+ Bjarni Bragi Jónsson +

Bjarni Bragi fór inn í Greyhound-rútu í Kaliforníu, bauð góðan daginn og kom sér vel fyrir. Svo hófst ferðin og Íslendingurinn hreifst svo af öllu sem skynfærin færðu til heilans að hann stóð á fætur og byrjaði að syngja. Og allir í rútunni heyrðu og einn kallaði: „Hey, listen to the tenor.“ Þetta er heillandi mynd. Gestakennarinn í Pomona-College svo snortinn af undri veraldar að hann söng. Og þannig þekkjum við mörg Bjarna Braga Jónsson, hæfileikamann, tilfinningaríkan snilling sem hló, orðaði viðburði lífsins, túlkaði en stundum þurfti hann bara að syngja. Og börnunum hans þótti þetta ekki smart þegar þau voru yngri. Einu sinni barst söngur Bjarna Braga í sumarblíðunni um austurhlíðar Kópavogs. Og krakkarnir hættu leik og sperrtu eyru: „Er þetta pabbi þinn?“ Svörin komu seint og ógreinilega. Og svo þegar hagfræðingur Seðlabankans kom inn í strætó á leið í vinnuna bauð hann auðvitað góðan daginn. En börnum hans þótti tryggara að fara á afasta bekkinn og hafa hægt um sig því fyrr en varði hafði Bjarna Braga lánast að hleypa farþegunum í umræðu um stórviðburði í pólitíkinni. Og ef tilfinningin var rétt breyttist strætó á leið úr Kópavogi niður í bæ í ómhöll á hjólum. Tilfinningar kalla á söng. Og Bjarni Bragi var þeirrar gerðar að hann leyfði tilfinningum heimsins að hríslast um sig. Og við sem kynntumst honum þökkum litríki hans, gáfur, afrek, húmorinn, snilld, djúpsækni, þor og elskusemi. Í öllu var hann stór – var hástigssækinn – eins og hann orðaði það sjálfur.

Upphafið

Bjarni Bragi Jónsson var sumardrengur, fæddist á Kárastíg 8. júlí 1928 og hefði því orðið níræður sl. sunnudag. Foreldrar hans voru Jón Hallvarðsson, síðar sýslumaður í Stykkishólmi og hæstaréttarlögmaður, og Ólöf Bjarnadóttir, húsmóðir og síðar iðnverkakona í Reykjavík. Bjarni Bragi var næst-elstur systkina sinna. Baldur var tæplega tveimur árum eldri. Sigríður fæddist árið 1931 en Svava 1932. Nú eru þau öll látin.

Í óbirtri ævisögu Bjarna Braga segir fjörlega frá litríkum uppvexti við Skólavörðuholtið, flutningi til Vestmannaeyja og síðan í Stykkishólm. Lögfræðingurinn, faðir hans, var yfirvaldið í Eyjum og síðan sýslumaður í Hólminum. Hvernig skólast manneskjan? Hvað mótar okkur? Í þessum minningum dregur hann saman hvernig hann mótaðist af umhverfi, mikilli ættarsögu, glímunni við aðstæður og einstaklinga og breytingar. Það þarf ekki að lesa lengi eða langt til að sjá að áhugasvið Bjarna Braga var víðfeðmt. Han skrifaði merkilegan texta um eðli minninga, sem sýnir sálfræðifærni hans. Svo eru þessi skrif um mannlíf á Skólavörðuholti, í Eyjum og Stykkishólmi svo ríkuleg að aðeins þeirra vegna er ástæða til að gefa út. En það sem hreif mig mest er hve ærlegur og afslappaður – í hispursleysi sínu – Bjarni Bragi var í söguritun sinni. Hann skrifaði óhikað um lesti sína sem kosti og um vonbrigði eins og sigrana. Og gæfu fjölskyldunnar lýsti hann jafn vel og að peningar tolldu ekki við föður hans. Þannig sögur eru betri en fegrunarsögur og söguritarinn nýtur virðingar fyrir þroskaða túlkun og heilindi.

