EXIT

Við útgang þessar kirkju er grænt flóttaleiðarmerki. Á því er mannvera á hlaupum – þar er líka ör fyrir stefnu og ljós reitur sem dyratákn. Svona merki eru í í flugvélum, skipum og öllum opinberum stofnunum. Þau eru græn á Íslandi og í fjölmörgum löndum erlendis en víða eru líka til rauð merki. EXIT stendur á mörgum þeirra. Þessum stefnuvitum er ætlað að leiðbeina þó dimmt sé, rafmagn farið og í óefni komið. Exitmerkin eru vegvísar. Það er við hæfi að íhuga exit, útleið á gleðidögum eftir páska.

Skottlok

Ég var sjö ára gamall og var að leik með nokkrum börnum á Tómasarhaganum. Eldri strákar sem ég þekkti komu og vildu sýna okkur krökkunum inn í bílskúr við götuna og við létum tilleiðast. Spennandi ævintýraleiðangur hafinn. Strákarnir opnuðu skott á bíl sem þar var og sögðu mér að ég ætti að klifra upp í skottið – sem ég gerði. Þá skelltu þeir aftur skottlokinu. Ég var strand í myrkrinu og æpti: „Sleppið mér út.“ En strákarnir hlógu og svo heyrði ég að þeir fóru, skelltu bískúrshúrðinni og allt hljóðnaði. Á nokkrum mínútum hrundi tilveran, áður hafði ég verið úti, undir berum himni frelsis og gleði. Þarna var ég strand í myrkrinu og bjargarlaus. Ópin skiluðu engu. Ekkert skínandi exitmerki var í myrkrinu, engin leið og ógerlegt að opna læsinguna á skottlokinu og ekki tókst að spyrna því upp. Þunga þanka setti að mér, dauðahræðslu. Ég vonaðist til að ég myndi finnast en hversu langan tíma myndi það taka? Myndi ég vera týndur í bílnum heila nótt. Hvað átti ég að gera? Ná í felgulykil og berja mig til frelsis, æpa þar til einhver heyrði? Eða bíða, hlusta og biðja um Guðshjálpina, sem ég gerði reyndar.

Eftir klukkutíma í líflausri og illa lyktandi farangursgeymslunni kom strákur sem opnaði skottið skömmustulegur og hljóp svo í burtu. Ég brölti úr fangelsinu og út í frelsið. Og mikið var frelsið stórkostlegt, birtan undursamlegt og súrefnið svalandi sem streymdi niður í lungun.

Innlokun

Mörg ykkar hafið upplifað eitthvað hliðstætt og þekkið hve skelfing innlokunar getur orðið mikil. Sonur minn, sjö ára, læstist inni í ljósritunarherbergi kirkjunnar í fyrra, skreið út um glugga og bjargaði sér. Hann varð hræddur en svo var hann svo óheppinn að læsast inni á klósetti í skólanum nokkrum dögum síðar. Síðan hefur hann verið smeykur við lása, lokur og flóttaleiðalaus rými.

Innilokun er óþægileg, getur verið hræðileg og valdið fólki djúptækum sálarskaða. Amerískur prédikari spurði einu sinni: „Hvað er það hræðilegasta við helvíti?“ Og svo þagði hann stundarkorn en svaraði sjálfum sér: „Þar er engin flóttaleið, engin útleið, ekkert exit.“ Já, það er hnyttin lýsing á hinu djöfullega – að það sé lokaður veruleiki (ég minni á leikrit Sartre um það stef). Innlokun er andstæða lífsins.

Jesús var lagður í holu. Lífið var farið. Steini var velt fyrir hellismunnan. Engin útleið, engin flóttaleið, ekkert exit. Líkami Jesú var lokaður inni – en hann var ekki einn. Hann var fulltrúi allra manna. Hann var hinn annar Adam. Í hinum fyrsta Adam voru allir menn og í Jesú voru sömuleiðis allir. Það er víddarhugsun trúartúlkunarinnar.

Hvað um þínar lokur?

Og nú máttu gjarnan huga að þínu lífi. Hvað hefur dregið þig niður og orðið þér til tjóns? Hver eru óttaefni þín, efasemdir? Hvað hræðistu mest og hvað fyllir þig vanmætti eða vonleysi? Það getur verið vinnuharka líka eða ástarsorg, ofbeldi eða dauð hringlandi daganna. Þetta eru þínar grafir.

Stundum líður fólki eins og í þeim séu engar flóttaleiðir, engin útleið, – öll sund lokuð og stór skriða fyrir hellismunnanum. Myrkrið sest að í sál og lífi og lífið byrjar að veiklast og fjara út.

Opnist þú

En páskar eru nýtt upphaf. Undrið varð, hellisloku var velt frá, loftið streymdi inn, ljósið líka. Það sem var lífleysa varð fæðingarstaður lífsins. Það sem var án útleiðar var allt í einu komið í tengsl og samband. Jesús Kristur braut leið úr lífleysu og opnaði öllum leið úr hafti hellisins. Það er víddarhugsun trúarinnar – allt er opnað.

Grænu flóttamerkin eru til að hjálpa í neyð – þegar áföll verða og ógnir dynja yfir. Það á að vera hægt að fylgja þeim og finna leið út úr ógninni. En hvað um þegar við rötum í andlegar ógöngur? Eru til einhver græn leiðarmerki sem vísa veg?

Kirkjan og trúin benda á Jesú Krist sem veginn út úr vanda. Hann er leið möguleikanna. Ekkert myrkur er honum of myrkt, enginn sálarkreppa er honum ofraun. Engin ástarsorg er honum ókunn, ekkert vinnupuð er honum framandi og ekkert ofbeldi er honum fjarlægt. Hann er þér við hlið í skottum lífsins, í hellum sorgarinnar, í lífleysu vonskunnar. Hann heldur í hendi þér þegar þú dettur, tekur á móti þér þegar þú hrasar og lyftir þér upp í birtuna þegar þig vantar mátt.

Vegvísir til lífs

Og það er eiginlega krossinn sem er græna merki lífsins. Leið krossins er ekki aðeins leið dauðans og þjáningar heldur leið til lífs. Jesús Kristur var í lokaðri gröf og myrkri dauðans en sprengdi sér leið út og til birtunnar. Hann hefur opnað leið og dyr. Krossinn er leið lífsins. Í þessari kirkju er græna flóttamerkið öðrum megin og krossinn á móti. Bæði merkin mikilvæg og við hæfi.

Jesús Kristur opnar og vísar veg og er fyrirmynd um hvernig við getum lifað í hans anda og með hann sem fyrirmynd. Við megum vera öðrum förunautar frá vonleysi til vonar, frá myrkri til ljóss, frá sorg til lífsgleði. Hlutverk okkar er að standa með fólki og lífi, staðið með þeim sem standa tæpt, varið þau sem órétti eru beitt og gengið erindi verndar náttúru og góðra samfélagshátta.

útGrænu merkin í opinberu rými eru stefnuvitar fyrir fólk í hættu og út úr vanda þó dimmt sé, rafmagn farið og í óefni komið. Krossinn bendir á leið þótt allt sé í rúst. Þegar þér líður illa og að þér sé þrengt er þó von því Jesús sprengdi klungur dauðans, leysti fjötra og opnaði leið. Leið lífsins er betri en dauðans. Þá er hægt að syngja með fullri einurð og djúpri merkingu: Ég á líf.

Nú eru gleðidagar, í guðsríkinu er grillað á strönd vatnsins. Og meistarinn er hér, við erum laus úr skottinu, allar heftandi lífslokur mega falla. Nú eru nýir möguleikar, gleðidagar.

Amen.

Hugvekja í Neskirkju, 1. sunnudag eftir páska, 7. apríl, 2013.