Sannur Keflvíkingur + Ásbjörn Jónsson

Ásbjörn fór á Heklu í október síðastliðnum. Á tindinum hélt hann stoltur á trefli og þar stóð: Sannur Keflvíkingur. Það var satt, hann var heilshugar í stuðningi sínum og samstöðu með samfélagi sínu. Síðustu vikurnar, sem hann lifði, notaði hann þverrandi krafta til að tryggja, að öll verkefni hans í þágu Keflavíkur yrðu í góðum höndum. Ásbjörn lauk sannarlega því sem honum var falið að sinna.
 
En Ásbjörn var ekki bara trúr Keflavík og Suðurnesjum. Hann var sannur í verkum og tengslum. Fjölskyldumaðurinn var traustur og heimilisbragðurinn gleðilegur. Þau Auður voru vinir og sálufélagar og voru dætrum sínum náin.
 
Ásbjörn var trúmaður og kirkjumaður. Hann var kjörinn til setu á kirkjuþingi og þar kynntist ég hversu vel hann vann. Hann var kjörinn til setu í kirkjuráði. Ásbjörn var glöggur, hagsýnn og mjög fundvís á leiðir úr vanda og lagði til farsælar lausnir. Honum var mjög í mun að tryggja, að kirkjunni væri stjórnað með skilvísum hætti. Jafnvel síðustu vikur ævinnar var hann á vaktinni og var uggandi um nýjan fjárhagssamning ríkis og kirkju.
 
Börnin nutu líka athygli Ásbjarnar. Einu sinni hittumst við á leið til Kaupmannahafnar. Þau Auður voru á leið til sinna dætra og ástvina og við kona mín vorum með strákana okkar. Drengirnir heilluðust af þessum brosmilda og káta vini foreldranna. Skömmu síðar kom hann í heimsókn með fangið fullt af leikföngum til að gleðja drengina. Ásbjörn var sannur vinur og ræktaði vinasambönd.
 
Styrkur og geta Ásbjörns blasti við öllum, sem kynntust honum. Einstakt er hvernig hann við ævilok gekk frá öllum endum, kvaddi félaga sína og vini og lauk öllum sínum verkefnum. Þrotinn að kröftum kom hann í heimsókn til að kveðja okkur hjón og fjölskyldu okkar. Með hlýju í augum þakkaði hann fyrir tengsl, samhug og gleðimál. Ásbjörn var sannur í trú sinni og lífstengslum. Ekki aðeins sannur Keflvíkingur, heldur sannur gæfumaður, sem sárt er saknað. Guð geymi hann.

Þessa mynd hér að neðan tók ég af Ásbirni í ferð á Lúthersslóðir sumarið 2012.