Pétur Pétursson – minningarorð

Vonarskarð, ævintýraveröld, hjarta hálendisins. Pétur var frjáls á fjöllum, opnaði þar vitund og sálargáttir. Naut þess að gera ekkert annað en að upplifa – dást að samspili forms og lita, lesa landið, vita af meigineldstöðvunum, horfa til Tungnafellssjökuls eða Bárðarbungu, reyna að sjá fyrir sér landnámsmanninn á ferð með búsmala úr Bárðardal fyrir norðan – um Vonarskarð – og að Núpum sunnan jökla. Í Vonarskarði eru vatnaskil – og hægt að fara til norðurs eða suðurs – opin veröld.

IMGP0430 - Copy

Pétur upplifði fegurð í eyðimörk hálendisins, veðurstillu háfjallanna, naut litasterkjunnar í mosagrænku eða útfellingum hverasvæðisins. Honum þótti gott að liggja á bakinu í heitri lind og leyfa sólinni að kyssa sig. Svo kyssti fegurð himins og sköpunarverksins líka vin sinn Pétur Pétursson, ferðagarp og fagurkera. Og hann fór með varkárni og virðingu í helgidóma Íslands og heims.

Vonarskarð – öll förum við um einhver Vonarskörð. Hvaða lífsleið velur þú? Þú átt val í ferðamálum þessa heims en annars einnig. Hver eru þín vonarmál?

Ætt og uppruni

Pétur Pétursson fæddist að vetri, 11. janúar árið 1963. Foreldrar hans voru Hjördís Ágústsdóttir og Pétur Guðmundsson. Hjördís lifir en Pétur, faðir hans, er látin. Pétur var yngstur systkina sinna. Hin systkinin eru Anna Sigríður, Guðmundur Ágúst, Sturla og Bryndís og lifa öll bróður sinn.

Fjölskyldan bjó fyrstu árin í Vesturbænum en þegar Pétur var um það bil að hefja skólagöngu flutti hópurinn inn í Fossvog. Pétur fór því skólana sem þjónuðu Bústaðahverfinu og tók þátt í því fjölbreytilega lífi sem það hverfi bauð til á áttunda og níuna áragug síðustu aldar. Pétur átti í sér kyrru og sótti snemma í bækur. Bókástin fylgdi honum alla tíð. Á unglingsárum þegar hann átti einhverja aura kom Pétur fremur heim með bók en buxur ef hann mátti ráða.

Eftir grunnnámið fór Pétur síðan í Menntaskólann í Reykjavík, átti farsæl og gleðirík menntaskólaár og lauk stúdentsprófi frá MR. Áhugaefnin voru ýmis og hæfileikarnir margir. Með stúdentsskírteinið í höndum var Pétur í einu af vonarskörðum lífsins. Hann gat farið í hverja þá átt sem hann vildi. En svo tók hann stefnu – og fór í viðskiptafræðina í Háskóla Íslands og lauk þaðan BA námi. Pétur var alla tíð marksækinn og íhugaði framhaldið – og tók stefnu á Kaupmannahöfn og lauk meistaraprófi þar. Honum leið vel í Danmörk, var hrifinn af Kaupmannahöfn, skólanum og menningunni. Engir voru jöklarnir og engin fjöll en Pétri leið þó vel og stóð sig framúrskarandi vel í námi. Svo framúrskarandi – að í ljós kom að Pétur vann til verðlauna. Hinum hógværa manni þótti gott að hafa staðið sig svo vel að ástæða væri til að verðlauna hann.

Svo fór Pétur heim og réði sig til starfa hjá Innkaupastofnun ríkisins. Þar leið honum ágætlega í starfi, var metinn og virtur. Svo vildi hann leita á ný mið og stórfyrirtæki var honum nægilega mikil ögrun til að breyta til. Hann varð innkaupastjóri hjá Landsvirkjun frá árinu 2006 og blómstraði í starfi. Og ég hef séð falleg ummæli um framlag Péturs til Landsvirkjunar og samskipta við fólk á þeim vinnustað.

Ég hef verið beðinn að færa þessum söfnuði kveðju frá Þórarni Inga sem er í Noregi og kemst ekki til þessarar útfarar.

Jóna Björk

Svo var það ástin í lífi hans. Hvergi leið Pétri betur en í óbyggðum. Það er við hæfi að þau Jóna Björk Jónsdóttir sáust og kynntust á fjöllum. Pétur bar virðingu fyrir fræðum konu sinnar, líffræðinni og jarðfræðinni. Þau voru sálufélagar, afar náin og umhyggjusöm við hvort annað. Þau fóru víða, hlupu gjarnan á fjöll, garpar, næm og kát. Jóna Björk veitti Pétri innsýn í sveitalífið og Skaftfellingarnir tóku hann í sinn hóp. Sambúð þeirra var ekki löng en góð. Svo þegar Pétur veiktist vakti Jóna Björk yfir hverju skrefi og velferð Péturs – allt til enda. Lof sé henni.

Minningarnar

Hvernig var Pétur? Hvernig minningar þyrlast upp þegar hann er farinn? Hvað kemur upp í huga þinn?

Manstu hve skipulagður hann var? Hvernig hann tók áskorunum, vildi ögra sjálfum sér en vildi þó hafa stefnuna á hreinu og hvernig ætti að ná markinu?

