Unnur Þorsteinsdóttir

Þar sem Unnur var, þar ríkti gleði. Þegar hún kom í hús lifnaði yfir öllum og húsið fylltist glaðværð. Svo settist hún niður og hlátrarnir komu með góðum skilum, samræður lifnuðu og sögur flugu. Fólk kættist og svo ríkti gleðin. Þannig var það hér í kirkjunni. Unnur var hrókur alls fagnaðar. Þannig var það í vinahópum, og þannig var það í saumaklúbbnum. Unnur var kona gleðinnar, kona hins fagnaðarríka. Hún smitaði okkur hin og umvafði með kátínu og jákvæðni. Hún leitaði hins gleðilega og lífbætandi. 

Á skiladegi vitjum við hins jákvæða og gleðilega. Páll postuli ritaði til vina sinna í bænum Filippí í Litlu Asíu:

„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.”

Unnur þekkti þessi orð og hún hafði með ýmsum hætti lært að spegla þau.

Upphaf og samhengi

Unnur Þorsteinsdóttir fæddist 10. desember, árið 1917 og lést hinn 23. maí síðastliðinn. Hún var því á 91 aldursári er hún féll frá. Foreldar hennar voru hjónin Ragnhildur Benediktsdóttir og Þorteinn F. Einarsson, hún ættuð úr Rangárvallasýslu og hann úr Árnessýslu. Unnur var þriðja barn þeirra hjóna, elstur var Guðmundur, og síðan kom Sigríður. Yngri voru Benedikta, Einar og Ingólfur sem dó ungur. Benedikta ein lifir systkini sín. Unnur og þau hin áttu upphaf sitt í Efri Brekku við Drafnarstíg í Reykjavík. Þar bjuggu þau fyrst en fóru svo þegar húsasmíðameistarinn faðir þeirra hafði byggt á Holtsgötu 16. Síðar fluttust þau svo um set og fóru yfir á nr. 37 við sömu götu.

Unnur sótti skóla í Miðbæjarbarnaskóla en fór síðan í Ingimarsskóla. Síðan tók lífið hana í fang sér og hún naut æsku, fjörs og lífs. Svo féll hún alveg fyrir listdansaranum frækna Jóni Bergsveinssyni, sem kom dansandi inn í líf hennar. Þau voru bæði góð á skautum og hittust á svellinu á Tjörninni, gengu svo um Kerlingafjöll, og skautuðu síðan saman í lífinu þar til hann féll frá fyrir aldur fram, aðeins 39 ára gamall, árið 1953. Jón vann í Burstagerðinni, var reglumaður, söngmaður og fangaði vel hláturmilda konu sína. Þau eignuðust tvö börn. Þorsteinn fæddist 1942 og Hildur kom í heiminn 1944. Þau voru foreldrum gleðigjafar og móðurinni lífssamhengi þegar hagir breyttust. Þorsteinn á þrjú börn uppkomin og sjö barnabörn. Hildur og hennar maður, Gunnlaugur Baldvinsson eiga líka þrjú börn og þeirra barnabörn eru sex. Af Unni eru því 15 afkomendur. Það er gleðilegt ríkidæmi.

Líf og vinna

Skömmu eftir að Jón féll frá fór Unnur til kaupmannahafnar og á Ríkisspítalanum var hjartað í henni stórbætt. En svo mæddi á henni móðurdauði líka. Ekki var nema ár á milli maka- og móðurmissis. Þegar bóndans naut ekki lengur flutti Unnur heim í foreldrahús með börnin sín og átti skjól hjá föður sínum, sem var henni mikilvægt á álagstíma. Hún fór að vinna í versluninni Helmu, álnavöruverslun upp á Þórsgötu. Þar var hún í nokkur ár. Síðar vann Unnur í minjagripaversluninni og lobbýinu á Hótel Sögu. Á Sögu réð Konráð frændi hennar ríkjum. Og um tíma vann hún í Breiðagerðisskóla.

