Altari himsins

Tiburvölvan og ÁgústusSænski nóbelshöfundurinn Selma Lagerlöf skrifaði merk trúarleg rit, t.d. bókina Jerúsalem, sem Billie August kvikmyndaði ágætlega árið 1996. Lagerlöf skrifaði ýmsar sögur um Jesú Krist eða sögur sem tengdust lífi hans og veru. Í einni þeirra segir hún frá lífsreynslu keisarans í Róm þegar hann fór til helgihalds á myrku vetrarkvöldi. Ágústus keisari, þessi sem nú er einkum frægur af því hann er nefndur í jólaguðspjallinu, sá til völvu þegar hann kom á helgistaðinn. Hún sat þar grafkyrr og starði út í nóttina. Fylgdarmenn keisarans urðu hræddir og myrkur, þögn og lífleysi náttúrunnar höfðu lamandi áhrif á þá. Keisarinn ætlaði að færa fórn, en dúfan sem hann ætlaði til fórnfæringar á altarinu smaug úr greipum hans. Og keisarinn varð líka skelfdur. Verðirnir féllu fram fyrir keisaranum og kölluðu: „Heill sé þér Sesar. Verndarengill þinn hefur svarað þér. Þú ert Guð og þú skalt tilbeðinn á þessari hæð.“

Við hávaðan vaknaði völvan af dásvefni sínum, kom til mannanna, tók í úlnlið keisrans, benti í austur og sagði síðan: „Heill sé þér Sesar. Þarna er Guðinn sem þú átt að tilbiðja. Á Capitoliumhæð skal tilbiðja þann sem endurnýjar heiminn en ekki hrörlega skapaða veru.“

Keisarinn tók þessa næturreynslu alvarlega og reisti guðsbarninu nýfædda altari og kallði Altari himinsins.

Hvers er valdið? – barnið

Saga Selmu Lagerlöf byggir á munnmælum um að svonefnd Tiburvölva – sem bjó nærri Róm – hafi átt fund með keisaranum á Capitoliumhæð og hafi raunverulega spáð fyrir um komu Jesúbarnsins ( http://en.wikipedia.org/wiki/Tiburtine_Sibyl ). Og síðar var Maríukirkja byggð á þeim stað sem keisarinn hafði byggt altari himinsins og er þekkt kirkja og kennileiti í Róm. Kirkjan var jafnvel skreytt með mynd af fundi hans og völvunnar (http://en.wikipedia.org/wiki/Santa_Maria_in_Aracoeli ). En því er þessi saga rifjuð upp í dag að í henni er fólgin speki.

Hvers er valdið? Hvaða valdi lútum við? Sagan segir frá þeim heimshöfðingja sem hafði mest vald í vestrænum heimi á sinni tíð. Hann var líkur öllum hinum sem hafa vald að hann reyndi að tryggja stöðu sína og með svipuðum meðulum og aðferðum og aðrir valdsherrar hafa notað fyrr og síðar. Hvaða vald megnar að tryggja sig og með hvaða hætti? Munu valdsmenn, samtök þeirra, bandalög vopnaðs friðar tryggja börnum heimsins frið? Svo er það hin vídd sögunnar. Það er sagan um barnið sem er algerlega valdalaust hvað ytri mátt varðar, án fjármuna, herja, vopna og verja. Jólasagan fléttar saman söguna um valdleysi barnsins og valdásýnd heimsríkis. Hvers er valdið: Keisarans eða hvítvoðungsins? Hið pólitískt rétta svar er að ríkið vinni en mannshjartað grunar að það sé rangt svar. Er barnið í valdleysi sínu boðberi um vald frelsis, friðar og lífs?

Tvö boð

Það komu tvö boð, annað frá Róm og hitt frá himnum. Tveir heimar, tvö ölturu, tvenns konar vald. Boðið frá keisaranum varð ytri rammi jólanna. Og tilefnið var hið sama eins og flestir stjórnarherrar heimsins hafa glímt við – skortur á fé og fjárhagsvandræði. Of margir komust hjá skattgreiðslum og óreiða ríkti í skattheimtu. Þess vegna varð að byggja upp nýja og skilvirka skattheimtu til að engum liðist undanskot. Allir urðu því að láta skrá sig. Þetta var gríðarlegt átak og aðgerð og náði til alls hins víðlenda Rómarveldis. Það var því skattman sem lagði til félagsramma jólasögnnar.

Jesús Kristur fæddist í ríki mikilla herja og stríða. Skáldin túlkuðu leit fólks að friði og þörf þess fyrir réttlæti. Einn þekktasti skáldjöfur fornaldar, Virgill, spáði fyrir um fæðingu frelsara heimsins. En hann og aðrir Rómverjar urðu að þreyja mörg ár skelfilegra stríða og manndrápa þar til Octavíus keisari náði völdum skömmu fyrir fæðingu Jesú. Octavíus þessi var svo nefndur Ágústus keisari. Hann var talinn guðssonur af þeim Rómverjum sem túlkuðu tilveruna guðmiðlægt. Sem farsæll þjóðhöfðingi beitti hann sér fyrir frelsi og ríkisfriði. Farið var að tala um hinn rómverska frið – pax Romana – og hið mikla friðaraltari Ágústusar í Róm var frægt og nú heimsfrægt. Á þessum tíma var klappað á steina í Tyrklandi að Ágústus keisari hafi verið frelsari og Guð. Þessir steinar fundust í nútíma og segja hver  pólitískur rétttrúnaður í Rómaveldi var um það leyti að Jesús Kristur var borinn í heiminn.

