Útilega með mömmu

Mamma og pabbi höfðu gaman af tjaldferðum. Pabbi var fjallamaður og ferðakarl og var alla tíð Ferðafélagsmaður. Hann vildi skoða landið, sjá sem mest og skilja sem flest. Mamma hafði sértækari og ákveðnari tjaldbúðamarkmið. Hennar tjaldlíf var gjarnan undir merki kristninnar. Þau, foreldrar mínir, fóru reglulega í Vatnaskóg á almenn mót kristniboðssambandsins, sem haldin voru í júnílok. Ég fór gjarnan í sveit fyrir norðan. En ég fór tvisvar með þeim í Skóginn. Þau vildu helst vera á sama staðnum, í sama rjóðrinu ofan við lindina og styttuna af sr. Friðrik. Það var reyndar afar hagnýtt því samkomutjaldið stóra var nærri, vestur á flötinni.

Foreldrar mínir sóttu samkomurnar og höfðu gagn og gaman af. Ég naut hins vegar frjálsræðis og var á hlaupum í skóginum eða á bát úti á vatni. Þá var aðstaðan til smíða og dundurs ljómandi í bátaskýlinu. Ég bjó mér meira segja til spún til veiða, úr blikki úr niðursuðudós og með fínlegan nagla sem ég beygði til að eitthvað væri á veiðarfærinu sem fiskur gæti festst við. Svo hélt ég til veiðanna, en agnhaldið var lélegt og enginn var aflinn þó margir gripu í spúninn. Mamma fylgdist með þessum leikjum og hafði gaman af.

Þegar mótinu var lokið var veðurspáin góð. Það var úr að pabbi héldi í bæinn til vinnu sinnar, en ég héldi tjaldbúðalífinu áfram með mömmu. Það var spennandi og óvænt uppákoma. Spáin gekk eftir og veðrið var dásamlegt. Við elduðum saman, bröltum um hlíð og skóg, klifum kletta og fórum í langar rannsóknarferðir, lengri en ég hafði leyft mér meðan ég var einn á för. Þessar stundir notaði mamma til fræðslu. Ég lærði hvernig lyfjagras leit út, geldingahnappur og hófsóley. Hljóðdífur hrossagauksins talaði hún um og skýrði út hvernig vængfjaðrirnar mynduðu þessa skemmtilegu músík. Hún benti á sólstafina og skýrði þá út. Fjallahringinn talaði hún um og hvernig sjá mætti Skarðsheiðina úr Reykjavík.

Eitt kvöldið klifum við á öxlina sunnan við skóginn, upp í kvölskinið. Nóttinn læddist að, sumarnóttin með unað og kyrrð. Einstaka lóa söng um dýrð himins og jarðar, hrossagaukur söng með vængjunum um ástina, sólin skein á eggjar og inn í sálina. Mamma talaði um sólina og hvernig sólin væri tákn um Guð. Allt sem við nytum væri gæði, sem við mættum gleðjast yfir og njóta. En einn væri skaparinn, Skógurinn tæki hans, við mennirnir værum með erindi í heiminum. Mamma var góð að taka frá tíma, sem er helgur í huganum, tíma til að kenna, miðla og eiga stund með drengnum sínum. Minningin um tjaldbúðalífið er yfirskyggð af túlkun um að það var allt gott og rétt. Vatnaskógur varð í huga mér heilagur staður og mamma var eins og prestur við fræðslu.

Myndin hér að ofan er tekin á Brautarhóli nokkrum árum áður en við vorum í Skóginum. Ég hef líklega verið fjögurra ára. Við Kristín, systir, erum þarna á milli mömmu og ömmu Kristínar.