Bjartur 

Síðari manni sínum kynntist Unnur árið 1957. Hann hét Guðbjartur Þorgilsson og starfaði hjá Skeljungi. Hann átti tvær dætur. Þau Unnur og Guðbjartur nutu samvista í liðlega tvo áratugi, en Bjartur lést 1979. Fyrst bjuggu þau á Holtsgötunni, síðan á Unnarbraut 12 og fóru svo þaðan í Sörlaskjól. Þegar hún var orðin ein keypti Unnur sér íbúð á Hagamel en var svo síðast í Tjarnarbóli á Seltjarnarnesi. Vert er að geta hinna góðu granna hennar þar, þeirra Margrétar og Guðmundar, sem reyndust Unni afar vel. Unnur fór niður til þeirra og átti með þeim gæðastundir og oft eldaði Margrét fyrir hana og Guðmundur fór upp með matinn til Unnar. Fyrir hlýju og þjónustu þeirra vilja ástvinir Unnar þakka.

Gleðin

“Verið glöð,” sagði postulinn. “Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Verið ekki hugsjúk um neitt. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.”

Verið glöð. Unnur miðlaði gleðinni og fyllti tilveru sína og sinna með fegurð. Hún var listræn, fjölhæf húsmóðir, góður kokkur og bakari. Hún var gjafmild, elskuleg og gestrisin. Hún var mikil hannyrðakona, prjónaði af miklum krafti og kúnst, lopapeysur, húfur og sokka, seldi í Rammagerðina og tryggði að börnunum, sem henni voru vandabundin, varð ekki kalt í öllum plöggunum sem hún gaf þeim. Unnur veitti gleði í samskipti fólks, hún var umtalsfróm og talaði vel um allt fólk, enda hélst henni vel á vinum og margar af bestu vinkonum hennar eignaðist hún í bernsku og saman höfðu þær myndað saumaklúbb. En nú hefur sá klúbbur saumað sín síðustu spor og engar sögur eru lengur sagðar. Unnur var sú síðasta.

Tónlistin

Unnur naut hins fagra og leitaði í listir og naut margra vídda. Hún hafði gaman af leikhúsi og þær systur, Unnur og Benedikta, áttu fastan miða í Þjóðleikhúsinu. En líklega stóð tónlistin hjarta hennar næst. Hún naut tónlistar og músíkin lifði með henni þar sem hún var. Heima setti hún gjarnan plötu á fón eða disk í spilara og músíkin hljómaði. Það var gaman hér í kjallara kirkjunnar, þegar hún settist við píanóið og spilaði fyrir gamla fólkið eins og hún orðaði það. Margt af því var mikla yngra en hún. Það mátti alltaf treysta að Unnur léki undir sönginn. Og svo spilaði hún eitthvað fallegt þegar kaffið var framreitt. Og það var gaman að sjá til hennar, þar sem hún sat við hljóðfærið, alltaf búin sem drottning, glæsileg og vel til höfð.

Kirkjulífið

Unnur tók mikinn þátt í safnaðarlífi Nessóknar og var virk í kirkjulífinu. Hún var vinur sr. Franks M. Halldórssonar, fór í ferðalögin sem hann skipulagði og stýrði með miklum dug. Og hann var henni góður prestur og vinur og hún studdi það starf, sem hann og söfnuðurinn gekkst fyrir og þjónaði vel, ekki síst með tónlistariðkuninni. Vinafólk og ekki síst vinkonur hennar voru gjarnan tengdar kirkjunni. Unnur var dugmikill bílstjóri og það var gaman að fylgjast með henni þegar hún kom að kirkjunni. Bíllinn hennar var gjarnan fullur af glöðu fólki, sem kom út blaðskellandi og kátt og tók svo þátt í starfinu og okkur hinum til yndisauka og eflingar. Hún var selskapsmanneskja og á síðustu árum tók hún þátt í hinu öfluga félagslífi eldri borgara á Aflagranda.

