Edda S. Erlendsdóttir – minningarorð

4551sh(10x15)Edda var hetja. Hún tók viðburðum lífsins með styrk, ljúflyndi, þakklæti og elskusemi. Hún var hetja í baráttu við sjúkdóm sem sótti að henni innan frá, dró úr henni mátt, lamaði hana smám saman og af miskunnarlausri hægð. Hetja – andlegur styrkur Eddu var ótrúlegur og aðdáunarverður. Hvaðan kemur okkur hjálp í aðkrepptum aðstæðum? Að innan og ofan. Og öflugt fólk verður okkur fyrirmynd til góðs.

Uppruni og ætt

Edda S. Erlendsdóttir fæddist á Eiðstöðum við Bræðraborgarstíg í Reykjavík, þann 25. september 1947. Faðir hennar var Erlendur Ó. Jónsson. Hann var farmaður og þjónaði Eimskip, fyrst sem stýrimaður og síðar sem skipstjóri. Móðir Eddu var Ásta M. Jensdóttir, húsmóðir. Þau hjón voru alla tíð afar náin, leikandi ástrík við hvort annað og eins og splunkunýtt kærustupar til hinstu stundar. Edda ólst því upp við hlýju og elskusemi. Hún var einbirni í nokkur ár, en svo fæddist yngri systirin Ólína í febrúar árið 1955. Þær systur voru nánar og Edda varð Ólínu sem fyrirmynd og saman áttu þær samheldna fjölskyldu sem ræktaði tengslin vel til hinstu stundar.

Foreldrar Eddu, Ásta og Erlendur, hófu hjúskap í Norðurmýri en fluttu síðan vestur í bæ og bjuggu á Neshaga 13. Edda fór því fyrst í Austurbæjarskóla og síðan í Hagaskóla. Heimilislífið var líflegt, bæði þegar pabbinn var á sjó – en einnig þegar hann kom heim. Þá var bara enn gleðilegra að vera til. Edda, Ólína og mamman guldu ekki fyrir farmennsku pabbans – heldur nutu með margvíslegum hætti. Þær fóru t.d. með Erlendi í túra, hvort sem siglt var á Ameríku eða Evrópu. Og þegar Gullfoss brann í Kaupmannahöfn 1963 var Erlendi falið að vera í Höfn og líta eftir viðgerðinni. Þá voru þær dömurnar með  – voru fyrst á hóteli og síðan um borð meðan viðgerð lauk. Þær urðu Kaupmannahafnardömur og kunnu sig.

Þau Einar Páll Einarsson kynntust í Vesturbænum ung að árum. Hann ólst upp á Lynghaganum. Hagaskóli hefur ekki aðeins verið skóli bóknáms heldur vermireitur kynna og tengsla, sem hafa skilað mörgu og miklu til lífsins. Samband þeirra Palla styrktist og sambúð var skipulögð. Edda fór í Hússtjórnarskóla Reykjavíkur og hann lærði rafvirkjun og varð meistari í sinni grein. Þau gengu í hjónaband þann 3. október 1970 við altarið hér í Neskirkju. Ungu hjónin fengu inni á Neshaganum og bjuggu í risinu hjá foreldrum Eddu en fluttu síðar á Lynghaga 15.

Þau Edda eignuðust tvo syni. Þeir eru Erlendur Jón og Steingrímur Óli. Kona Erlends er Anna Kristín Scheving. Þau eiga dótturina Eddu Steinunni og annað barn er í kvið og er væntanlegt innan tíðar! Önnur börn Önnu Kristínar eru Hildur Björk og Marinó Róbert.

Kona Steingríms er Birna Dís Björnsdóttur. Dætur þeirra eru Maríanna Mist og Rebekka Rut. Fyrir á Steingrímur soninn Dag Snæ.

Fólkið hennar Eddu stóð henni ávalt nærri hjarta. Hún hafði mikla gleði af drengjum sínum, tengdadætrum og ömmubörnum. En hjónabandið trosnaði og Edda og Páll skildu árið 1988.

Vinna – kveðjur – þakkir

Auk heimilisiðju og sonauppeldis starfaði Edda við skrifstofu- og afgreiðslustörf í Reykjavík. Hún vann við bókhaldsstörf á Vegamálaskrifstofunni og síðan hjá Vita- og Hafnarmálastofnun í Reykjavík – þar til hún gat ekki lengur starfað utan heimilis vegna veikinda sinna. Edda bjó lengstum í vesturbæ Reykjavíkur en fluttist í Sjálfsbjargarheimilið fyrir tæpum sjö árum. Hún lést á heimili sínu í Hátúni 12 þann 2. mars 2014.

Við skilin sem eru orðin biðja nokkur fyrir kveðjur til þessa safnaðar –  Nína í Danmörk, Margréta Ásta í Berlín og Styrmir Örn í Amsterdam. Þórdís Richter biður einnig fyrir kveðju sína. Fjölskylda Eddu þakkar starfsfólki í Hátúni fyrir góða umönnun og ljúft viðmót.