Manstu óbyggðaelsku Péturs? Raunar voru jöklar í uppáhaldi hjá Pétri enda fáir sem ganga yfir Grænlandsjökul sem ekki hrífast af stórveröld hinnar köldu fegurðar.

Manstu hvernig hann vildi hafa gott yfirlit sinna verka? Félagar Péturs á Grænlandsjökli vissu að hann var forsjáll og aðgætinn og ganga mátti að því vísu að ef einhver hefði gleymt einhverju smáræði hafði Pétur ekki flaskað á slíku.

Og þegar Pétur var að hugsa um að kaupa einhvern hlut var það ekki gert í óðagoti eða vanhugsað. Hann skoðaði, las sér til, kannaði og rannsakaði og þegar hluturinn var keyptur vissi hann allt sem vert og þarft var að vita. Og handbækurnar kunni hann líka á. Þegar hann keypti rauða Wranglerinn frá Ameríku vissi hann nákvæmlega hvers konar gripur kæmi og í hverju hann væri frábrugðin hinum útgáfunum.

Manstu hversu auðvelt honum var að fara í fjallgöngu? Og að hann fór gjarnan í göngu þegar eitthvað var mótdrægt. Eða þegar hann var þreyttur – þá hljóp hann á Esjuna!

Manstu hve Pétur var víðlesinn og fróður? Hann var ekki bara góður í innkaupum, þróun peningamála eða viðskiptum. Hann gat sest með vinum sínum eða mömmu og túlkað vel persónur eða viðburði í Njálu eð einhverri skáldsögu Charles Dickens. Hann var upplýstur og glöggur, hélt sínu fram með rökum og hlustaði á mótrök.

Og manstu fagurkerann? Hann hafði auga fyrir og hreifst af því sem var fagurt. Og næm tilfinning fyrir gæðum litaði afstöðu og uppifun. Gæði frekar en magn er góð lífsstefna og var sem iðkunarstefna Péturs. Hann keypti gjarnan vönduð föt og gallabuxurnar hans voru ekki keyptar af því að þær væru með Armanimerki – heldur af því hann mat gæðin mikils. Búshlutirnar hans voru vandaðir – og eldhúsgræjur Péturs voru góðar. Hann hafði áhuga á hönnun og sjónlistum. Hann hafði skoðanir og áhuga á hvernig hús voru skipulögð og gerð og hefði líklega orðið góður arkitekt. Og Pétur var líka fagurkeri í matarmálum.

Pétur var yngstur systkina sinna og lærði að taka tillit til annarra og var umhugað um velferð samferðafólks síns og beitti sér í þeirra þágu. Hann sá þegar skór móður hans voru orðnir lúnir og þá tók hann sig til og stífburstaði þá. Manstu eftir hvað hann tók vel eftir líðan fólks, var umhugað um velferð og var tillitssamur? Jafnvel í dauðanum var hann með huga við að liðsinna fólki og efla velferð annarra. Hann átti því trausta vini.

Mannstu gæði Péturs, áhugamál hans og gáfur? Manstu hve hann var sjálfum sér nógur? Hann gat vel verið einn og kunni því raunar vel því hann þurfti tíma til að sinna lestri, íhugun og innri vinnu – eða einfaldlega að hlusta á útvarpið í ró og friði. Góður maður með sterka sýn, átti góða vini.

Manstu æðruleysi, dugnað og stillingu Péturs sem einkenndu hann alla tíð. Í mestu átökum kemur í ljós hvaða mann menn hafa að geyma. Hjúkrunarfólkið á sænskum spítala undraðist þann ofurstyrk sem bjó í Pétri og blasti við öllum þegar hann glímdi við veikindin og lífslok. Þau dáðust að honum og afstaðan til lífsins og ástin til lífsins má verða okkur til blessunar og hvatningar.

Vonarskarð eilífðar

Og nú eru skil. Hvaða minningar ætlar þú að varðveita um Pétur? Veldu vel og farðu vel með minningarnar. Nú ræðir hann ekki lengur um bók sem hann var að lesa. Þú getur ekki treyst því að upp úr bakpokanum hans komi aukareim ef þín slitnar á fjöllum. Hann hoppar ekki kátur af stað upp á næsta fjall eða fleytir kajak á Langasjó. Hann borðar engar góðar ólífur lengur og hann mun ekki framar liggja á bakinu og brosa alsæll í laug í Vonarskarði.

Pétur var skipulagður og marksækinn. Og þannig er Guð líka. Veröldin er ekki jökulsprunga sem við dettum í heldur lifandi ævintýri – veröld ástar og umhyggju. Þegar við deyjum megum við falla inn í veröld og fang Guðs. Það er skipulag í ferðalagi veraldarinnar, ferðum mannanna. Þar eru engar ógöngur!

Nú eru vatnaskil. Pétur er komin í Vonarskarð himinsins. Þar ber jökul við loft og jörðin, lífið og mennirnir fá hlutdeild í himninum. Þar ríkir fegurðin ein.

Guð geymi minningu Péturs Péturssonar og Guð geymi þig.

Amen

Minningarorð í útför Péturs sem fór fram í Fossvogskirkju, 17. febrúar, 2014.