Unnur þjónaði mörgum, ekki bara í orði, með háttvísi og hlýlegri framkomu heldur bjó til ævintýri. Ef hún ætlaði í Bónus fengu einhverjir að fljóta með henni og stundum var bara farið í Bónus í Keflavík og úr einfaldri innkaupaferð varð mikið ævintýri og gleðireisa. Unnur átti í sér þetta þrek til gleðinnar og framtakssemi fagnaðarins. Og er ekki mikilvægt að rækta með sér þetta einfalda, sem er ekkert sjálfsagt, æfa sig í gleðinni og lífsgæðunum. Í því var Unnur okkur öllum góð fyrirmynd.

Hrókur alls fagnaðar

Verið glöð. Unnur var gjarnan hrókur alls fagnaðar. Barnabörnin hennar nutu þessa og í minnum er haft þegar hún var með þeim austur í Fljótshlíð, á slóðum móður sinnar, reytti af sér skemmtilegheitin, sagði sögur af öllum bæjum og fólki. Og hún var vel tengd líka hér í bænum, kunni ókjör af skemmtilegum sögum af fólki og lagði gott til. Það þurfti ekki að draga úr Unni sögur og hún tengdi átaklaust og vissi um tengsl fólks þar sem við hin vorum blönk. Hún var því okkur prestunum mikill visku og þekkingarbrunnur.

Að sjá á bak vinum

Það hefur löngum verið hvað þungbærast við langlífi að sjá á eftir ástvinum, vinum og vandamönnum. Unnur lifði góðu lífi, naut margs, átti láni að fagna í flestu. Hún vildi gleði og líf, en þegar fór verulega að sneyðast um félagsskapinn, vinirnir flestir farnir, vinkonurnar dánar og systkinin flest einnig fóru lífsgæðin þverrandi. „Verið glöð,“ sagði postulinn. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Verið ekki hugsjúk um neitt. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.

Efsta Brekka

Hlátrarnir hennar Unnar fylla ekki tilveru okkar lengur. Hún segir engar góðar og lífgefandi sögur meir. Hún ekur ekki fólki lengur til skemmtilegra mannfunda og efnir ekki til ótrúlegra Bónusferða, með viðkomu í öðrum sóknum. Hvað var nú það skemmtilegasta, sem þú manst eftir í fari hennar? Rifjaðu upp og fagnaðu svolítið innan í þér, leyfðu öllu þessu góða að lifa. Lærðu af henni, að iðka hið gæfulega, skemmtilega og lífgefandi. Æfðu þig í gleðimálum. Verið ávallt glöð, já iðkið ljúflyndi, látið ekki neitt sýkja hugann. Af hverju? Vegna þess að grunngerð þessarar tilveru er góð en ekki ill, gleðileg en ekki harmþrungin. Frumsaga kristninnar er um, að lífið er gott og eilífðin jafnvel enn betri. Frumsagan er ekki um, að Guð flýr veröldina, heldur kom inn í hana til að bæta hana, efla, frelsa og veita hlátri og gleði inn í mannheim. Jesús var maður gleðinnar, Páll postuli skipar fólki að gleðjast. Og Unnur var alveg til í að taka þátt í þeirri miklu skemmtun sem lífið býður til. Og hvað svo: Jú, lífið faðmar eilífð í guðlegum gleðidansi. Í gömlum húsgangi segir að heimurinn sé sem hála gler og við skyldum hugsa um það sem á eftir fer. Það gerði Unnur. Hún skautaði gleðilega og svo megum við trúa því að hún sé komin ekki bara í Efri Brekku heldur efstu brekku himinsins. Það er staður fagnaðar og gleði. Og í því er fegurð og fögnuður trúarinnar fólginn m.a. að við megum vænta þess að Unnur hitti þar fyrir sitt fólk, sé í miðju fagnaðarins, þar ríki hlátur og gaman. Himnaríki er ekki til án gleði.

Góður Guð varðveiti Unni Þorsteinsdóttur um alla eilífð. Góður Guð varðveiti þig og efli lífsgleði þína. 

Neskirkja, 29. maí, 2008.