Bjarni Bragi lauk stúdentsprófi frá MR árið 1947. Hann var alla tíð mikill og öflugur námsmaður en mér kom á óvart að hann hafði skipt um deild í MR, fór úr máladeild í stærfræðideild. Það sýnir þor hans, mörg áhugasvið sem kölluðu og löngun til fjölfræða. Svo var hann alla tíð félagslega opinn og virkur. Og hann var inspector scholaeí MR, sem er æðsta virðingarstaða nemenda í skólanum. Síðan hófst viðburðaríkur náms- og vinnuferill heima og erlendis. Bjarni Bragi lauk viðskiptafræðiprófi frá HÍ árið 1950, stundaði framhaldsnám við Háskólann í Cambridge í Englandi árin 1957-59. Og hann fór í lengri og skemmri náms- og kynnisferðir til ýmissa alþjóðlegra hagstofnana. Bjarni Bragi var skrifstofumaður hjá Olíuverslun Íslands, fulltrúi í útflutningsdeild SÍS og síðan í hagdeild Framkvæmdabanka Íslands. Hann var í fimm ár ritstjóri tímaritsins Úr þjóðarbúskapnum, síðan ráðgjafi hjá Efnahags- og framfarastofnuninni í París, deildarstjóri og síðan forstjóri Efnahagsstofnunarinnar, framkvæmdastjóri áætlanadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins, hagfræðingur Seðlabanka Íslands, aðstoðarbankastjóri og síðast hagfræðilegur ráðunautur bankastjórnarinnar þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1998. Þá var Bjarni Bragi stundakennari í mörg ár við viðskipta- og hagfræðideild HÍ. Og svo söng Bjarni Bragi ameríska söngva í Greyhound-rútunni þegar hann var gistiprófessor við Pomona College í Bandaríkjunum árið 1964.

Bjarni Bragi skrifaði fyrr og síðar mikið um efnahagsmál og farsæla stjórn þeirra. Þegar árið 1962 fór hann að ræða um að besta leiðin til að stýra íslenskum fiskveiðum væri að koma á auðlindagjaldi. Það myndi hafa gæfulegar efnahagslegar afleiðingar og stuðla að heilbrigði atvinnulífs. Árið 1975 hélt hann frægt erindi um auðlindaskatt, iðnþróun og efnahagslega framtíð Íslands og Seðlabankinn gaf út bæði á íslensku og dönsku.[i] Í baksýnisspeglinum virðist ljóst, að betur hefði tekist í fjársstjórn og fjármálum þjóðarinnar ef ráðum Bjarna Braga hefði verið fylgt.

Virkur í félagsmálum

Bjarni Bragi var alla tíð leiðtogi. Hann sló gjarnan í glas á mannfundum, hélt mergjaðar og túlkandi ræður. Svo var hann mjög klár uppistandari og rífandi skemmtilegur á mannfundum. Hann hreif fólk með sér og var því gjarnan kallaður til ábyrgðar og stjórnar. Á æskuárum var hann vinstrimaður og það er fyndið að lesa hans eigin frásögn um ákafa hans í málum heimsbyltingarinnar. Hann segist hafa safnað klisjum og verið vinsæll vestur á Snæfellsnesi og þmt við eldhúsborðin í sveitum landsins. Þar hafi hann slegið um sig. Einu sinni voru þeir Árni Pálsson, síðar prestur í Kópavogi, á frívaktinni í vegavinnunni. Bjarni Bragi var alla tíð vinnuþjarkur og þegar hann sleppti skóflunni settist hann inn í tjald með hvorki ómerkari bók en stjórnarskrá Sovétríkjanna og með formála Stalíns. Og þar sem hann sat og lærði þennan kommúníska jús greip galgopinn Árni bókina af borðinu og hljóp vel bússaður út í miðja á. Þar stóð hann, hélt bókinni yfir vatninu og hótaði að láta hana detta. Bjarni Bragi þaut á eftir honum og vélaði hann í land með köstum og orðum. En þó hann bjargaði bókinni og yrði formaður Æskulýðsfylkingarinnar tókst honum aldrei að verða eðlislægur marxisti heldur þorði að breyast og endurskoða gildi, fræði og líf. „Ég reyndi að sjóða … einhvern almennan hugsjónavelling …“ sagði hann. En Sovétbókin og fræðin flutu þó frá Bjarna Braga í flaumi tímans. Þegar hann fór að rýna í hagtölur og kynnist atvinnulífinu færðist hann frá vinstri bernskunnar til hægri fullorðinsáranna. Bjarni Bragi skipti algerlega yfir í pólík og var varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi á sjöunda áratug síðustu aldar. Hann var mjög virkur félagslega alla ævi og jafnan í fremstu röð. Rotary-klúbburinn í Kópavogi naut löngum krafta hans. Hann var formaður Stofnunar Sigurðar Nordal á árunum 1993-99. Og Bjarni Bragi var syngjandi leiðtogi og mörgum eftirminnilegur þegar hann tróð upp og jafnvel tvistaði og söng „Þegar hnígur húm að Þorra.“ Svo söng hann í ýmsum kórum, m.a. Pólýfónkórnum í nær tuttugu ár og sinnti ýmsum félagsstörfum fyrir kórinn. Bjarni Bragi söng svo sinn svanasöng í Hljómi – kór eldri borgara hér í Neskirkju. Þau hjón voru þar í góðum hópi. Það var gaman að vera á skrifstofunni í safnaðarheimilinu og hlusta á félaga Bjarna Braga – og þau hjónin líka – þenja raddirnar og kalla fram sálma lífsins.

