Baldur Jónsson – minningarorð

Matthías Jochumsson hreifst af nítugasta Davíðssálmi og umorti. Lofsöngur Matthíasar varð síðar íslenski þjóðsöngurinn. Í Davíðssálminum segir: “Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.”

Lífið, tíminn, verðandi veraldar og íslensk saga kalla: “Kynslóðir koma, kynslóðir fara” – og minna svo á annað líka – hvað er – og hefur verið – athvarf frá kyni til kyns. Börn fæðast, þrá og dreymir, vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná ekki þroska. Og ívaf sögu okkar allra er hið sama: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Sagan verður þrungin og þykk þegar forgengileikinn er numinn og framlag manna er skoðað.

Lofstír manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, lífsblöðin sem nú lifna – “hverfið aftur…” Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og biðjum bænina: “Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?” Allt sem er í þessum heimi er fagurt, undursamlegt en þó markað forgengileika, takmarkað.

Uppruni og ætt

Baldur Jónsson fæddist 6. september árið 1926. Hann var elsti sonur Ólafar Bjarnadóttur (1895-1988) og Jóns Hallvarðssonar (1899-1968). Báðum megin eru öflugir frændgarðar, mikið hæfileikafólk og mannval. Systkini Baldurs eru Bjarni Bragi, Sigríður og Svava og Bjarni Bragi lifir einn systkini sín.

Fyrstu árin bjó Baldur í stórfjölskylduhúsinu á Kárastíg 11 í Reykjavík. Síðan fór fólkið hans til Vestmannaeyja árið 1932 og Baldur var orðinn nægilega áttaður til að sjá nýja veröld og horfa á hana opnum augum og með vitund. Pabbanum var síðan veitt sýslumannsembætti í Stykkishólmi og þar bjó fjölskyldan til ársins 1941 er hún flutti til Reykjavíkur.

Uppvöxtur og mótun

Þroskasaga Baldurs varð snemma sérstök. Hann vakti aðdáun og eftirtekt sem barn. Hann var talinn fríður, skýr og skemmtilegur í tali. Hann naut þess að baða sig í ljóma aðdáunar og þótti súrt að missa athygli þegar systkinin bættust við. Baldur tók til að við að stýra þessu yngra liði, gerði tilraunir með stjórnunarhætti sem aðeins brýndi þau stuttu og hvatti til dáða. Síðan atti Baldur bróður sínum fram fyrir sig og það varð til að tengja Bjarna Braga við umheiminn – en kannski líka samtímis að fjarlægja hann sjálfan og inn í eigin heim?

Íhuganir mínar hef ég frá Bjarna Braga Jónssyni og hann getur þess í ritaðri hugleiðingu um Baldur, bróður sinn, að á barnsaldri hafi hann leitað athvarfs í undarlegum, innhverfum látbragðsleik með blýant. Hendur hans skiptust á að halda á blýantinum og væri Baldur truflaður í leiknum varð hann feiminn, en vildi ekki skýra í hverju þessar handaskiptingar væru fólgnar og hvað þær merktu. Var hann að hverfa æ meir inn í eigin heim í stað þess að tengjast sameiginlegri veröld manna og sköpunarverks? Voru þetta vitnisburðir um einhverfu á einhverju stigi? Það vitum við ekki og getum ekki annað en íhugað og getið í eyður.

Mál

Baldur náði ágætum málþroska en hafði enga þörf fyrir að nýta sér málhæfni í hópum og á mannfundum. Hann ræktaði sitt með sjálfum sér, lifði tilfinningabylgjur hið innra, en bjó við nokkuð einbeitingarleysi og varð fælinn á sumt í mannfélagi, t.d. hitt kynið. Blíðuhót karls og konu átti hann t.d. erfitt með að horfa á.

Eftir að Baldur lauk fullnaðarprófi í Hólminum hélt hann suður – og á undan sínu fólki. Hann byrjað í gagnfræðaskóla. Sr. Jakob Jónsson í Hallgrímssöfnuði hreifst af atgervi Baldurs og bað hann um að flytja ræðu um friðarboðskap kristindómsins á ungmennasamkomu. Það voru orð í tíma töluð á upphafsárum seinni heimsstyrjaldar. Á þeirri samkomu byrjaði og lauk Baldur eiginlega tveimur þáttum lífsins, opinberri ræðumennsku og trúartjáningu. Eftir þetta talaði hann ekki opinberlega og fór síðan nokkuð á svig við arfbundinn kristindóm einnig.

