Bolli B. Thoroddsen – minningarorð

Hvernig er hægt að hagræða sem best, auka framleiðni og bæta launin? Það var Bolla áhugaefni. Hann var helsti sérfræðingur Íslendinga í hagræðingarmálum og virtur vegna þekkingur á þeim málum. Honum var treyst af aðilum vinnumarkaðarins og hann lagði sitt af mörkum til þróunar launakerfa.

Hvað er rétt og hvað er gott? Hvert er manngildið, hvað ber hverjum og hvað er rétt gjald fyrir vinnu? Bolli Bollason Thoroddsen var umhugað um réttlátt þjóðfélag og allir fengju laun í samræmi við það sem sanngjarnt væri.

Elska og trúfesti

Réttlæti hefur á öllum tímum verið stefnumið og fyrir því hefur verið barist. Í Gamla testamentinu er ljóst að enginn friður verður án réttlætis – og það er íhugunarverð kenning. Í Davíðssálmum eru jafnvel kúnstugar lýsingar á tengslum friðar og réttlætis og að elskusemin sé félagi þeirra: Í 85. Davíðssálmi segir:

Elska og trúfesti mætast,

réttlæti og friður kyssast.

Trúfesti sprettur úr jörðinni

og réttlæti horfir niður af himni.

Þá gefur Drottinn gæði

og landið afurðir.

Réttlæti fer fyrir honum

og friður fylgir skrefum hans.

Bolli hefði getað haft gaman af þessari lýsingu og einnig verið samþykkur – að til að friður gæti haldist þyrfti réttlæti einnig að fylgja með. Og hvenær fær réttæti að blómstra nema þegar mönnum er sýnd virðing og umhyggja er iðkuð.

Þessi samfélagssýn og síðar áhersla Jesú á elskusemi varð grundvöllur mannréttindasáttmála vestrænna samfélaga, hefur alið mannsýn jöfnuðar, og hvatt til að allir menn séu virtir vegna manngildis og vinna þeirra jafnframt metin réttilega til launa.

Í viskubókum okkar Íslendinga var jafnan minnt á þessa réttarhugsun og siðfræði. Í Vídalínspostillu, sem lesin var um aldir á íslenskum heimilum, minnti prédikarinn oft á að gætt skuli að réttlæti – að friður skuli tryggður með heilindum og að allir njóti gildis síns sem Guð hefur gefið öllum. Og réttlætið horfir niður af himni segir í þessum sálmi. Guð horfir til manna og biður um að menn virði eigindir mennskunnar, svo rétttlæti og friður megi kyssast og elska og trúfesti mætast. Þessi mannsýn var arfur Bolla, það var vinnuhlutverk hans að tryggja að kerfi yrðu bætt og vel yrði hagrætt til að einstaklingar og samfélag fengju notið.

Uppruni, menntun, vinna

Bolli Bollason Thoroddsen fæddist í Reykjavík í mars árið 1933. Foreldrar hans voru Bolli Skúlason Thoroddsen, bæjarverkfræðingur, og kona hans Ingibjörg Tómasdótttir, húsmóðir. Alsystkini Bolla voru Gríma og Þorvaldur, sem bæði eru látin. Foreldrar Bolla skildu og Bolli eldri kvæntist síðar Unu Kristjánsdóttur og eignuðust þau Skúla, sem er lögfræðingur.

Bolli Bollason Thoroddsen átti sitt upphaf í Vesturbænum. Þegar seinni heimsstyrjöldin skall á var hann sendur úr bænum – eins og mörg önnur börn til að tryggja að þau lentu ekki í árásum eða í stríðseldi. Bolli fór til föðursystur sinnar, Maríu Skúladóttur, í Vík í Mýrdal. Bolli sótti barna- og unglinga-skóla í Reykjavík og fór svo í Menntaskólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi árið 1954. Á þeim árum bjó Bolli á Miklubraut í skjóli fóður síns. Þeir frændur Jón Thor Haraldsson, gjarnan nefndur Snúlli, deildu herbergi á þeim gleðilega stað sem nefndur var Bellmannkjallarinn.

Bolli hóf nám í læknisfræði en hætti svo og starfaði sem landmælingamaður hjá Raforkumálaskrifstofu ríkisins, drakk í sig dýrmæti náttúru Íslans, lærði að meta undur hálendisins og eignaðist í samstarfsmönnum sínum ævifélaga.

Bolli mældi ekki aðeins land heldur hafði áhuga á að mæla vinnu, meta ferla og kerfi. Hann fór til náms í vinnuhagræðingu og sótti þekkingu bæði til Norðurlanda og Bretlands og varð hagræðingaráðunautur Verkamannasambands Íslands á árunum 1964-71.

Störf hans voru metin mikils og hann var fenginn til þjónustu Alþýðusambands Íslands og veitti einnig um tíma forstöðu fræðslustarfi sambandis, Félagsmálaskóla alþýðu. Í tengslum við það starf fór Bolli víða um landið og sinnti ráðgjöf og fræðslu. Bolli hafði mikil áhrif á nútímavæðingu vinnumats, t.d. varðandi uppmælingu og ýmsa þætti vinnuhagræðingar og endurskoðun launakerfa. Bolli lagði því margt til bóta varðandi “samkeppnishæfni” atvinnulífsins. Áður hafði mannlegi þátturinn oft verið sniðgenginn, hvatar til vinnu ekki greindir eða áhrif öryggis og fræðslu á vinnu. Með áherslu Bolla var meira farið að huga að fólki, hagsmunum þess og hvað gæti orðið til að örva, bæta og hvetja.