Fjölskylda

Og þá er komið að Rósu og fjölskyldu. Þau voru hátt uppi þegar þau kynntust í Hvítárnesi á Kili. Bjarni Bragi efndi til hálendisferðar Æskulýðsfylkingarinnar og þar var Rósa Guðmundsdóttir með í för og systur hennar einnig. Rósa hefur alla tíð séð gullið í fólki og heillaðist af þessum káta og fjölfróða syngjandi formanni. Tilhugalífið var stutt og þau Bjarni Bragi og Rósa gengu í hjónaband árið 1948 þegar hann var 19 ára og hún 18. Þau voru því búin að vera hjón í 70 ár þegar Bjarni Bragi fór inn í ómhús eilífðar. Heimili þeirra Rósu og Bjarna Braga var hamingjuríkt. Þau stóðu alla tíð þétt saman, studdu hvort annað og virtu. Og það var hrífandi að sjá hve hrifinn Bjarni Bragi var af Rósu sinni, sem endurgalt tilfinningar hans og gætti hans og styrkti allt til enda.

Barnalán þeirra Bjarna Braga og Rósu

Þau Rósa nutu nutu barnláns. Jón Bragi var elstur, fæddist árið 1948. Hann var frumkvöðull eins og hans fólk, var ekki aðeins afburða kennari í efnafræði, prófessor við Háskola Íslands heldur höfum við mörg notið hugvits hans í notkun þorskafurða í smyrslum frá Pensími, sem hann stofnaði. Bjarni Bragi minnti son sinn gjarnan á að móðir hans hafi verið hans fremsti stuðnings- og sölu-aðili í upphafi. Fyrri kona Jóns Braga var Guðrún Stefánsdóttir og seinni kona hans var Ágústa Guðmundsdóttir. Jón Bragi varð bráðkvaddur árið 2011. Þeir feðgar og nafnar voru nánir, báðir fjölfræðingar og skoðuðu flest mál sjálfstætt. „Ef ég þarf eitthvað get ég alltaf leitað til pabba“ sagði Jón Bragi.

Olöf Erla, fæddist árið 1954. Hún er keramikhönnuður og kennari við Myndlistaskóla Reykjavíkur. Hennar maður er Sigurður Axel Benediktsson. Bjarni Bragi var stoltur af listfengi dóttur sinnar og fagnaði vegtyllum hennar heima og erlendis. Hann kynnti hreykinn dóttur sína með þeim orðum, að hún væri heimsfrægur keramiker og meistari í listfræði. Hann hafði ekki aðeins gleði af samskiptum við hana, heldur virti verk hennar og studdi hana.

Gumundur Jens er yngstur þeirra systkina, fæddist árið 1955. Hann er lyfjafræðingur. Kona hans er Ásta Hrönn Stefánsdóttir. Hann var giftur Guðrúnu Steinarsdóttir en þau skildu. Síðar bjó hann með Vigdísi Sigurbjörnsdóttir sem féll frá árið 2012. Þegar Guðmundur vitjaði Bjarna Braga á sjúkrastofnun kynnti hann nærstöddum son sinn svo, að Guðmundur spilaði á öll hljóðfæri og syngi allar raddir! Það þótti söngvaranum, pabbanum, stórkostlegt og aðdáunarvert.

Börn þeirra Rósu og Bjarna Braga fóru í æsku með þeim um heiminn, voru með þeim í Cambridge, París og Oslo og eitt þeirra í Kaliforíu. Þau nutu útsýnar og glímdu við fjölbreytilegar aðstæður í skólum, menningu, pólitík, félagsefnum og fjölskyldu. Og svo var Bjarni Bragi alltaf opinn og til í að miðla. Hann var góður, ögrandi kennari og vænti þess að ungviðið reyndi á sig. Hann gaf þeim mikla forgjöf í skák þeegar þau voru að byrja, jafnvel helming leikmanna sinna. En hann vænti þess að þau gerðu sitt besta og kættist þegar hann fann í þeim sóknarhug. Og í Bjarna Braga áttu þau og barnabörnin alltaf keppnismann sem hægt var að virkja. Hann vildi blása þeim hástigssókn í brjóst.

Heimilislífið var glaðvært. Bjarni Bragi studdi Rósu í námi og störfum og mat mikils kennslustörf hennar. En hann gætti þess vel að greina að trúnaðarmál í bankanum og heimalífið. Þegar gengisfellingar dundu reglulega yfir íslenskt samfélag spurði Rósa hann einhvern tíma af hverju í ósköpunum hann hefði ekki sagt frá að fella ætti gengið. Það hefði nú verið hentugt að geta keypt eldavél eða búshluti. Þá hló Bjarni Bragi hjartanlega og sagði að það mætti hann ekki. Og þannig var hann gagnvart fólkinu sínu, vinnunni og veröldinni – heiðarlegur, ábyrgur og siðlegur. Á heimili Bjarna Braga var ekki hægt að merkja yfirvofandi gengisfellingu.

