Ég öfunda þig svo…

morgunorð og bæn á Rúv 24. september, 2014.

IMG_3135Góðan dag, kæri hlustandi. Hvaða afstöðu langar þú til að temja þér í dag? Er sátt í þér eða einhver öfund? Öfundin getur afvegaleitt.

Margir viðurkenna blygðunarlaust, að þau langi í það sem aðrir eiga. Vegna klókinda – og jafnvel líka bælingar – talaði fyrri tíðar fólk ekki um ágirndarmál sín. Málfar breytist og óvíst að ungt fólk samtímans öfundi freklegar en foreldrar þeirra, afar og ömmur, gerðu á sínum tíma. Kannski brann eldri kynslóðin af öfund en í leyni?

Öfund gýs upp í fólki gagnvart einhverju og einhverjum, sem eru eða eiga hið eftirsóknarverða. Hún getur verið afleiðing skerts sjálfsmats. Öfund dafnar helst í skugga og skorti. Öfundin er ávöxtur hinna tilfinningalega snauðu, gleðifirtu og viskuskertu.

En þau, sem samgleðjast eru ekki full af skorti heldur ríkidæmi nægjuseminnar og oftast líka hamingju. Við þurfum að æfa okkur að segja: “Ég samgleðst þér,” æfa okkur að hrósa og segja: “Mikið er þetta fallegur kjóll. Þú lítur glimrandi vel út, þetta var fallega sagt…”

Því fylgir jafnvel líkamleg vellíðan að segja: “Ég samgleðst þér.”

Þau, sem lifa skort og sjá ekki út úr honum, eru herpt, bæði líkamlega og tilfinningalega. Fátækur maður getur verið ríkur af lífsgæðum. Billjóner getur verið skínandi fátækur en eignasnauður getur verið auðjöfur heimsins. Allir ættu skilja bölvun skortsins, að þekkja uppsprettu efnishyggju og valdapots.

En þau, sem gleðjast með öðrum, losna úr álögum skortsins og hafa betri möguleika til lífsfyllingar og örlætis en annars væri.

Við getum auðveldlega dottið í öfund, sókn í ásýnd í stað hins varanlega. Í dag er góður dagur til að styrkja lífsgleðina og þakklætið. Í dag er ljómandi dagur til að samgleðjast og hrósa líka. Þegar öfundin dvín og samgleðin styrkist förum við að horfa á okkur sjálf, samferðafólk okkar og lífsgæðin með augum Guðs. Biðjum:

Gef mér Drottinn góðan dag.

Gefðu, að ég í návist þinni,

eignist hugrótt hjartalag,

hjálpi ef einhver þarf í dag.

Blessa þú og bæt minn hag.

Bægðu synd frá götu minni.

Gef mér Drottinn góðan dag,

góðan dag í návist þinni.

 

Faðir vor, þú sem ert á himnum.

Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,

verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.

Gef oss í dag vort daglegt brauð.

Og fyrirgef oss vorar skuldir

svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.

Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu.

Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.

Amen

 

Guð gefi þér gleði og að sjá dýrmæti í öðrum.

Guð gefi þér góðan dag.

Morgunbæn Rúv 24. september, 2014.