Birgitta Dam Lísudóttir – minningarorð

M2.2Hvað er mannlífið og hvernig vöxum við og þroskumst? Lífið kviknar í móðurkviði, fóstrið vex, líffærin verða til og svo í fyllingu tímans fæðist barn í þessa veröld, fæðist frá öryggi móðurlífs og inn í fjölbreytileika veraldarinnar. Síðan tekur við undrið að fullorðnast, vinna úr gjöfum Skaparans og ákvarða hvernig á að nota þær. Verkefni allra er að gegna kalli til visku og elsku. Við erum ábyrg gagnvart sjálfum okkur, öðrum og Guði.

FullSizeRender

Birgitta málaði einu sinni mynd sem var nokkurs konar sjálfsportett en þó meira en það því hún málaði einnig samhengi eigin lífs. Á myndinni er hún sjálf í miðju, horfir niður eins og djúpt hugsi eða jafnvel döpur? Hún stendur á grænni grund og að baki hennar eru krossar – tákn um dauðsföll, missi. Öll missum við ástvini. Suma vegna þess að tengslin bresta af einhverjum ástæðum og aðrir deyja frá okkur. Birgitta varð fyrir mörgum áföllum í lífinu og sá á bak sínu fólki inn í guðshaf eilífðar – upplifði djúpan sársauka og leið margt.

Í mynd Birgittu eru rauðir litir áberandi og hún leitaði ástar alla tíð og var eins og allir – þurfandi fyrir kærleika. Á roðafleti myndarinnar sjáum við tákn, slöngu sem varar við því sem sækir að og ógnar. Þarna er flaska og bikar. Og þarna eru líka blóm. Áleitin mynd, sjálfsmynd hæfileikarírkar konu sem reyndi margt og upplifði fjölbreytilegt líf.

Í spádómsbók Jesaja stendur:

„Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu
að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?
Og þó að þær gætu gleymt
þá gleymi ég þér samt ekki.
Ég hef rist þig í lófa mér….“

Þessi texti er um Guð. Gleymir Guð? Stundum finnst okkur að Guð sé fjarri og efasemdir um tilveru Guðs hríslast um huga þegar margt og jafnvel flest er mótdrægt. Jesaja spámaður þekkti þessar hugsanir og tekur dæmi af hinu ótrúlega. Getur móðir gleymt barni sínu? Hann taldi það ólíklegt en þó hugsanlegt, en Guð væri enn minnugri en allar mæður veraldar. Guð er hin besta móðir, gleymir aldrei – Guð yfirgefur aldrei. Guð er alltaf nærri. Það er verkefni okkar í lífinu að læra merkingu þess að Guð er lífið sjálft, við erum Guðs, guðslífið er í okkur. Allt það besta sem bjó í Birgittu var merki um Guð.

Birgitta sem horfir niður á lífsportrettinu, lifði fjölskrúðugu lífi, eignaðist börn, sá á eftir ástvinum – hún er líka barn Guðs sem Guð gleymir ekki og gleymdi ekki. Hún er rist í lófa Guðs, eins og þú lifir í minni og vernd Guðs.

Ætt og upphaf

Birgitta fæddist þann 19. september 1944 á Höfn í Skeggjastaðahreppi, Bakkafirði. Foreldrar hennar voru Lúðvík Sigurjónsson og Sigrid Lísa Sigurjónsson. Birgitta var lýðveldisbarn, kom í heiminn þegar lýðveldið var nýfætt. Lísa og Lúðvík höfðu eignast tvíbura árið 1940, en þeir voru andvana fæddir. Sagan lifir í fjölskyldunni að Lúðvík hafi borið kistur þeirra undir sitt hvorri hendi til kirkju. Það er átakanleg og grípandi mynd.

En í stað dauðans kom lífið í bæinn. Vestarr fæddist þeim hjónum þremur árum síðar – í ágúst 1943.

Og Birgitta var yngst systkinanna. Nú lifir Vestarr einn af þessum barnahópi.

Foreldrar hennar, Lúðvík og Lísa, kynntust í Færeyjum. Lísa, sem var færeysk, hafði lært sauma í Kaupmannahöfn og komst heim fyrir upphaf stríðs og vann síðan við iðn sína í Færeyjum. Lúðvík varð hrifinn af Lísu og vildi eiga hana þó hún væri fimmtán árum yngri en hann. Það gekk eftir. Þau fluttu svo til Íslands, gengu í hjónaband og eignuðust börn sín.

Lúðvík var verslunarstjóri í Gunnlaugsverslun á Bakkafirði og síðar kaupfélagsstjóri. Hjónaband Lísu og Lúðvíks bilaði þegar Birgitta var ung og Lísa flutti til Færeyja með börn þegar seinni heimstyrjöldinni lauk. Þar voru þau síðan til 1962 er þau sneru að nýju til Íslands til að Vestarr og Lísa gætu notið menntunar. Á Íslandi voru líka á þessum tíma meiri atvinnumöguleikar en í Færeyjum.

Birgitta hóf skólagöngu í Færeyjum, gekk vel og fékk góðar einkunnir. Þegar hún fór til Íslands hafði hún lokið tveimur árum í Verslunarskólanum í Þórshöfn. Á Íslandi vann Birgitta sem sjúkraliði á Vífilstöðum. Árið 1963 fór hún svo til Kaupmannahafnar og fór að vinna á hjúkrunarheimili fyrir eldri borgara í Kaupmannahöfn.

Hjúskapur og börn og ástvinir

Í Höfn hitti hún Ole Martinussen og þau Birgitta gengu í hjónaband. Þau Ole eignuðust tvö börn. Lísa fæddist árið 1964 og Hans Christian fæddist árið 1968. Þau Ole og Birgitta skildu.