Við tímamót hef ég verið beðinn að bera ykkur kveðju Bjarna Braga Jónssonar yngri og Hólmfríðar unnustu hans. Þau eru í Sviss og geta ekki verið við þessa athöfn í dag. Ennfremur biðja Sverrir Guðmundsson og Þórdís Ingvarsdóttir fyrir kveðjur.

Minningar

Hvernig manstu Bjarna Braga Jónsson. Manstu hve skemmtilegur hann var? Oft fyndinn en alltaf hnyttinn! Djarfur ræðumaður. Manstu vinsemd hans og glettnina, áhugann og duginn? Manstu hve góður hagfæðingur hann var? Manstu einbeitni hans, að hann gat lesið námsbók um leið og hann var á kafi í barnableyjum. Manstu íslenskuhæfni hans? Svo var hann konungur minningagreinanna. Vissir þú að að Bjarni Bragi magnaði alla ungu hagfræðingana þar sem hann var, umgekkst þá sem jafningja og hvatti til dáða. Hann var ekki aðeins veitull í fræðasamhenginu heldur líka sem kollegi. Manstu ættfræðiáhuga Bjarna Braga og víðfeðma og langsækna þekkingu á tengslum og ættum. Og hann var ekki lengi að rekja saman ættir og ekki höfðu við fyrr kynnst á sínum tíma en hann var búinn að tengja. Manstu hve vel Bjarni Bragi var að sér í tónlist og hvernig músíkin liðaðist í öll fræði og kryddaði allt líf? Hann söng Schubert í Vín og ameríska og jafnvel skoska slagara í Kaliforníurútu. Manstu fræðafang hans, hve vítt það var? Mér þótti skemmtilegt að tala við Bjarna Braga um guðfræði. Hann var gagnrýninn trúmaður og við vorum hjartanlega sammála um bókstafshyggju og trúarlega grunnfærni. Hann var vel lesinn og lagði sig eftir helstu straumum og stefnum í guðfræði rétt eins og öðrum greinum. Og á fyrri parti ævinnar velti hann vöngum yfir hvort hann hefði átt að verða við hvatningu sr. Jakobs Jónssonar í Hallgrímskirkju um að læra til prests því þjóðin þyrfti besta fólkið í prestastétt. Svo var Bjarni Bragi sinn eiginn lögfræðingur, hann kunni að leita að og lesa lagatexta. Manstu hve reglusamur hann var? Sástu einhvern tíma fjölskyldumyndabækurnar og hve vel þær voru gerðar og í þær raðað? Manstu hagyrðinginn Bjarna Braga og orkti hann jafnvel um þig? Hann ljóðaði jafnvel til dóttur sinnar einu sinni í útför og bað um að hún gerði duftkerið hans. Og þessa vel sniðluðu bón má sjá aftan á sálmaskránni. Og við henni verður orðið. Austfirska smáblómið við hlið vísunnar er verk Rósu. Manstu hve opinn og spurull Bjarni Bragi var? Spurði hann þig einhvern tíma hvernig gengi í ástalífinu? Stundum setti hann fílterarna til hliðar til að tala sem beinast og greiðast! Og manstu hestamanninn á Seljum á Mýrum? Manstu vininn Bjarna Braga og hve vel Rósa og hann ræktuðu vini sína?

Og nú er hann farinn – til fundar við Jón Braga, systkini, foreldra og ástvini. Bjarni Bragi var stórkostlegur. Var hann gáfaðasti maður Íslands eins og einn samferðamanna sagði um hann? Það er mikil samkeppni um sigur í þeirri keppni. En Bjarni Bragi var í landsliðinu. Nú er söngurinn hans er hljóðnaður í tíma en ómar í eilífð. Þökk sé honum – fyrir kærleika hans, verk, hugsjónir, fólkið hans. Þökk sé fyrir hagfræðina, kátínuna, dans, ræður, kímni, – Já þökk fyrir Bjarna Braga Jónsson. Guð geymi hann í sönghúsinu, þar sem allt gengur upp, ekki þarf að greiða leigu fyrir kvóta og allt er í hástigi. Þar er bara söngur.

Í Jesú nafni – amen.

Útför frá Neskirkju föstudaginn 13. júlí 2018. Bálför. Erfidrykkja í Súlnasal Hótel Sögu.

[i]http://www.visir.is/g/2018180719712/minning-u