsunartími. Mörgum er þetta skelfingartími og föstudagurinn langi táknmynd um raunörlög fólks. Erum við fólk og heimur bara sprikl til endanlegs dauða? Er coronaveiran staðfesting, að heimur okkar er dæmdur til brenglunar og að veikjast vegna mengunar? Skírdagur og föstudagurinn langi eru tákndagar fyrir baráttu, en líka að mannkyn og heimurinn eru ekki ofurseldir sjúkdómum, þjáningu og dauða, heldur að Guð elskar. Guð yfirgefur ekki heldur er okkur nær en lífsneistinn sjálfur í okkur. Við erum ekki yfirgefin heldur tekur Jesús Kristur þátt í öllu því sem við reynum, erum og verðum.

Líf manna er stöðug barátta milli nætur og dags. Enginn maður er sendur til að tilkynna okkur einhver sorgartíðindi heldur kemur Guð, lifir allar plágur mannkyns og fléttar eilífð í þá sögu tímans og heilbrigði þar sem sjúdómar geisa. Dagur hreinsunar. Ástarsaga.

Biðjum:

Kom Jesús Kristur. Ver hjá okkur.

Við biðjum fyrir öllum þeim, sem eru okkur bundin kærleiksböndum,

Hjálpa þeim og gæt þeirra á lífsveginum.

Ver með öllum þeim sem eru sjúk og hrædd.

Styrk öll er syrgja og sakna, allar stundir nætur þar til dagur rennur og ljós þitt kemur.

Ver með öllum þeim sem eru sjúk og í hættu.

Varðveit oss undir skugga vængja þinna.

„Í þínar hendur Drottinn Guð vil ég nú fela anda minn. Þú hefur endurleyst mig Drottinn, þú trúfasti Guð. Gæt vor Drottinn eins og sjáaldurs augans. Frelsa oss Drottinn meðan vér vökum, varðveit þú oss er vér sofum svo að vér vökum með Kristi og megum hvíla í friði.”

Þú knýrð á, gengur í hús heimsins, þrífur, hreinsar og sest svo niður og seilist í brauðið og blessar.

Brýtur brauð fyrir veika veröld, sem hungrar og þyrstir eftir heilbrigði, réttlæti, lífsins orði – góðu lífi.

Þú kemur til allra manna. Kenn okkur að þiggja brauð þitt og iggja svikalausa fyrirgefninu – vera þín börn. Amen

Meðfylgjandi myndir: Kennimyndin er mynd Salvador Dali af síðustu kvöldmáltíð Jesú. Myndin er næsta dulúðug og áhugavert að sjá að baksviðsfjöllin eru snævi þakin. Hina myndina tók ég af legsteini í Fossvogskirkjugarði. Sigurður Árni.