Fé og nám

Guðrún, frænka Baldurs, studdi drenginn til festu og reglu. Vegna vinnu Baldurs á unglingsárum safnaðist honum fé á bók. En þegar Baldur fékk nokkru ráðið – og Guðrún minna – gekk hratt á sjóðinn. Samgangur og eftirlátssemi við slarkfengna vini urðu síðan til að girða fyrir fjárhagslegt sjálfstæði hans æ síðan.

Þegar Baldur hafði lokið Ingimarsskóla fór hann í þriðja bekk MR. Var Baldur nokkuð á eigin vegum bæði í námi og lífi á þeim árum. Hann las ekki kerfisbundið eða skipulega og gaf sig ekki að marki heldur að félagsstörfum. Guðrún frænka hafði nokkrar áhyggjur af og deildi þeim með rektor og foreldrum. Hún tók Baldur í gjörgæslu og hann lauk stúdentsprófinu árið 1946, á eitt hundrað ára afmæli skólans.

Innri glóð og rithneigð bjó í Baldri. Alla tíð var hann bókhneigður og las gjarnan fagurbókmenntir. Ungur ól hann með sér draum um ritstörf. Eina ritgerð birti hann í skólablaðinu og hét hún “Ástin sigraði.” Þá skrifaði hann ítarlega ferðasögu stúdentsárgangsins um för nýstúdentanna um Skandinavíu og Færeyjar. Frásögn hans var svo prentuð í hátíðarútgáfu Skólablaðsins í október, sama ár og hann útskrifaðist. En þó Baldur birti ekki ritverk sín opinberlega síðan hélt hann skrifum áfram og ritaði íhuganir sínar í kompur og stílabækur, skrifaði niður drauma sína, afstöðu til samfélagsmála, langanir og það sem honum datt í hug. Ritunarháttur hans minnir helst á það sem bloggarar samtíðar aðhafast. En tíð Baldurs leyfði lítt meira en kompur, en nú er hægt að birta allt á æðaveggjum veraldarvefsins. En Baldur var ritandi ljósvíkingur og kannski andlega skyldur frænda hans Magnúsi Hjaltasyni, fyrirmynd Laxness að Ólafi Karasyni. Sumt af kompum hans glötuðust en þyrfti að varðveita hitt og leyfa einhverjum að greina. Samanburður við nútímablogg væri áhugavert masters- og kannski doktorsverkefni framtíðar!

Námslok, vinna og líf

Eftir stúdentspróf hóf Baldur læknisnám, lauk forspjallsvísindum, en hætti svo læknisnámi. Gekk á ýmsu hjá honum í atvinnumálum og var honum ekki sýnt um að marka sér bás eða skýra stefnu. Um tíma lagði hann fyrir sig kennslu, norður á Geitaskarði í Húnaþingi, og í Grundarfirði. Þar lagði hann m.a. til að framhaldsskóli yrði stofnaður. En í því var hann fullkomlega á skjön við smærra þenkjandi samferðamenn og “hagsýni” þeirrar tíðar. Það var ekki fyrr en á síðustu árum, sem hugmynd Baldurs hafði spírað nægilega vel til að eitthvað yrði úr og nú er rekinn metnaðarfullur og nútímalegur framhaldsskóli í því plássi.

Í nokkur ár vann Baldur í fiskvinnslu, einkum eða eingöngu í Grindavík. Líf í fiski varð Baldri hugleikið og í mörg ár vann hann við fiskirækt í sumarparadís fjölskyldunnar á Seljum. Um árabil bar iðja hans góðan ávöxt og laxastofninn sem hann kom upp gaf árangur, en hnignaði þegar seiðsleppingu lauk. Af laxinum og veiðiskapnum hafði Baldur tekjur og unað af sambúð með náttúrunni. Og hann naut líka heimsókna vina og kunningja, sem sóttu í dýrðina á Mýrunum.

Eftir að Jón, faðir hans, féll frá árið 1968 varð móðirin hans helsta stoð. Baldur gat alveg tjáð henni þakklæti fyrir elskusemi og umhyggju. Hann færði henni blóm á tyllidögum og naut hennar í mörgu til 1988, þegar hún lést. Þá var Baldur metinn til örorku og fékk aðstöðu í húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar. Þegar Baldur var orðinn sjötugur kom veruleg heilabilun í ljós við vistunarmat. Hann þekktist vistun á Kumbaravogi á Stokkseyri í október 1999. Þar var hann allt til loka, með nokkrum hléum og nokkrum Reykjavíkurferðum. Síðustu árin dró af honum og hann varð linur til gangs fyrir um tveimur árum, líkamsheilsa hans tók að versna og undir lokin var hann hættur að stíga í fætur. Baldur lést 8. maí síðastliðinn. Vert er við þessi skil, að minna á þjónustu starfsfólks á Kumbaravogi við Baldur, þakka hana og hlýju þeirra og elskusemi. Þá er vert að þakka fjölskyldunni fyrir umhyggju þeirra og allt það sem þau hafa gert Baldri gott til.