Lúta eða lifa

Hvernig var Edda? Hvað kemur upp í hugann? Hvaða minningar dekrar þú við í huganum? Meira en hálfa æfina glímdi Edda við MS – en alla æfi var hún lífsins megin. Hún stóð með lífinu og er því okkur fyrirmynd um hvernig hægt er að bregðast við með styrk og hetjuskap í kreppu eða erfiðleikum. Hvað gerum við þegar áföll skella á okkur? Þá verða kostirnir kannski heldur fáir og jafnan aðeins tveir. Að lúta eða lifa – að bíða ósigur eða glíma við áfallið, sorgina eða meinið. Edda ákvað að lifa og alla æfi lifði hún fallega – já hún var hetja.

Lífsins megin

Í sögu Eddu er brot af eilífðinni. Í viðbrögðum sínum kennir Edda okkur mikið um lífið og Guð. Saga hennar byrjaði undursamlega. Hún átti hamingjuríkt upphaf, naut ástríkis foreldra og fjölskyldu, elskaði og naut tengsla við bónda og drengi. Hún naut hæfileika sinna í störfum og einkalífi. Það var fyrri hálfleikur lífs hennar. Svo hófst seinni hlutinn og allt í einu byrjaði dofinn að læðast um líkama hennar og líf. Ekkert var lengur gefið og margt brást í lífi Eddu – en ekki hún. Hún var sem engill, fulltrúi alls þess besta sem til er.

Saga hennar er endurvarp sögu Guðs og lífsins. Heimurinn byrjaði vel, allt var gott. Það var fyrri hálfleikurinn. Svo kom áfallið og allt var breytt. Guð brást ekki, laut ekki heldur elskaði og vann með meinið allt til enda. Sigur lífsins yfir dauðanum er mál páskanna, boðskapur um að allir sem eru fjötraðir verði leystir, ef ekki í þessum hálfleik lífsins – þá í næstu lotu sem heitir eilíft líf.

Minningarnar

Edda – hetja lífsins. Hvernig manstu hana? Manstu brosið hennar, gáskann? Manstu hvernig hún gat gert grín að sjálfri sér og meinum sínum? Með vinum sínum gat hún hlegið í hinu hláturmilda Kvikindismannafélagi sem var stofnað fyrir kátínuna. Manstu hið góða geðslag Eddu?

Manstu hve sjálfstæð og sjálfri sér nóg hún var? Hún miklaði ekki fyrir sér að skjótast á hjólastólnum hvert sem var. Hún fór að heiman og um langan veg – inn með Skerjafirði, út á Nes og upp í Háskólabíó. Hún var ekki í neinum vandræðum með sjálfa sig. Fyrirstöður urðu henni tækifæri en ekki hindranir. Líf hennar var ekki hálftómt glas heldur hálffullt. Hún sýndi hetjumátt sinn í dugnaði daganna. Hún er okkur fyrirmynd um afstöðu til lífsins. Að lúta ekki heldur lifa!

Já, Edda magnaði ekki vandamál heldur leysti þau. Hún var útsjónarsöm og skynsöm. Hún greiddi úr flækjum en bjó þær ekki til. Því átti hún ánægjuleg samskipti við fólk – hafði gott lag á að bæta mál og sjá leiðir, sem öðrum hafði ekki auðnast að greina eða uppgötva. Þetta er að velja ljósið fremur en myrkrið. Getum við eitthvað lært af Eddu í því?

Og svo var Edda þessi líka fíni kokkur. Og hún naut þess að barnabörnin hennar náðu að upplifa hve hún var flínk. Þegar Dagur, sonarsonur hennar var lítill og Edda amma passaði hann bauð hún honum að panta pitsu. Nei, hann vildi heldur fá plokkfiskinn hennar ömmu og helst bjóða vini sínum í mat líka! Og þá vitum við það: Plokkarinn hennar Eddu sló öllum pitsum heimsins við! Hvernig var þá allt hitt sem Edda eldaði?

Manstu hve glöð hún var, þakklát fyrir það sem henni var gefið og allt það sem aðrir voru henni? Er hún ekki fyrirmynd í því einnig? Lífið er gjöf, “lán” okkar er lán. Og fyrir allt jákvætt og gott megum við þakka. Það kunni Edda.

Manstu eftir listfengi Eddu og handbragði? Áttu eitthvað sem hún prjónaði – eða kannski sængurföt frá henni, laglega hönnuð, þrykkt með fallegum skýjum á svæfilveri og sængurveri? Handavinnan hennar var falleg og bar sköpunarvilja og hæfni hennar gott vitni.

Inn í himininn

Nú er hún farin. Nýr kafli hefur opnast henni. Edda – formóðir – um innræti og afstöðu til lífsins. Edda – móðir minninga um lífið. Nú er hún ekki lengur bundin. Fjötrarnir eru fallnir, tilfinningin komin, skerpan er alger og krafturinn óbilaður. Hún er frjáls að nýju. Edda er komin inn í þann heim þar hún fær að vera í samræmi við upplag, mótun og vonir.

Þetta má segja og því má trúa að hin kristna saga endar aldrei illa heldur vel. Kristin trú varðar ekki að lúta heldur lifa. Allt líf er endurvarp hinnar miklu sögu að Guð elskar allt og alla. Og því er líf okkar ekki dimmt heldur baðað ljósi – líf frelsis, krafts, ódofinna tilfinninga, gleði og vonar. Veröld Guðs er góð.

Guð geymi Eddu.

Guð geymi þig.

Amen

Minningarorð í Neskirkju 12. mars, 2014.

Bálför, jarðsett í Fossvogskirkjugarði.