Lísa, sem ber nafn ömmu sinnar, er búsett í Danmörk. Hún er hjúkrunarfræðingur að mennt og starfar við fag sitt. Maður hennar er Carsten Jensen. Börn þeirra eru Andreas, Mette og Sandra.

Hans Cristian Martinussen er kvæntur Línu Martinussen. Þau eru bæði tannfræðingar og vinna í grein sinni. Dætur þeirra eru Hannah og Carolina.

Birgitta sneri til Íslands snemma á áttunda áratugnum en veiktist af berklum sem neyddu hana inn á spítala og höfðu hamlandi áhrif á hana. Hún átti í heilsufarsbaráttu æ síðan.

Heimkomin til Íslands kynntist Birgitta Tryggva Ólafssyni og þau eignuðust soninn Davíð sem fæddist árið 1975. Þau Birgitta og Tryggvi bjuggu saman í fjögur ár.

Davíð rekur eigið fyrirtæki. Eiginkona Davíðs er Una Dögg Evudóttir. Þau eiga þrjú börn, Adam Elí, Ilmi Dís og Sóleyju Klöru.

Þegar Tryggvi hvart úr lífi hennar kynntist Birgitta Ernest Washington. Þau Birgitta eignuðust soninn Örn Jákup Dam Washington, sem fæddist árið 1980. Þau Birgitta fóru vestur um haf og bjuggu í Bandaríkjunum um tíma en komu svo til baka til Íslands þegar Örn var nokkurra mánaða gamall. Þá settust þau Birgitta og karlarnir hennar að á Meistaravöllum og bjuggu þar síðan. Örn lést eins og ykkur er öllum kunnugt um árið 2005, allri fjölskyldu og ástvinum harmdauði.

Margt gekk á í heimilishaldinu og að lokum fór Ernest til Bandaríkjanna að nýju og Birgitta varð eftir á heimilinu með drengina og lífsverkefnin. Um tíma vann hún á Grund en raunar bjó hún við heilsubrest lengstum og átti óhægt með vinnu.

Síðustu árin barðist Birgitta við vaxandi heilsubrest. Margir léttu undir með henni og Vestarr og fjölskyldan þakkar Sturlaugi Pálssyni aðstoðina síðustu tvö ár.

Minningarnar

Hvernig manstu Birgittu?

Manstu hárið og háralitinn? Manstu útlit hennar? Hverjir voru styrkleikar hennar? Hvað lærðir þú af henni? Hvað var það sem hún ekki gerði og hefur orðið þér til þroska?

Manstu listfengi hennar og teiknigetu? Og manstu hvernig hún náði athygli þinni eða annarra? Manstu fötin hennar og hringana?

Hún hafði gaman af að dansa og dansaði m.a.s. ballett í æsku.

Svo söng hún í skólakór í Færeyjum og hafði gaman af tónlist – og hafði breiðan smekk.

Manstu hve hún vildi sjá það besta í öðrum, í fólki? Hún vildi svo gjarnan eiga góð tengsl við fólkið sitt og tjá elsku í garð barnabarna sinna.

Himininn

Hvernig hugsar þú um himinn og himnaríkið? Við menn erum misstór börn, sem liggjum á bakinu, störum upp í himininn, horfum á skýin og stjörnurnar, skiljum og tjáum með okkar viti hvað verður. En hugsun og orð um aðra veröld eru ekki og verða aldrei sannanleg lýsing, heldur hliðstæðuskýring. Við tölum aðeins um himininn og eilífð með hjálp myndmáls.

Kannski getur líkingin af fóstri í móðurkviði orðið til skilningsauka. Hvað hugsaðir þú þegar þú varst í þeim belg? Gastu ímyndað þér veröldina þegar þú varst þar inni? Vissulega heyrðir þú hljóð, fannst til með móður þinni, fékkst innskot af adrenalíni í æðar þínar, þegar hún var hrædd eða spennt, fannst fyrir vellíðan hennar, slakaðir á í kyrrð mömmunnar. Þú fannst fyrir veröldinni utan bumbunnar en skildir hana ekki. Vissir ekkert um liti hennar, fannst ekki fyrir vindinum, sást ekki fuglana, ásjónur þeirra sem elskuðu þig, vorsólina, Færeyjar, Bakkafjörð eða Kaupmannahöfn, vissir ekkert um útlit herbergjanna eða vistarveranna, sem fjölskylda þín bjó í.

Þó að þú hafir haft heldur litlar og fátæklegar hugmyndir um lífið var við þér tekið þegar þú fæddist. Þó þú getir ekki ímyndað þér hvernig eilífa lífið verður getur það orðið mun stórkostlegra en þú getur hugsað þér.

Við eigum aðeins vísbendingar meðan við erum í móðurkviði náttúrunnar, en við megum alveg hugsa um Birgittu og allt fólkið hennar baðað birtu þegar við hugsum um himininn, sem hún gistir. Þetta hús, sem er umgjörð kveðjustundar hennar, er byggt vegna þess að trú hefur lifað í þessu landi, að lífið sé sterkara en dauðinn, að föstudagurinn langi sé ekki helsta táknmyndin um veröldina, heldur séu páskar betri ímynd fyrir líf og von fólks.

Birgitta fór sína ferð. Nú er hún farin lengra. Hún þjáist ekki lengur og fyrir það getum við þakkað. Við megum trúa, að hún hafi fæðst inn til ljóssins, inn í veruleika elskunnar, inn í stóran faðm, sem við köllum Guð. Þar má hún búa um alla eilífð, njóta lífsins, vera með Erni og öllum hinum ástvinunum – hlægja og syngja.

Amen.

Minningarorð við útför í Kapelluni, Fossvogi, 18. febrúar 2015.

Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.