Viturt hjarta – veröld Guðs

Nú eruð þið komin saman í dag til að kveðja. Líf Baldurs var ekki samfelld sólarganga. Hann upplifði oft vætusama tíð. Og lægðahryssingurinn gekk bæði yfir hann, vini og fjölskyldu. En svo gátu allir rétt úr sér, notið góðu daganna og brosað. Enginn fæðist á röngum tíma, en ljóst er að fræði nútímans hefðu líklega greint vanda og hæfni Baldurs betur en hægt var fyrir áratugum. En þó er ekki víst, að hann hefði orðið hamingjusamari. En líklega hefðuð þið vinir hans, fjölskylda og ástvinir fengið betri skýringar, sem hefðu hjálpað í viðbrögðum og aukið skilning á hvað var hvað – og hvers vegna gerði Baldur þetta en ekki hitt.

Og hvað svo? Hvað gerir þú við eftirsjá, sorg, þínar innri kenndir og íhuganir? Þú getur ekkert lengur gert fyrir Baldur, þú horfir á bak honum – en þú átt þitt eigið líf og ástvini. Mikil lífskúnst er að reyna að læra af öðrum til að bæta eigið líf, gera ekki sömu mistökin og aðrir, reyna að draga heim lærdóm til góðs, greina í sjálfum sér arf eða hneigðir, sem má vinna með og reyna að láta ekki yfirskyggja eigin hamingju eða annarra.

Glöggum hefur löngum verið ljóst, að við menn erum ekki leiksoppar lífsins og viðburða veraldar nema að hluta. Við erum kölluð til ábyrgðar, til að móta eigin líf, til að velja. Og við erum ekki síst kölluð til að lifa vel, með fullu viti, nýta hæfni okkar og einnig til góðs fyrir fólk, fyrir okkar samfélag, þjóðfélag, sinna vel okkar fræðum og lifa svo að við skilum vel af okkur. Við erum öll kölluð til að gera eins vel og okkur er unnt. Meira er ekki krafist.

Í sálmi þjóðarinnar segir: “Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” – öðlast viturt hjarta.”

Hvað er viska? Jú, það er viska að bera virðingu fyrir lífi, verkum og hugsun genginna kynslóða og miðla áfram. Það er viska að halda til haga menningararfi. Það er viska að bera virðingu fyrir öllum mönnum, hvernig sem þeir eru.

Hvað er viturt hjarta? Jú, það dælir ekki aðeins blóði í vöðva heldur iðkar hið góða og ræktar hið gjöfula. Við getum lært hvert af öðru í þeirri kúnst að iðka lífsgæðin, að leyfa ástinni að sigra í lífinu. Í dag er áð á bakka tímans. Í dag hvíslar náttúran gleðisálma lífsins, en svo heyrist líka þetta hvísl alls sem er: “Hverfið aftur þér mannanna börn – aftur til duftsins.”

Hver er máttur mannsins? Baldri var margt gefið en svo voru í honum snöggir blettir. Allt er sem blómstur segir í sálminum um blómið og við syngjum í þessari athöfn. Allt, allt hverfur aftur til duftsins, þú líka, allur þessi söfnuður. Hvað er þá eftir?

Ein spurning af sama meið er hvað verði um hann Baldur? Hvar er hann? Hver er trú þín? Þú mátt trúa því, að Baldur fær að gista þá sali sem hæfa, jafnvel manni með guðsnafn. Hann má dvelja í hinum himneska Hólmi, himneskum Vogi, þar sem hann getur opinberað alla skynjun sína, þar sem blýantaleikurinn verður skiljanlegur, þar sem hann nær að tengja, fær orð og getu til að vera það sem hann vildi. Í því er fólgin djúp hugfró að skilja það gleðisamhengi og sjá ástvini sína í því. Gildi trúar verður hvað ljósast, þegar við vinnum með sorg, áföll og missi – þessi afstaða traustsins – að lífið er gott, gleðilegt og vonarríkt – þrátt fyrir skugga og dauða. Þar verður ferðasaga hans, ferðasaga okkar allra, að tíma ástarinnar sem sigrar allt, dauða og sorgir.

Leyfðu Baldri að hverfa inn ljósið. Trúðu á Guð sem er ástin sem sigrar allt. Í því fangi má Baldur ávallt búa.

Minningarorð flutt við útför Baldurs Jónssonar, Fossvogi 16. maí 2008.