+ Inga Bjarnason Cleaver – minningarorð

Það var eftirminnilegt að koma inn á heimili Ingu og Baldurs. Mér varð starsýnt á myndir, púða og öll handarverkin. Heimili Ingu var litríkt og fegrað með því sem hún hafði farið höndum um og skapað af listfengi. Stór og smá myndverk hennar prýða veggi. Og þegar lotið er að og grannt skoðað má sjá vandvirkni hinnar nálhögu Ingu, hve fallega hún vann myndirnar. Púðarnir eru fjölbreytilegir, ekki aðeins flottir krosssaums-púðar, sessur og stólbök, heldur einnig glæsilegar flatsaumsmyndir sem gleðja vegna góðrar formskynjunar, litagleði og húmors saumakonunnar. Svo þegar búið er að dást að öllu hinu sýnilega er hægt að fara inn í skápana. Þeir eru fullir af saumaskap hennar. Vinnuherbergið hennar og loftið geyma djásnin einnig. Inga var listamaður í höndum. Dýrmæti hennar lofa meistarann og nú skilur hún allt eftir í vörslu fjölskyldunnar sem fær að njóta með margvíslegum hætti þolinmæði og getu Ingu. Þetta eru tilfinningamunir sem miðla minningum.

Öllum er eitthvað sérstakt eða einstakt gefið. Líf Ingu var fjölbreytilegt eins og vinir og fjölskyldan veit. Fyrir trúarlega þenkjandi minnir Inga á skaparann sem aldrei hættir að þræða, hugsa form, velja saman liti, prufa ný mynstur, kanna möguleika og flétta það saman sem getur orðið til að skapa fjölbreytileika, ríkulega og unaðslega útkomu. Ástarsaga Biblíunnar byrjar strax á fyrstu versum Biblíunnar. Guðdómurinn er sem í mynd saumakonu sem áætlar form, tekur til efni, skipuleggur, leggur ljós að og svo hefst listgjörningur og úr verður líf, heimur, umhverfi og lifandi fólk sem fær frelsi í vöggugjöf og getu til að elska. Og síðan er hin mikla trúarsaga kristninnar og heimsins sögð á öllum blöðum Ritningarinnar þaðan í frá. Sú saga verður hvað fegurst uppteiknuð í lífi Jesú Krists sem sótti alltaf í veröld fegurðar, litríkis, mikilla sagna og drama lífsins. Ástarsaga Biblíunnar á sér síðan afleggjara í lífi manna. Sköpungleði Guðs átti sér litríka útgáfu í lífi Ingu Bjarnason Cleaver. Líf hennar má verða til að efla þig til lífs og skapandi gjörnings í þágu hamingju og fegurðar.

Ætt og uppruni

Inga fæddist þann 14. mars árið 1936. Móðir hennar var Guðrún Magnúsdóttir frá Bergstöðum við horn Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis. Og Bergstaðastræti er kennt við þann bæ. Guðrún var komin af Reykvíkingum, sem lögðu grunn að vaxandi þorpi, bæ og borg. Guðrún hafði atvinnu af afgreiðslu- og skrifstofustörfum. Hún fæddist 7. mars árið 1910 – og Inga er því jarðsungin á fæðingardegi Guðrúnar, móður hennar.

Faðir Ingu var Hákon Bjarnason sem var einn ötulasti frumkvöðull skógræktar á Íslandi í áratugi. Hann var sonur Ágústs H. Bjarnasonar prófessors og Sigríðar Jónsdóttur Ólafssonar ritstjóra og alþingismanns. Áhrif þessa fólks á þjóðina voru mikil og lifðu eftir að þau hurfu af sjónarsviði.

Guðrún og Hákon, foreldrar Ingu, nutu bæði menntunar í Danmörk. Guðrún lærði á Suhrs Höjskole sem var ætlað að efla gúrmetíska getu nemenda sinna. Guðrún hafði góða getu til að taka við og hafði alla tíð mikla sveiflu.

Og Hákon nam ræktunarfræðin í Landbúnaðarháskólanum. Ekki fer sögum af neinum samgangi þeirra í Höfn en þau urðu náin um miðjan fjórða áratuginn, gengu í hjónaband og Inga kom í heiminn árið 1936. Hákon var á fullu í ræktunarstörfum en sambandið trosnaði í litlu fjölskyldunni og að því kom að Hákon sagði skilið við konu sína og dótturina Ingu, sem þá var þriggja ára. Inga eignaðist síðar hálfsystkini, samfeðra, og þau eru Laufey, Ágúst, Björg, og Jón Hákon.

Eftir skilnaðinn flutti Guðrún aftur í foreldrahús, sem var þá á Skólavörðustíg 16. Svo kom ástin að nýju í líf Guðrúnar. Edward Brewster Cleaver hafði komið til Íslands með bandaríska hernum og hóf síðar störf fyrir bandaríska sendiráðið. Hann þurfti fyrir hönd þjóðar sinnar að fara reglulega á skrifstofu ríkisféhirðis og gat ekki annað en tekið eftir hinni skemmtilegu og fallegu Guðrúnu sem þar starfaði. Hún sá glæsimennið og þau tóku saman og gengu í hjónaband árið1944. Inga eignaðist í Edward natinn stjúpa sem gekk henni algerlega í föðurstað og var henni alla tíð náinn, vandaður og góður.

Þegar heimstyrkjöldinni lauk flutti litla fjölskyldan til Bandaríkjanna. Þau sigldu til Boston, fóru svo til Washington, voru um tíma í Joplin í Missouri og þar á eftir í Edmonton í Kanada þar sem Edward var ræðismaður. Inga sótti skóla á þessum stöðum, varð fullkomlega tvítyngd og lærði ameríska menningu og skildi lifnaðarhætti og hugsunarhátt vestan hafs.

Ísland seiddi og Eddie fékk vinnu við sendiráðið í Reykjavík. Þau Guðrún og Inga komu til baka upp úr 1950 og bjuggu fyrst á Keflavíkurflugvelli. Á þeim tíma tók Inga bíl í bæinn á hverjum degi og sótti Gaggó vest. Svo fluttu þau til Reykjavíkur og fengu íbúð við Hringbrautina. Þegar Inga hafði lokið skólagöngu fór hún að vinna í utanríkisráðuneytinu og kom við sögu í ýmsum deildum ráðuneytisins. Átján ára fór hún til New York og starfaði hjá sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Eftir störfin ytra kom Inga svo til starfa heima og hélt áfram að þjóna utanríkisráðuneytinu sem þá var að hluta til húsa í stjórnaráðshúsinu við Lækjartorg. Hún starfaði við hlið kollega í forsætisráðuneytinu og einnig starfsfólks embættis forseta Íslands. Og margt af þessu fólki varð kunningar og vinir hennar ævilangt. Inga vann að margvíslegum verkefnum á starfsferlinum, kom sér hvarvetna vel, naut virðingar og var treyst í vinnu.

Baldur, hjúskapur og börnin

Svo var það ástin. Baldur Berndsen Maríusson var jafnaldri Ingu og bjó líka við Hringbraut á unglingsárum eins og hún. Hann heillaðist af þessari fallegu og ævintýralegu stúlku sem kom eins og dís með heimsmenninguna frá Ameríku. Hann var alla ævi stefnufastur og rásfastur og í skólaferð upp í Borgarfjörð settist hann við hlið Ingu, notaði ferðina svo vel að þau urðu par. Hreðavatnsferðirnar hafa löngum kveikt ástina og kynnt undir. Þau Inga og Baldur fóru saman í bíó, dönsuðu mikið og voru flott par. Þau voru trúlofuð í fimm ár, voru ekkert að flýta sér í hjúskap “enda dekruð heima” sagði Inga. Þau byrjuðu búskap í íbúð niður við Ægissíðu. Neskirkjuprestur gifti þau við altarið hér í kirkjunni á fimmtudagsmorgni 31. júlí árið 1958. Sambandið dafnaði og var til allrar framtíðar. Inga var drottningin hans Baldurs alla tíð. Hjúskapur þeirra var farsæll.

Magnús Bjarni fæddist þeim Ingu og Baldri í febrúar 1961. Hann er landfræðingur, einnig menntaður í hagvísindum og starfar sem ráðgjafi. Guðrún Edda kom í heiminn í maí árið 1966. Hún er menntuð í hannyrðum og er einnig master í fullorðinsfræðum og starfar í sinni grein við fræðslustörf hjá Reykjavíkurborg.  Sigríður Erla fæddist í nóvember 1967. Hún er menntuð í listasafnafræðum og ljósmyndun. Hún býr í Boston og starfar sem miðill. Börn Magnúsar eru Baldur Karl og Elín Inga. Dóttir Guðrúnar er Edda Sólveig.

Inga og Baldur voru hagvön í Ameríku og höfðu áhuga á að vera vestra saman um tíma. Þegar Magnús var fæddur tóku þau sig upp og fóru til New York árið 1962. Baldur varð þá stöðvarstjóri Loftleiða vestra. Þetta voru uppgangstímar og gaman að lifa. Svo komu þau til baka með New York-lífið í blóðinu. Stelpurnar fæddust og Inga fór til starfa að nýju í utanríkisráðuneytinu sem varð hennar starfsvettvangur upp frá því. Hún lauk farsælum starfsferli sem deildarstjóri árið 2006.

Hvernig var Inga?

Hvernig manstu Ingu? Leyfðu þér að kalla fram mynd hennar í huga þinn. Hvað kemur fyrst upp í huga? Manstu eigindir hennar? Manstu hve þrautseig hún var? Jafnlynd, umburðarlynd og jákvæð. Hún þurfti snemma að glíma við breytingar, sviftingar, flutninga, litríka mömmu og fjölbreytileika manns sem þjónaði bandaríska heimsveldinu, ekki bara á einum stað heldur mörgum. Og svo var Baldur á ferð og flugi í þjónustu Loftleiða og því fjarri heimili. Inga varð því að sjá um heimilið og treysta sjálfri sér. Það var henni blessun að hún var í nábýli við móður og stjúpa sem bjuggu í sama húsi. Inga og börnin gátu því notið þeirra í daglega lífinu. Manstu hve ákveðin Inga var í að koma börnum sínum til náms og manns? Hún vildi að börnin hennar gætu valið og notið sín í lífinu og gerði sitt til þess.

Manstu hve amerísk Inga var? Hún hafði engan áhuga á þorramat og sótti fremur í amerískan kjúkling en sviðasultu og ekki verra ef Coke var  með kjúllanum. Og Inga kippti frekar frosnu grænmeti úr frystinum en að opna Oradósir. Þegar kakkarnir á Tómasarhaganum og Grímsstaðaholtinu komu í afmæli til barna Ingu gátu þau átt von á marsmellows, Baby Ruth butterfingers og öðru amerísku nammi. Svo voru bílar heimilisins gjarnan amerískir. Baldur deildi skoðunum með Ingu sinni og tók tillit til litasmekks hennar. Hann seldi bláa kaggan sem hann kom með frá Ameríku af því henni líkaði ekki liturinn.

Manstu dýravininn Ingu, hún átti hunda í bernsku og hélt hún hund til hinsta dags.

Svo saumaði hún. Fötin á börnin og svo var allur útsaumurinn. Efnin voru góð og þræðirnir ekta. Inga var ekta í öllu, hún vildi bómull, ull eða silki, en alls ekki gerviefni.

Inga var mikil ferðakona. Hún var ekki aðeins hagvön í Ameríku. Hún var – eins og hennar fólk – tengd Kaupmannahöfn og Danmörk. Henni fannst mjög gaman að vera við Eyrarsund. Hún ferðaðist um alla Evrópu og Baldur hafði gaman af akstri og vílaði ekki fyrir sér langkeyrslur – bæði í Evrópu og Ameríku. Og svo ferðuðust þau til Asíu og Inga vildi að börnin hennar fengju að ferðast einnig með þeim og sjá heiminn. Inga var heimsborgari.

Eilífðin

Nú er hún farin. Hún er farin inn í veröld hins mikla hönnuðar, með mörgum víddum og veröldum. „Í húsi föður míns eru margar vistarverur“ sagði Jesús. Þar er gaman að vera. Inga er farin inn í heim þar sem Baldur tekur á móti henni, fagnandi og hún hittir fyrir móður sína og fólkið sem hún elskaði. Pfaff-saumavélin hennar er þögnuð, nálarnar eru fallnar. Hún saumar ekki fleiri púða eða myndir – nú tekur hún þátt í saumaskap himinsins. Þessi veröld er skemmtileg en hin himneska þó toppurinn.

Guð geymi Ingu Bjarnason Cleaver.

Og Guð geymi þig í tíma og eilífð.

Amen.

Minningarorð flutt í Neskirkju 7. mars, 2017. Kistulagning kl. 11 sama dag, þ.e. 7. mars. Bálför, jarðsett í Fossvogskirkjugarði. Erfidrykkja eftir athöfn í safnaðarheimili Neskirkju.