Bolli beitti sér fyrir að tekin yrðu upp vinnuhvetjandi launakerfi. Hann vildi líka að hugað yrði vel að aðstæðum, hollustuháttum og öryggi fólks í vinnu og þjónaði í nefndum Alþingis um þau vinuverndarmál. Og eftirlitskerfi voru sett upp í framhaldinu. Bolli er því einn af höfundum nútímavædds atvinnulífs og afkastahvetjandi vinnumenningar.

Fjölskyldan

Bolli eignaðist synina Emil og Helga. Mælingaferðir Bolla urðu ekki aðeins til að tölur voru settar á blað og kort urðu betri og til nota. Bolli hitti Oddrúnu Sigurðardóttur austur á Héraði og þau eignuðust soninn Emil árið 1956. Hún var frá Vallanesi og þar bjó Emil fyrstu árin – sem og á Egilsstöðum þar til þeghann kom suður til Reykjavíkur í skóla. Þá bjó hann hjá föður sínum. Emil er félags- og rekstrar-hagfræðingur að mennt. Kona hans er Katla Gunnarsdóttir, tækniteiknari. Synir þeirra eru Gunnar Atli og Oddur Áskell.

Árið 1960 kvæntist Bolli Ragnhildi Helgadóttur, sem lifir mann sinn. Hún er frá Sauðárkróki. Sonur þeirra Bolla er Helgi. Hann er  arkitekt. Kona Helga er Sigrún B. Bergmundsdóttir, sjúkraþjálfari. Þau eiga tvo syni einnig, þá Bergmund Bolla og Jóhannes.

Bolli og Ragnhildur hófu búskap á Miklubraut en fóru síðan til Oslo með Helga ungan. Þegar þau komu svo til baka keyptu þau sér íbúð í Álftamýri en byggðu síðar hús á Sæbraut 6 á Seltjarnarnesi. Þar bjuggu þau allt þar til heilsa brást þeim og hafa síðustu ár bæði notið skjóls og þjónustu á Grund við Hringbraut. Þar lést Bolli 18. júlí síðastliðinn – en Ragnhildur lifir mann sinn.

Eigindir

Bolli var maður margra vídda, tilfinningamaður og dulur. Hann var hjálpsamur og umhyggjusamur og gott að eiga hann að.

Bolli var maður náttúruupplifana. Ungur festi Bolli sér lóð í landi Fitja í Skorradal og byrjaði á að byggja bátaskýli. Hann  keypti sér alvöru eikarbát sem hægt væri að sigla til að skemma ekki upplifun og náttúruhljóð með vélarskellum. Hann byggði sér síðar sumarbústað á lóð sinni og þau hjón áttu þar athvarf og kyrrðarreit.

Bolli var tónelskur. Hann lærði að spila á píanó og varð góður píanisti. Hann bar ekki kúnst sína á torg en naut hins vegar að spila fyrir sjálfan sig, leyfa tónlistinni að flæða inn í gátt sálar, óma í hljómbotni hið innra og úthverfast svo í fingrum og þar með hljómum. Tónlistin varð honum því eigin sálgæslufarvegur.

Bolli var virtur í störfum sínum, virtur bæði í héraði, í Alþýðusambandinu og meðal þeirra sem hann átti samskipti við. Hann þótti faglegur, nákvæmur, röklegur og sanngjarn. Því var honum treyst. Þegar Bolli kvað upp úr um eitthvað í samningum eða álitaefnum vissu menn, hvorum megin borðs sem menn sátu, að hann fór jafnan með rétt mál. Því var borin virðing fyrir stefnu hans og rökum. Bónusdrottninar þjóðarinnar vissu að  Bolla mátti treysta, reynsla þeirra og skoðun hans fóru jafnan saman.

Bolli kvaddur

Bolli hefur skilað góðu dagsverki, hann hefur lagt sitt til að réttlæti og friður megi kyssast. Verkin hans lifa, kerfin hafa batnað og rök hans hafa dugað. Lífið brennur ekki upp í reyk gleymskunnar. Trúfesti sprettur úr jörðinni og réttlæti horfir niður af himni. Gæðin eru gefin, landið veitir, en mannanna er að vinna úr til góðs.

Og svo erum við á krossgötum, horfum á eftir góðum dreng. Eiginkona Bolla, synir, tengdadætur, afadrengir, bróðir, ástvinir og vinir horfa yfir móðuna miklu. Og hvað svo? Í spunatónlist Bolla var vídd sem ekki verður fyllilega skilin, hljómur hins stóra en ósagða og óræða.

Nú er hann algerlega horfinn inn í þá músík. Og þá er gott að mega sleppa og með trausti, geta trúað að í þeim mikla spuna sé farsæld og hamingja. Náttúran tjáir víddir, kyrran opnar dýptir, spuninn vísar á stórstef og mikla skipan. Í okkur öllum blundar djúp þrá eftir réttlæti og friði – og að undur lífsins sé ekki blekking heldur tilbriði við stef sem virkar. Og kannski megum við trúa að allt þetta sem við lifum sé hluti af mikilli verðandi sem sé kosmísk hagræðing. Hægt er að túlka boðskap Jesú sem stórkostlega tillögu að hagræðingu, réttlæti, mannvirðingu – og leiðréttingu. Og vel væri ef Bolli má í eilífðinni samþætta spunagetu sína og bónusskilning sinn í þágu himneskrar hagræðingar.

Guð geymi hann ávallt og eilíflega. Guð blessi minningu hans og Guð geymi þig.

Amen.

Minningarorð flutt í Neskirkju 29. júlí, 2013.