Boðið um fögnuð

Barnið og keisarinn. Hvers er valdið? En svo var annað boð sem barst, ekki frá Ítalíu heldur frá himnum. „ …ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: „Yður er í dag frelsari fæddur…“ Þetta boð heyrðist ekki um alla heimsbyggð, enginn varð að hlaupa til með konu sína vanfæra. Þetta boð átti enga skattgleði að baki, studdist ekki við hersveitir til að framfylgja því. Þetta himinboð var algerlega ólíkt heimsboðinu sem neyddi iðnaðarmann að fara langan veg með þungaða konu með sér. Lífi hennar og þunga var ógnað. Um það var þó ekki spurt í Róm eða hvort einhverjum þætti Rómarboðið óþægilegt hvað þá lífshættulegt. Boðskapur himins var ólíkur, því það var boðskapur um gleði, loforð um lausn og hjálp.

Tvö boð, tvenns konar boðskapur. Hverjum átti að hlýða? Rómverjar og íbúar skattlandanna voru ekki í vafa um hvoru boðinu ætti að hlýða. Rómarhöfðinginn átti sem næst algert vald. En koma og boð barnsins er uppgjör við allt vald heimsins, rómverskt og annað ytra vald. Guðspjall þess gengur þvert á boðskap vopnaðs friðar og efnislegra hagsmuna.

Heimsveldið forna er löngu fallið, vald skattpíningar, vígbúnaðar, kúgunar minnihlutahópa og vaxandi örvænginar hinna vitru. Keisarinn sem var tignaður sem Guð er löngu gleymdur nema vegna þess eins að boð hans varð til að barnið fæddist í Bethlehem en ekki í Nasaret. Ástæða þess var þetta skattboð þessa tiltekna Ágústusar. Dýrðartími Rómar er liðinn. Ferðalangar sjá aðeins leyfar af Colosseum, Forum og Capitolium. Mörgum er þessi forni heimur aðeins rammi um sögu Betlehemsveinsins.

Hvers er valdið? Og hvað er raunverulegt vald? Er það að stjórna peningastofnunum, peningahreyfingum, peningaflæði heimsins? Er það að stýra pólitískum kerfum veraldar? Eða er valdið í höndum barns sem heilsar heimi varnarlaust og áhyggjulaust. Er þetta barn sá sem um var sagt: „Yður er í dag frelsari fæddur.“

Altari himinsins

Ágústus reisti frægt altari – friðaraltari sem enn er hægt að sjá í Róm. Hver maður – karl eða kona – sem lifir vel reynir að vinna með sálardýptir sínar svo að sálaraltarið sé fagurt og hreint. Verkefni hvers manns er að taka afstöðu til valds, verkefna og tilgangs.

Okkur berast ekki aðeins boð frá Róm og ofan af himnum. Til okkar er stöðugt kallað frá samkeppnisaðilum veraldarinnar. Öll máttarvöld vilja umvefja okkur með valdi sínu, njóta fjármuna okkar og tilbeiðslu. Hverju þeirra lýtur þú? Hvert er mál þíns hjarta? Hver er dýpsta von þín? Hvert er altari þitt og hvaða valdi lýtur þú?

Hvaða vald gefur frið, von og gleði? Það er valdið sem gefur líf.

Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda – svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda Amen.

Neskirkja, 26. desember, 2. í jólum, 2013

Textaröð: A

Lexía: Jes 9.1-6


Sú þjóð, sem í myrkri gengur,
sér mikið ljós. 
Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna
skín ljós. 
Þú eykur stórum fögnuðinn, 
gerir gleðina mikla.
 Menn gleðjast fyrir augliti þínu
 eins og þegar uppskeru er fagnað,
 eins og menn fagna þegar herfangi er skipt.
 Því að ok þeirra,
klafann á herðum þeirra,
 barefli þess sem kúgar þá
 hefur þú brotið í sundur eins og á degi Midíans.
 Öll harkmikil hermannastígvél
 og allar blóðstokknar skikkjur 
skulu brenndar 
og verða eldsmatur.
 Því að barn er oss fætt, 
sonur er oss gefinn. 
Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla, 
hann skal nefndur:
 Undraráðgjafi, Guðhetja, 
Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi. Mikill skal höfðingjadómurinn verða
og friðurinn engan enda taka
á hásæti Davíðs
og í ríki hans. 
Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti,
 héðan í frá og að eilífu.

Pistill: Tít 2.11-14

Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Hún kennir okkur að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum, í eftirvæntingu okkar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni. Hann gaf sjálfan sig fyrir okkur til þess að hann leysti okkur frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.

Guðspjall: Matt 1.18-25


María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman reyndist hún þunguð af heilögum anda. Jósef, festarmaður hennar, sem var valmenni, vildi ekki gera henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey. Hann hafði ráðið þetta með sér en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: „Jósef, sonur Davíðs, óttast þú ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda. Hún mun son ala og hann skaltu láta heita Jesú því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum hans. “
Allt varð þetta til þess að rætast skyldi það sem Drottinn lét spámanninn boða: „Sjá, yngismær mun þunguð verða og fæða son og lætur hann heita Immanúel,“ það þýðir: Guð með oss.
Þegar Jósef vaknaði gerði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín. Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS.