Laufey S Guðjónsdóttir – minningarorð

Laufeyjartraustið stórkostlegur vitnisburður, sem við megum hrífast af og læra af. Nú sefur hún ekki aðeins undir myndinni af Jesú, heldur vakir glöð í Jesúhimninum. Útför Laufeyjar var gerð frá Neskirkju, 10. desember. Minningarorðin eru hér á eftir.

Festan í lífinu

Hvað er traustins vert í lífinu? Hvað veldur öryggi hið innra? Þeir tímar, sem við lifum þessar vikurnar, reyna á einstaklinga og þjóð okkar. Ein auglýsingin sem hljómaði í nokkur ár varðaði: “…öruggan stað til að vera á.” Já, í hvaða stöðu erum við, ert þú?

Laufey Guðjónsdóttir vissi alveg hver hennar öruggi staður var, í hvaða samhengi hún lifði og í hvaða aðstæðum hún vildi vera. Flest í lífinu var bundið við festu, lífsskoðanir, húshald, tengslin við fólk, hjúskapur og stjórnmálaskoðanir. Hún gat ekki hugsað sér að sofna á kvöldin annars staðar en undir myndinni af Jesú á bæn í garðinum Gesemane. Þar gat hún örugg hvílst, endurnærst og vaknað til nýs dags, til nýs lífs, nýrrar og góðrar tilveru.

Laufey var ekki ein um að líða vel í Jesúskjólinu. Mennska okkar er m.a. fólgin í, að við þörfnumst ramma um lífið, við leitum lífsskýringa til að gefa óreiðu lífsins merkingu, við þörfnumst samhengis tímans í þessum stóra faðmi eilífðar, haldreipis gagnvart skammæji alls sem er, faðms sem grípur okkur þegar sjúkdómar og áföll dynja yfir – já við þörfnumst Guðs í lífinu, bæði fyrir gleði- og sorgarstundir, til að vera örugg um ástvini okkar, sem eru slitnir frá okkur, til að festa tryggð við þegar eignirnar sviptast til og hverfa í svelg eyðingarinnar. Fólk aldanna opnar og biður og Biblían svarar með því sem traustins vert, orðum sem hugga syrgjandi – orði Guðs, sem er persónan Jesú, sem var svo fullkomlega opinn gagnvart Guði, að lífið spratt fram í gerðum hans, tali og elsku og hefur spannað tilveru mannabarna allar götur síðan. Undir mynd Jesú – þar sofnaði Laufey, þar leið henni vel. Í þeim veruleika lifir hún nú.

Í Jobsbók segir: „Guð veitir þeim öryggi og þeir fá stuðning og augu hans vaka yfir vegum þeirra” (24:23).

Æviágrip og stiklur

Laufey Sæbjörg Líndal Guðjónsdóttir fæddist 3. september árið 1917 og lést 28. nóvember, 91 árs að aldri. Foreldrar hennar voru Guðjón Líndal Jónsson og Guðrún Þorsteinsdóttir, hann úr Flóanum og hún fædd í Stokkseyrarhreppi. Laufey var næst-yngst 6 systra. Tvær hálfsystur sammæðra voru elstar. Þær eru Ingibjörg og Þórlaug Símonardætur. Alsystur Laufeyjar voru Margrét, Guðrún Ingibjörg var næst og yngst var Þorsteina Svanlaug. Laufey lifði lengst og nú eru allar systurnar látnar. Guð geymi þær og verndi.

Þrátt fyrir sunnlenskan uppruna foreldranna kom Laufey í heiminn norður á Siglufirði, en fór ung suður með fjölskyldunni til Reykjavíkur, ólst þar upp, sótti skóla, naut bæjarlífsins, en þurfti líka bæði fyrir lífi og þroska að hafa.

Það er íhugunarvirði, að Margrét, systir hennar, varð ekki nema sjö ára. Hún lést á aðventunni 1921 þegar Laufey var fjögurra ár. Fráfall eldri systur á viðkvæmum aldri hefur vitaskuld skotið skugga yfir fjölskylduna og þar með Laufeyju. Hvert er öryggið, hvar er það? Svo varð hún sjálf fárveik, fékk lungnabólgu á svipuðum aldri og Margrét hafði dáið.

Í fjölskyldu Laufeyjar hefur varðveist saga um kraftaverkið, bænir lækningakonunnar Margrétar frá Öxnafelli, vitjun læknis að handan og furðulegan viðsnúning þegar sóttin var að buga ungan líkama. Hvað er skjól, hvar er hjálp og lækning? Laufey lifði en systir dó. Var nema eðlilegt, að Laufey væri næm á hverfulleika lífsins og vissi hversu þunnur lífsþráðurinn er? Hún las gjarnan bækur með trúarlegu vonarívafi og var ekki verra ef einhver jákvæð skilaboð handan yfir mærin miklu bárust lifendum hérna megin grafar. En þar sem Laufey mat hin æðri gildi varð hún einnig næm á hið fagra og bjarta, hneigðist til uppheima ljóðlistar og hafði mætur á góðmeti sr. Matthíasar Jochumssonar og Jónasar Hallgrímssonar. Eins og hennar kynslóð lærði hún ljóð í bernsku. Síðasta ljóðið, sem hún ræddi um við Guðjón, son sinn, var kvæði Vatsnendarrósu um augun mín og augun þín  – og þú veist hvað ég meina.

Laufey var námfús og bókelsk alla tíð og nýtti vel bókasafnið á Nesinu. Hún var áhugakona um nám og skóla, fylgdist vel með sínu fólki og hvað það lærði og hvert það fór. Hún kunni jafnvel að gæðagreina háskóla.

Laufey var ekki aðeins bókneigð heldur líka tónelsk. Hún lærði á orgel í æsku hjá meistaranum Páli Ísólfssyni og hélt við kunnáttu sinni. Í fjölskylduskírn í Dómkirkjunni kom organisti ekki og þá skaut Laufey sér inn á bekkinn við orgelið og spilaði. Í fjölskyldusamkvæmum söng hún gjarnan og rödd hennar hljómaði svo fagurlega, að minningin festist í huga barnanna. Raddgæðin hafa erfst Sigurður Már, sonarsonur Laufeyjar hefur þessa miklu og fallegu rödd, eins og við höfum heyrt í þessari athöfn.

Gísli og heimilið

Alla tíð var Laufey glæsileg kona, líka þegar hún var tæplega níræð þegar ég hitti hana fyrst. Hún sinnti heilsurækt sinni vel og gætti að því að eldast ekki framúr sjálfri sér! Hún gekk bein baki í lífinu og smekkvísin bilaði ekki.

Það var ekki undarlegt, að Gísli S. Magnússon frá Bíldudal skyldi festa augu á henni. Þau kynntust á miklum umbrotatímum, heilluðust af hvoru öðru og gengu í hjónaband í ársbyrjun 1941. Hjúskapur þeirra var góður, þau héldu hvoru öðru ungu, höfðu einarða lífsafstöðu, voru drífandi, hugumstór, kát og eflandi.

Fyrstu árin bjuggu þau fyrir vestan, á Bíldudal, á heimaslóð Gísla þar, sem þau byggðu sér hús og gerðu sér heimili.

Synir – afkomendur

Þau eignuðust tvo syni, Magnús Heimi og Guðjón Má. Magnús lést fyrir tveimur og hálfu ári. Hann átti tvö börn, Gísla Þór og Sif Eir. Synir Guðjóns Más og Elnu Sigrúnar, konu hans, eru Sigurður Már og Birgir Þór. Langömmubörnin eru fimm. Allt þetta fólk hefur gefið Laufeyju ramma öryggis og tilgangs í lífinu. Þökk sé ykkur fyrir allt það, sem þið hafið verið henni. Þökk sé einnig þeim, sem hafa lagt Laufeyju gott til fyrr og síðar, einnig á síðustu Grundarárum hennar.

Breytingar og lífshættir

Styjaldarárin voru Íslendingum erfið. Íslendingar misstu hlutfallslega fleiri í sjósköðum en flestar þjóðir í stríðum. Margir vinir þeirra Laufeyjar og Gísla fórust þegar Þormóður frá Bíldudal fór niður. Áfallið var til að losa um þau fyrir vestan og þau slitu upp rætur. Þau fóru suður í lok stríðsins og byggðu á Grenimel 14 með bróður Gísla og fjölskyldu hans. Þar bjuggu þau hátt í fjóra áratugi, en fluttu þá vestur í Granaskjól.

Laufey var alla tíð drífandi forkur. Heimilið bar vitni um natni hennar, nákvæmni og alúð. Laufey fór vel með það, sem hún átti, og vildi hafa heimili með gæðum og þokka. Gísli var dverghagur og henni samstiga og þau hjón lögðu saman til góðs höfðinglegs heimilsbrags.

Gísli hafði ofan af fyrir ungviðinu með skemmtisögum og stundum glenntu þau upp augun yfir öllum furðunum, sem komu upp úr honum. Svo lagði Laufey gott til, sagði sannar sögur, en skemmtisögur líka, las jafnvel kónga- og drottningasögur úr dönsku blöðunum á rúmstokknum. Svo kenndi hún börnunum bænir til að stemma lífið og gefa því gott samband.

Vinna og eigindir

Laufey vann utan heimilis þegar tími gafst til. Á yngri árum afgreiddi hún í verslunum og eftir miðjan aldur vann hún t.d. hjá BÚR.

Laufey var hreinskiptin, hún var stefnuföst í samskiptum og ákveðin í lífsmálum. Eins vel og hún var tengd veröldinni í hinu ytra var hún jafnopin gagnvart hinu innra. Hún var berdreymnin og átti ekki í neinum erfiðleikum að tengjast dýpri víddum og handanverunni. Næm var hún og um sumt dul.

Fráfall Gísla hafði mikil áhrif á hana og sonarmissir var henni annað reiðarslag. Eftir það fór að halla undan hjá henni, hún flutti á Grund og fannst eins og lífi sínu væri að ljúka. Hún gerði sér fulla grein fyrir skilunum, sem voru að verða, og hún óttaðist ekki framhaldið. Hún kvaðst hafa lifað góðu lífi og gjöfulu. Hún var þakklát fyrir það, sem hún hafði notið og hennar þakklæti er mætt með þökk sonar, afkomenda, tengdafólks og vina.

Vakir yfir vegum þeirra

Vitringurinn Job, margreyndur og prófaður, vissi og tjáði að: “Guð veitir þeim öryggi og þeir fá stuðning og augu hans vaka yfir vegum þeirra.” Öryggi Laufeyjar var algert, hún átti sína festu, bakland og framland, veruleika og von í Guði. Hún hafði misst eins og Job, hún hafði skynjað samhengi sitt í veröldinni og sál hennar var hert í eldi reynslunnar. Hún var örugg undir myndinni af Jesú.

Laufey hefur lifað, þjónað þér og þínum, verið þér gæfukona. Dragðu heim til þín minningar um það, sem varð þér til gleði og gæfu. Og íhugaðu vendilega hennar visku, hennar svör við grunnálagi lífsins. Hvað er þitt öryggi? Þegar traust í samfélagi Íslendinga er rofið á svo mörgum póstum í nútíðinni er Laufeyjartraustið stórkostlegur vitnisburður, sem við megum ekki aðeins hrífast af heldur læra af.

Nú sefur hún ekki aðeins undir myndinni af Jesú, heldur vakir glöð í Jesúhimninum. Hún vissi, að hún myndi finna þar fyrir fólkið sitt, Gísla, Magnús, systurnar allar, pabba og mömmu, stórfjölskylduna. Trúin gefur samhengi, stækkar veröldina og veitir öryggi.

Guð geymi Laufeyju S. Guðjónsdóttir um alla eilífð. Guð geymi þig.

Minningarorð, 10. desember, 2008. Útför fór fram frá Neskirkju og jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Æviágrip

Laufey Sæbjörg Líndal Guðjónsdóttir fæddist á Siglufirði 3. september 1917 en fluttist ung að árum með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur þar sem hún ólst upp. Hún lést föstudaginn 28. nóvember síðastliðinn á Dvalarheimilinu Grund í Reykjavík. Síðustu tvö árin dvaldi hún á Grund en lengst af bjó hún á Grenimel 14  og síðar í Granaskjóli 80 í Reykjavík.

Foreldrar hennar voru hjónin Guðjón Líndal Jónsson, f. 20. september 1883 í Oddgeirshóla-Austurkoti í Flóa, d. 19. desember 1960, og Guðrún Þorsteinsdóttir, f. 6. janúar 1883 í Breiðumýrarholti í Stokkseyrarhreppi, d. 15. mars 1962. Hálfsystur Laufeyjar voru Ingibjörg Símonardóttir, f. 23. nóvember 1906 á Sauðárkróki, d. 27. mars 1975 og Þórlaug Símonardóttir, f. 6. mars 1909 á Siglufirði, d. 3.nóvember 1972. Alsysturnar voru Margrét, f. 15.nóvember 1914 í Reykjavík, d. 19. desember 1921 á Siglufirði, Guðrún Ingibjörg, f. 6. janúar 1916 á Siglufirði, d. 11. júli 1999 og Þorsteina Svanlaug, f. 12. ágúst 1919 á Siglufirði, d. 21. mai 2001.

Hinn 11. janúar 1941 giftist Laufey Gísla S. Magnússyni, f. 10. desember 1912 á Bíldudal, d. 25.mars 2001. Þau bjuggu á Bíldudal og í Reykjavík. Gísli og Laufey eignuðust tvo syni. Þeir eru: 1) Magnús Heimir Gíslason, f. 17. apríl 1941 á Bíldudal, d. 3. mars 2006. Sonur hans og Rósu Sigvaldadóttur, f.11.janúar 1947 er Gísli Þór, f.11.október 1969. Magnús kvæntist Lilju Sólrúnu Halldórsdóttur, f. 24.mars 1945 og er dóttir þeirra Sif Eir, f.5.nóvember 1971. 2) Guðjón Már Gíslason, f.8.nóvember 1950 í Reykjavík, kvæntur Elnu Sigrúnu Sigurðardóttur, f. 27. mai 1945. Synir þeirra eru: Sigurður Már, f. 14. janúar 1976 og Birgir Þór, f. 5. Júlí 1982.

Langömmubörnin eru Alexander Leonard, f. 10. október 1997, Urður Helga, f. 15. júní 1999, Mikael Máni, f. 26.júní 2000, Hákon Orri, f. 27. febrúar 2003 og Sóllilja Andrá, f. 30. apríl 2008.